1. kafli

Þorgrímur hét maður. Hann bjó þar sem nú heitir á Hörgslandi. Hann var kvongaður maður og átti tvo sonu við sinni konu. Hét annar Grímur en annar Jökull. Þeir voru ódælir og uppivöðslumiklir og ójafnaðarmenn hinir mestu um allt það er þeir máttu. Helga hét systir þeirra en dóttir Þorgríms. Hún var væn kona og kurteis svo að eigi þótti þar í sveitum betri kvenkostur. Þorgrímur hafði goðorð í millum Jökulsár og Lómagnúps. Hann fór illa með sínu goðorði. Hann tók upp góss fyrir bændum, bæði yxn og hesta. Varð hann af þessu öllu saman mjög óvinsæll.

Enn verður fleiri menn að nefna til sögunnar.

Grís hét maður í Hörgsdal. Hann átti og tvo sonu. Hét annar Hrafn en annar Þorsteinn. Þeir voru stórir menn og sterkir, ágjarnir og illir viðureignar. Þeir voru miklir menn og vinir Þorgrímssona.

Þorbjörn var bóndi nefndur er bjó að Keldugnúpi. Hann var kvongaður maður og átti tvo sonu við konu sinni er svo hétu: Helgi og Gunnar. Var Helgi skartsmaður mikill, hæfilátur og hversdagsgæfur. Bróðir hans var honum óskaplíkur. Hann lagðist í eldaskála. Unni faðir hans honum lítið því að hann gerði slíkt mjög í móti hans vilja. Varð hann mjög óþokkasæll af alþýðu fyrir þetta sitt tiltæki. Var hann nú kallaður af þessu um allar sveitir Keldugnúpsfífl.

Geir hét bóndi. Hann bjó á Geirlandi. Kvongaður var hann og hét Geirdís kona hans en Ingibjörg dóttir. Geir hafði tíu þræla til vinnu. Kolur hét sá maður er fyrir þeim var. Það var hans iðn að geyma fjár vetur og sumar. Kom hann aldrei inn undir sótugan raft. En aðrir þrælar hans höfðu það verk að höggva stóra hella á bæ Geirs að geyma þar í fénað og fóður.

Kona er nefnd Þórdís. Hún bjó að Fossi og átti auð fjár. Þórdís var fjölkunnug. Mikið vinfengi var í milli þeirra Þorgríms og Þórdísar. Þótti honum ekki ráð ráðið nema hann réðist við hana um.

Örn hét maður. Hann bjó að Vatnsenda. Þau voru systkin, Örn og Þórdís. Voru þau og mjög lík að skapsmunum. Hann var löngum með þeim Þorgrímssonum og bætti lítið um fyrir þeim.

Leikar voru upp teknir á Hörgslandi. Sótti þangað margt manna um héraðið. Urðu þeir Þorgrímssynir öllum of sterkir þeim sem að leikunum voru. Ekki fóru þangað Þorbjarnarsynir. Þorgrímur hafði þræl þann er Svartur hét. Hann var með þeim bræðrum. Flestum varð hann of sterkur. Meiddi hann margan mann en deyddi suma. Urðu þeir af slíku óvinsælir Þorgrímssynir. Fór nú svo fram nokkura stund.

Einn dag var það að Helgi stóð snemma upp. Veður var á hvasst norðan með frosti. Þorbjörn spurði hvert hann ætlaði. Helgi sagði að hann ætlaði til leiks.

Þorbjörn svarar: "Eigi er það mitt ráð og vildi eg frændi að þú færir hvergi því að þér er ekki hent við kappi þeirra og uppivöðslu."

Helgi sagði þó fara mundu.

Þorbjörn mælti: "Bið þú Gunnar bróður þinn að fara með þér."

"Ekki kann eg að biðja hann fylgdar," sagði Helgi.

Síðan fór Helgi til leiksins. En er hann kom báðu þeir hann til leiks en Helgi vildi ekki að vera. En er kveldaði fór hann heim. Þorbjörn spurði hann að um leikinn "eða varstu eigi að leiknum?"

"Nógir voru þar sterkari."

Nú leið af nóttina og bjóst Helgi snemma til leiksins annan morgun og gekk þá til eldahúss. Gunnar spurði hver þar færi.

"Hér er kominn bróðir þinn og vildi eg Gunnar frændi að þú veittir mér brautargengi og færir til leiks með mér í dag."

Gunnar svaraði: "Ertu nú þá búinn?"

"Það er satt," segir Helgi.

Gunnar stóð þá upp og var eigi sinnilegur.

Helgi mælti: "Far þú og fá þér klæði," því að veðrið var kalt.

Gunnar kvaðst eigi mundi taka klæðaskipti.

Síðan fara þeir leið sína þangað til er þeir koma á Hörgsland. Eigi var til leiks tekið. Þeir bræður Þorgrímssynir gengu í því fram í dyrnar og heilsuðu þeim Þorbjarnarsonum en þeir bræður Helgi og Gunnar gengu til stofu.

Jökull mælti: "Og er hér komið eldhússfíflið frá Keldugnúpi eða hvað mun það hingað vilja?"

Og gerðu þeir að Gunnari mikinn gys.

Eftir það var farið til leiks. Þá bað Grímur þá bræður að þeir skyldu að vera.

En Helgi svaraði: "Ekki er okkur það hent."

Grímur sagði leikfall verða mundu ef þeir væru eigi að. Helgi sagði þá og ekki skyldi það vera.

Síðan var til leiks farið og hyggja Þorgrímssynir gott til og skipa til glímna og skyldi Gunnar glíma við Svart en Helgi við Jökul. Var þessu næst til gleði farið og kom þar að er þeir Helgi og Jökull stóðu upp og gengu á gólf. Var þar búkamunur mikill því að Jökull var stór vexti en digur með mætti. Glímdu þeir lengi svo að varla mátti í milli sjá hvor falla mundi. En þó varð það um síðir að Jökull féll. Þá varð óp mikið og hlátur en Helgi gekk til bekkjar.

Eftir það þá stóðu þeir upp, Gunnar og Svartur, og voru þar báðir sterkir en þó ætluðu allir að Gunnar mundi ekki við hafa. Þeir tókust á sterklega. Varð þeirra atgangur bæði harður og langur. Þóttust menn eigi vita mega hvor þar mundi falla.

Þá mælti Gunnar við Svart: "Hefir þú fram lagt allt það er þú hefir til?"

"Það er satt," sagði Svartur.

Síðan tók Gunnar hann upp á bringu sér og gekk með hann innar að pallinum þar sem Þorgrímur sat og setti hann niður á fótskörina svo að í sundur gekk í honum hryggurinn. Síðan gekk Gunnar að bekknum og settist niður en Svartur var fram borinn. Fóru menn nú til leiks sem áður. Ekki bar fleira til nýlundu um daginn.

Fóru þeir heim bræður um kveldið. Þorbjörn spurði þá að hversu leikurinn hefði fram farið um daginn. Þeir sögðu af hið ljósasta.

Þorbjörn svarar: "Þá fór sem mig varði að þið munduð eigi mega hjá sitja og munuð þið þessa margan dag iðrast."

Þá mælti Helgi: "Fleira þurfum við nú með en átalna einna."

Þorbjörn mælti: "Það ætla eg að margs manns blóði verði hér fyrir út hellt, fyrir þessa ykkar tiltekt."

"Fari það sem má," sagði Helgi, "og hræðumst við það ekki."

En næsta morgun stóðu þeir bræður upp snemma um morguninn.

Þá mælti Þorbjörn: "Hvert skuluð þið nú fara?" sagði hann.

Helgi svarar: "Hvað mun þig það varða? Ekki muntu með okkur til leggja gott."

Hann mælti: "Farið hvergi í dag því að ekki hlýðir það fyrir þeim bræðrum Þorgrímssonum. Hafa þeir setið þeim eigi lengi er þó hafa minna til gert við þá bræður en þið og því vil eg þið farið hvergi í degi."

Þá mælti Helgi: "Hvert ráð viltu þá leggja á með okkur bræðrum?"

Þorbjörn mælti: "Þið skuluð fara til þess manns er Þorgeir heitir. Hann býr í Mörtungu. Hann er mikill vin minn. Þar skuluð þið í vetur vera með honum."


2. kafli

Þeir bræður fara leið sína þar til þeir koma í Mörtungu. Það var síð um kveld. Þeir drápu á dyr. Þá var til hurðar gengið og spurt hver kominn væri en bræður sögðu til sín og spurðu hvort Þorgeir væri heima. Sá sagði það satt vera.

Helgi mælti: "Seg þú honum að við vildum finna hann."

Þessi gerði sem hann bað. Síðan gekk Þorgeir út og bauð þeim þar vera um nóttina.

