1.
kafli
...
hverfingunni og voru þau drepin bæði.
Þetta
sumar ætlaði Þorsteinn utan með Þorleifi og voru búnir fyrir
þing. Þá var um rætt hverjum hann mundi fá í hendur goðorð
sitt.
Þorsteinn
svarar: "Verið mundi það hafa að eg mundi ekki leitað hafa
víða ef Þórhaddur væri jafnnær en nú veit eg eigi að þessum
málavöxtum sem nú eru. Hefir hann og flesta hluti til, bæði
vit og harðfengi. Er nú fæð með okkur."
Svo
er sem mælt er, að fer orð er um munn líður, og koma þessi orð
fyrir Þórhadd.
Hann
fer þegar á fund Þorsteins og mælti: "Vel gest mér að orðum
þeim sem eg hefi spurt og gerum svo vel og leggjum niður fæð
þá sem á hefir verið með okkur en tökum upp nýtt vinfengi og
ef þér svo sýnist það ráð að eg taki við goðorði þínu þá skal
eg búinn og boðinn til þess starfs sem þú vilt mig til nýta."
Þorsteinn
kvað þetta vel mælt og tók Þórhaddur við goðorðinu á þingi og
skildu með vináttu.
Fór
Þorsteinn utan og kom við Orkneyjar. Þá réð fyrir eyjunum
Sigurður jarl Hlöðvisson. Hann fagnaði vel Þorsteini og bauð
honum til sín og hann var með jarlinum um veturinn vel metinn.
Og
er voraði þá spurði jarl Þorstein hvort hann vildi fara með
honum í hernað eða vildi hann eftir vera. Þorsteinn kaus að
fara og var stafnbúi á skipi jarls og var hinn hraustasti
maður á skipi sem hann væri vanur því starfi. Þorsteinn var
maður ráðugur og vitur og frækn. Bað jarl hann lengi vera með
sér síðan hann kannaðist við ætt hans og hann vissi frændsemi
þeirra í milli því að Þórey Össurardóttir var móðir Halls á
Síðu en Össur var sonur Hrollaugs Rögnvaldssonar jarls af
Mæri. Torf-Einar jarl var sonur Rögnvalds jarls af Mæri.
Torf-Einar var faðir Þorfinns hausakljúfs, föður Hlöðvis
jarls, föður Sigurðar jarls.
En
Sigurður jarl herjaði víða um sumarið um Skotland og frýði
engi maður Þorsteini framgöngu og hugar. Flutti það
hvorttveggja fram Þorsteins mál, ætt hans og hraustleikur.
Jarl drap margt óþjóðarfólk en sumt flýði undan á skóga og
fóru þeir víða um Vesturlönd og brenndu. Síð um haustið fór
jarl heim til Orkneyja og hafði þar kyrrsetu þrjá mánuði og
gaf þá vinum sínum góðar gjafar.
Jarl
mælti þá við Þorstein: "Góða fylgd hefir þú mér veitta og
drengilega og þigg af mér eina öxi gullrekna. Hana sómir þér
að bera."
Þorsteinn
þakkar jarli því að það var hin mesta gersemi.
Þetta
haust kom Brennu-Flosi til Orkneyja og hans menn og fóru
skipti þeirra Sigurðar jarls sem segir í Njáls sögu.
2. kafli
Þenna
vetur bjóst Sigurður jarl til Írlands og þá barðist hann við
Brján konung og hefir sú orusta frægust verið fyrir vestan
hafið, bæði að fjölmenni og stórtíðindum þeim sem þar urðu. Og
er jarl bjóst heiman spurði hann Þorstein hvort hann vildi
fara.
Þorsteinn
kvað sér eigi annað sama en fara og fylgja honum í háskanum
"er oss þykir gott að hafa hóglífi með yður í friðinum."
Jarl
þakkaði honum orð sín.
Þeir
fóru síðan til Írlands og börðust við Brján konung og urðu þar
mörg tíðindi senn, sem segir í sögu hans. Þar féllu þrír
merkismenn jarls og þá bað jarl Þorstein bera merkið.
Þorsteinn
svarar: "Ber sjálfur krák þinn jarl."
Þá
mælti einn maður: "Vel gerðir þú Þorsteinn því að af því hefi
eg misst þrjá sonu mína."
Jarl
tók merkið af stönginni og lét koma milli klæða sér og barðist
þá alldjarflega.
Litlu
síðar heyrðu þeir mælt í loftinu: "Ef Sigurður jarl vill sigur
hafa þá sæki hann á Dumasbakka með lið sitt."
Þorsteinn
fylgdi jafnan jarli og svo var þá. Þar féll jarl í þeirri
atlögu og dreifðust þá víða liðsmenn. Og í þessu drap Bróðir
Brján konung. En Óspakur bróðir hans tók hann og hleyptu út
þörmunum og leiddu hann of eik eina. Þá urðu mörg tíðindi senn
í mannalátum. Þorsteinn og þeir nokkurir saman námu stað við
skóginn.
