1. kafli

Ásbjörn hét maður. Hann var kallaður dettiás. Hann var Gunnbjarnarson Ingjaldssonar. Mikill maður var hann og sterkur og vænn að áliti. Hann bjó í Flateyjardal á bæ þeim er heitir á Eyri. Ásbjörn var kvæntur maður og átti Þorgerði systur Þorgeirs Ljósvetningagoða. Hún var kvenna vænst og skörungur mikill. Var þá ríki Þorgeirs bróður hennar sem mest og sona hans. Ásbjörn var norrænn að ætt og hinna ágætustu manna. Hann hafði stokkið út hingað fyrir valdsmönnum og þoldi eigi þeirra ójafnað og endemi sem margur annar gildur maður. Ásbjörn hafði goðorð um Flateyjardal og upp til móts við Þorgeir mág sinn.

Brettingur hét maður. Hann bjó á Brettingsstöðum í Flateyjardal. Hann átti þá konu er Þóra hét. Þeirra son hét Þorsteinn, annar Grímur, þriðji Sigurður.

Maður hét Ingi. Hann bjó að Jökulsá í dalnum. Sigríður hét kona hans. Þau áttu tvo sonu. Hét annar Þórir en annar Grímur. Þessir voru allefnilegir og gervilegir menn og hraustra manna. Var Ásbjörn landnámsmaður og svo þeir er fyrr voru nefndir.

Ásbjörn átti dóttur er Þórný hét. Hennar bað Austmaður sá er Skíði hét. Ásbjörn vildi eigi gifta hana. Þá er Ásbjörn var riðinn til þings um sumarið hafði Skíði tekið í brott meyna með ráði Þorgerðar móður hennar. Hann flutti hana til Noregs og gerði þar brullaup til hennar. Var hann mikilhæfur maður og átti frændur ágæta og hina bestu kosti. En þá er Ásbjörn kom heim af þingi varð hann reiður mjög að mærin var brott tekin, bæði Þorgerði og Austmanninum. Var hann fályndur og fastlyndur og hinn mesti ólundarmaður ef hann yrði reiður.


2. kafli

Nú líða nokkur misseri frá því og eitthvert sinn reið Ásbjörn til þings með menn sína.

Þá mælti hann til Þorgerðar: "Nú ætla eg til þings ríða eftir vanda en eg veit að þú ert með barni og mjög framað. Nú hvort sem það er þá skal eigi upp ala heldur skal bera út þetta barn."

Hún sagði að hann mundi það eigi gera "svo vitur og ríkur sem þú ert því að þetta væri hið óheyrilegasta bragð þó að fátækur maður gerði en nú allra helst er yður skortir ekki góss."

Ásbjörn segir: "Það var mér þá í hug er þú fékkst í hendur Skíða austmanni Þórnýju dóttur okkra utan mína vitand að eg skyldi eigi fleiri börn upp ala til þess að þú gæfir í brott fyrir utan minn vilja. Og ef þú gerir eigi eftir því sem eg segi muntu missmíði á sjá og allir þeir er af mínu boði bregða eða eigi sem eg vil vera láta."

Síðan reið hann til þings. Litlu síðar fæðir Þorgerður sveinbarn. Það var mikið og þriflegt og fagurt mjög. Allir lofuðu það, þeir er sáu, bæði konur og karlar. Nú þótt Þorgerði þætti barnið fagurt og ynni mikið þá vildi hún þó láta út bera því að hún vissi lyndi Ásbjarnar bónda síns að eigi mundi vel duga utan hann réði. Síðan fékk hún menn til að bera út barnið og búa um sem vandi var á. Þessir menn báru barnið úr garði út og lögðu niður milli steina tveggja og ráku yfir hellu mikla og létu flesk í munninn barninu og gengu síðan brott.


3. kafli

Maður hét Gestur. Hann bjó þar sem heitir að Tóftum. Syrpa hét kona hans. Hún hafði fóstrað Þorgerði fyrr meir þá er hún var barn. Og unni hún henni mikið og lét hana fara með sér þá er hún var gift þangað á Eyri. Var hún vel kunnandi allt það er hún skyldi gera. Hverju kykvendi var hún leiðilegri að sjá og lítið var Ásbirni um hana og þótti hún ærið nær ganga Þorgerði. Fyrir því lét hún Syrpu brott fara og gifti hana Gesti. Átti hún lítið fé eða ekki áður, annað en það er Þorgerður lagði til hennar, en hann átti þó eigi mikið. Gestur hafði hið mesta kvonríki því að hann var mannæli mikið og veslingur.

