1.
kafli
Maður
hét Ölvir hinn hvíti. Hann var Ósvaldsson, Göngu-Hrólfssonar,
Öxna-Þórissonar. Hann var lendur maður í Noregi og bjó í
Naumudal. Hann stökk fyrir ófriði Hákonar jarls á Yrjar og dó
þar. Hann átti einn son barna er Þorsteinn hét og var kallaður
Þorsteinn hvíti. Hann fór þegar eftir andlát föður síns út til
Íslands með alla fjárhluti sína og kom skipi sínu í
Vopnafjörð. En þá var lokið landnámum á öllu Íslandi.
Sá
maður bjó þá að Hofi í Vopnafirði er hét Steinbjörn og var
kallaður körtur og hafði honum þar land gefið Eyvindur
föðurbróðir hans, allt á milli Vopnafjarðarár og Vesturdalsár.
Steinbjörn var eyðslumaður mikill í búinu.
En
er Þorsteinn vissi það að lönd öll voru numin áður fór hann á
fund Steinbjarnar og kaupir hann að honum land og reisir bæ á
Tóftavelli og bjó þar nokkura vetur og varð honum gott til
fjár og metnaðar. Hann hafði skamma stund í búi verið áður
hann fór og leitaði sér ráðs og bað konu þeirrar er Ingibjörg
hét og var hún dóttir Hróðgeirs hins hvíta Hrafnssonar. Hennar
fékk hann. Við þessari konu átti hann fimm börn. Sonur hans
hét Önundur en annar Þórður, þriðji Þorgils. Dætur hans hétu
Þorbjörg og Þóra. Þorgils var hinn mannvænlegasti maður.
Þorsteinn
græddi fé í ákafa. Steinbirni kört varð féfátt og fór á fund
Þorsteins og beiddist fjárláns af honum. Þorsteinn er og góður
af fjárláninu og þangað til tekur hann lán af Þorsteini að
harðla mjög eyðist fé Steinbjarnar og þykir Þorsteini versna
skuldunauturinn og þykir óvís skuldastaðurinn að Steinbirni.
Og nú heimtir hann féið og lýkst með því þeirra fjárreiður að
Steinbjörn geldur Þorsteini Hofland og fór Þorsteinn byggðum
til Hofs og kaupir sér goðorð og gerist hinn mesti
sveitarhöfðingi. Hann var allra manna vinsælastur.
Og
er Þorsteinn hafði búið marga vetur að Hofi þá gerðust þau
tíðindi að herbergjum hans að Ingibjörg tók sótt og andaðist.
Þorsteini þótti þetta skaði mikill en hélt þó búi sínu sem
áður.
2. kafli
Maður
hét Þórir. Hann var sonur Atla er bjó í Atlavík fyrir austan
vatn. Þar eru nú sauðhús. Þórir var kvongaður. Kona hans hét
Ásvör og var dóttir Brynjólfs hins gamla. Þau Þórir áttu tvö
börn. Hét sonur þeirra Einar en Ásvör dóttir. Einar var
vasklegur og eigi stór maður, hávaðamaður mikill og í
meðallagi vinsæll. Ásvör var kvenna vænst og vinsælust.
Það
gerðist til tíðinda á hag Þorsteins hvíta að hann tók
augnaverk svo mikinn að þar fyrir missti hann sjónina, þykist
vanfær til umsýslu, ræðir nú um við Þorgils, biður hann taka
við liðinu. Þorgils sagði það skylt að hann veitti slíkt
fulltingi er hann má. Faðir hans ræðir við hann að hann fái
sér kvonfang og biðji Ásvarar Þórisdóttur. Og það varð og fór
hún með honum til búsins og tókust með þeim ástir góðar og
áttu tvö börn. Sonur þeirra hét Helgi en dóttir Guðrún.
Þorgils var þá vel tuttugu vetra.