Um morguninn eftir var Þorgeir mjög snemma á ferli og talaði til þeirra bræðra að þeir skyldu upp standa. Þeir gerðu sem hann bauð, ganga þá út og vestur um bæ allir og svo ofan að á einni og svo síðan eftir árgljúfrinu og þar til þeir koma að einstigi nokkuru. Þar gekk Þorgeir upp en þeir bræður eftir og komu þá upp í helli stóran.

Þá mælti Þorgeir: "Hér skuluð þið bræður vera í vetur því að ekki má eg svo halda ykkur að Þorgrímssynir viti eigi. En eg skal koma til ykkar hvern dag og segja tíðindin þau er til kunna að bera."

Eftir svo talað fór Þorgeir heim en þeir bræður voru eftir í hellinum.

En frá Þorgrímssonum er það að segja að Jökull talaði við bróður sinn: "Við skulum fara til Keldugnúps og drepa þá Helga og Gunnar fyrir sín illvirki."

Svo gera þeir, fara til Keldugnúps með tólf menn og báðu Þorbjörn selja fram sonu sína.

"Eigi eru þeir hér," segir hann.

En Grímur bað hann láta uppi rannsókn: "Muntu vilja leyna þeim því að þeir eru hér."

Þá mælti Þorbjörn: "Gangi bræður þá tveir inn og kannið bæ minn og vildi eg þó engu spilla láta því er eg á."

En þeir bræður gengu þá inn og könnuðu bæinn Þorbjarnar og fundu þeir ekki að heldur þá Þorbjarnarsyni, sem von var að, ganga út síðan og stíga á hesta sína og ríða á burt síðan og svo heimleiðis.

Líður nú á veturinn og fréttu þeir bræður ekki til þeirra Þorbjarnarsona.

Það bar einn dag til þá er þeir Þorbjarnarsynir voru í helli sínum að þræll Geirs gekk að fé sínu þeim megin árinnar sem hellir þeirra bræðra var. Hann sá þá bræður því að þeir höfðu þá gengið frá hellisdyrunum. Síðan kom þrællinn heim um kveldið síð.

Þá frétti Geir hann tíðinda en hann kvaðst ekki kunna að segja "því að mér þykja það engin tíðindi sem eg sé."

"Hvað hefir þú nú séð í dag?" segir Geir.

Kolur sagði þá: "Sá eg þá bræður, Helga og Gunnar, í helli einum norður með ánni."

"Varla þykir mér þeir þá langt í burtu," sagði Geir, "og skaltu Kolur fara á Hörgsland og segja þeim bræðrum hvað títt er."

Síðan fór hann sem Geir skipaði og kom á Hörgsland og sagði þeim bræðrum hvað hann hafði séð til þeirra Þorbjarnarsona. Síðan fór þrællinn heim. Þeir bræður safna liði og ætla að fara að þeim Þorbjarnarsonum með þrjá tigi manna.


3. kafli

Nú skal segja hvað Þorgeir hefst að. Hann stóð upp snemma þenna morgun og fór til þeirra bræðra og sagði þeim hvað nú fór fram hjá þeim Þorgrímssonum. Þá spurði Helgi hvað þeir skyldu til ráða taka.

Gunnar svarar: "Við skulum berjast við þá."

En Þorgeir talaði við Helga: "Ekki skuluð þið berjast við liðs fjölda því að þið orkið því eigi að eiga við svo mikinn liðsmun sem þeir hafa bræður."

Þá spurði Helgi hvað þeir skyldu heldur en berjast "og skal margur rauðu snýta áður vér bræður verðum handteknir."

Þorgeir sagði að þeir skyldu fara í jarðhús það "sem er undir sæng minni."

Síðan fóru þeir með Þorgeiri þar til er þeir komu til jarðhússins og gengu þeir þar niður. Síðan fór Þorgeir í burt frá þeim.

En Þorgrímur og synir hans riðu nú til Mörtungu. Þá var Þorgeir nýklæddur og stóð í dyrum úti. Hann heilsaði þeim og bauð þeim þar að vera.

En Grímur kvað annað þeirra erindi en eta þar eða drekka "og er nú nær að selja þá fram Þorbjarnarsyni."

Þorgeir segir að þeir eru eigi þar. En síðan ríða þeir ofan með ánni, stíga af baki hestum sínum en gengu síðan upp með gilinu þangað til er Kolur sagði að hellirinn væri. Síðan stigu þeir upp einstigið þar til er þeir komu í hellinn. Sáu þeir þar ekki þess líkt að þar hefðu menn verið. Líkaði Jökli mjög illa við Kol og var því búið að hann mundi standa á honum, snúa við það aftur til hesta sinna og riðu heim síðan og þóttust þeir mikla sneypu fengið hafa. Leið svo af veturinn.

Þetta sumar kom skip í Skaftárós og var Bárður nefndur stýrimaður og hafði aldrei komið hingað til lands fyrri. Þorgrímur reið til skips og vildi leggja lag á varning kaupmanna en Bárður vildi það eigi og kvaðst sjálfur vilja ráða verði á varningi sínum. En Þorgrími líkaði það illa og bannaði hverjum manni að eiga við þá skipti eða kaup. Reið hann heim eftir það en stýrimaður sat eftir við skip sitt. Skildu þeir við það að sinn veg þótti hvorum og leið svo langt fram á sumar að engi kom í sandinn að kaupa við þá.

En það sama sumar fóru þeir bræður heim til Keldugnúps og voru heima með föður sínum. Og einn dag komu þeir að máli við Þorbjörn föður sinn.

Helgi mælti: "Skal lengi svo fram fara að enginn bjóði stýrimanni heim?"

Þorbjörn svarar: "Hafið þið eigi frétt hvað Þorgrímur hefir við lagt?"

Helgi kvað þá ekki mundi verða að því farið "og skal eg fara í dag til skips og bjóða heim stýrimanni."

"Þú munt þessu ráða," sagði Þorbjörn.

Síðan ríða þeir Þorbjarnarsynir þar til er þeir koma til skips og var stýrimaður þá nýklæddur. Hann bauð þeim bræðrum þegar inn í búð að drekka, stigu síðan af baki og drukku þar um daginn.

Helgi mælti til Bárðar: "Er það satt að enginn þorir að bjóða þér heim?"

"Satt er það," segir Bárður.

"Þá vil eg bjóða þér heim til Keldugnúps."

Bárður kvaðst því gjarna játa.

En eftir þetta gert ríða þeir Þorbjarnarsynir heim. Þorbjörn spurði tíðinda en þeir kváðust ekki tíðindi kunna að segja nema það "að við buðum heim stýrimanni."

Þorbjörn sagði þar margan mundi kulda af kenna.

"Ekki verður nú við öllu séð," segir Helgi.

Síðan var stýrimaður heim fluttur og fréttist það nú víða um byggðina og þótti öllum þeir hafa mikið í fang færst. Þorgrími og sonum hans líkaði þetta stórum illa. Leið af sumarið og langt fram á vetur að hvorirtveggju sátu í kyrrðum.


4. kafli

Það var einn dag að Gunnar gekk til hrossa sinna. Þeir bræður úr Hörgsdal sáu hvar Gunnar fór og stefndi upp á heiði frá Keldugnúpi. Þeir fóru til Hörgslands og sögðu þeim Þorgrímssonum hvað þeir höfðu séð. Þeir brugðust og þegar við og ætluðu að sitja fyrir honum um kveldið þá er hann færi heim. Þeir voru fimmtán saman.

Gunnar fann seint hrossin um daginn og varð honum síð beint. Hann hafði ekki fleira vopna en öxi stóra er faðir hans hafði gefið honum. Fer hann heimleiðis þar til er hann kemur þar að sem fyrirsátið var.

Og þegar sem þeir finnast þá mælti Jökull við Gunnar: "Það er vel að við höfum hér fundist."

En Gunnar kvaðst það eigi kunna að lasta "er þú lofar svo. Muntu vilja að maður mæti manni."

Jökull svarar: "Eg skal og nú þess njóta að eg em nú liðfleiri."

Síðan sóttu þeir að Gunnari með miklu kappi en hann varðist vel og drengilega. Gekk svo lengi þar til að hann hafði drepið þrettán.

Nú er þar til að taka að Þorbjörn var heima og Helgi son hans.

Þá mælti Helgi við föður sinn: "Frestast Gunnari og vil eg að við förum að leita hans."

Síðan fóru þeir feðgar þar til er þeir komu þar að sem þeir Jökull og Grímur sóttu að Gunnari með miklu kappi. En þegar er þeir sáu þá feðga þá lögðu þeir á flótta.

Þá mælti Helgi til Gunnars: "Viltu að við förum eftir þeim?"

