1.
kafli
Á
ofanverðum dögum Hákonar Aðalsteinsfóstra bjó sá maður norður
á Hálogalandi í eyju þeirri er Ylfi hét er nefndur er
Þorvaldur og var kallaður skiljandi. Hann átti þá konu er
Þorgerður hét og var Hallfreðardóttir. Galti hét bróðir
hennar. Hann var ríkur maður og bjó í Sogni. Þorvaldur
skiljandi átti tvo sonu. Hét annar Óttar. Annar hét Þorkell
silfri og var hann eigi skilgetinn.
Ingjaldur
hét maður er þar bjó í eyjunni Ylfi. Ávaldi hét son hans.
Ingjaldur var vin Þorvalds og var Óttar að fóstri með
Ingjaldi. Voru þeir Óttar og Ávaldi mjög jafn gamlir og
gerðust þeir brátt fóstbræður.
Maður
er nefndur Sokki. Hann var hinn mesti víkingur og
illgerðamaður og fór víða með rán og hernað. Sokki kom á einu
sumri til eyjarinnar Ylfi. Hann gekk upp um nótt á eyna með
lið sitt og kom til bæjar Þorvalds á óvart svo að allir menn
voru fyrir í svefni.
Hann
sagði þá til sinna manna: "Hér mun bera vel fjárföng í hendur
er auðigur maður býr fyrir en vörn mun verða engi ef vér förum
ráðum að. Nú skulum vér sækja bæinn bæði með eldi og vopnum.
Skulum vér taka fé allt að herfangi en brenna hús og menn
alla. Sumir vorir menn skulu fara til Ingjalds og gera þar
slíkt hið sama."
Engi
hans manna latti þessa. Báru þeir síðan eld að húsum.
Þorvaldur
gekk til dura og spurði hver fyrir eldinum réði. Sokki sagði
til sín.
Þorvaldur
mælti: "Hvað er til saka, því að eg veit eigi að vér höfum þér
mein gert?"
Sokki
svarar: "Ekki förum vér víkingarnir að sökum þar sem vér
viljum hafa fé manna og fjör."
Sóttu
víkingar bæinn bæði með vopnum og eldi. Brann Þorvaldur þar
inni með fimmtánda mann en fáir komust brott. Víkingar tóku fé
allt það er þeir máttu nytjum á koma.
Þeir
menn er Sokki hafði sent til Ingjalds lögðu þar eld í hús.
Hann gekk til dura og beiddi mönnum útgöngu. En þess var engi
kostur af víkingum. Þá hvarf Ingjaldur að sveinunum Óttari og
Ávalda.
Hann
mælti til þeirra: "Það er nú vænst að liðnar séu mínar
lífstundir. En gjarna vildi eg koma ykkur úr eldinum að þið
mættuð njóta lengri forlaga. Nú mun eg skjóta ykkur út um
laundyr er á eru bænum. Leitið þið síðan til skógar með
reyknum og væru ykkur efni til seld að hefna þessa ef ykkur
verður nokkurrar framkvæmdar auðið."
Þeir
svöruðu: "Vera mundi viljinn til en eigi er það vænlegt að svo
búnu."
Ingjaldur
leiddi þá til launduranna og komust þeir þar í brott svo að
víkingar urðu ekki varir við fyrir gný og eldsgangi og það er
þeir voru eigi feigir. Þeir leituðu annan veg á eyna. Komu
þeir litlu síðar til eins bónda og báðu hann flytja sig sem
skjótast inn til meginlands. Bóndi kenndi sveinana og gerði
sem þeir beiddu. En er þeir komu inn á land sögðust þeir vera
fátækir sveinar. Þeir komu þar fram er var við land
síldarferja nokkur komin norðan úr Vogum og ætlaði að fara
suður í land. Þeir komu sér þar í þjónustu og fengu sér far
suður með landi. En er þeir komu suður á Sognsæ sögðu
sveinarnir að þeir vildu þar inn í fjörðinn og kváðust þar
eiga frændur.
Stýrimaður
svarar: "Það skal nú sem þið viljið. Munuð þið eigi hér verr
komnir en þar sem vér tókum ykkur. Hafið þið oss vel þjónað og
segir mér svo hugur um að þið munið verða af stundu meira
háttar menn en nú má líklegt þykja."
Voru
þeir síðan fluttir til lands. Síð dags komu þeir til Galta
móðurbróður Óttars og settust utarlega í hálm. Bóndi gekk til
þeirra og spurði hverjir þeir væru. Óttar sagði satt til sín.
Galti
mælti: "Þá mun ykkur koma hér eigi ósannleg og gangið til
sætis."
Þeir
voru þar í góðu yfirlæti sjö vetur eða átta og gerðust menn
þroskulegir. Í þann tíma var orusta á Fitjum er Hákon
Aðalsteinsfóstri féll. Tók þá ríki í Noregi Gunnhildur og
synir hennar. Sokki víkingur var vin þeirra mikill sem mörg
önnur illmenni.
Eitt
vor mælti Galti til þeirra Óttars: "Svo virði eg Óttar frændi
sem þú sért fyrir ykkur fóstbræðrum og vænti eg að þú verðir
framkvæmdarmaður. En nú er sú öld í Noregi að eg treysti eigi
að halda ykkur hér heima með mér því að þeim mönnum er í
stórsökum eru við oss af drápi feðra ykkarra mun þykja að
ykkur uppreistar von ef þeir vita að þið eruð á lífi. En á
þessum vetrum sem þið hafið hér dvalist með mér hefi eg selt
jarðir ykkrar og tekið við lausafé. Ætla eg ykkur helst að
sigla kaupferð til Englands og vita hversu það vilji takast."
Óttar
kvaðst hans ráðum vilja hlíta. Fóru þeir til Englands um
sumarið og fengu góða kaupstefnu. Þrjú ár eða fjögur voru þeir
í siglingum til Englands og áttu þá auð fjár. Þá fóru þeir til
Orkneyja og höfðu þar sem annars staðar þar er þeir komu góða
sæmd af ríkum mönnum.
2. kafli
Einn
tíma mælti Óttar við Ávalda: "Það leikur mér í skapi að kaupa
Íslandsfar og ráðast þangað því að það hefi eg spurt að menn
hafa þar frelsi og góðar náðir. Það láta sér nú og sóma margir
góðir drengir að staðfestast þar en þó vildi eg að við færum
fyrst til Noregs og vita að við næðum Sokka víkingi. Þætti mér
best að losna þaðan eigi fyrr fullkomlega en við hefðum nokkuð
hefnt feðra okkarra."
Ávaldi
bað hann ráða. Síðan keyptu þeir sér skip gott, Íslandsfar,
sigldu þá austur til Noregs og héldu inn í Sogn. En er þeir
fundu Galta sögðu þeir honum alla sína ætlan og ráðagerð.
Galti
mælti: "Það ber nú vel til. Sokki víkingur og bróðir hans er
Sóti heitir liggja nú einskipa héðan skammt í brott og sofa
þeir á landi um nætur í einu lofti. En eg skal fá ykkur til
fylgdar mann þann er Steinn heitir. Hann er kunningi
víkinganna og munu þeir hann ekki varast."
Fóru
þeir Óttar þá til skips síns og lögðu út um akkeri. Þá var
kominn á vindur byrvænlegur. Síðan fóru þeir til lands þrír
saman á einum báti litlum, Óttar, Ávaldi og Steinn. Þeir lentu
í leyni skammt frá bæ þeim er þeir Sokki sváfu um nóttum. Þeir
gengu upp frá ströndu. En er þeir komu nær bænum þá gekk
Steinn til fundar við víkinga og fékk sér til erindis slíkt er
honum sýndist. Kom hann sér þegar á tal við Sokka og drakk með
þeim um kveldið. En er þeir gengu að sofa er mikið var af nótt
þá gerði Steinn vísbending þeim Óttari. Víkingarnir voru sjö
saman. Komu þeir í loftið og tóku að afklæðast. Brann þar ljós
og var bjart inni en úti var niðamyrkur sem mest. Þá Óttar og
Ávalda bar að skjótt svo að þeir gengu þá neðan á riðið er
víkingar þeir er síðast gengu voru komnir í ofanvert. Snöruðu
þeir inn í loftið. Lagði Óttar sverði til Sokka neðan undir
brynjuna og svo upp í kviðinn að það varð þegar hans bani.
Ávaldi hjó til Sóta með sverði í því er hann steypti af sér
brynjunni og sneið af honum báða þjóhnappana. Síðan hljópu
þeir út og ofan fyrir riðið og Steinn með þeim, létu þá
myrkrið gæta sín. Fóru þeir til bátsins og svo út til
kaupskipsins. Byr var á blásandi. Undu þeir segl upp þegar er
lýsti og létu ganga út á haf og þóttu þeir hafa heldur
skörulega ráðið til hefnda.
En
er Gunnhildur konungamóðir spurði þessi tíðindi mælti hún:
"Það er illa orðið er eg leiddi ekki þá menn augum er vini
vora hafa drepið og skammað. En eg veit eigi hverjir gert hafa
og verður þó nú svo að standa."
Þeim
Óttari byrjaði vel. Komu þeir skipi sínu fyrir norðan land í
Blönduósi. Áður voru þar numin lönd. Óttar keypti land í
Grímstungu í Vatnsdal að þeim manni er Einar hét og gaf við
kaupskipið. Setti Óttar þar bú saman. Ávaldi var hinn fyrsta
vetur með Óttari. Hann var kallaður Ávaldi skegg. En um vorið
keypti hann land að Hnjúki í Vatnsdal og fékk þeirrar konu er
Hildur hét. Hún var dóttir Eyvindar sörkvis. Þeirra dóttir hét
Kolfinna. Hún var væn kona og ofláti mikill.
Ólafur
hét maður er bjó að Haukagili. Ólafur var maður auðigur og
vinsæll. Kona hans hét Þórhalla dóttir Ævars hins gamla úr
Langadal. Dóttir þeirra Ólafs og Þórhöllu hét Ásdís. Hennar
bað Óttar í Grímstungu og fékk með miklum peningum. Þau gátu
son er hét Hallfreður. Hann var kallaður eftir móðurföður
Óttars. Annar son Óttars hét Galti. Valgerður hét dóttir
þeirra Óttars og Ásdísar. Hún var kvenna fríðust sýnum þeirra
er þá voru í Vatnsdal.
Ólafur
að Haukagili fóstraði Hallfreð dótturson sinn. Var hann þar
vel haldinn. Hallfreður var snemmendis mikill og styrkur að
afli, karlmannlegur að allri skapan, nokkuð skolbrúnn og
nefljótur en þó vel farið andlitssköpunum, jarpur á hár og fór
vel hárið. Hann þótti heldur margbreytinn þegar hann var
nokkuð þroskaður. Skáld var hann þegar á unga aldri og
allníðskár. Ekki var hann mjög vinsæll.
Þá
var Hallfreður nær tvítugur er hann lagði hug á Kolfinnu
dóttur Ávalda skeggs. Ávalda var lítið um að Hallfreður glepti
dóttur hans en hann vildi gifta honum Kolfinnu. Hallfreður
vildi eigi kvongast.