3. kafli
Hrani
hét maður og var kallaður gullhöttur. Hann var fóstri Þorgils
en frændi Ásvarar. Hann var hávaðamaður mikill og var
heimamaður að Hofi og var kallaður grályndur.
Þorkell
hét maður og var kallaður flettir. Hann var heimamaður að Hofi
og frændi þeirra Hofverja, mikill og sterkur.
Þorbjörn
hét maður. Hann bjó í Sveinungsvík. Það er á milli
Melrakkasléttu og Þistilsfjarðar. Þorbjörn var drengur góður
og rammur maður að afli, vinur góður Þorsteins hvíta.
Maður
er nefndur Þorfinnur. Hann bjó að Skeggjastöðum í Hnefilsdal.
Hann átti og enn annað bú. Þorgerður hét kona hans. Þau áttu
þrjá sonu og hét Þorsteinn sonur þeirra og var kallaður fagri,
annar Einar, þriðji Þorkell. Allir voru þeir mannvænlegir.
Þorsteinn var fyrir þeim bræðrum. Hann var fullkominn að aldri
er hér er komið sögunni.
Kraki
hét maður og bjó hann á þeim bæ er heitir á Krakalæk. Kraki
var vel auðigur maður, kvongaður maður og hét kona hans
Guðrún. Þau áttu dóttur eina barna er Helga hét og var allra
kvenna fríðust og þótti sá kostur bestur í Fljótsdalshéraði.
Þess
er getið að Þorsteinn fagri beiddist fjárlánstillaga af föður
sínum og kvaðst vilja fara af landi á brott. Þorfinnur kvað
svo vera skyldu. Leggur hann til slíkt sem hann beiddist.
Hefir hann verið í förum nokkur sumur, verður honum gott til
fjár og metnaðar og hvert sinn er hann var utan lagði hann
nokkuð eftir af fjárhlut þeim er hann þóttist þurfa og faðir
hans.
Og
eitt vor er Þorsteinn var út hér um veturinn kemur Einar
Þórisson að máli við föður sinn og beiðist af honum tillags og
segist vilja fara til félags við Þorstein. Þorsteinn kvaðst
eigi mundu synja Einari félags og gefur honum skip hálft og
telur þó að honum segi í meðallagi hugur um félag þeirra fyrir
sakar óvinveitts skaplyndis Einars.
Þeir
fóru utan og lögðu félag saman. Þorsteinn heldur öllu til
virðingar Einari og virti hann í öllu mest og þó lagðist svo
að Þorsteinn var meira virður en Einar af öðrum mönnum fyrir
þess sakar að hann reyndist góður drengur og vinveittur í
skaplyndi. Fór vel um stund félag þeirra.
4. kafli
Það
er sagt einn vetur að þeir voru utan hér fóstbræður að
Þorfinnur kemur að máli við Þorstein, hvern hann ætlaði sinn
ráðahag að sumri. Þorsteinn kveðst utan ætla. Þorfinnur kvaðst
heldur vilja að hann tæki við búi með honum. Þorsteinn svarar
og sagðist engan hug hafa á því en kvað hann slíkt hafa af
hans góssi sem hann vildi. Þorsteinn hafði mikið fé í förum.
Þorfinnur
lést hugsað hafa ráð fyrir honum og lést vilja biðja honum til
handa Helgu Krakadóttur. Þorsteinn kvað sér það ofráð er hún
stóð ein til alls arfs eftir Kraka. Þorfinnur kvað vera
jafnræði bæði fyrir ættar sakar og mannanar.
Fara
þeir nú og vekja þetta mál við Kraka. Hann kallar sér þetta
vel að skapi. Var þetta mál upp borið fyrir Helgu og fundust
eigi afsvör í hennar máli. Voru þeir vottar að heitorði
Þorsteins. Þorsteinn vildi fara utan fyrst en ráð skyldi
takast þá er hann kæmi aftur.