Svo er sagt að þann sama dag er Þorgerður varð léttari sendi Syrpa bónda sinn að vita sér um brúngras því að hún gerði mart fóstru sinni það er hún þurfti að hafa. Svo bar til þann dag að hann hljóp um grjót og haga. Þá heyrði hann barnsgrát, fer nú og snoðrar einart um hvern stein og þar til er hann finnur barnið, þrífur upp síðan og sýnist allfagurt. Hann kastar í stakkblað sitt og hleypur heim til Syrpu slíkt sem hann getur farið og hirðir ekki um það er hann var eftir sendur.

Syrpa spurði hví hann færi svo geystur. Hann kvaðst fundið hafa barn nýfætt "og hefi eg ekki séð jafnfagurt."

Syrpa bað hann sýna sér. Og er hún sá þóttist hún vita hver hans ætt var. Síðan bað hún að hann tæki skinnfeld þeirra og bæri innar á stofu "og skal eg leggjast niður og láta sem við eigum barn þetta."

Hann kvað engan því mundu trúa "og er það miklu þriflegra að sjá en okkur sé líkt."

Hún bað hann þegja og eigi þora annað að segja en það er hún vill. Síðan bað hún hann fara á Eyri og biðja Þorgerði fá sér það er hún þurfti að hafa. Og hann fór þegar.


4. kafli

Gestur kom á Eyri og sagði Þorgerði að Syrpa fóstra hennar hefði barn fætt og kvað hvorki vera mat né hvíluklæði. Þorgerður undraði þetta mjög og hugði að fóstra hennar mundi svo gömul að hún mundi eigi barn mega eiga, hefir um þetta fátt orða en lætur fara slíkt er hún þurfti. Syrpa var hin hraustasta og vildi ekki að aðrar konur þjónuðu henni. Tekur hún af allan búnað af barninu þann sem á var og var sá miklu ágætari en hún þyrði að hafa. Tók hún tötra og bjó um sem herfilegast.

Það fréttist nú hvorttveggja að barn þeirra Ásbjarnar og Þorgerðar var út borið og þótti það óheyrilegt bragð svo ríkra manna og göfugra sem þau voru, svo það að Syrpa hafði barn fætt og þótti þeim mönnum það ólíkindi er vissu aldur hennar. Ásbjörn kom heim af þingi og voru honum sögð þessi tíðindi. Lét hann vel yfir og var nú gott samþykki með þeim hjónum.

Svo er sagt að þau Gestur og Syrpa ala upp barnið. Vex hann svo skjótt að varla þótti líkindi á. Svo var það barn fagurt og frítt að allir hugðu það að aldrei ættu þau Gestur það barn. Þá spurði Gestur Syrpu hvað sveinn þeirra skyldi heita. Hún kvað það maklegt að hann héti Urðarköttur þar sem hann var í urðu fundinn. Hann óx dagvöxtum. Syrpa gerði honum söluvoðarbrækur og hettu. Hana gyrti hann í brækur niður. Krækil hafði hann í hendi og hljóp svo úti um daga. Hann var þeim þarfur í öllu því er hann mátti. Þau höfðu mikla ást á honum. Þá er hann var þrevetur var hann eigi minni en þeir að sex vetra voru gamlir. Urðarköttur rann oft til fjöru og voru fiskimenn vel til hans og hentu mikið gaman að honum. Hafði hann jafnan góðar hjálpir heim til fóstru sinnar Syrpu. Oft kom hann á Eyri og var þar óvinsæll fyrir griðkonum Þorgerðar. Barði hann á þeim eða krækti fætur undan þeim með staf sínum en þær báðu honum ills og voru harðorðar mjög. Oft sögðu þær Þorgerði. Hún lagði fátt til og bað að hann skyldi njóta fóstru sinnar Syrpu og vera vel við hann. Aldrei ber hann svo fyrir augu Ásbjarnar að hann láti sem hann sjái hann og æmtir honum hvorki vel né illa. En allir aðrir undruðu hann ef hann væri sonur þeirra Gests og Syrpu svo ámátleg sem þau voru bæði en hann var bæði mikill og fríður og vel knár.