Þá
bjó á Mársstöðum Már son Jörundar háls. Hann var vinur Ávalda
skeggs. Ávaldi fór að finna Má og sagði honum hvern ójafnað
Hallfreður gerði honum.
Már
svarar: "Hér eru skjót úrræði til. Eg skal fá mann til að
biðja Kolfinnu dóttur þinnar. Maður heitir Grís og er
Sæmingsson. Hann býr út í Langadal fyrir Geitaskarði. Hann er
vinur minn. Grís er maður auðigur og vinsæll. Hann hefir farið
vel, verið allt út í Miklagarð og fengið þar mikla sæmd af
stólkonunginum."
Fór
þá Ávaldi heim en Már sendi orð Grís vin sínum. Kom hann á
Mársstaði.
En
er þeir Már tóku tal saman þá mælti Már: "Ráð ætla eg að gera
fyrir þér að þú skalt biðja Kolfinnu dóttur Ávalda skeggs. Er
sá kostur bestur, kona fríð en fé skortir eigi."
Grís
játar þessu og ríða þeir Már til Ávalda við sjöunda mann.
Ávaldi fagnaði þeim vel. Gengu þeir allir inn með bónda en
settu úti spjót sín. Grís átti gullrekið spjót. Þeir tóku tal
sitt og flutti Már bónorðið fyrir hönd Gríss. Ávaldi tók því
vel, kvaðst þar vilja hlíta ráðum Más "og ef konunum líst svo
sem mér þá mun honum eigi frá vísað."
Lauk
svo þeim málum að Kolfinna var föstnuð Grísi.
En
meðan þeir sátu inni að þessum málum kom Hallfreður á bæinn
við annan mann. En er þeir sáu spjótin úti mælti Hallfreður
til síns förunauts: "Komnir munu hér vera menn nokkurir um
langan veg. Gæt þú hesta okkarra en eg mun ganga til dyngju
Kolfinnu."
En
er þau fundust spurði hann hvað komið væri "en eigi mun þurfa
að spyrja að," segir hann, "maður mun kominn að biðja þín. En
ekki trúi eg að það verði vel svo búið."
Kolfinna
svarar: "Lát þú þá fyrir sjá er ráða eigu."
"Það
ráð skal eigi hafa," segir hann, "þó að þér þyki biðill þinn
nú þegar betri en eg."
Gengu
þau Hallfreður þá út og setti hann Kolfinnu í kné sér hjá
dyngjuvegginum. Í því komu menn út. Grís var augdapur.
Hann
mælti: "Hverjir eru þessir menn er svo talast við blíðlega?"
Ávaldi
svarar: "Þar er Hallfreður Óttarsson og Kolfinna dóttir mín."
Grís
mælti: "Er þessu vant?"
"Oft
ber svo að," segir Ávaldi, "en þú átt nú af að ráða þessi
vandræði er hún er þín festarkona."
Grís
mælti: "Svo virði eg að þetta sé gert til glettni við mig."
Þá
mælti Hallfreður: "Vita skaltu það Grís að þú skalt hafa minn
fjandskap fullkominn ef þú ætlar þér þenna ráðahag."
Már
svarar: "Engis virði eg orð þín hér um því að þau munu engis
metin um þetta og mun Ávaldi ráða eiga dóttur sinni."
Þá
kvað Hallfreður vísu:
Svo
nökkvi verðr sökkvis
sannargs
troga margra
ægilegs
fyrir augum
allheiðins
mér reiði
sem
ólítill úti
alls
mest við för gesta,
stæri
eg brag, fyrir búri
búrhundur
gamall stúri.
"Og
hirði eg ekki, Blót-Már, hvað þú leggur til."
Már
mælti: "Það skal þér grimmu gjalda ef þú flimtir mig."
Hallfreður
svarar: "Eg mun ráða orðum mínum."
Reið
hann þá í brott og förunautur hans. Már sagði að eigi mátti
svo búið standa og bað þá ríða eftir Hallfreði. Þeir gerðu
svo. Fékk Ávaldi þeim tvo menn og voru þeir þá saman níu.
Hallfreður
átti heima að Haukagili. Ólaf fóstra hans grunaði um ferðir
þeirra Márs og Gríss. Sendi hann þegar til Óttars og lét segja
honum allan málavöxt að Hallfreður mundi þurfa manna við.
Óttar brá við þegar er honum komu orð. Bjó hann sig og alla þá
menn er hann fékk. En er hann kom til Haukagils þá var Ólafur
vopnaður og kominn á hest og allir húskarlar hans.
3. kafli
Nú
er að segja frá Hallfreði. Þeir ríða tveir undan en níu eftir.
En
er hvorir sáu aðra þá mælti Hallfreður: "Eftirför er okkur
veitt og skulum við aldrei lengur láta eltast."
Þeir
voru þá komnir hjá holti nokkuru. Mælti Hallfreður að þeir
skyldu þar við búast. Þeir Grís komu skjótt og sóttu að þeim
en þeir vörðust vel og drengilega. En þó kom að því sem mælt
er að ekki má við margnum. Lauk svo að þeir voru báðir
handteknir og bundnir.
Var
það mjög jafnskjótt að þeir Grís voru á bak komnir og hann
mælti: "Menn ríða hér að oss og munu vera eigi færri saman en
þrír tigir. Má vera að sigurinn verði ekki langær."
Riðu
þeir þá mikinn undan og leituðu sér vígis. Þeir námu staðar
við götuskarðið er þeir komu yfir Vatnsdalsá. Óttar kom að
ánni með þrjá tigu manna. Grís heilsaði Óttari og spurði hvað
hann vildi við mannfjölda svo mikinn.
Óttar
svarar: "Hvar er Hallfreður frændi minn?"
Grís
mælti: "Bundinn er hann en eigi drepinn og liggur hann undir
holti því er vér komum saman."
Óttar
mælti: "Óvirðulega hafið þér við hann búið þó að sakar væru
nokkurar eða viltu Grís unna mér eindæmis um þetta mál?"
Grís
svarar: "Reyndur ertu að drengskap og vil eg þessu játa."
Festu
þeir þetta sín í millum og skildust sáttir. Sneri Óttar þá
aftur við sína menn. Hann fann þá Hallfreð og leysti þá.
Óttar
mælti: "Eigi er ferð þessi frændi orðin virðuleg."
Hallfreður
sannaði það og spurði ef þeir Grís hefðu fundist. Óttar kvað
svo vera og sagði hvað að sættum varð með þeim.
Hallfreður
mælti: "Eigi hirði eg faðir hversu þú gerir um þetta mál ef
Grís fær eigi Kolfinnu."
"Því
skaltu eigi ráða," segir Óttar, "hann skal eiga konuna því að
hann trúði mér til gerðarinnar. En þú skalt fara utan frændi
og leita þér þar meiri sæmdar og heilla."
Hallfreður
svarar: "Vant er þó að vita hverjir mér eru trúir ef feðurnir
bregðast. Mun nú og svo fara að hvorgi okkar mun hafa vel.
Skaltu eigi einn ráða hér um því að það skal fyrst að hendi
bera þegar eg finn Grís að eg skal bjóða honum hólmgöngu."
Síðan
skilja þeir feðgar tal sitt. Ríður Óttar heim í Grímstungu en
Hallfreður til Haukagils með Ólafi.
Fám
dögum síðar sendir Ólafur orð Óttari mági sínum að hann skuli
bregða ráðahag með þeim Grís og Kolfinnu, segir ellegar vera
vandræða vant við skaplyndi Hallfreðar. En þeim Ólafi og
Hallfreði koma þau orð að hann vill þeim um ekki vera bágráður
ef hann má um mæla. Var þeim það og sagt með að Óttar var
sjúkur mjög og bað Hallfreð sem skjótast koma til sín því að
Óttar vill skipa til um fjárfar sitt áður hann láti af berast.
Hallfreður fór þegar að finna föður sinn er hann spurði
vanmátt hans. En er hann kom í Grímstungu var Óttar sóttlaus
og lét þegar taka Hallfreð höndum og setja í fjötur.
Þá
mælti Óttar: "Nú eru tveir kostir til Hallfreður, að sitja hér
í fjötri eða láta mig einn öllu ráða fyrir þína hönd."
Hallfreður
svarar: "Eigi hefir þú þó í tveim höndum við mig um
fjandskapinn. Nú muntu heldur ráða hljóta en eg sitji hér í
fjötrum og pínu."
Voru
þá látnir fjötrar af Hallfreði.
Grís
gekk að eiga Kolfinnu og fór hún til bús með honum og varð hún
honum lítt unnandi.
Ólafur
að Haukagili fýsti Hallfreð frænda sinn og fóstra að fara
utan. Hét hann að fá honum fé svo að hann væri vel sæmdur að
fara með öðrum mönnum. Óttar faðir hans talaði og slíkt hið
sama. Hann lauk og upp gerð um mál þeirra Gríss að Grís skyldi
gjalda hálft hundrað silfurs, Hallfreður skyldi fara utan.
Hann
vildi ekki hafa fé það og mælti til þeirra föður síns og
Ólafs: "Sé eg ástráð ykkur við mig. Nú er það líkast að þið
ráðið þessu að sinni er þið leggið svo mikið kapp á að eg fari
utan. En svo segir mér hugur um að löng verði vandkvæði vor
Gríss."
Fór
Hallfreður þá til skips í Hvítá og utan um sumarið.
4. kafli
Í
þann tíma bjó að Hofi í Vatnsdal Þorsteinn Ingimundarson. Hann
var höfðingi mikill, vitur maður, góðgjarn og vinsæll.
Ingólfur hét son hans en annar Guðbrandur. Ingólfur var
vænstur maður í þeim sveitum. Um hann var þetta kveðið:
Allar
vildu meyjar
með
Ingólfi ganga
þær
er vaxnar voru,
vesöl
kvaðst hún æ til lítil.
Svo
vil eg og, kvað kerling,
með
Ingólfi ganga
meðan
mér tvær um tolla
tenn
í efra gómi.
Ingólfur
vandi komur sínar í Grímstungur og átti tal við Valgerði
Óttarsdóttur systur Hallfreðar. Óttar vandaði um við Ingólf og
bað hann létta af komum. Ingólfur svaraði glettilega, kvað svo
skipaðan Vatnsdal að byggðum að hann mundi sjálfráður ferða
sinna og gerist ekki að. Þá fór Óttar á fund Þorsteins og bað
hann leggja til við son sinn að hann gerði mönnum eigi
skapraunir. Þorsteinn svaraði vel og kvað svo vera skyldu.
Litlu
síðar kom Þorsteinn að máli við Ingólf og bað hann létta af
tali við Valgerði dóttur Óttars bónda.
Ingólfur
svarar: "Það skal eg víst gera fyrir þín orð faðir."
Lét
hann þá fyrst í stað af komum í Grímstungur. En hann tók þá að
yrkja mansöngsdrápu um Valgerði. Óttar reiddist því mjög. Fór
hann þá enn að hitta Þorstein og sagði sér í þessu leitað
mikillar ósæmdar.
"Nú
vil eg," segir hann, "að þú leyfir mér að stefna Ingólfi því
að eg nenni eigi að kyrrt sé og spurt munuð þér það hafa að eg
hefi eigi setið mönnum skammir og skapraunir."