Þá
mælti einn maður: "Hví flýrð þú eigi Þorsteinn?"
Hann
svarar: "Því að eg tek eigi heim í kveld þó að eg flýi."
Þorsteini
voru grið gefin og fór hann aftur til Orkneyja og þaðan til
Noregs og kom til hirðar Magnúss konungs Ólafssonar og gerðist
hans hirðmaður og var ólíkur þeim er heima spyrja tíðindin að
búm sínum. Hann var með mörgum ríkum mönnum og vel virður og
þótti hinn mesti ágætismaður. Hann var og hinn mesti
rausnarmaður í búi og vel mátti bær hans jafnast við ríkra
manna herbergi. Þorsteinn var vinhollur, glaður og lítillátur,
vitur og þolinmóður, djúpsær og langrækur en grimmur
mótgerðarmönnum sínum, góður við ölmusur og alla þá er hans
þurftu en hina stærri menn bar hann oft ofríki þá er hann var
hér á landi. Uppruni hans var merkilegur. Hann fékk sér og
góða mægð og traust þeirra Vopnfirðinga.
En
er hann hafði þrjá vetur utan verið og var orðinn frægur mjög
þá fór hann út hingað. Þá var Þorsteinn tvítugur er hann var í
Brjánsorustu. Hann kom út í fjörðum austur fyrir leið of
haustið og fór heim til bús síns og urðu honum fegnir frændur
og vinir og allir hans þingmenn.
En
meðan Þorsteinn var utan þá hélt Þórhaddur vel þingmenn hans.
Þar með fékk hann mikið af fé Hauks. Og hið fyrsta sumar er
hann tók fjárheimtuna var honum goldinn ketill, mikill og
góður, og er þeir fundust að um skiptin urðu þeir vel á sáttir
þar til er ketillinn kom upp.
Þá
mælti Þórhaddur: "Þenna grip vil eg hafa til míns bús en þú
haf annað fé í móti."
Haukur
kvaðst eigi missa mega og kvað hann þó mega vel við una er
honum var gefið allt og eigi sannlegt í mót að mæla að hann
hefði. Þórhaddur kvað svo vera en lét þó fleirum mönnum
nauðsyn til að kalla en honum einum. Reið hann í brott.
Þá
kom Guðleif að í því og mælti: "Eigi mundir þú á katlinum hafa
haldið ef eg hefði ráðið og mun þetta illa gefast við ofsa
föður míns og ríðið eftir honum og biðjið hann hafa ketilinn."
Haukur
mælti: "Engi þörf er þessa og mun heimt annað ef annað er
veitt."
Hún
mælti: "Eigi vildi eg hætta til úrræða föður míns og kauptu
heldur þér annan ketil."
Þá
var riðið til fundar við Þórhadd og boðinn ketillinn.
Hann
svarar: "Hitt er ráð að Haukur hafi ketilinn en vér munum fara
með voru máli sem oss líkar."
Haukur
spyr þetta og þótti honum vel. Guðleif kvað illa mundu af
leiða.
Og
hið næsta haust lét Þórhaddur reka af fjalli yxn fimm er
Haukur átti og þrjá tigu geldinga og lét drepa og mælti að svo
skyldi segja Hauki að þetta væri nokkur hlutur af
ketilsverðinu. Hauki þótti ósæmilega til sín gert en mátti
eigi að hafa meðan Þorsteinn var í brottu og þótti sér illa
launað fjártillagið. Guðleif kvað mikið að gert en kvaðst
vilja hætta til þess að þá væri kyrrt. Vel var Þórhaddur til
annarra manna þar um sveitir og hugsaði rétt milli manna.
Og
annað haust lét Þórhaddur reka fé jafnmargt af fjalli það er
Haukur átti og drepa í bú sitt og bað enn segja Hauki að það
var nokkur hlutur af ketilsverðinu. Haukur kvaðst eigi vita
hvað hann ætlaði til um rán við hann, kvaðst sakna Þorsteins
vinar síns.
Nú
liðu þau misseri og hið þriðja haust bjóst Þórhaddur til
fjallgöngu og allir synir hans og lét þá reka af fjalli hálft
hundrað geldinga og tíu yxn er Haukur átti og lét slátra í bú
sitt. Þetta mæltist illa fyrir. Í öðru lagi hélt hann sér til
vinsælda. Haukur leitaði ráða við Guðleifu hversu með skal
fara.
Hún
kvað óhægt um misheldi hans en ósóma hennar "og mun Þorsteinn
brátt til koma."
3. kafli
Þetta
sumar kom Þorsteinn út sem sagt var og leið framan til leiðar
og ríður Þorsteinn og menn hans til leiðar. Þar kom Þórhaddur
og fjölmenni mikið og ræddu menn um mál sín og héraðsstjórn.