Oft bað Syrpa að hann skyldi eigi koma á Eyri "því að mér segir það hugur að þar muni eg nokkuð illt af hljóta en mér tjóar það eigi að banna þér."

Urðarköttur kvað eigi svo vera mundu. Líður nú þar til að hann var sex vetra. Þá var hann eigi minni en þeir að tólf vetra voru og að engu óþroskulegri.


5. kafli

Svo var sagt að Urðarköttur rann til fjöru einn dag sem hann var vanur að finna fiskimenn. Voru þá flestir að komnir en sumir reru að utan. Þeir höfðu vel fiskt og köstuðu af skipum.

Þeir höfðu tekið einn ferelning, bæði mikinn og góðan, og köstuðu honum í flæðarmál og mæltu: "Urðarköttur félagi, taktu og drag upp fiskinn."

Hann mælti: "Viljið þér gefa mér fiskinn ef eg fæ upp dregið?"

Þeir kváðu hann verðan vera að hafa ef hann léki það og jáðu því allir. Urðarköttur var í skinnstakki og söluvoðarbrókum og allt af neðan. Gekk hann berfættur hvern dag. Hann hafði snæri um sig hvern dag og hettu sína yfir utan. Hann hleypur út í lárnar og bregður í fiskinn öðrum enda á snærinu en annan hefir hann um herðar sér, streitist nú mjög og gengur stundum á en stundum ekki. Allir horfðu á og hlæja að honum. Hann fer ekki að því. Svo lengi sem hann hefir að verið gengur honum betur og betur þar til er hann fær upp dregið. Var þar bratt er hann fór upp. Síðan hljópu þeir að og tóku af honum fiskinn og vilja eigi halda við hann en hann undi illa við. Fór hann og sagði Brettingssonum og bað þá duga sér. Þeir gengu þegar til fiskimanna og báðu þá lausan láta fiskinn og halda sammæli við Urðarkött. Þótti öllum hann vel hafa til unnið og þó með ólíkindum. Varð svo með atgangi þeirra að hann nær fiskinum og verður feginn mjög, streitist nú af nýju við fiskinn og dregur heim í tún til Syrpu fóstru sinnar. Hann færir þeim fiskinn. Urðu þau stórlega fegin.

Þetta fór víða um sveitir og var mikið orð á syni þeirra Syrpu og Gests. Undruðust allir hví þau skyldu eiga svo ágætan son sem öllum sýndist sjá maður og fannst mönnum mikið um er hann sáu og heyrðu sagt frá. Leituðu þau alla vega við að torkenna hann sem þau máttu. Og líður nú svo fram nokkura vetur.


6. kafli

Svo er sagt að vinskapur mikill var með þeim Ásbirni og Þorgeiri goða og mágsemd. Gerði hvor öðrum veislur og skiptust þeir góðum gjöfum við. Og svo ber að eitthvert haust að Ásbjörn bauð Þorgeiri mági sínum til sín og hann kemur með marga menn og tók Ásbjörn við honum vel með mikilli blíðu. Var þar veisla hin besta.

Urðarköttur hafnar ekki vanda sínum um komur á Eyri. Hleypur hann þangað hvern dag og svo gerði hann enn þenna dag er þeir sátu að veislunni. Hann er nú umfangsmikill og glímir við griðkonur. Þær taka nú fast á móti honum og ganga að honum fjórar og varð nú mikið hark. Hann dregur þær innar í stofuna og gangast þar að fast. Þetta þótti mönnum mikið gaman að sjá atgang þeirra. Svo lauk hann við að hann felldi þær allar og lék þær illa. Og þá er þau höfðu lokið leik sínum stóð hann á gólfinu í búnaði sínum. Var það skinnstakkur og krækill er hann hafði hvern dag í hendi.

Þorgeir horfði á hann langa stund og mælti síðan við Ásbjörn: "Hver er sveinn sjá er hér er kominn?"