Þorsteinn
svarar: "Eigi mun eg banna þér að stefna Ingólfi syni mínum
því að þú talar það eigi fjarri réttu, en meðallagi er þér það
ráðlegt við skaplyndi frænda vorra."
Jökull
Ingimundarson var staddur við þessa ræðu, bróðir Þorsteins.
Hann brást við reiður og mælti til Óttars: "Heyr á endemi,"
segir hann, "að þú munir fara málum á hendur oss frændum hér í
sveit og skal þér það skjótt að illu verða."
Síðan
bauð Þorsteinn að gera um mál þeirra á Húnavatnsþingi og því
játaði Óttar við bæn og ráð vina sinna.
Þá
mælti Þorsteinn: "Skjót er gerð mín hversu sem yður líkar. Eg
geri til handa Óttari fyrir drápumálið hálft hundrað silfurs.
En Óttar skal selja jarðir sínar og ráðast í brottu héðan úr
sveit."
Óttari
þótti sér boðinn í þessu hinn mesti ójafnaður. En Þorsteinn
sagðist hafa eigi síður séð fyrir hans kosti í slíku við
skaplyndi hvorratveggju. Óttar fór þá suður um heiði og bjó í
Norðurárdal þar sem heitir á Óttarsstöðum.
Þá
hafði Hallfreður son hans áður um sumarið farið utan í Hvítá.
Greiddist hans ferð vel og kom við Noreg. Þá réð Noregi Hákon
jarl Sigurðarson. Hallfreður sótti brátt á fund jarls og
kvaddi hann. Jarl tók því vel og spurði hver hann væri.
Hallfreður
nefndi sig og sagðist vera íslenskur maður "en erindi mitt er
það herra," segir hann, "að eg hefi ort kvæði um yður og vildi
eg fá hljóð að flytja."
Jarl
svarar: "Líklegur ertu til að vera maður höfðingjadjarfur og
skal hlýða kvæði þínu."
Hallfreður
flutti kvæðið skörulega og var það drápa. Jarl þakkaði honum
og gaf honum klæði góð og mikla öxi silfurrekna og bauð honum
með sér að vera um veturinn. Það þá Hallfreður.
En
um sumarið eftir fór hann út til Íslands og kom fyrir sunnan
land. Þá hafði faðir hans farið norðan um vorið. Var
Hallfreður með honum um veturinn. Var Hallfreður þá í
siglingum nokkur sumur og kom aldrei fyrir norðan land.
Gerðist hann þá auðigur og átti kaupskipið.
Á
einu sumri er Hallfreður kom af Íslandi lá hann við Agðanes.
En er hann hitti menn að máli var honum sagt að
höfðingjaskipti var orðið í Noregi. Var Hákon jarl dauður en
til ríkis kominn Ólafur konungur Tryggvason. Það var og sagt
með að Ólafur konungur bauð öllum mönnum kristni. Þetta þótti
Hallfreði allt saman mikil tíðindi. Urðu skipverjar allir á
það sáttir að þeir skyldu heita á guðin til þess að þeim gæfi
byr að sigla brottu af Noregi nokkur til heiðinna landa. Svo
var heitið stofnað að þeir skyldu gefa fé og þriggja sálda öl
Frey ef þeim gæfi til Svíþjóðar en Þór eða Óðni ef þá bæri
aftur til Íslands. Þeim gaf eigi á brottu, urðu þá um síðir að
sigla inn á fjörðinn. Lögðu þeir þá til hafnar og náðu eigi
sjálfu læginu því að þar lágu fyrir langskip mörg. Um nóttina
gerði á storm veðurs af hafi en þeir lágu á svæðinu. Höfðu
þeir þá strengjaraun mikla og akkera. Þá var enn nóttin skamma
stund myrk.
En
þegar er lýsti af degi mælti einn af langskipamönnum: "Þessir
menn á kaupskipinu eru komnir háskasamlega því að þeir liggja
þar er mest stendur á veðrið og dugum vel til að hjálpa þeim."
Gengu
þá þrír tigir manna á eitt skip og reru til þeirra. Einn
þeirra sat og stýrði. Sá var í úlpu grænni og mikill vexti.
Þeir komu að kaupskipinu.
Þá
mælti sá er stýrði til kaupmanna: "Þér eruð staddir ekki vel
því að stormur er á en hér fyrir óhreint og skerjótt og skulum
vér greiða ferð yðra."
Hallfreður
mælti: "Hvað heitir þú?"
Hann
svarar: "Eg heiti nú Akkerisfrakki."
En
í því er þeir töluðust þetta við þá brast einn
akkerisstrengurinn og gekk í sundur. Úlpumaðurinn fleygði sér
þegar útbyrðis og gat gripið strenginn í niðurdrættinum og bar
upp í skip.
Þá
er strengurinn brast kvað Hallfreður þetta:
Færum
festar vorar,
ferr
særoka að knerri.
Svörð
tekr heldr að herða.
Hvar
er Akkerisfrakki?
Úlpumaðurinn
var þá upp kominn í skip sitt og svaraði svo:
Enn
í úlpu grænni
eg
fékk dreng til strengja
þann
er hnakkmiðum hnykkir.
Hér
er Akkerisfrakki.
"Ef
þú vilt það vita," sagði hann.
Voru
þá dregin upp grunnfæri þeirra. Reru þessir fyrir kaupskipinu
og fluttu þá í gott lægi. En eigi vissu kaupmenn hver þessi
var úlpumaðurinn. Var þeim þá sagt litlu síðar að þar hafði
verið Ólafur konungur.
Var
konungur þá kominn að norðan er hann hafði ætlað norður á
Hálogaland sem áður er getið. Lagði konungur þá skipum sínum
til Niðaróss. Dvaldist hann þar en var stundum á Hlöðum með
hirðsveitir sínar. Hallfreður hélt og skipi sínu til Niðaróss.
5. kafli
Ólafur
konungur gekk einn dag um stræti en nokkurir menn gengu í móti
honum. Sá fagnaði konungi er fyrstur gekk. Konungur spurði
þann mann að nafni. Hann nefndist Hallfreður.
Konungur
mælti: "Ert þú skáldið?"
Hann
svarar: "Kann eg að yrkja."
Konungur
mælti: "Þú munt vilja trúa á sannan guð en kasta forneskju og
illum átrúnaði. Þú ert maður skörulegur og einarðlegur og er
þér einsætt að þjóna eigi lengur fjanda."
Hallfreður
svarar: "Vel getur þú um talað konungur en eigi mun eg láta
kauplaust skírast."
Konungur
mælti: "Hvað er til mælt?"
"Það,"
sagði Hallfreður, "að þú konungur sjálfur veitir mér
guðsifjar. Af engum manni öðrum vil eg það embætti þiggja."
Konungur
sagði að hann vill það til vinna. Var þá Hallfreður skírður og
allir hans skipverjar. Hélt Ólafur konungur Hallfreði undir
skírn. Þess getur Hallfreður í einni drápu er hann orti um
Ólaf konung:
Hlaut
eg þann er æðstr var einna,
eg
sanna það, manna
undir
niðbyrði Norðra
norðr
guðföður orðinn.
Síðan
er Hallfreður var skírður fékk konungur hann í hendur
móðurbræðrum sínum, Karlshöfði og Jósteini, að þeir skyldu
kenna honum credo og pater noster. Tóku þá og trú Brandur hinn
örvi og þeir bræður, synir Breiðár-Skeggja og allir aðrir
Íslendingar þeir sem þar voru í bænum.
6. kafli
Hallfreður
skáld Óttarsson var með Ólafi konungi. Hann gekk einn dag
fyrir konung og bað hann hlýða kvæði því er hann hafði ort um
Ólaf konung. Konungur kvaðst eigi hlýða vilja kvæði hans.
Þá
mælti Hallfreður: "Þú munt því ráða herra. En týna mun eg þá
þeim fræðum er þú hefir látið kenna mér ef þú vilt eigi hlýða
kvæðinu því að ekki eru þau fræði skáldlegri en kvæðið."
Konungur
mælti: "Vandræðaskáld ert þú við að eiga og skal hlýða kvæði
þínu."
Hallfreður
flutti kvæðið skörulega. Var það drápa.
En
er lokið var mælti konungur: "Þetta er gott kvæði og vel ort.
Viltu nú gerast minn maður og vera með mér?"
Hallfreður
svarar: "Eg var fyrr hirðmaður Hákonar jarls. Nú mun eg ekki
gerast þér handgenginn og engum öðrum höfðingja nema þú heitir
mér því að mig hendi enga þá hluti er þú segir mig þér
afhendan eða rekir mig frá þér."
Konungur
svarar: "Þannig er bragð á þér að þú mundir fás svífast og
láta þér margt sóma. Ganga og þær sögur heldur frá lyndi þínu
að mér þykir eigi örvænt að þú farir nokkurum þeim hlutum fram
er eg vil fyrir engan mun við sæma."
Hallfreður
svarar: "Þar fæ eg skjótt ráð til, drep þú mig þá."
Konungur
mælti: "Víst ert þú vandræðaskáld en minn maður skaltu þó
vera."
"Enn
er samt um viðurnefnið," sagði Hallfreður, "hvað gefur þú mér
að nafnfesti ef eg skal vandræðaskáld heita?"
Konungur
svarar: "Sé eg að þetta vilt þú kenningarnafn eiga og þigg hér
af mér sverð heldur frítt. En vandi mikill mun þér á þykja því
að engi skal umgerðin fylgja og varðveit svo þrjár nætur og
þrjá daga að engum manni verði mein að."
Þá
kvað Hallfreður:
Veit
eg að vísu skreyti
víðlendr
konungr sendi
nökktan
brand af nökkvi.
Nú
á eg Sýrar mey dýra.
Verða
hjölt fyrir herði,
höfum
gramr kera framdan,
skölkving
um þá eg,
skrautleg,
konungsnauti.
Vel
gat Hallfreður varðveitt sverðið.
Hallfreður
lastaði ekki guðin þó að aðrir menn hallmæltu þeim, kvað ekki
þurfa að ámæla þeim þó að menn vildu eigi trúa á þau.
Hann
kvað þetta einn tíma svo að konungur heyrði:
Fyrr
var hitt er harra
Hliðskjálfar
gat eg sjálfan,
skipt
er á gumna giftu,
geðskjótan
vel blóta.
Konungur
mælti: "Þetta er allilla kveðið og er yfirbóta vert."
Hallfreður
kvað:
Öll
hefir ætt við hylli
Óðins
skipað ljóðum,
allgilda
man eg, aldar,
iðju
vorra niðja.
En
trauðr, því að vel Viðris
vald
hugnaðist skaldi,
legg
eg á frumver Friggjar
fjón
því að Kristi þjónum.
Konungur
mælti: "Helsti mikinn hug leggur þú á að lofa goðin og er það
illa virðanda fyrir þér."
Þá
kvað Hallfreður enn:
Höfnum,
hölda reifir,
hrafnblóts
goða nafni,
þess
er ól við lof lýða
lóm,
í heiðnum dómi.