Gunnar kvaðst eigi vilja elta þá "því að okkur mun gefast tómstund að finna þá."

Gunnar var þá mjög sár. Lagði Þorbjörn hann í vagn og óku þeir honum heim. Síðan voru sár hans þvegin og greru þau skjótt.

En er þeir bræður komu heim spurði Þorgrímur þá Jökul tíðinda. Jökull sagði honum þá allt sem farið hafði.

Þá mælti Þorgrímur: "Lítt þykir mér upp hafa tekist og vildi eg að það legðist af að eiga við þá bræður."

Jökull mælti: "Ekki dugir ófreistað og munum við Gunnar finnast aftur."

Sár Gunnars greru skjótt. Leið nú á veturinn. Fundust þeir ekki, Bárður stýrimaður og Þorgrímur. Bárður tók að búa sig um vorið. Þeir bræður réðust til ferðar með honum, Helgi og Gunnar.

En er þeir voru búnir beiðist Gunnar að ganga á land. Stýrimaður bað hann ráða og koma þó skjótt aftur. Gunnar játar því. Hann tók þá vopn sín og gekk sem hvatast til Hörgslands. Það var síð um kveld. Hann barði á dyr. Þræll einn gekk til dyra. Hann spurði hver kominn væri eða hví hann færi einn saman.

Hann svarar: "Grís er hér," segir hann. "Eg vildi finna Jökul sem skjótast."

Þrællinn hljóp inn og sagði Jökli. Hann tók vopn sín og gekk út síðan. Gunnar veik sér fram á hlaðið en dimmt var úti og sá Jökull eigi manninn og gekk út úr dyrunum og spurði hvar Grís væri.

Þá svarar Gunnar: "Hér em eg nú og gakk hingað."

Jökull heyrði svör og þóttist heilsa Grís. Gunnar bað hann þá verja sig. Síðan börðust þeir í ákafa og féll Jökull skjótt fyrir Gunnari. Síðan gekk hann heim aftur að dyrunum og spurði hvar Grímur væri og bað hann út ganga. Hann brá við skjótt og hljóp út þegar. Hann þekkti þegar manninn og gekk að Gunnari með öxi stóra en hann brá fyrir skildinum. Annarri hendi hjó hann til Gríms á fótinn fyrir ofan knéð svo að af tók. Féll Grímur þá til jarðar. Lét Gunnar þá skammt höggva í milli og hjó á hálsinn svo að af tók höfuðið. Gunnar gekk heim að dyrunum og lagði Grím þar niður.

En eftir þetta unnið gekk hann til dyngju Helgu. Hún sat á palli og hafði leyst hár sitt úr dreglum. Hún sópaði þá hárinu frá augunum er hún sá Gunnar og heilsaði hún honum glaðlega. Hann tók vel kveðju hennar. Hún spurði hann tíðinda eða hvaðan hann væri að kominn en hann sagði slíkt sem hún spurði og settist niður hjá henni.

Helga mælti þá: "Hvað ætlar þú nú fyrir þér?"

Gunnar segir: "Í burt hafði eg ætlað," segir hann.

"Hversu ætlar þú að halda orð okkar þau sem við höfum talað?" sagði hún.

Gunnar segir: "Eg fór nú til þess á þinn fund að eg vil þau enn framar binda en áður."

"Svo vil eg við gerum," sagði Helga.

Síðan bundu þau það fastmælum sín á meðal að hann skyldi eigi aðra konu eiga eða hún annan mann ef þau mættu ráða, skilja nú með þessu, minnist Gunnar þá til Helgu með miklum elskuhuga, gekk út síðan en Helga sat eftir og grét mjög sáran.

Gunnar létti eigi ferð sinni né farlengd fyrri en hann kom til skips og fann bæði stýrimann og bróður sinn Helga. Þeir spurðu tíðinda en hann kvaðst eigi segja kunna nema hann sagði slík sem voru.


5. kafli

Þorgrímur bóndi gekk út nokkuru síðar, sér nú vegsummerki að synir hans lágu báðir dauðir. Brá honum mjög við þessa sýn og lætur þá verða jarðaða eftir gömlum sið. Þetta spurðist víða um héruð og þótti mikil tíðindi og voru þeir þó fám harmdauðir. Voru nú miklar getur á hver þeim mundi að skaða hafa orðið og kann það enginn öðrum að segja. Bar Þorgrímur mikinn harm eftir sonu sína og varð þó svo búið að hafa.

Í þenna punkt létu þeir út og gaf þeim vel byri til þess er þeir komu úr landssýn. Þá rak á fyrir þeim myrkva svo mikla að þeir vissu ekki hvað þeir fóru. Rak þá um sjóinn allan allt sumarið og sjá þeir hvergi land. Einn dag ræddu þeir um hvað til mundi bera.

Þá mælti Bárður: "Vér skulum hluta mann í tré."

Og svo var gert. Gunnar hlaut að fara.

Þá mælti hann: "Það ætla eg að annað sé mér betur hent."

Þá mælti Bárður til Gunnars: "Viltu að eg fari og mun eg leysa þig af þessu?"

"Eg skal fara," segir Gunnar.

Gunnar las sig bæði skjótt og fimlega upp eftir höfuðbendu til þess er hann kom upp í siglutopp. Hann settist niður og í því létti af myrkri öllu því sem áður hafði verið yfir skipi þeirra. Sá hann þá víða og land fyrir stafn fram. Það var og mjög jöklum vaxið. Hann sá þar fram undan ganga nes löng en skerast inn í landið fjörðu marga og stóra, þeir er fullir voru af allra handa veiðiskap.

Þeir lögðu í fjörð þann er Skuggi heitir. Þá var komið að haustnótt og vetraði, en flestum þótti mál hvíldar af löngu sjóvolki. Og var það af ráðið að skipa þar upp og ætluðu þar um að búast, efla nú upp skálasmíð og gekk þeim það bæði vel og skjótt. Var Gunnar þar formeistari að. Varð hún skjótt af hendi leyst, settust þá um kyrrt, höfðu veiðiskap nógan bæði sela, fiska og hvali.

Einn dag er þeir voru í skála sínum mælti Bárður til Gunnars: "Hversu lengi skulum við hér svo vera að vér höfumst ekki að?"

Gunnar segir: "Vér skulum skipta liði voru. Skal Helgi og Bárður fara í annan stað við tólfta mann en eg skal fara við sétta mann."

Svo gerðu þeir. Hlaut Gunnar þá að fara á jökla.

Fara þeir einn morgun heiman allir. Gunnar og hans félagar gengu um daginn lengi og urðu við engan hlut varir. Þeir sækja nú langt fram á jöklana þar til að þeir koma að gjá einni stórri. Þeir fara lengi með gjánni og komast hvergi yfir. Þá hljóp Gunnar yfir gjána en fylgdarmenn hans komust eigi yfir og skildi þar með þeim.

Gunnar gekk þá lengi einn samt þar til að hann sá einn stóran björn. Gunnar kallaði á hann og bað hann bíða. Þá leit bersi aftur og settist niður og beið mannsins. Gunnar bar að skjótt. Hann hafði stóra bjarnsviðu í hendi og lagði þegar til dýrsins undir bóginn svo að í hjartanu stóð en dýrið dó þegar. Þá gerði myrkt af nótt svo að hann sá þá eigi til gera dýrið. Gunnar lagði þá bersa á bak sér og bar hann til þess er hann kom að gjánni. Þá lagði hann niður dýrið og vissi eigi hversu hann skyldi yfir komast gjána með byrði sína. Hann tók á sig göngu og gekk með gjánni til þess að hann kom þar að í einum stað að mjórra var yfir en annars staðar. Hann fór þar yfir með byrði sína.

Hann gekk þá enn lengi þar til er hann heyrði hlátur mikinn. Hann nam þá staðar og lagði af sér byrðina. Þetta nálgaðist hann skjótt og gat hann að líta hvar tvær flagðkonur fóru. Þær voru mjög svartar.

Þá mælti önnur þeirra: "Það væri okkur vel farið systir að taka af Gunnari veiði sína en draga hann heim og færa hann föður okkrum."

Gunnar heyrði hvað þær töluðu. Hann gekk í móti þeim og spurði þær að heiti. Önnur nefndist þar Fála en önnur Gála.

Þá mælti Gála til Gunnars: "Leggðu af veiði þína við okkur systur."

En hann kvaðst eigi því nenna að óreyndu. Þær sóttu þá að Gunnari í ákafa en hann varði sig vel og drengilega. Hann hjó þá til Gálu svo að af tók höndina. Hann hjó þegar á hálsinn svo að af tók.