Ásbjörn segir: "Það ætla eg son þeirra Gests og Syrpu frá Tóftum."

Þorgeir mælti: "Það er ólíklegt og má það ekki vera."

Þá kallar hann á Urðarkött. Hann gekk þegar til hans og settist niður á einn stokk er stóð fyrir honum.

Þorgeir mælti: "Hver ertu skinnstakkssveinn?"

Hann segir: "Eg heiti Urðarköttur og er eg son þeirra Gests og Syrpu er búa hér út að Tóftum."

Þorgeir segir: "Hversu gamall maður ertu Urðarköttur?"

Hann sagði, hann kveðst vera tólf vetra gamall.

Þorgeir mælti: "Þú ert mikill maður og gervilegur og svo vel skapaður að jöfnum aldri að eg hefi engan höfðingjason séð jafnan þér fyrir allra hluta sakir."

Þá mælti Ásbjörn bóndi: "Það muntu þá mæla mágur er þú sérð Syrpu og Gest, feðgin hans, að þau séu allóhöfðingleg því að engi mun séð hafa slík svín sem þau eru bæði. Og er það undur er þú talar við engan mann nema Urðarkött. Skil eg það að þér þykir mikils um vert það er hann er fagurt skapaður."

Þorgeir roðnaði mjög og mælti: "Það hygg eg mér mikla þörf að tala hér um nokkuð en þó er það mitt hugboð að þér liggi eigi minna við hér um að tala."

Þorgeir frétti enn Urðarkött: "Viltu fara eftir þeim Gesti og Syrpu? Seg að eg vil finna þau."

Hann kveðst eigi fara mundu "veit eg að þú lætur sem þú munir fá mér aðra móður eða föður. Munu þau þér enga þökk fyrir kunna enda veit eg eigi að mér sé önnur móðir betri eða faðir en þessi þótt það væri meir til metnaðar."

Síðan var maður sendur eftir þeim og vildu þau eigi fara.

"Mun nú það fram koma," segir Syrpa, "sem mér hefir lengi hugur sagt að hann Urðarköttur mundi illt af því hljóta er hann hljóp þangað á Eyri hvern dag og lét sem það eitt væri að gera að harkast þar."

Nú er Þorgeiri sagt að þau vildu eigi fara.

Þá mælti Þorgeir: "Ger nú fyrir mína bæn að þú lát þau hingað koma en eg skal veita þér það er þú biður mig."

Urðarköttur mælti: "Eigi mun eg það gera nema þú heitir því að þau fari eigi hryggri af þínum fundi en þau koma."

Þorgeir jáði því að kaupa vel við þau. Eftir það fór hann heim og bað þau fara með sér "skal eg því heita meðan eg er á dögum að ykkur skal eigi fé skorta ef eg verð nokkurt sinn meira góss ráðandi en nú er eg."

Syrpa segir: "Ekki mun gera við að sporna. Það mun fram koma sem betur er þó að okkur þyki móti skapi og skal fara víst."

Og er þau komu á Eyri settust þau niður á einn stól fyrir Þorgeiri og Urðarköttur milli þeirra.

Þá mælti Þorgeir: "Það er hugarboð mitt Syrpa að Urðarköttur sé ekki ykkar son. Er hér ekki seinna um að gera. En annaðhvort seg sem háttað er, og hafið þar fyrir þökk og vináttu mína, ella verður þú að þola harðindi og verður þó satt að segja."

Syrpa mælti: "Svo fremi er upp komið að sá mun nú grænstur að segja satt og eftir því sem farið hefir."

Síðan sögðu þau sem orðið var en allir hlýddu vel til þeir hjá voru.

Þorgeir mælti: "Það ætla eg að þið munið nú satt segja."

Þá frétti Þorgeir Þorgerði hversu langt frá því væri er hún fæddi barn. Hún kvað liðið hafa tólf vetur. Hann spyr hvort hún léti út bera. Hún kvað svo verið hafa.

"Hví gerðir þú það?" segir Þorgeir.

Hún sagði að hún þyrði eigi "fyrir reiði og grimmleik bónda míns Ásbjarnar. Voru þetta hans ráð og unni eg svo mikið sveininum að eg vildi gjarna hafa upp fætt."