Enn
mælti konungur: "Ekki bætist um og er slíkt verra en eigi gert
og kveð þú nú vísu til yfirbóta."
Hallfreður
kvað:
Mér
skyli Freyr og Freyja,
fjarð
lét eg af dul Njarðar,
líknist
gröm við Grímni,
gramr
og Þór hinn rami.
Krist
vil eg allrar ástar,
erumk
leið sonar reiði,
vald
á frægt und foldar
feðr,
einn og guð kveðja.
Konungur
svarar: "Slíkt er betra en eigi kveðið og yrk enn aðra vísu."
Hallfreður
kvað:
Sás
með Sygna ræsi
siðr
að blót eru kviðjuð.
Verðum
flest að forðast
fornhaldin
sköp norna.
Láta
allir ýtar
Óðins
ætt fyrir róða.
Verð
eg og neyddr frá Njarðar
niðjum
Krist að biðja.
7. kafli
Óttar
hét maður, upplenskur að ætt. Kálfur hét bróðir hans. Þeir
voru hirðmenn Ólafs konungs. Voru þeir með konungi og mikils
virðir af honum en ekki vinsælir við alþýðu. Þeir öfunduðu
Hallfreð skáld. Þótti þeim hann hafa of mikinn gang af
konungi. En Hallfreður vildi ekki vægja fyrir þeim.
Var
það eitt kveld við drykk að sló í mikla deilu með þeim. Var
konungur við staddur og bar hann heldur í hag Óttari ræðuna
því að hann sá að honum mundi eigi endast að þræta við
Hallfreð. Og er konungur var braut genginn tóku þeir að
endurnýja sína deilu. Og um síðir sló í kappmæli með þeim.
Sagði Hallfreður að Óttar mundi sér lítt einhlítur ef þeir
ættust illt við. Lauk svo því tali að Hallfreður hljóp upp og
hjó til Óttars með öxinni Hákonarnaut jarls og veitti honum
banasár. Kálfur greip Hallfreð höndum og menn með honum. Settu
þeir fjötur á fætur honum og bundu hendur hans. Voru það lög
að þann mann skyldi drepa er vægi mann í konungs herbergi.
Síðan
fóru þeir Kálfur til konungs og sögðu honum vígið Óttars,
sögðu þá mega sjá hvað manna Hallfreður var "mun hann svo ætla
að bleðja hirðina," sagði Kálfur, "og er eigi víst hvort hann
hlífir höfðinu ef hann kemst í færi um."
Rægði
Kálfur og þeir félagar Hallfreð á alla vega sem mest þar til
er konungur bað þá drepa hann um daginn eftir. Kálfur var við
það glaður. Varðveittu þeir Hallfreð í járnum um nóttina en
leiddu hann út um morguninn og ætluðu að drepa.
Þá
mælti Hallfreður: "Er sá dauður er eg vann á?"
Þeir
sögðu svo vera.
Hallfreður
svarar: "Þá mun yður það maklegt þykja að eg deyi en hvar er
Ólafur konungur?"
"Hvað
mun þig það varða?" sagði Kálfur. "Dæmt hefir hann þig nú til
dauða."
Hallfreður
mælti: "Ef nokkurir menn eru hér nær staddir, þeir er eg hafi
vel til gert, þá launi þeir mér það nú svo að þeir láti leiða
mig þar nær sem konungurinn er. Vil eg þakka honum hirðvist."
Þá
kom það fram sem mælt er að hver á sér vin með óvinum. Voru
þeir menn þar er við könnuðust að Hallfreður hafði til góðs
við gert og leiddu hann þaðan skammt frá því er Ólafur
konungur var úti staddur og hirðbiskup hans, Sigurður.
En
er Hallfreður kom nærri þeim mælti hann til konungs: "Minnist
þér nú þess herra að þér hafið mér því heitið að segja mig
yður aldrei afhendan og verðið eigi heitrofi við mig, ella mun
nú skemmri verða vor samvist en eg vildi að væri. Sá er annar
hlutur til að telja að þú ert guðfaðir minn."
Biskup
mælti: "Fyrir guðs sakir herra, látið manninn njóta slíkra
hluta svo stórra og góðra."
Ólafur
konungur svarar: "Svo skal vera herra biskup sem þér beiðið"
og bað þá leysa hann skjótt og svo var gert. Líkaði Kálfi
þetta allþungt. Hallfreður var enn með hirðinni og var
konungur þó færri til hans en áður en þó bætti hann þetta víg
fyrir Hallfreð.
Það
var einn dag er Hallfreður stóð fyrir konungi að hann féll til
fóta honum. Sá konungur að hann felldi tár og spurði hvað
honum þætti svo mikið.
Hallfreður
mælti: "Nær fellur mér reiðin yður herra og henni vildi eg
gjarna af mér koma."
Konungur
svarar: "Svo skal vera. Þú skalt fara sendiför mína og skulum
við vera sáttir ef þú kemur ferðinni fram. Eða hvort átt þú
sverðið það er eg gaf þér?"
"Á
eg víst herra," segir hann, "og hefir það ekki í umgerð komið
en þó hefir engum manni mein að því orðið."
Konungur
mælti: "Það samir svo vel að vandræðaskáldið eigi
vandræðagripinn eða muntu kunna að yrkja vísu svo að nefna
sverð í hverju vísuorði?"
Hallfreður
svarar: "Við mun eg leita ef þér viljið herra og allt vil eg
til þess vinna að koma af mér yðvarri reiði."
Þá
kvað Hallfreður:
Eitt
er sverð það er sverða
sverðauðgan
mig gerði.
Fyrir
svip-Njörðum sverða
sverðótt
mun nú verða.
Munat
vansverðað verða,
verðr
em eg þriggja sverða,
jarðarmens
ef yrði
umgerð
að því sverði.
Konungur
þakkaði honum vísuna og sagði honum mikla íþrótt í skáldskap
sínum og gaf honum þá umgerð að sverðinu, mjög vandaða, og
mælti: "Nú skulum við vera sáttir og þó að þig hendi víti að
þú komir eigi til borðs eða kirkju sem aðrir menn eða annað
slíkt þá skal þér upp gefa framar en flestum öðrum."
Hallfreður
þakkaði konungi mjúklega sinn blíðskap.
8. kafli
Einn
dag litlu síðar bar svo til að konungur spurði hvar Hallfreður
skáld væri.
Kálfur
svarar: "Hann mun nú hafa vanda sinn og blóta á laun. Er það
til marks að hann hefir í pungi sínum líkneski Þórs af tönn
gert og ert þú konungur of mjög dulinn að honum og færð hann
eigi sannreyndan."
Konungur
lét Hallfreð þegar kalla til sín og er hann kom mælti
konungur: "Ertu Hallfreður sannur að því sem þér er kennt að
þú hafir líkneski Þórs í pungi þínum og blótir?"
Hallfreður
svarar: "Eigi er eg þessa valdur herra. Er hér skjót raun til.
Skal nú í stað rannsaka pung minn. Hefi eg nú ekki undanbragð
mátt hafa þó að eg vildi því að mig varði eigi þessa áburðar."
Var
hann þá rannsakaður og fannst engi sá hlutur í vitum hans að
til þess væri líklegur sem Kálfur hafði sagt á hann.
Þá
mælti Hallfreður til Kálfs: "Þetta er sannlega dauðaróg. Skal
þér og þetta að hörðu verða ef eg nái svo til þín sem eg
vildi. Þú hefir og enn fyrr tekið mig með valdi og varst þá
búinn að veita mér bana. Var þá nokkur sök til en nú engi nema
lygi þín og róg."
Konungur
mælti: "Eigi er ykkur saman vært. Nú skal Kálfur fara til búa
sinna. Mun hann ekki þá rægja þig eða aðra menn við mig. En þú
Hallfreður," sagði konungur, "skalt fara sendiför mína á
Upplönd til þess manns er heitir Þorleifur hinn spaki. Þessi
Þorleifur er dótturson Þorleifs Hörða-Kárasonar. Þorleifur
vill eigi við kristni taka. Nú skaltu drepa hann eða blinda.
Skal eg leggja til ferðar þessar með þér mína gift og
hamingju. Haf þú og með þér svo marga menn sem þér líkar. En
sent hefi eg fyrrum menn til Þorleifs og hafa þeir engu á leið
komið við hann því er eg vildi."
Hallfreður
svarar: "Eigi sýnist mér ferð þessi rífleg. En gjarna vil eg
fara hvert er þér viljið senda mig. Vil eg að Jósteinn
móðurbróðir yðvar fari með mér og bekkjunautar mínir, þeir sem
eg kýs, svo að vér séum saman fjórir menn og tuttugu."
Síðan
var búin ferð þeirra. Riðu þeir þar til er þeir komu í skóg
einn skammt frá bæ Þorleifs. Þar stigu þeir af hestum sínum í
rjóðri nokkuru.
Þá
mælti Hallfreður: "Nú skal eg ganga til bæjar en þér bíðið mín
hér til hins þriðja dags ef þess þarf við en þér farið brottu
leið yðra ef eg kem eigi aftur um það."
Jósteinn
bauð að fara með honum en Hallfreður vildi það eigi.
Hallfreður tók sér stafkarlsgervi og lét breyta sem mest
ásjónu sinni. Hann lét leggja lit í augu sér en sneri um
hvörmunum og lét ríða leiri og kolum í andlit sér. Hann gerði
sér mikið skegg og lét það líma við höku sér og kjálka. Var
hann þá með öllu ókennilegur og gamallegur. Síðan lagði hann á
bak sér tötrabagga langvaxinn og var þar í sverðið
konungsnautur. Gekk Hallfreður svo búinn heim á bæinn snemma
dags.
Þorleifur
var því vanur, sem mjög var fornmennis háttur, að sitja löngum
úti á haugi einum eigi langt frá bænum og svo bar nú að móti
er Hallfreður kom. Hallfreður gekk að hauginum. Fór hann
heldur seint og stumraði mjög. Hafði karl þröngd mikla og
hrækti mjög í skeggið, rengdi til augun þó að óskyggn væri ef
hann sæi nokkuð manna úti. En er hann kom að hauginum heilsaði
Þorleifur honum og spurði hvað manna hann væri.
Hann
svarar: "Eg er einn gamall maður, fátækur sem sjá má, hrumur
af vosi og nú mest af kuldum er eg hefi rekist úti á skógum í
allan vetur. Varð eg fyrir mönnum Ólafs konungs snemma á
hausti norður í Þrándheimi. Var eg færður konungi og vildi
hann brjóta mig til kristni. En eg hljópst í brottu leynilega
og drap eg áður einn konungsmann. Nú hefir mig angrað síðan
hungur og frost er eg hefi farið huldu höfði en eg mundi enn
brátt hressast ef mér væri við hjúkað. Hefi eg því hingað
leitað að mér er sagt að þú sért góður drengur og mörgum
hjálparmaður þeim er þín þurfa. Vil eg biðja að þú veitir mér
ásjá nokkura."
Þorleifur
svarar: "Eigi veit eg hvað af því verður. En þó muntu hafa
farið víða og vera maður fróður ef þú ert gamall. Hefir þú og
tungubragð ekki ómjúklegt."