Þá mælti Fála til Gunnars: "Gef þú mér líf og skal eg vera þér í liðsinni og eg skal gefa þér gull svo mikið sem þú vilt þegið hafa."

Þá mælti Gunnar: "Þigg þú líf þitt af mér enda vertu mér trú."

Þá mælti hún: "Far þú Gunnar heim með mér til hellis föður míns og skal hann gefa þér vopn góð."

"Ekki má eg það," sagði Gunnar, "því að eg verð heim að fara til skála míns. Veit eg að félagar mínir leita að mér. Skal eg í annan tíma svo gera sem þú biður."

Skilja þau nú með þessu.

Gunnar fer nú til þess er hann kom heim. Þeir Bárður og Helgi urðu honum fegnir. Hann lagði þá af sér byrði sína. Þeir spurðu tíðinda eða hvað hann hefði dvalið. Hann sagði slík sem orðið höfðu og þótti þeim hann mikinn frama fengið hafa af flagðkonum þeim. Sátu þeir nú kyrrir í skála sínum og leið nú mjög á veturinn.


6. kafli

Það bar til einn dag að Gunnar átti að ganga á jökla. Hann vildi þá fara einn saman. Hann tók vopn sín og gekk fram með firðinum og þar upp undir jökulinn þar sem fjörðurinn þraut. Þar var lukt hömrum stórum svo að þar sá ekki meira en í hálfrokknu húsi. Hann fór svo lengi þar til er hann sá elda brenna. Hann hafði þar af ljós og gekk eftir því þar til er hann kom að helli stórum. Þá nam hann staðar úti fyrir hellinum. Þar sátu tröll mörg um eldinn.

Þá mælti eitt þeirra: "Betur kæmi hér Gunnar."

Þá svaraði annað þeirra: "Hvað væri oss það bati eða vissir þú eigi hversu hann fór með þær systur Fálu og Gálu?"

Bóndi þeirra svaraði: "Það vildi eg að hann kæmi aldrei hér því að eg ætla að mér standi af honum hin mesta ógæfa."

Gunnar gekk þá inn í hellinn öðrum megin undir bergið og stóð þar nokkura stund þar til er þau karl og kerling fóru að sofa. Þá var eftir sonur þeirra og tvær dætur. Þá gekk Gunnar fram að eldinum og hjó til eins þeirra svo að af tók höfuðið. Þau hlupu þá upp systkin og sóttu að Gunnari með miklu kappi. Hann drap þau bæði skjótt. Síðan settist hann niður og lét renna af sér mæði. Þá var dimmt orðið í hellinum því að eldurinn var slokknaður.

Gunnar stóð þá upp og gekk innar eftir hellinum og vildi finna þau karl og kerlingu. Fór hann leitandi til þess er hann fann þau og gekk þar að sem þau lágu og fletti af þeim klæðunum. Honum sýndist þau mjög svört og illileg. Hann lagði þá á hann svo að í gegnum stóð. Hann brá þá svo hart við að hann féll fram úr rúminu. Dó hann þá skjótt en kerling vaknaði við þetta. Hún spratt upp og greip eitt sverð er lá hjá henni og sótti að honum í miklum ákafa. Gunnar varði sig vel en þóttist þó í enga raun meiri komið hafa. Hann fékk þá mörg sár og stór. Gunnar sá þá að eigi mundi svo búið duga. Hann kastaði þá öxinni og réð undir kerlingu. Þau glímdu þá lengi og gekk flest upp fyrir þeirra fótagangi. Sá Gunnar þá að eigi mundi svo búið hlýða.

Hann mælti þá fyrir munni sér: "Hvað mun mér í annað sinn meiri þörf Fálu vinkonu minnar en svo?"

Nokkuru síðar sá hann hvar hún fór. Ekki var hún þá frýnleg, snýr þar þegar að sem þau áttust við. Hún hjó hart og tíðum með saxi því er hún hélt á, er Þrumur hét. Veittu þau henni skjótt bana. Þá settust þau niður.

Hún mælti þá við Gunnar: "Nú vil eg að þú farir með mér."

Hann gerði þá sem hún bað. Síðan bjuggust þau þaðan í burt og báru með sér mikið silfur og gull og marga aðra dýrgripi. Síðan fóru þau leiðar sinnar. Gekk hún fyrir þar til er þau komu í helli stóran. Þau lögðu þá niður byrðar sínar. Þar sá hann allt tjaldað sem við veislu væri búið.

Hún mælti þá til Gunnars: "Mál er þér að hvílast og taka á þig náðir."

Hún leiddi hann þá í afhelli. Þar var borð búið. Gunnar settist undir borðið, át og drakk sem hann lysti. Síðan fór hann að sofa. Var hann þar um nóttina.

Fála fór að finna föður sinn og móður. Þau heilsa henni vel.

Þá spurði karl: "Hvað hefir komið í kveld?" sagði hann.

En hún sagði sem var "og bið eg að þú takir vel við honum og látir hann þess njóta er hann gerði til mín."

Karl svarar: "Láttu mig sjá hann er þú fylgir honum svo fast."

Hún gekk þar að sem Gunnar lá og bað hann upp standa "því að faðir minn vill sjá þig."

Hann klæddist skjótt og gekk með henni þangað sem faðir hennar var. Hann heilsaði honum.

Skrámur mælti: "Hversu gamall maður ertu Gunnar?"

Hann svarar: "Nú er eg tólf vetra."

"Þú ert efnilegur maður," segir Skrámur, "og skaltu vera velkominn með oss og svo vill dóttir mín."

Þar var Gunnar um hríð. Leið nú mjög á veturinn.

Það var einn dag að Gunnar kom að máli við Fálu vinkonu sína: "Mál þykir mér að vitja manna minna."

Hún leysti hann burt með gjöfum góðum og fylgdi hún honum á leið og bað Fála vel fyrir honum áður þau skildu. Gekk Gunnar þá leið sína uns hann kom heim. Urðu hans menn honum fegnir.

Leið svo af veturinn.

En þegar er voraði bjuggu þeir skip sitt. En þegar er þeir voru búnir héldu þeir þegar burt. Gaf þeim vel byri til þess er þeir komu skipi sínu við Noreg þar sem Bárður átti garð fyrir. Þá réð Hákon jarl Sigurðarson fyrir Noregi. Bárður bauð þeim bræðrum heim til sín. Þeir þekktust það, fluttu þangað varning sinn. Bárður bauð hverjum manni sem á hans garði var að allir skyldu þeim þjóna.

Þetta fréttist skjótt víða um Noreg. Þetta kom og fyrir jarlinn og bauð hann þegar Bárði til veislu en hann játaði að fara. Sendimenn fóru aftur og sögðu jarli að Bárður hét að koma.

Leið nú að þessari stundu sem veislan var sett.

Kom Bárður að máli við Gunnar: "Það vildi eg að þú værir heima á meðan eg færi til veislu þeirrar sem jarl hefir mér boðið."

Þá mælti Gunnar: "Fara vil eg með þér. Það þykir mér betra en að vera heima."

"Svo skal þá vera," sagði Bárður.

Þeir bjuggu þá ferð sína og voru fimmtán saman, allir vel vopnaðir. Þeir riðu þar til er þeir komu til hallar jarls, stíga þá af baki hestum sínum og ganga fyrir jarl og kvöddu hann vel. Hann tók Bárði harðla vel og setti hann hið næsta sér. Þá spurði jarl Bárð hvað manni það væri er honum gekk næst. Bárður segir að það væri útlenskur maður. Þá spurði jarl hann að nafni en hann sagðist Gunnar heita.

"Hversu gamall maður ertu?" segir jarl.

Gunnar segir: "Eg er nú átján vetra," segir hann.

Þá mælti jarl: "Þú ert stór maður eða eru svo margir á Íslandi?"

"Satt er það," sagði Gunnar, "að þar eru margir miklu framar en eg er."

Féll niður þessi ræða.

Leið af veislan. En eftir veisluna bauð jarl Gunnari eftir að vera en hann játaði því og þá boðið. Bárður bjóst í burt og spurði Gunnar hvort jarl hefði boðið honum eftir að vera. Hann sagði það satt vera.

"Ekki mun eg þess fýsa þig," sagði Bárður, "því að jarl vill þig feigan og vil eg að þú farir heim með mér."

"Ekki skal það vera," sagði Gunnar, "og skal eg að vísu þiggja það boð sem jarl bauð."

Þá mælti Bárður: "Það vil eg að þú vitjir mín ef þú þarft nokkurs með."

Gunnar kvað svo gera mundu.

Síðan skildu þeir. Fór Bárður heim en Gunnar var eftir og Helgi bróðir hans með hirðinni og skjótt vel virðir af hverjum manni. Leið nú á veturinn.