Fara
þeir Þorsteinn og Einar og tekur Þorsteinn skyrbjúg í hafi að
því er þeir kalla og varð hann eigi liðfær. Menn hlógu að
honum og var Einar upphafsmaður að því. Og er þeir komu til
Noregs leigðu þeir þar skemmu eina en gáfu engan gaum að
Þorsteini. Hann lá þar allan vetur. Einar spottar hann mjög og
lét kveða um hann.
Og
um vorið hitti Einar Þorstein og biður hann fjárskiptis, lést
vilja hafa einn skip og kvað sér þykja Þorsteinn ólíklegur til
utanferðar. Þorsteinn kvað eigi fjarri því farið hafa sem hann
gat um skaplyndi Einars. Þeir skipta um vorið fjárhlut svo að
Einar kaus en Þorsteinn skipti úr rúmi sínu.
Einar
hlaut skipið og hélt til Íslands um sumarið. Og er hann kom út
var hann spurður tíðinda. En hann kvaðst eigi kunna tíðindi
greinilega að segja, kvað Þorstein eigi dauðan hafa verið
sérlega en þó hefði hann eigi ólíklegur verið að hann mundi
eigi aftur koma. Einar reið til föður síns og svívirti mjög
Þorstein í allri frásögu.
Um
haustið kom skip af hafi í Reyðarfjörð. Einar reið til skips
og keypti að Austmanni að hann segði andlát Þorsteins og svo
gerði hann og allir skipmenn. Einar kom heim og sagði andlát
Þorsteins og kvað hann hafa fengið herfilegan dauða þann
vetur.
5. kafli
Einar
bað föður sinn að hann skyldi biðja Helgu Krakadóttur. Þórir
kvað svo vera skyldu. Nú fara þeir heiman og koma til Kraka og
vekja bónorð við hann fyrir hönd Einars. Kraki kvaðst áður
vilja vita til víss andlát Þorsteins en lést þá mundu gefa
Einari konuna ef það væri áður til víss vitað. Þórir kvað það
eigi sannlegt að Einar væri vonbiðill þeirrar konu er skjótt
var heitin Þorsteini. Kraki lét eigi gangast svör þessa máls.
Fara
þeir feðgar heim við svo búið og litlu síðar ríður Einar
norður til Hofs og segir Þorgilsi bónorðið og kveður sér hafa
verið neitað.
Hrani
var hjá og svaraði svo: "Illa koma þér Einar í hald góðir
frændur ef þú skalt eigi fá konu þessa," kvað honum og lítið
stoða að vera í vináttu við Þorgils ef hann skyldi einskis
meta þessa sneypu er Einari var ger.
Þorgils
svarar: "Mér virðist Kraki viturlega með fara og mundi eg svo
gera ef eg ætti hans hlut."
Satt
eitt sagði Einar frá orðum Kraka en þó eggjaði Hrani Þorgils
að fara með honum. Þorgils kvað eigi létt hugur um segja þó að
þessu ráði yrði komið í hendur honum. Síðan fóru þeir og hittu
Kraka og hafði hann hin sömu svör fyrir sér sem fyrr.
Þorgils
mælti þá: "Vera má að þú ráðir dóttur þinni en eigi muntu svo
undan setja að þú fáir eigi sakagiftir um annað."
Kraki
mælti: "Eigi mun eg til þess hætta."
Hann
fastnaði þá dóttur sína Einari og hafði sjálfur brúðkaup inni.
Kraki skyldi vera úr öllum vanda um kaupbrigði við Þorstein.
6. kafli
Það
er frá Þorsteini að segja að honum batnaði. Bjó hann skip sitt
til Íslands og kom út næsta sumar eftir brúðkaupið í
Reyðarfjörð og hafði selt Austmönnum skipið. Hann ætlaði til
ráðahagsins við Helgu og láta af förum.
Og
er hann kom til Íslands frétti hann alla þessa ráðabreytni.