Kvaðst Þorsteinn spurt hafa að Þórhaddur hefði vel fylgt fyrir
utan mál Hauks. Það kvað hann ónýtt standa svo búið. Þórhaddur
kvað þá mága mundu á það sættast sjálfa en kvað þó fleirum
hafa gagn að orðið.
Þorsteinn
kvað það maklegt að hver réði sínu: "Nú mun og vel fundið að
eg taki við goðorði mínu."
Þórhaddur
svarar: "Þetta skyldir þú fyrri talað hafa en lögskil færu
fram. En nú samir betur að selja goðorð af hendi á vorþingi
áður lögskil fara fram enda þarftu ekki goðorð í vetur."
Þorsteinn
reiddist mjög er hann náði eigi goðorðinu og skildu við það og
leið sumarið og veturinn og leið að vorþingi.
Og
áður Þorsteinn reið heiman mælti Yngvildur kona hans: "Eigi er
maklega með yður Vopnfirðingum ef þú skalt eigi bera hærra
nafn en einn bóndi."
Og
er Þorsteinn nálgast þingið mælti hann: "Hér munum vér nema
staðar og bíða Þórhadds og eigi skulum við Þórhaddur báðir
koma á þetta þing ef eg nái eigi goðorði mínu."
Litlu
síðar kom Þórhaddur og synir hans og riðull manna.
Þorsteinn
spratt upp og bað hann selja af höndum goðorðið og rétta fram
höndina "eða ella skulum við reyna með okkur," kvað eigi hæfa
að bændur væru ræntir en höfðingjar svívirðir og taldi mjög á
hann um skipti þeirra Hauks og kvað hann eigi Hauk svívirða
heldur og dóttur sína.
Þórhaddur
kvað hann djarfan: "Heldur er sannara að meiri svívirðing
gerir þú Hauki er þú gengur í sömu sæng hjá konu hans hvert
sinn er þú gistir þar og launar svo Hauki góðar gjafar."
Þorsteinn
svarar: "Vel lýgur sá er með vitnum lýgur og vænti eg að eigi
fáir þú vitni til að eg hafi né eina manns konu tekið. Er það
bæði að eg em vel kvæntur enda em eg henni trúr. Ger nú skjótt
um að þú sel fram goðorðið eða annar skal verri."
Þórhaddur
svarar: "Ákafur maður ertu og eigi mjög stilltur og muntu ná
goðorði þínu þó að þú heitist eigi til og eigi gerði faðir
þinn svo þá er hann missti Ljóts sonar síns á alþingi. Þá
mælti hann allt vægilega og var það þó mannraun en þetta
engi."
Nú
áttu margir hlut í og tók Þorsteinn við goðorði sínu. Á þingi
fóru fram lögskil.
Og
að þinglausnum í þingbrekku stóð Þorsteinn upp og mælti:
"Kunnigt er mönnum um skipti þeirra Hauks og Þórhadds og ef
slíku skal fram fara þá eru bændur mjög forystulausir. Skal og
Þórhaddur brátt vita að eg em ríkari en hann og lýsi eg því
Þórhaddur að þér er ætlaður bústaður á þeim bæ er á Stræti
heitir á Berufjarðarströnd og skaltu á brottu verða af
Rannveigarstöðum með allt þitt áður hálfur mánuður sé liðinn
ella skal eg færa þig í brott með engri vægð. En eigi skaltu
flýja úr héraðinu án mínu ráði né synir þínir því að vér erum
maklegastir Austfirðingar að hræra um ykkar vandræði. En ef
þér farið úr héraði án mínu ráði þá skal eg verja innihöfn við
þann og sækja þá upp er við yður taka."
Þórhaddur
kvað óráðamannlega mælt "og bera mætti svo til að lítil gæði
stæðu af minni innivist ef oss er allmisjafnt boðið enda hefi
eg sjálfur ráðið bústað mínum hér til."
Þorsteinn
kvað nú svo vera verða sem hann mælti og skildu að því.
Fór
Þórhaddur heim og gussaði ekki og leið svo fram til ánefndrar
stundar. Mælti Þórhaddur að Þorsteinn mundi eigi kunna dagatal
og ... höggi hans um nóttina. Nú leið sú nótt og er það að
segja frá Þorsteini að um morguninn snemma reið hann við
fimmtán menn og kvaðst því einu hafa heitið Þórhaddi er hann
skal efna.
Og
þann sama morgun kom inn smalamaður Þórhadds og sagði honum að
fimmtán menn riðu að bænum "en það sagðir þú að Þorsteinn
mundi eigi dagatal kunna en mér líst sem hann muni koma nú."
Þórhaddur
mælti: "Stöndum upp og veitum viðnám. Margt mun í gerast áður
vér séum drepnir."
Og
er Þorsteinn kom að garði þá stukku þeir af baki og kvað
Þorsteinn ekki skyldu spilla túni Hauks. Gengu þeir þá til
bæjar og var þeim sagt að Þórhaddur mundi inni bíða og synir
hans en hurðir voru aftur.