7. kafli

Einn dag var það að jarl lét kalla þá til sín, þá bræður. En er þeir komu kvöddu þeir hann vel.

Hann mælti til Gunnars: "Þú munt mikill íþróttamaður," sagði jarl.

"Eigi er það," sagði Gunnar.

"Eg vil þó sjá," sagði jarl.

"Helst mundi eg þá glíma," sagði Gunnar, "ef mennskur maður væri."

"Það ber vel til," segir jarl, "og skalt þú glíma að hálfs mánaðar fresti."

Þetta var nú statt gert.

Leið nú að þeirri stundu sem glíman var sett. Hugði jarl nú gott til glímunnar. Kom þar margur maður. Þar kom og Bárður vin Gunnars því að hann hafði frétt að glíman var lögð og vildi hann finna Gunnar áður sá dagur kæmi. En er þeir fundust spurði Bárður Gunnar hvort hann hefði játað glímunni. Hann sagði það satt vera.

"Það vissi eg snemma," sagði Bárður, "að jarl vildi þig feigan."

Gunnar svarar: "Svo verður nú að vera."

"Hér er einn hjúpur er eg vil gefa þér," segir Bárður. "Í honum skaltu vera þá er þú glímir."

Skilja þeir nú tal sitt að sinni.

Nú var út borinn stóll jarls og hyggur nú margur gott til að sjá þessa gleði. Var nú fram leiddur blámaður einn. Sá hafði mörgum góðum dreng að bana orðið. Jarl spurði þá hvort Gunnar væri þar kominn. Hann sagði það satt vera.

"Þá er nú upp að standa," sagði jarl, "og glíma við þenna piltunginn sem þér er nú ætlaður."

"Ekki á eg að glíma við tröll," sagði Gunnar.

"Við þenna skaltu nú glíma," sagði jarl.

Síðan stóð Gunnar upp og gekk fram á völlinn þar sem þeir skyldu glíma. Jarl spurði þá hví Gunnar færi ekki af fötum. Í því var sleppt blámanninum. Þeir tókust þá á heldur sterklega en þó var það öllum auðséð að Gunnar var ósterkari og bar blámaðurinn hann um völlinn. En svo var Gunnar mjúkur að aldrei kom hann honum af fótunum. Þar var ein hella stór á vellinum. Þangað bárust þeir að svo að fætur Gunnars námu helluna. Þá sleppti Gunnar þeim tökum sem hann hafði áður haldið en tók báðum höndum í axlir honum en hljóp sjálfur öfugur upp yfir helluna og í því kippti Gunnar að sér blámanninum svo snöggt að hann tók sundur í tvo hluti við hellunni. Þá varð óp mikið og þótti mörgum þetta hið mesta þrekvirki. Þá kallaði jarl á menn sína og bað að taka Gunnar höndum en það fórst fyrir því að Bárður hafði fjölmenni mikið og veitti Gunnari lið svo að jarl náði honum ekki.

Fór Gunnar heim með Bárði og þeir bræður báðir og voru með honum það sem eftir var vetrarins. Þótti Gunnar unnið hafa mörgum manni hið mesta frelsi í drápi blámannsins en jarl þóttist hafa fengið hina mestu sneypu er hann missti blámann sinn en fékk ekki Gunnar.

Einhvern tíma sem þeir talast við, Bárður og þeir bræður, spurði hann hvað þeir ætluðust fyrir.

"Í hernað vildi eg," sagði Gunnar, "í sumar og leita mér fjár og frægðar."

Bárður sagði það til reiðu vera: "Skal eg fá þér þrjú skip og menn sem þú vilt hafa."

Gunnar þakkaði honum þetta framlag. Voru þessi skip skjótt búin bæði að mönnum og vopnum. Bárður fylgdi þeim til skips og bað þá bræður þangað að halda að hausti en þeir játuðu því. Síðan héldu þeir í burtu og herjuðu víða um sumarið. Varð þeim gott til fjár og frægðar.

Einn dag sigldu þeir að eyjum nokkurum. Þeir lögðu að landi og tjölduðu á landi og sofa af nóttina. Þeir sofnuðu skjótt er menn voru drukknir og móðir. Gunnar stóð upp skyndilega og tók vopn sín og gekk upp á eyna einn samt. Þá sá hann mörg skip öðrum megin eyjarinnar. Hann hafði tölu á þeim. Þau voru þrettán og öll stór. Hann sá og tjald á landi. Hann gekk þangað sem búðir voru og hann sá að rauk. Hann vafðist í dyrunum. Þeir spurðu að, sem inni voru, hver sá væri er sig vildi kæfa. Hann kvaðst þar af landi ofan vera. Hann spurði þá hver skipunum stýrði.

Þeir sögðu: "Þú ert fávís maður. Hefir þú ekki spurt af þeim bræðrum, Svarti og Jökli, er nú eru frægastir og hver þjóð er hrædd við?"

Gunnar fór aftur til manna sinna og vakti þá, bað þá að bera fé allt af skipum en grjót í staðinn. Þeir höfðu þessu verki lokið áður en lýsti. Þeir sigldu þá þegar burt úr höfninni og fram fyrir nes. Sjá nú víkingar skipin róa að þeim í nálægð. Gunnar spurði þá hverjir fyrir skipunum réðu.

Þeir bræður sögðu til sín "og viljum við bjóða yður tvo kosti. Er sá annar að ganga hér frá skipum og annar sá að berjast ef þér þorið."

"Þann skal upp taka," sagði Gunnar.

"Það þykir oss betra," sagði Svartur.

Síðan tókst þar bardagi hinn harðasti. Féllu margir af hvorumtveggju og þó fleiri af víkingum. Gunnar gekk hart fram og felldi margan með sverði því er Fála hafði gefið honum. Þá komust þeir bræður upp á skip víkinga. Ruddust þeir þá fast um til þess að þeir komu fram að siglu. Þá kom Jökull í móti Gunnari. Hann hafði mæki stóran í hendi sér. Jökull hjó þá til Gunnars með mækinum. Gunnar bar af sér höggið og kom það í bitann svo að fal báða eggteinana. Hann laut þá eftir högginu. Gunnar hjó þá til Jökuls með sínu sverði. Það beit allt það sem því var boðið og tók af höndina og þar með síðuna og renndi ofan á mjöðmina og tók þar undan honum fótinn og féll Jökull þar dauður niður. Gunnar gekk þá fram um siglu og kom þar að sem Svartur og Helgi börðust. Var Helgi þá bæði sár og móður.

Gunnar bað hann þá hvíla sig en Helgi vildi það ekki og sagði svo: "Ljá þú mér heldur sverð þitt."

Gunnar gerði sem hann bað því að það beit allt það sem því var boðið. Sótti Helgi þá í ákafa. Þá bárust sár á Svart. Helgi hjó þá eitt högg svo mikið í höfuð Svarti að hann klauf það og búkinn að endilöngu svo að sinn veg féll hvor hluturinn. Þá var æpt siguróp. Gengu þá víkingar á hönd þeim bræðrum. Tóku þeir þar mikið herfang en gáfu hverjum manni sem lifði eftir grið. Fór þá hver sem vildi.

En þeir bræður héldu í burt og ætluðu heim um haustið hvað eð þeim gekk eftir vilja sínum.


8. kafli

Sem Bárður fregnar þetta, að þeir bræður voru komnir, fór hann þá til fundar við þá bræður og fagnaði hann þeim vel og lét hann flytja heim þegar fjárhluta þeirra. Þeir gáfu Bárði góðar gjafir, sátu nú um kyrrt þar til sem leið að jólum.

Þá átti Bárður að sækja að vanda veislu til jarls. Hann fór þá fjölmennur en þeir bræður voru eftir báðir. Bárður kom á veisluna. Tók jarlinn honum vel.

Einn dag var það sem þeir sátu glaðir. Þá varð þeim margt talað. Spurði jarl Bárð hvort hann hefði tekið þá bræður. Hann sagði það satt vera.

"Djarfur maður ertu Bárður," sagði jarl, "að þú heldur þá menn sem þú veist að mínir óvinir eru."

"Ekki er það þann veg herra," segir Bárður, "og vilja þeir sættast við yður."

Jarl bað Bárð þá láta koma til sín "og megum vér þá best sættast."

Bárður játaði því.

Leið af veislan og fór Bárður heim og sagði þeim bræðrum að jarl vill að þeir komi til hans "og mun eg fara með ykkur."

Þeir bjuggust þegar á fund jarls og völdu honum góðar gjafir og færðu jarli. Hann tók því öllu vel, gerði þá sína menn og voru þeir síðan með jarli það sem eftir var vetrarins.