Tók
hann þá að spyrja hann margs, bæði um landaskipan og örnefni.
Karl leysti úr því öllu fróðlega er hann spurði.
Þorleifur
mælti: "Var nokkuð sá maður með Ólafi konungi er Hallfreður
hét? Hann dreymir mig oft en þó er það ómerkilegt. En koma
munu hér konungsmenn brátt."
Karl
svarar: "Heyrt hefi eg getið hans Hallfreðar og sjaldan að
góðu. Hafði eg þess og fullar raunir að hann var þar því að
hann var einn af þeim mönnum er mig færðu konungi."
Í
þessu stumraði karl upp á hauginn til hans.
Þorleifur
mælti: "Eigi veit eg hvað manna þú ert eða hvað þú segir en
eigi verður þú mér alllítill fyrir augum."
Ætlaði
hann þá upp að standa en Hallfreður þreif til hans og keyrði
undir sig því að hann var miklu sterkari. Þeir ultu ofan fyrir
hauginn og varð Hallfreður efri. Hann setti þegar hæl á auga
Þorleifs og hleypti út úr höfðinu.
Þá
mælti Þorleifur: "Nú kemur það fram sem mér hefir lengi ótti
og áhyggja verið að þér Hallfreður. En eigi ertu nú einn að,
því að konungsgæfan fylgir þér. Eg þykist vita að það mun
konungs boðskapur vera að þú blindir mig eða drepir. En nú vil
eg biðja að þú gefir mér annað augað en eg gef þér í móti hníf
og belti og er hvorttveggja gersemi en koma þér síðan að liði
ef svo ber til því að vera kann að einn tíma þurfir þú
fulltings manna."
Hallfreður
svarar: "Það geri eg fyrir engan mun að þiggja af þér gjafar
eða góðgripi til þess að brjóta konungs boðskap hér um. Heldur
mun eg það með öllu á mig taka að gefa þér kauplaust annað
augað."
Þorleifur
þakkaði honum augagjöfina og skildu að því. Fór Hallfreður til
sinna manna í skóginn og varð þar fagnafundur með þeim. En
Þorleifur gekk heim til bæjar síns og sagði engum manni
áverkann fyrr en Hallfreður var allur í brottu.
Þeir
Hallfreður riðu leið sína og komu þar um farinn veg sem Kálfur
átti bú. Hann var úti á akri að sá korni sínu.
Þá
mælti Hallfreður: "Nú ber vel til og skal drepa Kálf
illmenni."
Jósteinn
svarar: "Gerum það eigi að blanda svo ógiftu við auðnu."
Hallfreður
svarar: "Eigi skiptir þá að höguðu til. Góður drengur er
meiddur en vér látum mannskræfu þessa lifa og eigi nenni eg
því að marka hann eigi að minnsta kosti."
Hljóp
Hallfreður þá af baki og greip Kálf höndum og stakk úr honum
annað augað. Kálfur þoldi illa meiðslin og bar sig lítt.
Hallfreður
mælti: "Nú sýnir þú enn á þér greyskapinn. Var og þess von að
mikið mundi skilja hreysti og drengskap með ykkur Þorleifi
spaka."
Riðu
þeir Hallfreður þá leið sína þar til er þeir fundu konung.
Konungur fagnaði þeim og spurði tíðinda. Hallfreður sagði að
hann hefði blindað Þorleif.
Konungur
mælti: "Þá hefir þú vel sýst og sýn mér augu hans."
Hallfreður
tók augað Kálfs og sýndi honum.
Konungur
mælti: "Hvar fékkst þú slíkt auga? Muntu nú hafa fleira gert
en eg bauð þér því að ekki hefir Þorleifur átt þetta auga."
Hallfreður
sýndi honum þá annað auga.
Konungur
mælti: "Þetta er auga Þorleifs og seg nú satt hvað þú hefir
gert."
Hallfreður
sagði þá að hann hafði blindað Þorleif öðru auganu en stungið
annað úr Kálfi.
Konungur
svarar: "Þá hefir þú enn eigi betur en hálfgert mitt erindi og
muntu nú vilja fara í annað sinn og færa mér augað Þorleifs
það er eftir er."
"Það
vil eg eigi," segir Hallfreður, "að ræna Þorleif því auganu
sem eg gaf honum áður. En fara mun eg til Kálfs ef þér viljið
og blinda hann með öllu eða drepa því að eg hefi enn eigi meir
en hálflaunað honum það er hann stangaði mig með spjótsoddi og
rak mig til bana bundinn sem þjóf. Er það sannast í að eg
gerði því ekki meira að honum að mér þykir til engis vera að
eiga við mannlæru þá."
Konungur
kvað þá svo standa skyldu. Var Hallfreður þá með konungi í
góðri sæmd.
9. kafli
Einn
dag um vorið er Hallfreður vandræðaskáld var fyrir konungi
mælti hann: "Leyfi vildi eg þiggja af yður herra að sigla í
sumar kaupferð suður til Haleyrar."
Konungur
mælti: "Eigi skal það banna þér. En svo segir mér hugur um að
eigi munir þú ófúsari aftur koma til mín en nú ferð þú í brott
og mart mun áður líða yfir hagi þína."
Hallfreður
svarar: "Til þess verður nú að hætta."
Eftir
það bjóst Hallfreður og sigldi til Danmerkur sem hann hafði
ætlað. Hann hafði spurn af Sigvalda jarli að hann var höfðingi
mikill. Hallfreður kom á fund hans og sagðist hafa ort um hann
kvæði. Jarl spurði hver hann væri. Hallfreður sagði nafn sitt.
Jarl
mælti: "Ert þú skáld Ólafs konungs Tryggvasonar?"
"Svo
er," sagði Hallfreður, "og vildi eg nú hljóð fá að flytja
kvæðið."
Jarl
svarar: "Hví mun oss það eigi sæmilegt er Ólafur konungur
lætur sér vel líka?"
Hallfreður
færði kvæðið. Það var flokkur. Jarl þakkaði honum og gaf honum
gullhring þann er vó hálfa mörk og bauð honum með sér að vera.
Hallfreður
svarar: "Hafið þökk fyrir boðið herra. En eg á erindi til
Svíþjóðar og verð eg þó fyrst að venda aftur til Noregs þá er
eg verð liðugur."
Jarl
bað hann gera sem hann vildi.
Að
áliðnu sumri sigldi Hallfreður sunnan til Víkurinnar og fékk
storm veðurs. Brutu þeir skipið austan fjarðar og týndu fé
öllu. Fór Hallfreður þaðan til Konungahellu og dvaldist þar um
hríð.
Svo
bar til einn dag er Hallfreður gekk út að maður kom í mót
honum. Kvaddi hvor annan og spurði Hallfreður hver þessi maður
væri.
Hann
svarar: "Eg heiti Auðgísl, gauskur maður. Á eg á Gautlandi bú
og konu en þó er eg nú að kominn vestan af Englandi. Skortir
mig eigi auð. Eða ertu Hallfreður vandræðaskáld?"
Hann
kvað svo vera.
Auðgísl
mælti: "Eg hefi spurt að þú hefir verið í skipsbroti og ert nú
orðinn mjög svo öreigi og féþurfi. Nú mun eg slá kaupi við þig
að þú far með mér austur á Gautland til veturvistar. En eg
skal gefa þér tíu merkur silfurs til fylgdar því að mér er
sagt að þín fylgd sé vel kaupandi en vegurinn er kallaður ekki
hreinn og setjast af því margir aftur þeir er fara vildu."
Hallfreður
svarar að hann vill þenna kost. Eftir það bjuggust þeir og
höfðu klyfjaða fimm hesta og einn lausan. Fóru síðan austur á
markir tveir saman.
Og
einn dag sáu þeir að maður fór í móti þeim. Sá var mikill og
styrklegur. Þeir spurðu hver hann væri.
Hann
svarar: "Eg heiti Önundur. Eg er sænskur að ætt og nú austan
að kominn. Eða hvert ætlið þið að fara?"
Þeir
sögðu honum.
Önundur
mælti: "Vandfært er mjög er austur sækir á skóginn, þeim er
ókunnigt er. Geta þess og sumir menn að ekki farist vel þeim
mönnum vegurinn er með fé fara. En þó varð eg við engan háska
var og er það eigi mark því að mér eru hér allar leiðir kunnar
og veik eg hjá alls staðar þar er spellvirkjabælin eru vön að
vera. Nú mun eg ráðast til ferðar með ykkur ef þið viljið gefa
mér leigu nokkura."
Auðgísl
svarar: "Lítið er mér um það. Veit eg eigi hver þegn þú ert."
Hallfreður
var heldur eggjandi að þeir tækju við honum og það varð.
Skyldi hann hafa tólf aura silfurs í leigu. Hallfreður var þá
sem þroskamestur. Hann var bæði mikill maður vexti og afrendur
að afli, hraustur og skjótur til áræðis. Auðgísl var við aldur
og ekki styrkur maður. Þeir fóru nú leið sína og voru þrír
saman. Önundur fór fyrir um daginn og komu að sæluhúsi nokkuru
um kveldið.
Þá
mælti Hallfreður: "Nú munum vér eiga þrenn verk fyrir höndum
og skaltu Önundur viða heim til eldibranda oss, þú hefir öxi
mikla í hendi, en Auðgísl skal gera eld en eg mun taka vatn."
Önundur
svarar: "Það mun best að viða heim ótæpilega til hússins því
að hér kunna oft menn að koma og þurfa eldivið."
Hallfreður
kvað það vel mælt.
Auðgísl
mælti: "Heldur vil eg sækja vatnið en þú gerir eldinn."
"Látum
svo þá," sagði Hallfreður.
Þeir
fóru nú, Auðgísl að sækja vatn en Önundur eftir viðinum en
Hallfreður sló eld og tendraðist eigi skjótt. Þótti honum og
þeir og verða heldur seinir til hússins. Hallfreður hafði
leyst af sér beltið og kastað á háls sér. Var þar við
tygilhnífur mikill sem þá var mönnum títt að hafa og lá
hnífurinn aftur á bak Hallfreði er hann lagðist niður að
kveikja eldinn. Þá kom Önundur inn með viðinn og kastaði honum
skjótt niður en hann snaraði að Hallfreði sem harðast með
reidda öxina og hjó til hans tveim höndum um þvert bakið. Kom
öxin í hnífinn og skeindist Hallfreður lítt tveim megin á
hrygglundunum er öxarhyrnurnar námu. En í því er hann heyrði
að öxin reið að honum fékk hann það fangaráð að hann greip hið
neðra til fótanna Önundi.
Hét
Hallfreður þá á guð og mælti: "Dugi þú nú Hvíta-Kristur að
eigi stígi sjá mann fjandi yfir mig ef þú ert svo máttugur sem
Ólafur konungur lánardrottinn minn segir."
Og
með guðs miskunn og gift Ólafs konungs er jafnan stóð yfir
honum þá gat hann rést upp með Önund og rak hann niður fall
svo mikið að hann lá í óviti og hraut öxin úr hendi honum.