Þorsteinn
gengur að durum og mælti: "Ef Þórhaddur má heyra mál mitt þá
býð eg engan ófrið ef hann gengur út og vill í brott fara."
Þórhaddur
bað hann að sækja en Þorsteinn kvaðst spara menn sína til þess
að ganga á vopn þeirra: "Skulum vér bera eld að húsum og
brenna en bæta Hauki húsbruna."
Þeir
gerðu svo og báru eldinn að. Þorsteinn leyfði konum útgöngu.
Nú gerðist brátt svæla mikil í húsum og reykur tók að vaxa.
Þá
mælti Helgi: "Illur dauði þykir mér að brenna inni sem
melrakkar og vil eg heldur út ganga til griða eða þola járn að
öðrum kosti."
Og
svo gerði hann. Og svo sem þeir komu út þá lét Þorsteinn binda
þá en gera þeim ekki annað. Síðan var bú þeirra í brott fært
og reka fé á Stræti. Lét Þorsteinn skipta þar öllu í helminga
og varð svo að vera sem Þorsteinn vildi og bjó Þórhaddur á
Stræti en Þorsteinn fór heim til Hofs.
Voru
nú orð ger Hauki og tók hann þar við fé sínu. Varð nú af nýju
fjandskapur með Þórhaddi og Þorsteini og mest af Þórhaddi er
hann var svo mjög nauðigur. Gerðist nú orðflaug mikil af
Þórhaddi og sonum hans til Þorsteins og voru þeir hinir mestu
fársmenn í orðum.
Einn
aftan kom þar maður til gistingar sá er Grímkell hét. Hann var
flökkunarmaður og hrópstunga mikil. Þórhaddur gerði sér
tíðhjalað við hann og dvaldist hann þar um hríð. Þórhaddur
kaupir að honum að hann skal fara á vestanvert land og bera
þar upp ragmæli um Þorstein Hallsson með því móti að Þorsteinn
væri kona hina níundu hverja nótt og ætti þá viðskipti við
karlmenn. Og yfir þessa flugu gein Grímkell og fór yfir landið
vestur og hrópaði Þorstein og fór síðan svo vestan yfir
ragmælið. Þetta kom svo að ragmælið fór nær í hvers manns hús
og lögðu óvinir Þorsteins á hann óvirðing mikla hér fyrir en
vinir hans hörmuðu. Kolur bróðir hans gekk fyrst í berhögg við
hann hér um þetta mál. Var hann þá á vist með honum og hafði
komið út um sumarið.
Kolur
mælti eitt sinn við Þorstein: "Finnur þú nokkuð til frændi
hver fjandskapur við þig er hafður og fáheyrð og undarleg
upplostning? Eru og því vinir þínir færri við þig en verið
hafa en sumir menn gera glott að. Er og þetta mál sett með
miklum fjandskap og látið sem vestan sé að komið en eg hygg að
nær þér muni boðinn upp rísa og má slíks eigi ofhefnt verða."
Þorsteinn
svaraði: "Klækisefni eru í höfð. Er og líkara að illan enda
eigi og alls fjandskapar varði mig annars af Þórhaddi og sonum
hans heldur en þessa."
4. kafli
...
hét maður er bjó í Breiðdal að Kleif. Með honum var á vist sá
maður er Steinn hét og var kallaður Hlíðar-Steinn. Hann réð
betur drauma en aðrir menn. Hann tefldi og manna best. Steinn
óx upp í Hlíð í Lóni.
Ingjaldur
hét maður. Hann bjó á ... þess er bjó á Berunesi á aðalbóli.
Hann var góður bóndi ... dvaldist meðan að Kleif.
Þórhaddur
var þá kátur mjög og mælti að þeir mundu tefla "því að mér er
sagt að þú teflir manna best en eg hendi og gaman að því."
Steinn
bað hann ráða. Þeir tefldu og hafði Þórhaddur eigi við.
Hann
mælti þá: "Ekki er of mikið sagt frá þessi íþrótt þinni og
munum við nú hætta að tefla því að eg á önnur erindi við þig."
Steinn
spurði hver þau væru.
Þórhaddur
mælti: "Það er mér sagt að þú ráðir manna best drauma og vil
eg það reyna því að mig hefir margt dreymt undarlegt og er mér
forvitni á að vita hversu þú ræður."
Steinn
svarar: "Ógjörla kann eg drauma að ráða en eigi er það
ólíklegt að þig dreymi margt því að þú mælir margt."
Þórhaddur
mælti: "Það dreymdi mig að eg þóttist hlaupa með stöng upp að
fjallinu frá Stræti og yfir gryfjur nokkurar og götur en eg
þóttist þar niður koma sem heitir í Hvarfi."
Steinn
svarar: "Það ætla eg að þá ráði eg rétt draum þinn að
yfirhlaup mun verða í ráði þínu um réttar götur, það er þá er
þú horfir frá réttu og tekur upp rangt, en það má vera að þér
ljái þess hugar að hverfa aftur og em eg þar hræddur um."