Einn dag var það að Gunnar gekk fyrir jarl og kvaddi hann. Jarl spurði þá að hvað þeir vildu. Gunnar bað orlofs að fara út til Íslands að finna föður sinn og vini. Jarl gerði sem hann bað. Síðan bjuggu þeir skip sitt og báru þar á fjárhlut sinn. Jarl gaf þeim góðar gjafir að skilnaði en Bárði gáfu þeir öll þau skip sem þeir höfðu fengið og þann fjárhlut er þeir komust eigi með. Báðu hvorir vel fyrir öðrum og skiljast vinir, létu síðan í haf og gaf þeim vel byri þar til er þeir komu skipi í Skaftárós. Frétti Þorbjörn það skjótt og ríður til skips og finnur sonu sína. Varð þar fagnafundur mikill. Þóttist hann þá ungur orðinn í annað sinn. Voru þeir skjótt heim fluttir. Fréttist þetta um héruð að þeir væru heim komnir.

Gunnar frétti það að Þorgrímur var dauður. Hafði hann sprungið af harmi eftir sonu sína. Gunnar minntist þá orða þeirra er þau Helga höfðu mælt. Fór hann þá á Hörgsland. Var honum þar vel fagnað. Hann gekk þegar til fundar við Helgu. Hún varð honum allfegin. Hann bað hennar þegar. Því máli var vel svarað af móður hennar því að hún hafði vitað öll ráð með þeim. Var þegar við boði búist og mörgum manni til boðið. Gekk sú veisla vel fram. Gaf Gunnar öllum góðar gjafir þeim sem þangað höfðu sótt. Fór þá hver heim þangað sem átti.

Gunnar reisti bú mikið á Hörgslandi og tók þar með goðorð sem Þorgrímur hafði haft áður og þótti öllum það vel skipað. Helgi var heima með föður sínum.


9. kafli

Enn er þar til að víkja sögunnar sem var frá horfið að þau voru systkin, Þórdís og Örn. Og vildi hann þá enn minnast þess fjandskapar er fyrr hafði verið þeirra á meðal.

Það var einn dag að Gunnar stóð upp snemma um morguninn og tók vopn sín. Helga spurði hvert hann ætlaði. Hann gekk út snúðugt og svaraði henni engu, steig á bak hesti sínum, reið til þess hann kom að Vatnsenda. Hann steig þar af baki hesti sínum og barði að dyrum. Örn gekk út og heilsaði Gunnari.

Þá mælti Gunnar: "Nú er að verja sig Örn."

Þeir börðust lengi og varð hvorutveggi sár mjög en Gunnar mæddist seinna af því að hann var maður yngri og beiddi Örn hvíldar. Þeir hvíldust og studdust fram á vopn sín. Gunnar bað hann þá enn verja sig. Örn spratt upp og sótti að Gunnari svo að hann mátti ekki annað en að verja sig. Örn hjó þá til Gunnars svo mikið högg að hann klauf af honum brynjuna svo að hún féll öll af sem fetlar niður um Gunnar. Í því hjó Gunnar í hjálm Arnar svo að klauf höfuðið og þar með búkinn að endilöngu og féll hann þar dauður til jarðar. Gunnar var þá bæði sár og móður. Hann reið þá heim. Varð Helga honum allfegin. Hún batt um sár hans og greru þau allskjótt.

Víg Arnar fréttist nú víða og varð hann engum manni harmdauði nema systur hans. Hún undi illa við sinn hlut og vildi hún hefna hans með göldrum sínum. Henni varð það ekki lagið en þó bar hún sig að því löngum.


10. kafli

Það er af Helga að segja að hann fékk fæð mikla. Hann reið þá einn dag að finna bróður sinn og sagði honum að hann vildi biðja Ingibjargar dóttur Geirs bónda.

Síðan ríða þeir báðir bræður á fund Geirs við tólfta mann. Geir bauð þeim þar að þiggja sæmd og náðir. Þeir stigu nú af baki og ganga til stofu og voru þar um nóttina í góðum beina. Þeir höfðu uppi bónorðið við Ingibjörgu fyrir hönd Helga. En Geir bóndi veik þeim svörum til dóttur sinnar en hún kvað vilja hér hlíta föður síns ráði. Var þessu nú keypt. Skyldi það boð vera um haustið á Geirlandi um veturnætur. Þeir riðu heim bræður báðir til búa sinna.

Leið nú á sumarið og kom sá tími sem ákveðinn var að brullaupið skyldi vera. Kom þar þá margur og var engi óboðinn. Stóð veisla sú sjö daga og sjö nætur. En að endaðri veislunni fór hver heim til sinna heimkynna. Voru allir meiri háttar menn með gjöfum út leiddir. En Helgi fór heim til Keldugnúps með konu sína og sat nú í kyrrð.


11. kafli

Þórdísi þótti mikið fráfall bróður síns og tók að efla seið mikinn að Gunnari svo að hann mátti eigi um kyrrt sitja hvorki heima né annars staðar.

Hann lét þá einn dag söðla hest sinn og reið til Keldugnúps. Var honum þar vel fagnað. Hann sagði föður sínum það vandræði sem honum var til handa komið og bað hann til leggja með sér eitthvert ráð að honum þætti vænst að duga mundi.

Þorbjörn kvaðst það varla kunna til að leggja "en þó mun eigi duga að svo standi. Þú skalt ríða til Foss og bjóða Þórdísi fé fyrir bróður sinn svo sem hún vill sjálf gert hafa. En ef hún vill það eigi kann eg ekki til að leggja með þér."

Gunnar reið þá heim fyrst en þegar næsta morgun reið hann til Foss. Þórdís var þá úti og þekkti Gunnar. Hún gekk þegar inn. Gunnar sté niður af hesti sínum og gekk heim að dyrunum og þegar inn í bæinn og snýr til stofu. Þórdís sat á palli. Enginn heilsaði Gunnari er hann kom inn.

Hann mælti til Þórdísar: "Því em eg hér kominn að eg vil bjóða þér bætur fyrir bróður þinn svo sem þú vilt sjálf mestar hafa."

Þórdís svaraði: "Þetta kom þér seint í hug. Mundi eg þær fyrir löngu þegið hafa ef þú hefðir mér þær fyrr boðið."

"Taktu nú," segir Gunnar, "sem eg býð þér."

"Svo skal vera," sagði Þórdís, "og geri eg eftir bróður minn þrenn manngjöld."

Þau sættust að því. Gunnar lauk þá þegar fé það allt sem Þórdís gerði og reið heim síðan og voru þau jafnan síðan vinir. Sátu nú hvorutveggju í sínum búum um kyrrt.

Þeir bræður þóttu hinir mestu menn enda var það bæði að engir urðu til að leita á þá þaðan af enda ýfðu þeir engum. Er frá þeim komin mikil ætt. Þóttu það allt vera miklir menn fyrir sér.

Og lýkur þar þessari sögu.


(Önnur gerð sögunnar er varðveitt í AM 554i 4to og hér koma tvö brot út henni. Fyrst er þáttur um glímu Gunnars og Svarts.)


Ætluðu þá allir að Gunnar mundi falla þegar er þeir tækju til glímu en þó voru báðir sterklegir. Þorgrímur bóndi sat á palli og Helga dóttir hans og skartaði hún allmikið. Gunnar fór úr kuflinum og fauk úr honum aska mikil. Hann vafði hann saman og kastaði honum í horn til Helgu. Hún tók við og lagði niður hjá sér. Leit þá hver til annars og höfðu það margir fyrir satt að þau hefðu fyrri sést.

Þeir hlaupa þá saman allsterklega og var þeirra atgangur bæði harður og langur svo að eigi mátti á milli sjá hvor falla mundi.

Gunnar mælti þá við Svart: "Hefir þú fram lagt slíkt sem þú hefir til?"

"Já," segir hann.

Þá grípur Gunnar hann upp á bringu sér og gekk með hann innar að pallinum þar bóndi sat og setti hann niður við fótborðið svo að í sundur gekk í honum hryggurinn.

Gekk Gunnar þá að pallinum þar sem Helga sat og tók kufl sinn og fór í. Síðan tók hann í hönd Helgu og reisti hana upp og settist í sæti hennar og setti hana síðan í hné sér. Sá þá enginn maður nauðung á henni í það sinn. Gunnar var digur í sætinu og þrengdi fast að bónda. Þorgrímur roðnar mjög og líkar hið versta. Gunnar talar við Helgu þann dag allan til nætur.

Þeir báru nú fram þrælinn dauða og fóru svo frá leik. Bar þar ekki neitt til nýlundu fleira á þeim degi.


(Síðara brotið byrjar í miðjum sjötta kafla og nær til loka sögunnar.)


Fála mælti til Gunnars: "Tími er þér að hvílast og neyta matar."