Hallfreður brá litlu saxi er hann var gyrður með undir
klæðunum. Vitkaðist þá Önundur. Hallfreður spurði hvort hann
hefði drepið Auðgísl. Hann kvað svo vera. Hallfreður lagði
saxinu í gegnum hann, dró hann síðan út og byrgði húsið.
Ætlaði Hallfreður þá að taka á sig náðir en þess gerðist varla
kostur því að Önundur braust á hurðina fast en Hallfreður stóð
við innan. Gekk því allt til dags.
Um
morguninn fann Hallfreður Auðgísl drepinn við brunninn. Tók
hann af honum hníf og belti og hafði með sér. Það voru góðir
gripir. Síðan gróf hann Auðgísl. Sá Hallfreður þá að Önundur
mundi verið hafa spellvirki og drepið menn til fjár sér. Var
hús það mjög svo fullt af fé og alls konar varningi.
Þá
kvað Hallfreður vísu:
Ól
eg, þar er aldrei véla
auðgildanda
vildag,
hyrjar
njót á hvítu
hrafnvíns
fé mínu.
Vann
eg til góðs fyrir grenni
gunnmárs,
sem eg kunni,
en
fúrskerðir færði
fjörtál
að mér hjörva.
Síðan
fór Hallfreður austur á fjallið og varð eigi greiðfært því að
hann kunni illa leiðir. Og að kveldi eins dags heyrði hann
viðarhögg fram á skóginn fyrir sig. Reið hann þangað eftir.
Því næst fann hann rjóður í skóginum og var þar maður fyrir og
felldi við. Þessi maður var mikill og þreklegur,
rauðskeggjaður, skolbrúnn og heldur illmannlegur. Sá heilsaði
honum og spurði hver hann væri. Hallfreður sagði til sín og
spurði í móti hver hann væri.
"Eg
heiti Björn," segir hann. "Bý eg hér fyrir austan skóginn. Far
þú til gistingar með mér. Eg á húsakynni góð og má eg vel
varðveita að varningi þínum."
Hallfreður
þá boð hans og fór með honum því að Hallfreði var þar ókunnigt
um byggðir. En nokkuð þótti honum bóndi grunsamlegur. Sýndust
Hallfreði fékrókar í augum hans. Björn var allbeinn við hann
um kveldið. Var þar margt manna. Og er til rekkna var farið lá
bóndi og húsfreyja í lokhvílu einni. Þar voru tvær rekkjur.
Var Hallfreði skipað í aðra. En er þau höfðu niður lagist þá
var skotið aftur lokhvíluhurðinni og sett á hespa fyrir
framan. Hallfreður grunaði Björn því meir. Hann hafði ekki
farið af klæðunum. Stóð hann upp við fótaþilið og brá sverðinu
konungsnaut. Í því bili lagði Björn í rúmið en Hallfreður hjó
hann þegar banahögg. Húsfreyja hljóp upp æpandi. Hét hún á
heimamenn, bað þá duga til og höndla þenna glæpamann er drepið
hafði bónda hennar saklausan. Stóðu menn þegar upp. Var þá
kveikt ljós og lokið upp hvílugólfinu. Hallfreður bjóst til
varnar en húsfreyja bar klæði á vopn hans. Var hann þá
handtekinn og fjötraður.
Síðan
sendi húsfreyja orð þeim manni er hét Ubbi og var kallaður
Blót-Ubbi. Vildi hún taka ráð af honum hvað gera skyldi við
þenna hinn útlenda mann er drepið hafði bónda hennar. En hann
lagði það til að hann væri færður á þing og þar dæmt um mál
hans af öllum samt byggðarmönnum. Bróðir Ubba hét Þórar. Hann
var auðigur maður og réð mestu í því héraði. Dóttir Þórars hét
Ingibjörg. Hún var vitur kona og hinn mesti kvenskörungur. Þá
konu hafði Auðgísl átta.
Nú
var fundur stefndur. Kom Þórar þar og Blót-Ubbi. Þar kom og
Ingibjörg dóttir Þórars. Var þá talað um mál þessi. Kom það
helst ásamt með þeim að glæpamaður þessi hinn útlendi mundi
hafður vera til blóta.
Þá
mælti Ingibjörg: "Mun eigi ráð að hafa mál og tíðindasögn af
manni þessum er um langan veg er að kominn áður hann sé til
dauða dæmdur fullkomlega?"
Þórar
svarar: "Það mun enn lýsast sem jafnan að þú ert vitrari en
þeir aðrir sem hér eru saman komnir. Gakk þú nú til hans og
vit hvað manna hann er eða hvað hann kann segja."
Hún
gekk til þar sem Hallfreður sat bundinn harðlega og spurði
hver hann væri. Hallfreður nefndi sig og sagðist vera
íslenskur maður.
"Ert
þú Hallfreður vandræðaskáld?" sagði hún.
Hann
sagði svo vera.
Ingibjörg
mælti: "Hvað dró þig til, kristinn mann og hirðmann Ólafs
konungs, að rekast austur hingað í heiðni vora einn saman?"
Hann
hóf þá upp sögu alla og sagði henni um ferðir sínar frá því er
hann sigldi um sumarið til Danmerkur og allt þar til er hann
tók gisting að Bjarnar.
"Nú
fóru skipti okkur Bjarnar," segir Hallfreður, "svo sem vita má
að eg drap Björn og þó eigi fyrr en hann veitti mér sviklegt
tilræði. En ef þú ert, sem eg ætla, sú Ingibjörg er Auðgísl
sagði mér að væri húsfreyja hans þá hefi eg hér nú ekki annað
til míns vitnisburðar, að saga mín er sönn, en hníf og belti
er eg tók af Auðgísli dauðum því að alla aðra peninga þá er eg
fór með tók Björn í sína varðveislu um kveldið er eg kom til
hans. Og kom Auðgísli fyrir lítið að hafa mig dýrt leigt til
ferðar með sér ef eg skyldi eigi hefna dráps hans en fjörráða
við mig."
Sýndi
hann henni þá gripina.
Hallfreður
kvað þá vísu:
Svo
hef eg hermila harma,
hnig-Baldr,
í gný skjalda,
baugs
erum svipt að sveigi,
sárlinns,
rekið minna
að
lofhnugginn liggja
lét
eg sunnr í dyn Gunnar,
ek
um hefndi svo okkar,
Auðgísl
bana dauðan.
Ingibjörg
kvaðst gerla kenna þessa gripi, að Auðgísl hafði átt. Spurði
hún vandlega að hversu farið hafði með þeim Önundi.
Hallfreður
kvað:
Ek
brá elda stökkvi
ölna
skeiðs af reiði,
lagði
eg hendr að hundi,
hundgeðjuðum
undir.
Stendr
eigi sá sendir
síðan
Hlakkar skíða,
bál
rauð eg Yggjar éla,
éls
við þjóð á vélum.
Ingibjörg
mælti: "Sjá mun vera sönn saga því að Björn hefir lengi um
grun búið. Skaltu nú fyrst fara heim með mér en síðan skal eg
reyna sannsögli þína."
Nú
fór Hallfreður með henni og var hann þrekaður mjög af harðri
knúskan og böndum. En Ingibjörg lét skjótt næra hann.
Ingibjörg og Þórar faðir hennar fóru til bæjar þess er Björn
hafði átt. Voru þar allir peningar þeir er Hallfreður hafði
með farið og Auðgísl hafði átt. Tók Ingibjörg það fé allt til
sín því að þau Auðgísl áttu ekki barn. Síðan sendu þau menn á
fjallið og reyndist það allt sannindi sem Hallfreður hafði
sagt. Var þá flutt fé það allt til byggða er Önundur hafði
saman dregið. Var það þá samþykkt af öllu byggðarfólki og dæmt
eftir lögum þeirra að Hallfreður ætti fé það allt er hann
hafði svo drengilega til unnið. Var það allt mikill auður.
Hallfreður
var með Ingibjörgu vel haldinn og héldu landsmenn brátt mikið
tal af honum. Ingibjörg var bæði vitur kona og væn að sjá. Var
hvort þeirra Hallfreðar öðru vel hugþokkað. Leið eigi langur
tími áður Hallfreður vakti bónorð sitt við hana og bauðst
henni til bónda.
Hún
svarar: "Margt er í því vænlegt en þó eigi séð fyrir allri
gegningu þar um. Þú ert maður skírður og hér útlendur en hér
eru blót mikil og munu menn ekki þora að þú haldir þann sið
sem þú hefir áður játað en í annan stað eigi víst að þér dugi
vel ef þú fellir niður þann átrúnað, en líklegur ertu til
góðrar forustu. Nú far þú á fund föður míns og leita við hann
þessa mála."
Hallfreður
gerði svo. Töluðu þeir þetta mál með sér og kom allt ásamt með
þeim. Lauk því svo að Hallfreður fékk Ingibjargar og settist í
bú með henni. Skorti þar eigi auð fjár. Dvaldist hann þar um
hríð og undi vel ráði sínu.
10. kafli
Nú
er þar til að taka er Hallfreður vandræðaskáld var austur á
Gautlandi tvo vetur og hafði gengið að eiga heiðna konu. Hann
fór á fund Ólafs Svíakonungs og flutti honum drápu er hann
hafði ort um hann og þá af honum góðar gjafar.
Og
hinn síðara veturinn er Hallfreður var á Gautlandi var það
eina nótt að honum sýndist Ólafur konungur í svefni,
reiðulegur, og mælti til hans: "Illa gerir þú er þú kastar
mjög svo kristni þinni. Nú er þér ráðlegra að fara á minn fund
með lið þitt og endurbæta trú þína."
Hallfreður
andvarpaði mjög er hann vaknaði. Ingibjörg spurði hvað hann
hefði dreymt.
Hallfreður
sagði hvað fyrir hann hafði borið "eða hversu mun þér um það
gefið, hvort muntu vilja fara með mér á fund Ólafs konungs? Á
eg þér mikið gott að launa. Nú mætti eg svo helst umbuna þér
þinn góða að leiða þig til sannrar trúar og sáluhjálpar."
Hún
svarar: "Slíks var eigi lítil von að þig mundi þangað heimta.
Og fyrir því að eg skil að sá er betri en hinn er vér höfum
áður haldið þá vil eg fyrir víst fara með þér."
Þau
áttu son vænlegan er hét Auðgísl. Hann var veturgamall. En hún
var þá og með barni. Um vorið bjuggust þau austan og fór
Auðgísl með þeim.
Þau
léttu sinni ferð eigi fyrr en þau komu norður í Þrándheim um
haustið á fund Ólafs konungs. Konungur tók vel við Hallfreði
og ásakaði hann þó nokkuð um það er hann hafði svo lengi verið
með heiðnum mönnum og fengið heiðinnar konu. Fékk konungur
prest að setja honum skriftir og gekk Hallfreður glaðlega
undir allt það er honum var boðið. Litlu síðar fæddi Ingibjörg
kona hans sveinbarn. Þeim sveini gaf Hallfreður nafn sitt og
var hann kallaður Hallfreður. Eftir það var Ingibjörg skírð og
synir þeirra Hallfreðar báðir.
Síðan
mælti konungur til Hallfreðar: "Enn skaltu bæta framar við guð
er þú hefir mjög svo gengið af trú þinni. Vil eg nú að þú
yrkir uppreistardrápu og bætir svo sál þína en hafir eigi til
ills eins íþrótt þá er guð hefir gefið þér."