Fór hann þá til fundar við föður sinn og létu þó haldast
skipsöluna eigi að síður. Þorsteinn lét lítt á sér finna um
þetta mál. Hann keypti sér skip um veturinn er uppi stóð í
Bulungarhöfn og bjó það að öllu. Bræður hans ætluðu með honum
utan og urðu eigi búnir svo skjótt sem hann því að þeir fóru
að fjárheimtingum sínum um héraðið. Austmenn vesuðust illa er
þeirra þurfti að bíða, bræðra Þorsteins, ef byr kæmi á.
Þorsteinn
mælti þá: "Eg mun ríða frá skipi voru og hitta þá og biðja þá
að þeir flýti sér en þér skuluð bíða mín hið skemmsta sjö
nætur."
Þorsteinn
reið utan eftir Öxarfirði úr Bulungarhöfn og upp á
Möðrudalsheiði og ofan til Vopnafjarðar og svo austur yfir
Smjörvatnsheiði og svo yfir Jökulsá að brú og svo yfir
Fljótsdalsheiði og austur yfir Lagarfljót og upp með fljótinu
uns hann kom í Atlavík snemma morguns. Þórir var farinn í skóg
og húskarlar hans með honum ofan á Bulungarvöllu. Einar var
heima og var eigi upp risinn er Þorsteinn kom að durunum. Kona
var úti er Ósk hét. Hún spurði hver hinn komni maður væri.
Þorsteinn
svarar: "Sigurður heiti eg og á eg að gjalda Einari skuld og
vil eg nú afhenda honum og gakk þú inn og vek Einar og bið
hann út ganga."
Þorsteinn
hafði spjót í hendi og ullhött á höfði. Konan vakti Einar.
Hann spurði hver kominn væri. Hún sagði að hann nefndist
Sigurður. Einar stóð þá upp og kippti skóm á fætur sér og tók
skikkju yfir sig og gekk út síðan. Og er hann kom út kenndi
hann Einar að þar var kominn Þorsteinn og varð Einar nokkuð
fár við.
Þorsteinn
mælti: "Því em eg hér kominn að eg vil vita hverju er þú vilt
bæta mér er þú gabbaðir skyrbjúg minn í hafi og hlóst að mér
með hásetum þínum og mun eg vera alllítilþægur að."
Einar
mælti: "Heimtu fyrst að öllum þeim er hlógu að þér. Eg mun þá
bæta þér ef allir bæta aðrir."
Þorsteinn
svarar: "Eg em ekki svo féþurfa að eg nenni alla að sækja og
vil eg að þú bætir fyrir þig."
Einar
kveðst eigi bæta mundu og sneri hann undan og til
svefnskemmunnar. Þorsteinn bað hann bíða og hrapa eigi svo
skjótt til rekkjunnar Helgu. Einar gaf engan gaum að því er
hann mælti. Síðan lagði Þorsteinn að Einari með spjótinu og í
gegnum hann. Einar féll dauður inn í skemmuna. Þorsteinn bað
griðkonuna greiða ferð Einars.
Þorsteinn
ríður þá hina sömu leið aftur er hann reið fram. Hann reið
vestur yfir háls til sels Þorbjarnar er stóð í milli
Melrakkasléttu og Ormsár. Hann spurði Þorbjörn ef bræður hans
hefðu þar komið en Þorbjörn kvað það eigi vera. Þorsteinn
sagði honum tíðindin og bað hann segja bræðrum sínum að þeir
flýttu sér til skips. Reið Þorsteinn þá til skips.