Leiddi hún hann í einn lítinn helli. Þar stóð borð vel búið með alls kyns matföngum. Þar voru hreinir diskar og kostuleg ker upp á sett eins og í hófum er gert. Hann undraðist þetta stórlega.

Fála mælti: "Tak nú til matar og neyt djarflega."

Hann gerði og svo, og át sem hann lysti. Fór hann síðan að sofa í sæmilegri sæng sem þar var og býður Fálu góða nótt.

Hún fer svo og finnur föður sinn og móður og var hún heldur blíð við þau. En þau spurðu hana að hver sá væri sem með henni hefði komið í kveld.

Hún svarar: "Það er Gunnar og vildi eg að þið tækjuð vel við honum því að eg á honum lífgjöf að þakka."

Karl segir: "Eg vil fá að sjá hann áður en eg hýsi hann."

Fála fór til hans og bað hann upp standa "því að faðir minn vill sjá þig."

Stendur Gunnar þá upp og klæðir sig og gekk með henni þar til þau komu þar sem faðir hennar var.

Karli leist vel á hann og tók honum blíðlega og mælti: "Hversu gamall ertu?"

"Eg er tólf vetra," segir Gunnar.

"Þú ert efnilegur og vel að íþróttum ger," segir karl.

Gunnar mælti: "Hvað heitir þú karl? Þú munt segja mér nafn þitt?"

Hann svarar: "Eg heiti Skrámur en kerling mín Skráma."

Síðan var Gunnar þar lengi og þótti honum vel að fara. Leið svo mjög á veturinn.

Hann kom eitt sinn að máli við Fálu og segir: "Nú vil eg fara að finna menn mína því að þeim mun þykja mál að sjá mig héðan af."

Hún svarar: "Það skal í þínu valdi nær sem þú vilt."

Gaf hún honum góðar gjafir og marga dýrgripi. Skildu þau með blíðu og fór hann svo leið sína.

Hún sagði: "Við munum nú svo skilja að við fáum eigi aftur að sjást upp frá þessu."

Kvöddust þau þá með kærleika miklum.

Hann fann skjótt félaga sína og urðu þeir honum fegnir. Þeir voru þá búnir til siglingar og létu í haf þegar byr gaf og urðu þeir hraðfara. Bar þá skjótt til Noregs eftir vild þeirra. Þeir gengu á land og komu upp skipi sínu. Þetta var þar sem Bárður átti garð í Noregi. Bárður bauð þeim bræðrum heim til sín og þágu þeir það. Bárður gerði þeim vel til sem verðugt var á allan hátt og lét þjóna þeim sæmilega með bestu virðingum. Bárður var ættstór, vinsæll og auðugur.


12. kafli

Hákon jarl hinn ríki Sigurðarson réð í þann tíma fyrir Noregi. Bárður var honum alkunnugur. Jarl spurði af þeim bræðrum, hverjir hreystimenn þeir væru. Bárður kvað þá báða atgervismenn þótt Gunnar bæri af. Jarl bauð Bárði til veislu svo að hann fengi fregn af ferðum hans.

En sem leið að þeim tíma að veislan var ákveðin bjó Bárður sig til veislunnar.

Þá mælti hann við Gunnar: "Það vildi eg að þið færuð hvergi til þessarar veislu því að eg þekki lyndi jarls. Hann er öfundsjúkur, kappsamur og yfrið harður. Hann hefir margan mann drepið og fátt sér um gefið."

En eigi að síður vildu þeir bræður með honum ríða og fara þeir síðan heim til jarlsins og kvöddu hann sæmilega. Hann tók Bárði vel og bauð honum til sætis með mikilli virðingu hið næsta sér. Þeir Gunnar og Helgi sátu næst Bárði. Þar var tjaldað um höllina með sæmilegum hallarbúningi. Þar voru alls kyns leikar framdir. Jarl spurði þá bræður báða að heiti en þeir sögðu hið sanna um sín efni.

Þá segir jarlinn til Gunnars: "Ertu gamall hinn frægi riddari?"

Hann svarar: "Eg er þrettán vetra."

Jarl segir: "Sé þér veitt afl eftir vexti þá mun þig fátt vanta við mína kappa og mun þér vel hent að glíma við þá og fæða soltinn varg á velli."

Þá svarar Gunnar orðum jarls: "Varla er mér það hent. Þó mun eg eigi spara eina stund það að sýna ef þér viljið reyna láta."

Þá segir jarlinn: "Þú skalt Gunnar glíma við pilta mína strax á morgun svo að eg sjái hreysti þína."

Gunnar mælti þá að slíkt megi prófast.

Og leið svo af dagurinn. Gengu menn síðan til sængur og lágu af um nóttina.


13. kafli

Um morguninn stóð jarl upp með sína menn og biður þá að koma á leikvöllinn. Gunnar stóð upp og kom þar sem jarlinn var og spyr hver sér skuli í móti koma. Þá var fram leiddur einn blámaður sem glíma skyldi við Gunnar en hann segist eigi vilja við blámann glíma. Þá kallar Hákon á þenna dóla. Hann kannaðist við nafn sitt og var leystur úr járnviðjum sem hann var með bundinn. Þótti öllum lýð standa mikil ógn af þessum ár.

Síðan gekk hann til Gunnars og grípast þeir faðmlögum. Þar var hin harðasta sókn og þótti mönnum sem jörðin skylfi. Gunnar kunni vel glímu við þenna skálk svo að þeir óðu að mestu jörðina upp til hnjánna. Á vellinum stóð ein fangahella, svo hvöss sem sverðsegg væri. Þangað bárust þeirra leikar og lentu svo að Gunnar lætur þenna blámann bella á hellunni og kippti honum þar í sundur og fellur berserkurinn þar við vondan orðstír.

En sem jarlinn sá blámanninn dauðan verður hann ævareiður og kallar á sína menn og biður þá að herklæðast og sækja strax að Gunnari. En allur lýðurinn lætur þar tregt við, því að margur unni Gunnari vel, heldur töluðu þeir til jarlsins og sögðu að Gunnar hefði vel kunnað glímulist og hefði ekki þessi blámann honum hlíft hefði hann getað honum fyrir komið. Því væri jarlinum þetta stór æra en engin vansæmd eða óheiður. En af því að jarlinum líkaði þetta illa þá varð Bárður að bjóða fulla sætt fyrir þá bræður og vildi hann þó lítt þekkjast í það sinn.

Ríður Bárður nú heim úr veislunni og þeir bræður með honum og varð eigi meira til tíðinda. Sátu þeir þá um kyrrt um hríð og spurðust þessi tíðindi víða og unnu allmargir þeim bræðrum og sérdeilis Gunnari fyrir þetta verk. Líður svo af veturinn og kom vorið.


14. kafli

Nú vildu þeir bræður fara í hernað um sumarið. Bárður valdi þeim frækna menn og vænar skeiðar, vopn og klæði og allt annað sem þeir vildu. Síðan fór Gunnar úr landi með þrjú skip og röskva drengi og kvaddi Bárð sæmilega. Voru þeir um sumarið í víkingu og tókst þeim það vel. Þeir eyddu miklu illþýði og herjuðu um Eystrasalt. Þeir létu bændur og kaupmenn í friði en stríddu traustlega þeim í mót sem ásókn veittu og yfirunnu þá alla. Þeir fengu mikið fé og herfang.

Eitt sinn fundu þeir eitt eyland. Þangað lögðu þeir, renndu atkerum og gengu á land.

Gunnar gengur einn frá mönnum sínum með vopn sín. En sem hann hafði eigi lengi gengið sér hann hvar þrettán drekar sveima að landi. Bar þá skjótt að. Gengu menn á land upp og settu landtjöld sín. Gunnar gengur þangað og spyr hver þeim stóra skipaflota á að ráða. Formaður þeirra segir til hans að hann skuli hitta hér tvo bræður hverjir honum muni verða skeinuhættir. Gunnar spyr þá að heiti. Honum var svarað að þar væri kominn Svartur og Jökull og ættu þeir þessum her að stýra. Sem Gunnar heyrði þetta gengur hann sem hraðast frá þeim til manna sinna og segir þeim frá hverninn komið væri og biður þá að búast til bardaga í móti þessum bölvuðum hundum. Var þá búist við stríði og blásið í lúðra hjá hvorutveggjum. Bjó hver sig sem best mátti og lágu svo af nóttina.

En að morgni komu hvorutveggju til samans og héldu saman skipum sínum. Komu þeir Gunnar með sín þrjú skip móti þeim bræðrum. Síðan kallar Gunnar til þeirra og spyr hver þar geri svo gildan atgang.

Svartur og Jökull svöruðu honum og sögðust þeim skipum þangað stýrt hafa "og munum við að fornu þekkjast."