Hallfreður
sagði sig það gjarna vilja og allt annað það er hann mætti
gera eftir vilja Ólafs konungs. Var hann með konungi um
veturinn í góðri virðing: Tók hann þá að yrkja Uppreistardrápu
og er það hið besta kvæði. Þann vetur andaðist Ingibjörg kona
hans og þótti Hallfreði það hinn mesti skaði.
11. kafli
Litlu
síðar um vorið en Ólafur konungur hafði sent Leif Eiríksson
til Grænlands gekk Hallfreður vandræðaskáld fyrir konung einn
dag og bað sér orlofs að fara út til Íslands um sumarið.
Konungur
svarar: "Það skal vera sem þú vilt. Hefi eg þig reyndan að
góðum dreng. En að því skaplyndi sem þú hefir þá þykir mér
eigi lítil von að enn komi þær stundir að þú vildir heldur
vera með mér en á Íslandi eða í öðrum stöðum. En því að óvíst
er um fundi okkra héðan af ef við skiljum nú þá skaltu þiggja
af mér pellsskikkju, hjálm og hring er stendur sex aura. Þessa
gripi skaltu eiga að minjum að þú hefir mér þjónað og lóga
þeim eigi því að þeir skulu fara til kirkju með líki þínu en
fara í kistu með þér ef þú andast í hafi."
Síðan
bjó Hallfreður skip sitt til Íslands. Hann sendi Auðgísl son
sinn austur í Svíaveldi og fæddist hann þar upp með Þórari
móðurföður sínum en Hallfreði syni sínum fékk hann fóstur gott
þar í Þrándheimi. En er Hallfreður var búinn gekk hann fyrir
konung og kvaddi hann. Var það þá auðsætt á Hallfreði að honum
þótti mikið fyrir að skiljast að sinni við Ólaf konung.
Síðan
lét Hallfreður í haf og kom skipi sínu í Skagafjörð í
Kolbeinsárós eftir alþingi. Báru þeir þar farm af skipinu og
settu upp. Síðan fékk Hallfreður mann til að varðveita varnað
sinn og selja um veturinn en hann reið frá skipi við tólfta
mann vestur til sveita og ætlaði suður um heiði sem hann
gerði. Þeir riðu allir í litklæðum.
En
er þeir fóru vestur frá Skagafirði þá sneru þeir til selja
Gríss frá Skarði. Það var í milli Skagafjarðar og Langadals
upp af Laxárdal. Þar var Kolfinna Ávaldadóttir húsfreyja Gríss
fyrir í selinu og nokkurar konur með henni. Þar voru og nær
fleiri sel Langdæla og konur í. Smalamaður Gríss sá ferð
þeirra og sagði Kolfinnu að tólf menn riðu að selinu, allir í
litklæðum.
Hún
svarar: "Þeir munu eigi kunna veginn."
"Eigi
veit eg það," segir hann, "en ekki ríða þeir ókunnlega."
Kolfinna
gekk út er þeir komu. Hún heilsaði Hallfreði og spurði
tíðinda.
Hallfreður
svarar: "Tíðindi eru fá en í tómi munu sögð því að vér viljum
hér vera í nótt."
Hún
kvaðst mundu gefa þeim mat.
Stigu
þeir af hestum sínum og höfðu þar blíðan beina. Lá Hallfreður
hjá Kolfinnu um nóttina og hver förunauta hans fékk sér konu
því að selin voru saman mörg.
En
er Hallfreður stóð upp um morguninn kvað hann nokkurar vísur,
þær er eigi er þörf á að rita, bæði með mansöng til Kolfinnu
og ósæmdarorðum við Grís.
Þá
mælti Kolfinna: "Það er undarlegt er þú, vaskur maður, vilt
svo illa kveða. Hefir þú helsti mikla ósæmd gert Grísi þó að
þú smáir hann ekki með ófögrum verka því að hann mun ekki
kveða um þig. Hann er maður góðgjarn og óáleitinn ef honum eru
eigi stórar skapraunir gervar. Hefir þú svo að eins þína sök
til búið við hann, bæði nú og fyrr, að þér væri heldur
heyrilegt að bæta yfir við hann en að flimta hann því að hann
mun reynast hraustur karlmaður ef hann á eftir sínum hlut að
sjá ef honum er sæmd boðin."
Hallfreður
kvað:
Lítt
hirði eg, lautar
lundr
hefir hætt til sprunda
viggs,
þótt verði eg höggvinn,
varrar,
í höndum svarra
ef
eg næði Sif slæðu
sofa
karms meðal arma.
Máttkat
eg láss við ljósa
lind
ofræktar bindast.
Smalamaður
hafði hleypt á brottu frá selinu um nóttina og sagði Grísi
hvað um var. Og er hann vissi þetta kallaði hann til sín menn
og reið heiman um morguninn við fimmtánda mann.
Þeir
Hallfreður bjuggust frá seljunum um morguninn. Og þá er
Hallfreður hljóp á bak brosti hann.
Kolfinna
mælti: "Hví brosir þú nú?"
Hallfreður
kvað:
Veitkat
eg hitt hvað verða
ver
glóðar skal Móða,
rennumst
ást til Ilmar
unnar
dags, á munni
ef
fjölgegnir fregna
fagnendr
jötuns sagna,
fló
eg af gyltar grísi
geitbelg,
hvað mig teitir.
Hallfreður
vildi gefa Kolfinnu skikkjuna konungsnaut en hún vildi eigi
hafa. Og áður þeir riðu brott kvað Hallfreður:
Heim
koma hirði-Naumur,
hams
er góðr á fljóðum,
sævar
báls úr seljum
sléttfjallaðar
allar.
Nú
sel eg af þótt ýfist
ölbekkjar
Syn nokkuð,
hverr
taki seggr við svarra
sínum,
ábyrgð mína.
Nú
kom Grís til seljanna með sína menn og voru þeir Hallfreður þá
í brottu. Kolfinnu var skapþungt. Það sá Grís og kvað:
Nú
þykkir mér nokkur,
námskorð,
vera orðin,
lít
eg hve sumr mun sæta,
sveimr,
meðan eg var heiman.
Hér
hafa gestir gerva,
gengr
út kona þrútin,
þerrir
sjálegr svarri,
slaug
fjandslega, augu.
Maður
hét Einar Þórisson Þrándarsonar er í för var með Grísi. Hann
var systrungur Gríss.
En
er Grís kom til seljanna en Hallfreður var brottu þá sagði
Grís mönnum sínum að hann vildi ríða eftir þeim Hallfreði.
Kolfinna
bað hann eigi eftir ríða "því að það er ósýnna," segir hún,
"að þinn kostur batni við að þið Hallfreður finnist."
Grís
réð og riðu þeir fram hjá Auðólfsstöðum. Og er þeir komu að
Blöndu þá voru þeir Hallfreður komnir á miðja ána. Þá skaut
Grís spjóti til Hallfreðar en hann tók spjótið á lofti er að
honum fló og sendi aftur til Gríss en Einar Þórisson brá við
öxi sinni og hæfði hann eigi á spjótið. Fló það fyrir brjóst
Einari og hafði hann þegar bana.
Þá
mælti Grís: "Rennur þú nú Hallfreður?"
Hann
svarar: "Eg skal eigi lengra undan ríða en af ánni ef þú vilt
eftir sækja."
Grís
reið eigi á ána. Áttust þeir þá orð við um ána þvera. Lögðu
menn hvorratveggju þá til að þeir mundu sættast svo að
Hallfreður bætti Grísi þenna ósóma allan saman. Hallfreður
spurði hvers Grís beiddist.
Grís
mælti: "Mér er sagt að þú eigir gullhringa tvo góða er annan
gaf þér Ólafur konungur en annan Sigvaldi jarl. Nú mundi eg
því una ef eg hefði hringana báða."
Hallfreður
svarar: "Fyrr mun annað að berast."
Skildu
þeir við svo búið ósáttir.
Hallfreður
reið suður á Óttarsstaði til Galta bróður síns því að faðir
hans var þá andaður. Var Hallfreður þar um veturinn.
12. kafli
Nú
skal þar til taka sem fyrr var frá horfið að Hallfreður
vandræðaskáld sigldi út til Íslands um sumarið áður en
bardaginn varð á Orminum. Kom Hallfreður út fyrir norðan land
og reið suður um heiði sem áður er sagt. Gerðist þá enn að
nýju missætti með þeim Hallfreði og Grísi Sæmingssyni bæði um
mál Kolfinnu og um víg Einars Þórissonar.
Í
þann tíma bjó Þorkell krafla Þorgrímsson að Hofi í Vatnsdal.
Hann átti Vigdísi dóttur Ólafs frá Haukagili. Þorkell var þá
mestur höfðingi um þær sveitir. Þá bjó að Móbergi í Langadal
Húnröður Véfreðarson og var Grís hans þingmaður.
Hallfreður
vandræðaskáld var um veturinn með Galta bróður sínum og orti
þá Gríssvísur. Það er hálfníð. En er Grís spurði það þá fór
hann til fundar við Húnröð.
Og
er þeir fundust mælti Grís: "Þess erindis er eg hér kominn að
eg vildi að þú legðir til ráð með mér hverju eg skal því fram
fara við Hallfreð að vel sami en eg fái þó eigi lengur
svívirðing eina af honum því að hann herðir að eins
fjandskapinn við mig."
Húnröður
svarar: "Það legg eg til ráðs að þú búir mál á hendur
Hallfreði til Húnavatnsþings, önnur en um Kolfinnu."
Grís
hafði þessi ráð. Reið hann suður til Hreðuvatns um vorið og
stefndi Hallfreði til Húnavatnsþings um víg Einars frænda síns
og um kveðskap. Síðan reið Grís norður aftur.
En
um vorið eftir riðu þeir bræður sunnan með þrjá tigu manna og
sótti Hallfreður traust að Þorkeli kröflu mági sínum. Þorkell
kvaðst mundu veita honum að málum ef nokkur sæmd væri Grísi
boðin.
Hallfreður
svarar: "Svo vil eg vera láta því að eg sé að eg er offari í
við Grís."
En
er menn voru komnir til Húnavatnsþings þá hjó Brandur
Ávaldason, bróðir Kolfinnu, Galta Óttarsson banahögg er hann
gekk út úr búð Þorkels. Hallfreður leitaði eftir Brandi
bróðurbana sínum og varð honum undan skotið. Þá bauð
Hallfreður Grísi hólmgöngu þar á þinginu.
En
á næstu nótt var það áður þeir skyldu berjast um daginn eftir,
þá er Hallfreður svaf í búð sinni, að hann dreymdi að hann
þóttist sjá Ólaf konung Tryggvason. Hallfreður þóttist verða
feginn og þó hræddur.