Griðkona
gerði honum Þóri orð og lét segja honum víg Einars sonar síns
og brá Þórir skjótt við og fór norður til Vopnafjarðar með tvo
húskarla sína og fór á skipi yfir fljót og til Hofs. Sagði
hann þeim Hofsmönnum víg Einars. Þorgils kvað sér eigi vel
hafa hug um sagt þegar er Einar fékk Helgu. Þeir báðu hann
eftir ríða. Hann lét þá taka hesta sína. Hrani frýði honum
áður hugar ef hann seinkaði ferðinni. Þórir hvarf aftur og
gerði það að ráði Þorgils en húskarlar hans fóru með Þorgilsi
og voru þeir sjö saman og fóru síðan leið sína.
7. kafli
Bræður
Þorsteins ríða til sels Þorbjarnar annan morgun eftir er
Þorsteinn hafði þaðan riðið. Þeir höfðu þar dagverð en lögðust
síðan niður til svefns. Þorbjörn latti þá þessa mjög því að
hann sagði þeim víg Einars og orðsending Þorsteins en Þorbjörn
var vinur hvorratveggja.
Litlu
síðar kom Þorgils og þeir sjö saman. Þorbjörn sagði þeim
bræðrum að þeir Þorgils voru þar komnir og vakti hann þá.
Hvergi máttu þeir undan komast.
Þorbjörn
réð þeim að þeir græfu þar djúpa gröf í selinu fyrir durunum
"en eg mun standa í durunum."
Og
svo gerðu þeir.
Þeir
Þorgils koma þá að selinu. Þóttist hann vita að þeir bræður
mundu þar inni er hrossin voru mædd og nýkomin undan klyfjum.
"Veit
eg," segir Þorgils, "að þeir eru hér."
Þorbjörn
svarar: "Þú ert maður glöggvastur en þó eru þeir bræður eigi
hér sem þú segir. En eg lét fara eftir viðum hross mín og
höfum nýtekið af þeim klyfjar. Eru þau nýkomin frá veturhúsum
en áður gengu þau af rekaströndum til skálagerðar í
Sveinungsvík og á eg hrossin."
Þorgils
kvaðst eigi þessu trúa mundu "og far þú úr durunum og viljum
vér rannsaka selið."
Þorbjörn
kvaðst eigi það gera mundu "síðan þér trúið eigi minni
tilsögu."
Hrani
mælti: "Drepum hann þá ef hann vill eigi fara úr durunum."
Þorgils
svarar: "Þá þykir föður mínum illa."
Þá
bauð Þorkell flettir að fara á bak húsinu og hlaupa af
vegginum ofan milli Þorbjarnar og duranna og bera hann svo frá
durunum og ofan fyrir brekkuna. Þorgils bað hann svo gera.
Síðan breytti Þorkell svo að Þorbjörn var með þessari aðferð
borinn frá seldurunum. Síðan bundu þeir hann.
Eftir
það gengu þeir að durunum og mátust þeir um hver þeirra fyrst
skyldi inn ganga.
En
er Þorgils fann þetta mælti hann: "Eigi verður oss nú
hugmannlega er vér þorum eigi inn að ganga."
Þorgils
hleypur þá inn. Þorbjörn aftaldi hann og sagðist letja hann
inn að ganga en hann gaf engan gaum að orðum hans. Hann hafði
skjöldinn yfir höfði sér. Hann snarar þá inn og hljóp í
gröfina og drápu þeir bræður hann þar í gröfinni. Síðan rufu
förunautar Þorgils selið og sóttu þá bræður um stundar sakar.
Hrani gullhöttur lá á selvegginum og koglaði þann veg inn. Þá
var hann lagður spjóti í höndina. Þeir bræður vörðust bæði vel
og drengilega en féllu báðir þar að síðustu með góðan orðstír.
Þar féllu og báðir húskarlar Þóris og hinn þriðji maður,
Þorgils Þorsteinsson, er þá var þrítugur að aldri.
Þorbjörn
var leystur síðan eftir fundinn. Hann færði alla vöru þeirra
bræðra í Bulungarhöfn til skips og sagði Þorsteini tíðindin.
Þorsteinn kvað Þorbjörn þetta vel gert hafa og skiljast með
mikilli vináttu.