Þorgeir mælti til Ásbjarnar: "Viltu mágur við ganga þessum unga manni að hann sé þinn son og taka hann heim til þín og halda hann sem sjálfan þig?"

Ásbjörn segir: "Það veit eg eigi hver hann á en það má eg að gefa honum mat sem öðrum mönnum ef þér sýnist það ráð."

"Ertu eigi föðurlega við hann eða lætur hann hafa það er hann vill þá skilur það okkra vináttu því að eigi kann eg að sjá ef hann ber eigi snöggt af þínum frændum og mínum. En þeim Syrpu skal fá tólf hundruð fríð fyrir fúlgu Urðarkattar. Skal eg gjalda hálft en þú hálft. Skal þeim að þessu hafa orðið hin mesta sæmd og gæfa."

Fara þau Gestur heim og líkar allvel. Urðarköttur er nú eftir á Eyri og upp dubbaður og rifið af honum það er hann hafði áður og fengin bestu klæði. Og þóttist engi hafa séð jafnfríðan mann og að öllu vel skapaðan. Þótti nú öllum Þorgeir hafa aflað þeim hinnar mestu sæmdar og gæfu. Og eftir þetta fer Þorgeir heim með föruneyti sitt. Skiljast þeir mágar vel.

Er Urðarköttur nú heima á Eyri. Er Ásbjörn fár við hann og þó vel en móðir hans veitir honum allt það er hann vill með hinni mestu blíðu. Venst hann nú við íþróttir allar þær er karlmann má prýða. Svo fer fram um hríð. Líða af þau misseri.


7. kafli

Þess er getið að um vorið ríður Ásbjörn til þings eftir vanda. Er það sagt að með nautum væri graðungur þrevetur og hinn versti viðureignar. Máttu konur varla mjólka fyrir honum. Hann var með öllu mannýgur.

Einn morgun komu griðkonur inn æpandi og sögðu að graðungurinn hefði slegið niður mjólkinni "ertu þar, hinn ragi Urðarköttur, og er sem engi maður sé þar sem þú ert þó að nokkurs þurfi við."

Ámæla þær honum í hverju orði og hrekja.

Urðarköttur mælti: "Því betur að hann fer verr með yður og mun ekki batna við það þó að þér illyrðið mig."

Þær hlaupa að honum og mæltu: "Far þú, hinn góði Urðarköttur, og hjálp oss við."

Lofa þær hann þá í hverju orði.

Hann mælti þá: "Miklu er þetta líkara og athæfilegra að biðja mig vel til og skal nú fara að vísu," stendur upp og gengur þangað sem nautin voru.

Þegar graðungurinn sá hann réðst hann í mót honum. Var hann hyrndur mjög og ætlaði að kasta honum af hornum sér. Hann þrífur hornin sinni hendi hvort og eigast við lengi svo hart að jörðin gengur upp fyrir þeim. Svo gengur Urðarköttur að fast að hann snarar af honum höfuðið, kastar um hrygg og var þá í sundur hálsbeinið, gengur síðan á brott. Húskarlar gerðu til graðunginn. Ásbjörn kom heim og var honum sagt frá þessu. Hann lagði fátt til. Öllum þótti þetta hið mesta þrekvirki orðið af tólf vetra gömlum manni. Nú fréttir þetta maður frá manni, nær og fjarri. Hann var fálátur hversdaglega. Gaf hann að fám hlutum gaum, utan fór með leik sínum bæði nætur og daga. Gerist Ásbjörn við hann fleiri og fleiri svo sem hann sér að hann er afbragð annarra manna. Líða nú þessi misseri og sitja nú í kyrrðum.


8. kafli

Á einhverju hausti gerðist það vandi Urðarkattar að hann gekk út hvert kveld er yfir kom en eigi inn fyrr en langt er af nótt. Vita menn nú eigi hvað hann gerir.

Einn aftan kom hann inn. Þá var Ásbjörn kominn í sæng og allt fólk hans. Urðarköttur gekk að sænginni og spurði: "Hvort sefur faðir minn eða eigi?"

Hann kveðst vaka "eða hvað viltu?"