Honum
þótti konungur svo mæla til sín: "Sefur þú Hallfreður en þó
mun svo vera sem þú vakir. Þú ætlar ógott ráð fyrir þér að
berjast við Grís að svo illum málaefnum sem þú hefir. En hann
hefir þess guð beðið að sá ykkar skuli sigrast á öðrum er
réttara hefir að mæla. Nú haf þú ráð mitt að þú tak með þökkum
að eigi verði hólmgangan og bæt heldur fé það er þú ert
sakaður við hann og hirð eigi þó að þér sé hallmælt að þú
hræðist. En á morgun er þú ert klæddur gakk þú út á holt það
er hér er skammt frá þingstöðinni þar sem götur mætast. Muntu
þá sjá menn ríða. Haf þú tal við þá og kann vera að þá þyki
þér annað meira vert en hólmgangan við Grís."
Hallfreður
vaknar og hugsar hvað fyrir hann hafði borið. Hann sagði
drauminn einum búðarmanni sínum.
Sá
svaraði: "Hræðist þú nú grísinn og væri þér betra að hafa fyrr
sæst við hann þá er hann mælti vel til en nú mun virt af
óvinum þínum að þú þorir eigi að berjast."
Hallfreður
mælti: "Virði það nú hver sem vill. Hafa skal eg ráð Ólafs
konungs. Þau munu mér enn best gefast sem fyrr. Kann vera að
nú komi það fram er hann mælti áður við skildum næst að mér
þyki brátt betra að hafa verið með honum en hér á Íslandi."
Um
morguninn gekk Hallfreður út á holtsgötu nokkura og sá menn
ríða í litklæðum. Hann gekk til þeirra manna og spurði þá
tíðinda. En þeir sögðu fall Ólafs konungs Tryggvasonar.
Hallfreði brá mjög við þessa sögn. Gekk hann þegar aftur á
þingið og sagði tíðindin, lagðist síðan niður í rúm sitt með
miklum harmi hugar. Þá mæltu menn Gríss að Hallfreður yrði
lítill af þessu máli.
Grís
svarar: "Það er ekki á þá leið. Minna sóma hafði eg af
Miklagarðskonungi en Hallfreður af Ólafi konungi og þóttu mér
þau tíðindi mest er eg frétti fall stólkonungsins. Og veit sá
einn er missir síns lánardrottins hversu heit verða kann
höfðingjaástin. Nú þykir mér gott er eg skal eigi berjast við
konungsgæfuna sem Hallfreði mun jafnan fylgja. Nú var það
talað í fyrstu að Þorkell mundi gera um mál okkur og það vil
eg enn halda."
Hallfreður
játti því.
Þorkell
mælti: "Það er gerð mín að fyrir víg Galta komi víg Einars
Þórissonar og þar með heimsókn við Kolfinnu fyrir mannamun. En
fyrir óþokkavísur þær er Hallfreður hefir kveðið um Grís skal
Hallfreður gefa honum einnhvern góðan grip."
Þá
kvað Hallfreður vísu:
Auðs
hef eg illrar tíðar
alldrengila
fengið,
mig
hefir gjöllu gulli
gramr
og jarl of framdan,
ef
glapskuldir gjalda,
gjálfrteigs
og hef eg eigi
mörk,
fyrir minnstan verka
matvísum
skal eg Grísi.
Þorkell
bað hann hætta verkanum "og legg nú fram," segir hann, "grip
nokkurn við Grís þó að eigi sé af konungsnautum."
Hallfreður
lét til hringinn Sigvaldanaut og skildu þeir að því.
Reið
Hallfreður fyrst af þinginu suður um heiði og dvaldist að búi
sínu um hríð við litla gleði. Síðan fékk hann búið í hendur
Valgerði systur sinni en hann reið norður til Skagafjarðar og
bjó skip sitt í Kolbeinsárósi. Fór hann það sama sumar utan og
varð síðbúinn. Kom hann við Orkneyjar og fór þegar austur til
Noregs. Hann kom um veturnáttaskeið utan að Sogni. Þá spurði
hann af nýju þau tíðindi er áður höfðu gerst hið fyrra
sumarið. Orti hann þá þegar drápu um Ólaf konung.
Svo
þótti Hallfreði mikill skaði að um Ólaf konung að hann undi
engu og ætlaði þá að halda skipi sínu suður til Danmerkur eða
austur til Svíþjóðar. Þeir lágu í einum leynivogi og gerðu
lítt vart við sig en þó spurði Hallfreður að Eiríkur jarl
Hákonarson var þaðan eigi langt á land upp. Gerði hann sér þá
það í hug að hann mundi drepa jarlinn þó að hann væri þegar
drepinn.
Og
næstu nótt eftir þessa hugsan dreymdi Hallfreð að Ólafur
konungur kæmi að honum og mælti við hann: "Þetta er ónýtt ráð
er þú ætlast nú fyrir Hallfreður, að drepa Eirík jarl. Yrk þú
heldur um hann drápu."
Eftir
um morguninn gekk Hallfreður einn frá skipi á land upp þar til
er hann kom á þann bæ er Eiríkur jarl var fyrir. Hann gekk
þegar að stofu þeirri er jarl var inni og drakk. Hallfreður
var skjótt kenndur af mönnum og þegar handtekinn og færður
jarli. Jarlinn sagði að hann skyldi drepa fyrir meiðing
Þorleifs hins spaka vinar síns og bað hann fjötra sem skjótast
og leiða út. En er fjöturinn var borinn að Hallfreði greip
hann til og kippti fjötrinum úr höndum þeim mönnum er á hann
vildu leggja. Hallfreður hóf upp fjöturinn og laust í höfuð
einum þeirra svo að sá hafði þegar bana. Jarlinn bað þá drepa
hann sem skjótast svo að eigi gerði hann fleira illt. Þá stóð
upp maður gamall er áður hafði setið á bekkinn. Kenndi
Hallfreður að þar var Þorleifur hinn spaki. Hann gekk fyrir
jarl og bað hann gefa Hallfreði grið.
Jarl
svarar: "Það er hóti ómaklegast að þú biðjir honum lífs og
griða eða manst þú það eigi er hann meiddi þig og stakk úr þér
augað?"
Þorleifur
mælti: "Hallfreður átti þá kost að gera við mig hvað er hann
vildi en hann gaf mér lífið og þar með annað augað í móti
boðskap Ólafs konungs og lagði sig svo í hættu fyrir mig. Nú
vil eg herra að Hallfreður hafi líf fyrir mín orð."
Jarl
bað svo vera sem hann vildi.
Þorleifur
tók þá Hallfreð á sitt vald og mælti: "Vilt þú nú Hallfreður
að eg dæmi með ykkur Eiríki jarli?"
"Það
vil eg gjarna," segir Hallfreður.
"Þá
skaltu yrkja kvæði um jarl," sagði Þorleifur, "og haf búið á
þriggja nátta fresti."
Hallfreður
kvað svo vera skyldu. Og er þrjár nætur voru liðnar þá færði
Hallfreður Eiríki jarli kvæðið og er þetta upphaf:
Bær
ert hróðr að heyra,
hjaldrör,
um þig görvan.
Jarl
launaði honum vel kvæðið "en ekki vil eg þig með mér hafa,"
segir jarl, "fyrir sakir Ólafs konungs."
Þorleifur
bauð honum þá til sín. Það þá Hallfreður. Var hann þann vetur
með Þorleifi við lítið yndi en þó veitti Þorleifur honum vel
og reyndist honum hinn besti drengur.
Um
sumarið eftir bjó Hallfreður skip sitt og fór út til Íslands.
Var hann þá í förum um hríð og varð aldrei glaður, svo þótti
honum mikið fráfall Ólafs konungs, og hvorki nam hann yndi á
Íslandi né í Noregi. Hann fór austur til Svíþjóðar að vitja
Auðgils sonar síns og fjár þess er hann átti þar að varðveita
því að þá var andaður Þórar mágur hans.
Þá
var Hallfreður fertugur að aldri þá er hann fór að sækja fé
sitt til Íslands og ætlaði þá að staðfestast í Svíaveldi. Þá
var í för með honum bróðir hans er hét Þorvaldur og Hallfreður
son hans. Þeir höfðu útivist harða fyrir stormum og áföllum.
Hallfreður jós að sínum hluta og var þó sjúkur mjög. Og eitt
sinn er hann gekk frá austri þá settist hann á beitiásinn og í
því laust áfall hann niður í skipið og beitiásinn á hann ofan.
Þá
mælti Þorvaldur: "Er þér bróðir meint við orðið?"
Hallfreður
kvað:
Hnauð
við hjarta síðu
hreggblásinn
mér ási.
Mjög
hefir uðr að öðru
aflað
báru skafli.
Marr
skotar mínum knerri.
Mjök
er eg votr af nökkvi.
Munat
úrþvegin eira
aldan
sínu skaldi.
Þorvaldur
þóttist sjá sótt hans og leiddi hann aftur á skipið og bjó um
hann og spurði hversu honum segði hugur um sóttarfar sitt.
Hann
kvað:
Rind
brá hvítri hendi
hördúks
um brá mjúka,
fljóð
gat fremdar æði,
fjölerrin,
sér þerra
ef
dauðan mig meiðar
morðveggs
skulu leggja,
áðr
var eg ungu fljóði,
út
um borð, að sútum.
Þá
mælti Hallfreður við Hallfreð son sinn: "Þér vil eg gefa
frændi sverðið konungsnaut en aðra gripi þá er Ólafur konungur
gaf mér skal leggja í kistu með mér ef eg andast hér á
skipinu."
Þá
kvað hann vísu þessa:
Eg
mundi nú andast,
ungr
var eg harðr í tungu,
senn
ef sálu minni
sorglaust
vissi eg borgið
Veit
eg að vætki of sýtig,
valdi
guð hvar aldri,
dauðr
verðr hver, nema hræðumst
helvíti,
skal slíta.
Á
þeim sama degi andaðist Hallfreður og var lagður í kistu og
gripir hans með honum, konungsnautar, sem hann hafði fyrir
mælt, skikkja, hringur og hjálmur. Síðan var kistunni skotið
fyrir borð.
Kistan
kom á land í Eyjunni helgu í Suðureyjum og fundu
þjónustusveinar ábóta þess er þar réð fyrir. Þeir brutu
kistuna og stálu fénu en sökktu líki Hallfreðar í fen eitt.
En
ábótann dreymdi á næstu nótt að Ólafur konungur Tryggvason kom
að honum og var reiðulegur og mælti: "Þú átt illa
þjónustusveina. Þeir hafa brotið skip skálds míns og stolið fé
hans en bundið stein við háls honum og drekkt í fen. Nú hafið
sannar sögur af þeim ella mun yður henda hver undur."
Síðan
hvarf konungur frá honum en ábóti vaknaði og lét taka sveinana
en þeir gengu þegar við er á þá var borið og var þeim þá sú
sök upp gefin. Lík Hallfreðar fannst og var grafið virðulega
að kirkju. Kaleikur var ger af hringinum en altaraklæði af
guðvefjarskikkjunni en kertastikur úr hjálminum.
Þeir
Þorvaldur tóku Ísland um haustið og voru á Óttarsstöðum um
veturinn. Síðan fór Þorvaldur utan en Hallfreður setti bú
saman og bjó á Óttarsstöðum. Var hann og kallaður
vandræðaskáld sem faðir hans. Hann varð göfugur maður og
mikilmenni og eru menn frá honum komnir.