Þórhaddur
mælti: "Lítt ræður þú í hag mér."
Steinn
svarar: "Seg mér þá eina drauma að þú vilt að eg ráði eftir
því sem eg ætla að vera muni."
"Sá
var annar draumur minn," segir Þórhaddur, "að eg sá tungl tvö
og fór annað að venju en annað var í fjalli að húsbaki og
þóttist eg taka það og eta og þóttist eg leifa af lítinn mána
og hirti eg þann í pússi mínum."
Steinn
mælti: "Undarlegur er draumur þinn en sjá þykist eg hvað hann
er. Þar hefir þú etið heimsundur og merkir það glæpyrði þín
þau er fram fara af munni þínum og munu enn eigi öll mælt þau
sem þú hirðir í hjartanu er þú hirtir sumt af tunglinu."
Þórhaddur
svarar: "Eigi er munlegt um það er mig má henda enda má vera
að eigi sé góðs efni í. Sá var hinn þriðji draumur að eg
þóttist vera í smiðju og gera spjót en synir mínir blésu að og
þótti mér aldrei verða soðið til loks en spjót varð ávallt
úrt."
Steinn
mælti: "Það eru gómaspjót yður og orð þau er þér mælið en
sindrar af of allt land og mun yður þykja aldrei fullger og
ert þú upphafsmaður að en synir þínir fylgja þér að."
Þórhaddur
mælti: "Sá er hinn fjórði draumur minn að eg þóttist ganga í
aðra smiðju og þá brá því við er mér þótti undarlegt að eg
þóttist þar finna mig fyrir."
Steinn
svarar: "Svo er og að í aðra smiðju er komið um ráð þitt en
verið hefir þá er þú hafðir mannvirðing og goðaheill en nú
hefir þú fjandskap margra manna og er eigi ólíklegt að þú
finnir sjálfan þig fyrir að lyktum."
Þórhaddur
svarar: "Sá var draumur minn hinn fimmti að eg þóttist ganga
til sjávar þar sem var saltsviða mikil og synir mínir með mér
og þóttist eg eta glóanda salt og drekka sjáinn við."
Steinn
mælti: "Það merkir svívirðileg orð þín."
Þórhaddur
mælti: "Alllítt hlífir þú mér í draumaráðningunni."
Steinn
kvaðst ráða eftir því sem hann ætlaði að vera mundi.
Þórhaddur
mælti: "Sá er hinn sétti draumur minn að eg þóttist ganga frá
bæ mínum og synir mínir með mér og koma milli bjargs og sjóvar
og þótti mér sem boði nokkur lysti oss í bjargskoru nokkura og
þótti mér mjög þröngt að oss. Þá þótti mér svo löng höndin á
mér að eg þóttist seilast upp á bjargið og svo komst eg upp á
og síðan tók eg í mót sonum mínum og heimti eg þá til mín og
stóðum vér þá allir saman á bjarginu."
Steinn
mælti: "Þar sem hendur þínar voru lengri en að hætti og að
eðli, það sýndist í því að þú munt langarmur verða fyrir þínar
tiltekjur og draga þar eftir þér sonu þína á það óráð en þar
sem þér stóðuð á bjargi þar munuð þér alla yðra björg undir
fótum troða."
Þórhaddur
mælti: "Þenna draum ætla eg góðan."
Steinn
kvað svo ganga mundu sem hann sagði.
Þórhaddur
mælti: "Sá var hinn sjöundi draumur að eg þóttist fara leiðar
minnar og fara hjástíg nokkurn af götunni og koma á brekkur
nokkurar á bak bænum á Stræti en mér þótti Þorsteinn Hallsson
ganga undir niðri rétta götu."
Steinn
kvað það auðsætt að Þorsteinn gengur réttan stíg "en þú rangan
í ykkrum skiptum og mun hann koma upp undir þér að lyktinni."
Þórhaddur
mælti: "Sá var draumur minn hinn átti að mér þótti tungan svo
löng í mér að eg þóttist krækja henni aftur í hnakkann og fram
í munninn öðrum megin."
Steinn
svarar: "Það er auðsætt að þér mun tungan um höfuð vefjast í
helsta lagi."
Þórhaddur
mælti: "Sá er hinn níundi draumur minn að eg þóttist vera á
fjalli því er Gerpir heitir" - það fjall er í Austfjörðum -
"og þaðan sá eg um mörg lönd en hvergi í nánd mér því að
myrkvi lá yfir allt."
Steinn
mælti: "Þar er þú varst á fjalli því er Gerpir heitir, það
sýnist í því að ráð þitt var gerpilegt þá er þú fórst með
goðorð Þorsteins og veittir mörgum bæði í fjártillögum og
málafylgjum en nú gefur þér glámsýni er þú hefir illt ráð upp
tekið og þú sérð eigi satt um það er hjá þér er en það sérð þú
glöggt er fjarri þér er."