Hann segir: "Eg hefi gengið út sjö kveld í samt og séð hina sömu sýn hvern aftan. En það veit eg eigi hvað það er. Nú vildi eg að þú gengir út og hygðir að, því að þú ert skyggn maður."

Ásbjörn stóð upp og gekk út með honum.

Urðarköttur mælti: "Eg sé lýsu nokkura til hafsins svo sem eg sé lengst. Þykist eg vita að það er nokkurs konar eldur."

"Hvers getur þú til," segir Ásbjörn, "að vera muni?"

"Eigi veit eg," segir Urðarköttur, "því að eg er ungur og kann eg á fá skyn. En heyrt hefi eg sagt af þeim mönnum er illa eru staddir á sjó að þeir brenni vita og sjái þar langt til. Eg þóttist í fyrsta kveld gerst sjá en svo hefir minnkað sem á leið."

Ásbjörn segir: "Þetta er líklega getið eða hversu viltu nú með fara?"

Hann segir: "Það vildi eg að þú léðir mér skútu þína og menn með. Vil eg forvitnast til hvað þetta er."

Ásbjörn kvað svo vera skyldu. Urðarköttur bjóst þegar í stað og bar út á ferjuna það er honum þótti nauðsynlegast þurfa að hafa. Fara húskarlar þrír og hann hinn fjórði. Þeir róa út á Skjálfanda en Urðarköttur stýrði.

Þá er þeir hafa róið um stund þá mælti Urðarköttur: "Nú skuluð þér stýra en eg skal róa og vita hvort nakkvað vill fram ganga."

Þeir gerðu svo. Fór einn til stjórnar en Urðarköttur reri einn. Það sjá þeir að honum gengur miklu meira en hinum þremur. Hann rær lengi og gekk mikið.

Þá mælti Urðarköttur: "Nú skuluð þér róa en eg mun stýra."

Þeir gerðu svo. Þeir taka að róa en hann stýrði. Og er þeir höfðu róið um stund þá hljóp upp einn þeirra og mælti: "Þar er bæði er vér þolum hart til er vér róum í alla nótt enda mun nú mikið eftir taka því að eg hygg að vér sjáum hval nýsprunginn."

Urðarköttur kveðst ætla að það væri eigi hvalur "en þó munum vér eigi upp gefa róðurinn."

Og er þeir nálgast kenna þeir að það er kaupskip og er þá harla mjög sigið. Þeir stinga að stafni og bera festar upp í skipið. Síðan ganga þeir upp í skipið. Sjá þeir að vitinn hefir brenndur verið og var þá brunnið mjög tréið. Þeir þykjast sjá að þar mun hörð aðkoma. Tekur Urðarköttur í höfuð manni einum og finnur að sá er dauður. Allir menn á skipinu eru dauðir. Hann gengur fram eftir skipinu og á þiljunum sér hann hvar stendur silkitjald og vel búið húðfat er í tjaldinu. Urðarköttur gengur að og tekur á manninum er þar lá í húðfatinu. Hann kennir að sjá maður mun lifa.

Hann fréttir þá: "Hvort lifir þú góður maður?"

Hann kvað það satt vera.

Urðarköttur segir: "Hvert er heiti þitt eða hvaðan eruð þér? En það þykist eg sjá að þér munuð af hafi komnir vera þótt eigi hafi greitt til tekist."

Hann segir: "Eg heiti Finnbogi en Bárður faðir minn og er hann víkverskur maður. Eða hver er sjá maður er oss er kominn að finna?"

Hann segir: "Eg heiti Urðarköttur."

Finnbogi mælti: "Það er undarlegt nafn."

Þá frétti Urðarköttur: "Hvað mun fleira lifa manna yðvarra á skipinu en þú?"

Hann kvað þá níu á lífi er hann fór að sofa.

Urðarköttur frétti: "Hvað hefir yður mest angrað?"

Hann segir að fyrst hefði þeim angrað stórviðri en síðan bæði drykkleysi og matleysi "hefir og mart að bilað reiða vorum, brutum stýrið en skipið fullt af austri."

Urðarköttur lét nú bera menn þá er lifðu út í skútuna. Svo margir voru þeir sem Finnbogi hafði sagt. Skorti þar eigi mjólk og aðra hluti þá er þeim voru skjótastir til lífs þótt hann hefði vitað fyrir hvers við þurfti.