Þá segir Jökull að þeir skuli við búnir bardaganum. Gunnar og Helgi sögðu að eigi skyldi langt að bíða áður þeir skuli rauðu snýta. Þá tóku berserkirnir til að grenja og brjótast fram sem mest þeir máttu og gerðu mikinn skaða í liði Gunnars. En þeir bræður í annan stað sóttu fast á móti þeim og létu dólgana dauða falla af borðum út. Dugði þá allvel Fálunautur. Hlupu þá margir í vitleysi út af skipunum og drápust. Helgi felldi margan mann og var sem þá úlfur kemur soltinn í sauðahóp. Gengur Gunnar þá á skip þeirra bræðra, og Helgi fylgdi honum, og drepur marga menn. Jökull æddi þá á móti Gunnari allgrimmlega og lagði til hans með spjóti og Gunnar á móti svo sterklega að bæði spjótin gengu í sundur. Jökull höggur þá með báðum höndum til Gunnars en hann veik sér undan högginu svo að hann náði honum ekki en sverðið kom í stóran bjálka. Laut hann þá eftir högginu. Í því bili hleypur Gunnar að honum og höggur sverði sínu með báðum höndum ofan á hann miðjan svo mikillega að sverðið tók hann sundur í miðju. Veltir hann honum síðan dauðum út í sjóinn.

En sem Svartur sér bróður sinn dauðan tekur hann til að hamast sem tröll og stefnir fram að Helga með ógurlegum látum. Helgi snýr honum í móti. Svartur reiðir þá sinn mæki og leggur til Helga svo grimmlega að hann kom varla skildi fyrir sig. Helgi höggur bæði ótt og tíðum móti Svarti og svo hart að eldinum lýsti úr hlífunum. Mátti eigi á milli sjá hvor sigrast mundi því að ekki beit á Svart heldur en annan berserk. Þá kallar Helgi til Gunnars og biður hann að fá sér sitt sverð að drepa með þenna djöful. En sem Gunnar heyrði þetta hleypur hann að Helga og réttir að honum Fálunaut. Sem hann hefir við honum tekið neytir hann þess hreystilega, sem Svartur fékk að sanna áður en langt um leið, því að þá Svartur vissi sér minnst von höggur Helgi það högg til hans að sverðið kom á öxl honum og sneiddi af hans hægri hönd með síðunni. Tekur Svartur þá ógurlega til að bölva og var það hans banabæn en Helgi segir hann muni eigi við marga á hólm ganga hér eftir. Lætur hann þá eigi langt á milli höggva heldur höggur þegar af honum höfuðið og veltir honum svo af borðum út.

Buðu þeir bræður þeim mönnum grið sem eftir voru en með því þeir höfðu eigi önnur ráð þá gengu þeir allir Gunnari á hendur og Helga og sóru þeim trúnaðareiða. Tóku Gunnar og Helgi það herfang sem þar var saman komið sem voru öll þau skip er þeir bræður höfðu þangað fært og allt það þar var innanborðs.

Eftir þetta sigldu þeir til Noregs og fengu blíðan byr, tóku höfn við Noreg og gengu á land. Bárður gengur til strandar og býður þeim bræðrum heim til sín og öllum þeirra mönnum með þeim. Varð hann feginn þeirra fundi. Fóru þeir bræður heim með honum og voru þar um veturinn í góðu eftirlæti. Sögðu þeir af fundi þeirra bræðra og öllum sínum ferðum. Urðu þeir mjög nafnkunnugir af þessum frægðarverkum. Bárður sætti þá við Hákon jarl og lagði þeim góð ráð við hann svo að hann tók þeim vel með allri blíðu og gaf þeim góðar gjafir með allri virðingu.


15. kafli

Nú sem veturinn líður og sumarið kemur vildu þeir bræður halda til Íslands. Fengu þeir gott orlof af jarlinum. Sæmdi hann þá með góðum gjöfum, vopnum og klæðum. Svo kvöddu þeir jarlinn virðulega. Fylgdi Bárður þeim til strandar og var svo skipum á sjó hrundið. Skildu þeir bræður við Bárð með kærleika, létu síðan í haf þegar byr féll og urðu vel reiðfara og komu við Austfirði og lögðu skipi sínu í Skaftárós að Hörgslandi. Ríður Þorbjörn skjótt til strandar og finnur syni sína og fagnar þeim vel og svo hvorir öðrum. Ríða þeir allir heim til Keldunúps og voru hjá föður sínum í góðu eftirlæti og þóttu þá engir menn frægri í öllum Austfjörðum.

Þorgrímur bóndi var þá dauður og hafði af harmi sprungið eftir sonu sína eigi fyrir löngum tíma. En Helgu var þá allur arfur fallinn eftir föður sinn og sat hún á öllu Hörgslandi.

Um veturinn riðu þeir feðgar til Hörgslands því að Gunnari var hugur á að finna Helgu vinkonu sína. En sem hún sá hann varð hún honum hjartanlega fegin og svo hvort öðru. Hefur Gunnar þar upp bónorð sitt og biður Helgu sér til handa. Var það auðsótt af henni til því að hún svarar að hans vilji skuli fram ganga í þessu efni. Og með hennar samþykki festir Gunnar Helgu sér til handa og hófst þar hin sæmilegasta veisla og var þeirra brúðkaup drukkið á Hörgslandi. Fóru þar margháttaðir leikar fram um veislutímann en að honum enduðum voru menn með sæmilegum gjöfum út leystir og sneru svo allir til sinna heimkynna.


16. kafli

Að vori komanda reisir Gunnar bú sitt að Hörgslandi og er þess getið að hann hefði goðorð eftir Þorgrím bónda og fékk þar um góðan orðstír. Þau undu vel sínu ráði og leið svo fram um tíma.

Einn dag ríður Gunnar heiman með enga sveina og getur um við engan hvert hann ætlar að ríða. Sem hann er á stað kominn gerði hann leið sína til Vatnsenda og er hann kom þar hitti hann Örn á hlaði úti og heilsar honum eigi öðruvís en svo að hann höggur til hans. Örn snýst í móti honum allhraustlega og er sá atgangur bæði harður og langur. Hjuggu þeir allar hlífar í sundur og börðust svo mikillega að hvor hjó tveim höndum með sínu sverði og var svo til að sjá að eigi vissi hvor sigrast mundi. En sakir þess að Örn var orðinn gamall maður þá sótti hann mannleg náttúra svo að hann mæddist og beiddist hvíldar um stund og það veitti Gunnar honum. En eigi leið langt um áður en þeir hófu í annan tíma bardagann og þegar þeirra viðskipti voru sem hörðust hjó Gunnar af hinum höfuðið og lét Örn þar líf sitt.

Reið Gunnar svo heim aftur og fann ekki Þórdísi að bjóða bætur fyrir Örn. En sem hún vissi Örn dauðan var henni sprengur búinn en hún fékk sjálf að hugga sig fyrir Gunnari. Hafði hún dauðlegt hatur til hans, sérdeilis að hann hafði engar bætur boðið fyrir bróður hennar. Brúkaði hún mikið fjölkynngi móti honum en hann sakaði það ekki í neinn máta.

Þá vildi Helgi fá sér kvonfang og bað Ingibjargar Geirsdóttur sér til unnustu og urðu þær málalyktir að Helgi festir Ingibjörgu með frænda samþykki og drakk hann brullaup til hennar að miklu fjölmenni. Gekk sú veisla af með hæversku og voru boðsmenn með gjöfum burt leystir. Þau settust að búi á Keldunúpi eftir Þorbjörn bónda og bjuggu ævi sína á sömu jörð og undu vel sínum hag.


17. kafli

Nú er þar frá að segja að Gunnar ríður heiman einn dag að finna Þórdísi til að bjóða henni bætur eftir Örn bónda.

Finnur hann hana og býður henni bæturnar en hún kveðst mundi fyrir löngu þegið hafa ef fengið hefði "og mun eg kjósa mér nú þrenn manngjöld eftir bróður minn Örn."

Hann lauk féð henni til handa og greiddi svo mikið sem hún vildi. Sættust þau þá heilum sáttum.

Reið hann heim til Hörgslands aftur og situr í náðum í góðum friði alla ævi síðan og þeir bræður báðir. Það orð var þá á Austfjörðum að þar mundu engir menn finnast þeim frægri.

Gunnar og Helga áttu mörg börn saman og voru þeirra synir haldnir hinir mestu frægðarmenn í þann tíma. Er frá þeim kominn mikill ætthringur og sá frændabálkur kallaður Keldunúpingar en um nöfn þeirra er eigi getið í þessari sögu eða um tilburði á þeim dögum.

Lúkum vér svo sögu af Keldunúps-Gunnari.