Þórhaddur
mælti: "Sá var hinn tíundi draumur minn að eg þóttist koma á
mót fjölmennt og þótti mér sem kastað væri í fyrirskyrtu mér
járnum þeim sem rær heita en hinir stærri menn járnbútum
þungum og féllu niður rærnar."
Steinn
mælti: "Þess get eg til að sættarfundur muni vera lagður með
ykkur Þorsteini og væntir mig að hinir smærri menn og alþýða
muni gott til leggja með þér og láta þig njóta þess er þú
varst þeirra formælandi en hinir stærri menn munu því öllu
niður slá er þér er til gagns og virða meira fjandskaparorð
þín."
Þórhaddur
mælti: "Sá er hinn ellefti draumur minn að eg þóttist fara upp
eftir Breiðdal og hafa svo mikinn faðm að eg þóttist mega
vöndla upp allt héraðið."
Steinn
svarar: "Þú munt hafa alla héraðsmenn í fangi þér og í móti
þér í sínum ráðum."
Þórhaddur
svarar: "Sá var hinn tólfti draumur minn að eg þóttist fara úr
Breiðdal Hjarðarskarð og til bæjar þess er í Þroti heitir og
þótti mér sem ekkja nokkur byggi þar og þóttist eg drepa fótum
í þúfu og falla en mér þótti Þorsteinn ríða um þvera götuna í
móti mér."
Steinn
svarar: "Ekki kemur mér það á óvart að þú farir Hjarðarskarð
og drepir fótum í banaþúfu og þrotnir þar."
Þórhaddur
kvað eigi ólíklegt að hann yrði eigi langær og hættu nú
talinu. Síðan fór Þórhaddur heim.
5. kafli
Nokkuru
síðar áttu héraðsmenn hlut í ef nokkurar vonir væru sætta og
báðu Þorstein til koma.
Hann
kvaðst ætla að til lítils mundi koma að tala um mál þeirra
Þórhadds "en ef tala skal of héraðsstjórn þá mun eg koma þótt
Þórhaddur sé þar og synir hans."
Þessi
fundur var á Berunesi. Kom þar Þorsteinn og fjöldi bónda og
létu fyrst gera of mál sín, um héraðsstjórn hversu fara ætti,
og urðu á það vel sáttir.
Þá
mælti Órækja Hólmsteinsson, Bersasonar, Össurarsonar,
Brynjólfssonar hins gamla, hann var frændi Þórhadds: "Þig kveð
eg að þessu Þorsteinn ef nokkuð skal mega til sætta tala með
ykkur Þórhaddi. Viljum vér þar allan hlut í eiga og ekki til
spara, hvorki fé né annað. Máttu á það líta að þeir frændur
væru þér til margs vel fallnir en þetta mun þér að engri
svívirðu verða og ekki minnkar höfðingskap þinn orð þeirra
ferleg."
Þá
fylgdu að aðrir héraðsmenn og túlkuðu mál Þórhadds og kváðu
Þorstein af því mundu fá frama, kváðu Þórhadd hafa góðan hlut
að átt að fylgja hans málum þá er hann var eigi við.
Þá
svarar Kolur bróðir Þorsteins: "Undarleg er slík eftirleitan
fyrir hönd Þórhadds, þess manns er svo illa hefir fyrir sér
gert og allir þeir feðgar."
Og
svo stungu þá þegar margir til, frændur Þorsteins og vinir.
Þá
mælti Þorsteinn: "Ekki þarf hér margt um að tala. Eigi munum
við Þórhaddur sættast."
Og
fór sættarfundur sjá sem Steinn gat.
Þórhaddur
mælti: "Ekki skulum vér og þar mörg orð til leggja en vita
skaltu það Þorsteinn að eg em draumamaður mikill og eigi
ólíklegt að brátt ræsi suma en allir munu eiga nokkurn stað.
Mig dreymdi það að hvítabjörn mikill fór af hafi utan og hljóp
yfir höfuð oss feðgum hér á Berunesi og rann síðan í braut með
brekkum nokkurum löngum en síðan sá eg að refur nokkur skaust
úr urðum og banaði birninum. Og ráð þú Þorsteinn."
Þorsteinn
kvaðst eigi ráða mundu draum hans og ekki tal eiga við hann.
Þórhaddur
svarar: "Eg skal þá ráða. Að slíkt sem flýgur yfir af öðrum
mönnum þá veit eg að þú hefir þungan hug á mér og kann vera að
þér verði auðið að verða minn skaðamaður og sona minna og er
það gott að taka dauða af slíkum manni sem þú ert hjá því sem
af vændismanni sem standa mun yfir þínum höfuðsvörðum. En sá
var annar draumur minn að mér þótti Þorsteinn sem við ættum
mat saman og synir mínir og væri hverjum vorum deildur hálfur
hleifur brauðs en öllum saman suflið og þótti mér sem vér ætum
vora hleifa til loks feðgar en Þorsteinn hefði etið
brauðsuflið allt og hálfan sinn hleif. Og ráð þú Þorsteinn
þenna draum."