Þorsteinn
fór utan um sumarið og var á brottu fimm vetur. Kom hann sér
vel við höfðingja og þótti hinn röskvasti maður.
Hrani
gullhöttur kom heim til Hofs og sagði Þorsteini hvíta að synir
Þorfinns tveir væru fallnir og húskarlar Þóris tveir.
Þorsteinn
spurði: "Hvar er Þorgils sonur minn?"
Hrani
svarar: "Hann er og fallinn líka."
Þorsteinn
mælti: "Fjandlega segir þú frá tíðindum. Illt hefir jafnan af
þér hlotist og þínum ráðum."
Þetta
þótti mönnum mikil tíðindi þá er spurðust. Um sumarið eftir
voru mál til búin á hendur Þorsteini Þorfinnssyni og varð hann
sekur um víg Einars. Brodd-Helgi var þá þrevetur er faðir hans
var drepinn og var þá þegar efnilegur maður að jöfnum aldri.
Þorsteinn
Þorfinnsson fór til Íslands að fimm vetrum liðnum og kom skipi
sínu í Miðfjörð. Hann reið þegar norður til Hofs við fimmta
mann. Brodd- Helgi var þá átta vetra gamall og lék sér á
hlaðinu úti og bauð þeim öllum þar að vera. Þorsteinn spurði
hví hann laðaði gesti. Hann kvaðst þar allt eiga með afa
sínum. Þeir Þorsteinn Þorfinnsson gengu inn eftir það.
Þorsteinn hvíti kenndi farmanna daun og spurði hverjir komnir
væru. Þorsteinn Þorfinnsson segir hið sanna.
Þorsteinn
hvíti mælti: "Hvort þótti þér of lítil mín skapraun ef þú
sóttir mig eigi heim, blindan karl og gamlan?"
Þorsteinn
Þorfinnsson svarar: "Eigi gekk mér það til heldur hitt að eg
vil bjóða þér sjálfdæmi fyrir Þorgils son þinn og hefi eg ærið
góss til þess að bæta hann svo að eigi hafi annar maður dýrri
verið."
Þorsteinn
hvíti kvaðst eigi vilja bera Þorgils son sinn í sjóði.
Þorsteinn Þorfinnsson og var kallaður Þorsteinn fagri, hann
sprettur þá upp og leggur höfuð sitt í kné Þorsteini hvíta
nafna sínum.
Þorsteinn
hvíti svarar þá: "Eigi vil eg láta höfuð þitt af hálsi slá.
Munu þar eyru sæmst sem uxu. En þá geri eg sætt okkar í millum
að þú skalt fara hingað til Hofs til umsýslu með allt þitt og
ver hér meðan eg vil en þú sel skip þitt."
Þessari
sætt játar Þorsteinn fagri. Og er þeir kumpánar gengu út lék
sveinninn Helgi Þorgilsson sér að gullreknu spjóti er
Þorsteinn fagri hafði sett hjá durunum er hann gekk inn.
Þorsteinn
fagri mælti við Helga: "Viltu þiggja að mér spjótið?"
Helgi
ræðst þá um við Þorstein hvíta fóstra sinn hvort hann skyldi
þiggja spjótið að Þorsteini fagra. Þorsteinn hvíti svarar, bað
hann þiggja víst og launa sem best.
Þorsteinn
fagri var eina nótt að Hofi í það sinni. Þorsteinn fagri fór
til skips síns og seldi það. Síðan færði hann sig til Hofs í
Vopnafjörð með allt sitt. Hann færði mjög fram kvikfé
Þorsteins hvíta nafna síns.