Þá mælti Urðarköttur: "Nú skaltu Finnbogi fá mér lukla þá sem að ganga kistum yðrum og skal taka gripi þá alla er bestir eru."

Þeir gerðu svo. Urðarköttur var mikilvirkur svo að hann hljóp aftur og fram eftir skipinu og valdi það af öllu sem honum þótti best og bar út í skútuna svo sem hún mátti við taka. Síðan þeir voru búnir reru þeir brott og halda sama logni þar til er þeir koma heim á Eyri. Gengur Ásbjörn mót þeim og fagnar þeim vel, þótti þetta hafa orðið hin mesta gæfuferð og lætur þeim veita hjálpir og skipar þeim á bæi.

Finnbogi fór á Eyri og tveir menn aðrir. Sat Urðarköttur dag og nótt að næra þá. Er það sagt að allir menn deyja þeir er á skipinu voru nema Finnbogi. Hann hresstist og er hinn vænsti maður, bæði mikill og sterkur. Hann átti ágæt vopn, sverð og skjöld, hjálm og brynju. Var hann stýrimaður og átti að taka fé allt eftir háseta. Er hann þar um veturinn vel haldinn. Urðarköttur er honum fylgjusamur. Þeir selja varnaðinn um Flateyjardal og norður um Kinn. Líður af veturinn og verður ekki fleira til nýlundu á þeim misserum.


9. kafli

Hrafn hét maður. Hann var ungur maður og frændi Ásbjarnar og heimamaður. Hann var frár mjög. Hann kom aldrei á hest hvert sem hann fór. Það er sagt að þeir Finnbogi og Urðarköttur ráðast heiman um vorið og ætluðu að heimta saman skuldir þeirra norður um dali og riðu þeir tveir en Hrafn litli hljóp fyrir. Ríða þeir til Ljósavatns um kveldið. Tekur Þorgeir við þeim báðum höndum og býður þeim þar að vera svo lengi sem þeir vildu. Þeir töluðu mart og voru glaðir og vel kátir. Sá Þorgeir að Finnbogi var hinn ágætasti maður að öllu og vel skapaður. Og um daginn eftir verða þeir síðbúnir og ríður Þorgeir á leið með þeim ofan með Djúpá og ríða þeir Finnbogi í Fell um kveldið. Þar bjó þá Drauma-Finni son Þorgeirs. Var hann spakur maður og vitur. Hann var eigi sammæddur við aðra sonu Þorgeirs. Hann var finnskur að móðurkyni og hét Leikný móðir hans. Hann tók harðla vel við þeim. Marga hluti tala þeir spaklega.

Um morguninn bað Finnbogi þá ríða snemma "skulum vér þá dveljast hér hjá yður er vér fórum aftur því að mér virðist Finnur vitur maður."

"Lítill kostur er nú við yður að taka en þó mun minni er þér farið aftur."

Síðan riðu þeir út frá Felli. Og er þeir hafa skammt riðið mælti Finnbogi: "Næsta gerir mér kynlegt."

Urðarköttur sá til hans og mælti: "Stígum af baki því að eg sé að þú ert fölur mjög og má vera þá að af þér hefji."

Þeir gerðu svo, létu hestana taka niður. Og er stund leið bað Finnbogi þá ríða og kvað af sér hefja, ríða út á fellið og koma undir einn stein mikinn.

Þá mælti Finnbogi: "Hér munum vér við nema og má vera að hér gerist nokkuð til tíðinda í vorri ferð," stíga af baki og skjóta tjaldi af steininum fram. Sest Urðarköttur undir höfuð honum.