Þorsteinn
spratt upp og kvaðst eigi ráða mundu drauma hans.
Þórhaddur
kvað sér mundu sparað að ráða "og skal svo vera og ræð eg svo
að vér feðgar munum brátt lúka vorum lífdögum og muntu
Þorsteinn nema frá oss lífsbjörgina og kann þó vera að þú
eigir skammt ólifað."
Og
skildu síðan fundinn og fóru menn heim og óx ávallt óþokki með
þeim.
Þenna
vetur átti Þorsteinn heimanferð norður til Vopnafjarðar að
hitta Skegg-Brodda mág sinn. Kolur bróðir hans fór með honum
og nokkurir menn aðrir og voru þar um hríð og voru þeir mágar
jafnan á tali. Broddi leysti Þorstein í brott með góðum gjöfum
og er þeir fóru norðan um Smjörvatnsheiði þá hrapaði maður
þeirra fyrir brekku nokkura og hló Þorsteinn að og margir menn
er manninn sakaði ekki.
Þá
mælti Kolur: "Undarlegt þykir mér bróðir að þú mátt hlæja,
slíkt orðtak sem Þórhaddur hefir mælt við þig og muntu aldrei
hefna vilja og beint er þér farið sem ólmum dýrum er smádýrum
verða að skaða og fer slokur þeirra víða og fýkur fyrir vindi
og mun eg hefna verða."
Þorsteinn
kvað eigi betur að meir væri eggjað en kvaðst sjaldan setið
hafa svívirðingar og ekki annarra við þurft að hefna. Komu
heim og voru heima of veturinn en of vorið öndvert fór
Þorsteinn suður að fjárfari sínu og að hitta þingmenn sína.
Þar var á mikil og komust þeir þó vel yfir og hittu Þórhadd
öðrum megin er þeir komu af ánni. Hann fór með klyfjahross og
spurði hversu yfir ána væri.
Þorsteinn
kvað honum ófært einum saman "og skal eg fá til kná menn að
fylgja þér."
Þórhaddur
kvaðst það þiggja mundu og þótti þó undarlegt er hann veitti
honum þenna farbeina og komst Þórhaddur yfir.
En
er Þorsteinn var að spurður hví hann gerði þetta þá svarar
hann: "Þeir hafa fáir hlutir verið er mér hafi meira um verið
gefið en að koma Þórhaddi heilum yfir ána því að eg ætla honum
annan dauða en drukkna."
Þorsteinn
fór heim. Og litlu síðar dreymdi Þorstein að Jóreiður móðir
hans kom að honum. Hún var Þiðrandadóttir en hún var þá önduð.
Hún
spurði: "Ætlar þú nú brátt til sættarfundar við Þórhadd?"
Hann
kvaðst eigi það hafa í hug sér.
"Viltu
hefna þá?" segir hún.
Hann
kvaðst það hugsað hafa.
Hún
mælti: "Ekki þarftu þá lengur að fresta því að eigi mun fyrri
niður falla illmælið en hefndin kemur fram" og kvað þá vera
ráð um daginn eftir. "Tak og öxar þínar báðar, Jarlsnaut og
Þiðrandanaut, og haf þá í hendi til hefndarinnar er þyngri er
í hendi því að Þiðrandanautur hefir oft vel gefist þótt hún sé
eigi jafnfögur sem hin."
Síðan
vaknar hann og þóttist sjá svipinn hennar er hún gekk á braut.
Þann
dag var ofviðri mikið. Þorsteinn tók öxarnar og jafnvætti í
hendi sér og var Þiðrandanautur þyngri og þótti honum eigi þó
þess von. Síðan bjóst hann til ferðar og stígur á ferju og
fóru til Hofshólma og tóku þar langskip gott og reru út úr
Álftafirði snemma of morgun. Þeir voru átján saman og fóru svo
norður til Landsness. Þorsteinn var heldur ókátur áður en boði
féll yfir skipið hjá Æðasteini og fyllti skipið undir þeim.
Þeir jósu upp og gladdist Þorsteinn síðan og þótti þetta vel
verða er þeir stýrðu undan háskanum.
Og
er Þorsteinn var heiman farinn varð var við ætlan hans maður
hans einn er á vist var með honum. Hann hafði verið fyrr með
Þórhaddi. Það varð hans tiltæki að hann hljóp á fjörðinn og er
hann kom til fjarðarbotnsins og hitti menn þá spurði hann
tíðinda. Þá var hann svo móður að hann fékk ekki mælt fleira
en þetta. Þá féll hann niður.
Þeir
Þorsteinn koma norður undir bakka á Berunesi og hittu
sauðamann Ingjalds og spurði Þorsteinn hvað þar var gesta.
Hann
mælti: "Mér er eigi laun á. Þeir eru hér Helgi Þórhaddsson og
bræður hans Þorvarður og Naddur en eg hygg að Þórhaddur sé að
Þorkels á Berunesi og Ásbjörn með honum."