En
er hann hafði þar verið nokkura stund þá vildi Þorsteinn hvíti
að Þorsteinn nafni hans bæði Helgu Krakadóttur og svo gerði
hann. Þorsteinn hvíti var í ferð með honum og gengu þau mál
vel fram og þótti Kraka þetta gert eftir sínu skaplyndi. Fór
Helga þá til Hofs með Þorsteini fagra því að Þorsteinn hvíti
vildi brúðkaupið inni hafa því að hann þóttist hrumur til að
fara að sækja brúðkaupið annars staðar og af því var svo gert.
Boðið fór vel fram. Voru samfarar þeirra góðar.
Átta
vetur var Þorsteinn fagri að Hofi með nafna sínum og var honum
í sonar stað í allri umsýslu.
Og
þá er svo var komið tímum mælti Þorsteinn hvíti til nafna
síns: "Vel hefir þú gefist mér og ertu röskur maður og drengur
góður um alla hluti og vel að þér búinn. Nú vil eg að þú
bregðir þessu ráði og svo föður þíns og Kraka mágs þíns og
ráðist allir til utanferðar með allt það er þér eigið því að
eg ætla Helga frænda mínum og fóstra gerast mjög þungt til
þín. En hann er nú átján vetra gamall. En það er líkast að eg
verði maður ekki langlífur héðan af en eg vildi að við
skildumst vel en Helgi frændi minn mun verða ofsamaður mikill
og engi jafnaðarmaður. Nú haf þú ráð mitt um þetta og ver hér
eigi lengur en eg legg ráð til."
Þorsteinn
fagri kvað svo vera skyldu. Þorsteinn fagri keypti tvö skip og
fór utan með allt sitt skuldalið. Þorfinnur faðir hans fór og
utan og Kraki mágur hans. Þeir komu norðarlega við Noreg og
fóru um sumarið eftir norður á Hálogaland og ílentust þar með
öllu liði sínu. Bjó Þorsteinn fagri þar á meðan hann lifði og
þótti hinn vaskasti maður.
8. kafli
Helgi
óx upp með Þorsteini hvíta fóstra sínum. Hann gerðist mikill
maður og sterkur, bráðger, vænn og stórmannlegur og ekki
málugur í barnæsku, ódæll og óvæginn þegar á unga aldri. Hann
var hugkvæmur og margbreytinn.
Það
var einn dag að Hofi er naut voru að stöðli, þar var griðungur
einn kominn til nautanna, mikill og stór. Annar griðungur var
heima fyrir, mikill og ógurlegur, er þeir frændur áttu. Helgi
var þá úti staddur og sá að griðungarnir gengust að og
stönguðust og varð heimagriðungurinn vanhluta fyrir
búigriðunginum.
En
er Helgi sér það gengur hann inn og sækir sér mannbrodda stóra
og bindur þá framan í ennið á heimagriðunginum. Síðan taka
þeir til og stangast sem áður allt þar til er
heimagriðungurinn stangar hinn til dauðs. Höfðu mannbroddarnir
gengið á hol.
Þótti
flestum mönnum þetta vera bellibragð er Helgi hafði gert. Fékk
hann af þessu það viðurnefni að hann var kallaður Brodd-Helgi
en þá þótti mönnum það miklu heillavænlegra að hafa tvö nöfn.
Var það þá átrúnaður manna að þeir menn mundu lengur lifa sem
tvö nöfn hefðu. Skjótt var það auðséð á Helga að hann mundi
verða höfðingi mikill og engi jafnaðarmaður.
Einn
vetur lifði Þorsteinn hvíti síðan er þeir Þorsteinn fagri
skildu og þótti hann verið hafa hið mesta mikilmenni.
Geitir
í Krossavík átti Hallkötlu dóttur Þiðranda hins gamla
Ketilssonar þryms, sonar Geitis og Hallkötlu. Með þeim Geiti
og Brodd-Helga var vinátta mikil í fyrstu en minnkaðist svo
sem á leið og varð úr fullur fjandskapur sem segir í
Vopnfirðinga sögu.
Og
lýkur hér sögu Þorsteins hins hvíta.