Þorsteinn
mælti: "Vel fer þér frásögnin."
Og
skildu að því.
6. kafli
Nú
skal segja frá Þorsteini og mönnum hans að þeir sneru til
bæjar á Kársstaði og gengu undir húsgafl allir saman.
Þá
mælti Þorsteinn: "Vitið þér þann málavöxt um ferð vora að eg
ætla til hefnda minna harma. En eg vil að engi yðvar veiti mér
lið í móti sonum Þórhadds nema líf mitt liggi við því að eg
vildi allra þeirra bani verða. Vara eg yður því við að reiði
mín liggur á ef eigi er svo gert."
Þorsteinn
gekk til dura og kvaddi hurðar og kom Ingjaldur út og heilsaði
Þorsteini. Hann spurði hvað þar væri gesta. Ingjaldur varð fár
við og segir þó.
Þorsteinn
svarar: "Er eigi það að þeir gerist mágar þínir, synir
Þórhadds, og hitti dætur þínar? Bið þá út koma ef þeir vilja
að vér tölum um sættir vorar. Er nú ekki fjölmenni boðið."
Bóndi
kvað gott ef svo væri að þeir sættust. Hann gekk inn og sagði
þeim að Þorsteinn væri kominn úti og vildi tala við þá.
Helgi
kvaðst eigi vita hvort honum væri nokkuð það í hug. Þorvarður
kvaðst vilja út ganga ef Þorsteinn væri einn og gekk hann út
og Naddur en Helgi var hóti seinni. Og er þeir komu út bað
Þorsteinn þá niður setjast og tala. Þorsteinn gekk fyrir að
jörva nokkurum en þeir eftir og kvað hann eigi mundu vera
allskammt talið og kvað því hæfa að sitja. Þorvarður settist
niður og var hinn vörpulegasti maður og í því er hann settist
niður hjó Þorsteinn Nadd banahögg. En í því er Þorvarður vildi
upp standa hjó Þorsteinn hann banahögg áður hann kæmist á
fætur. Í því kom Helgi út og hljóp undir stein einn er þar var
í túninu og varðist þaðan. Hann var bæði mikill og sterkur og
garpur hinn mesti. Þorsteinn sótti að honum og áttust við um
hríð. En Sigurður hinn auðgi hét maður er í ferð var með
Þorsteini. Hann hljóp að Helga og lagði til hans með spjóti.
En
í þessu hjó Þorsteinn með öxinni til Helga og veitti honum
bana en kvað Sigurð illa hjá sitja en kvað við hann mesta
vorkunn og kvað engum öðrum skyldu hlýtt hafa "en þó veitti eg
honum bana."
Sigurður
kvaðst eigi þolað hafa lengur atgang þeirra en ...
(Hér
hefur vantað tvö blöð í skinnbókina sem öll pappírshandrit
sögunnar eru komin frá.)
7. kafli
.
. bróðir Jóreiðar, faðir Helga og Gríms Droplaugarsona,
Hallkatla, móðir Þorkels Geitissonar í Krossavík. Ólöf hét
systir Halls á Síðu. Hún var móðir Kolbeins Flosasonar,
Þórðarsonar Freysgoða að Svínafelli. Ljótur sonur Halls átti
Helgu dóttur Einars frá Þverá og var þeirra dóttir Guðrún er
átti Ari Þorgilsson af Reykjanesi. Annar sonur Halls var
Þorsteinn er nú hefir verið frá sagt um hríð. Þriðji sonur
Halls var Egill. Hann átti Þorlaugu dóttur Þorvalds úr Ási úr
Hjaltadal. Þeirra dóttir var Þorgerður móðir Jóhanns biskups
hins helga. Kolur var hinn fjórði sonur Halls. Hann átti Ólöfu
dóttur Össurar frá Breiðá. Dóttir Halls var Gróa er átti
Teitur sonur Gissurar hvíta. Þeirra sonur var Hallur faðir
Gissurar, föður þeirra Magnúss biskups og Þorvalds, föður
Gissurar. Yngvildur hét dóttir Halls. Hana átti Eyjólfur sonur
Guðmundar hins ríka af Möðruvöllum. Þeirra dóttir var Þórey
móðir Sæmundar hins fróða, föður Lofts, föður Jóns, föður
Sæmundar í Odda. Teitur Ísleifsson átti Jórunni. Hennar móðir
var Þórdís dóttir Þorvalds Hallssonar af Síðu. Þorgerði dóttur
Halls á Síðu átti Þorgrímur sonur Digur-Ketils. Gró dóttur
Halls átti síðan Snorri Kálfsson en eftir það átti Gró
Þorvarður krákunef. Þórdísi dóttur Síðu-Halls átti Þórður
Halldórsson úr Fossárskógum.
Og
lýkur svo þessi sögu er frá Þorsteini er sögð Síðu-Hallssyni.