Þá mælti Finnbogi: "Það er líkast að til eins dragi um oss félaga að engi vor komist með lífi til Noregs. En þér Urðarköttur hefir vel farið til mín og allra vor. Mundu það sumir menn mæla í mínu landi að þig hefði happ hent í þessum fundi. Með því að eg vinnst eigi til þér að launa þá skal eigi af draga það er til er. Hér eru vopn þau er faðir minn gaf mér. Vænti eg þóttú komir til Noregs eða á önnur lönd nálæg færðu eigi betri. Nú vil eg þau gefa þér og þar með fé það er þú hafðir af skipinu það er eg átti og það er eg tók af hásetum að lögum. Þá vil eg gefa þér nafn mitt. Og er eg ekki spámaður en þó get eg að þitt nafn sé uppi meðan veröldin er byggð. Má mér það mest sæmd og mínum frændum að svo ágætur maður taki nafn eftir mig sem eg skal ætla að þú verðir með því að mér verður lítið ætlað."

Hann þakkaði honum vel þessa gjöf. Eigi sat hann lengi yfir honum áður hann dó. Finnbogi sendi Hrafn til Fells. Kemur Finnur þar og grófu hann niður undir steininum og er hann síðan kallaður Finnbogasteinn. Síðan fóru þeir heim í Fell.

Kvað Finnur farið hafa eftir getu sinni "sá eg það þó að maður væri vænn og velmenntur að þó var hann nú feigur."

Er Finnbogi þar nú með Finni frænda sínum nokkurar nætur. Síðan ríða þeir upp til Ljósavatns og sögðu Þorgeiri frænda sínum tíðindin og hverja sæmd hann hafði fengið. Varð Þorgeir þessu harðla feginn. Hann kveðst fyrir löngu það hafa honum spáð að hann mundi afbragð annarra manna verða. Sitja þeir frændur nú harðla glaðir og vel kátir. Lét Þorgeir nú heimta saman fé það er hann átti.

Síðan riðu þeir á Eyri allir samt. Kann þá maður manni að segja hver afburðarmaður hann er annarra manna. Þykir þeim Ásbirni og Þorgerði nú gott til að frétta því að honum vill nú flest til virðingar og sæmdar. Ríður Þorgeir heim en Finnbogi situr heima með föður sínum á Eyri og vel haldinn.


10. kafli

Það sama sumar kom skip af hafi. Því skipi stýrði sá maður er Bárður hét, víkverskur að kyni. Þetta skip kom á Knarrareyri. Bárður stýrimaður fór til Ljósavatns og þá vist með Þorgeiri goða.

Þenna tíma réð Hákon jarl fyrir Noregi. Var þá virðing hans sem mest og ríki.

Þenna vetur var Bárður á vist með Þorgeiri. Finnbogi var þar jafnan því að frændsemi þeirra var hin besta. Um vorið sagði Finnbogi Þorgeiri frænda sínum að hann vildi utan fara um sumarið með Bárði stýrimanni.

Þorgeir mælti: "Þó að oss þyki góð hérvist þín frændi þá mun ekki tjá að telja þig því að það mun fyrir liggja. En það hygg eg þig hafa af frændum þínum að þeir hafa mjög orðið fyrir áleitni af mönnum og öfund en þó muntu þykja hinn frægasti maður hvar sem þú kemur."

Síðan riðu þeir á Eyri og bera þetta upp fyrir Ásbirni. Hann kveðst gjarna vildu að hann væri heima heldur hjá honum "nú af því að hann mun ráða vilja ferðum sínum þá vil eg eigi gera þetta móti honum heldur en annað."

Þeir réðu honum fari með Bárði stýrimanni. Gerðist hann stýrimaður að hálfu skipinu. Þá er þeir voru búnir fluttu þeir Ásbjörn og Þorgeir til skips það er Finnbogi átti. Hann hefir ekki mikið fé. Skiljast þeir nú með kærleikum miklum.

Kippa þeir nú upp akkerum og sigla í haf. En þá er þeir höfðu siglt nokkur dægur tekur af byri og gerir á fyrir þeim hafvillur og vita þeir eigi hvar þeir fara.

Þar kemur er haustar og stærir sjóinn. Og einn tíma ber þá úr hafi og að landi. Var það síð dags. Þeir sáu ekki nema björg og boða stóra svo að brast í björgunum. Nú með því að veður stóð að landi harðla mikið keyrir þar að skipið og brýtur í spón. Týnast menn allir utan Finnbogi kemur einn á land með vopnum sínum og húðfati. Þar var forlendi lítið og sér hann ekki nema björg og hamra. Hann gengur nú með björgum þeim nokkura hríð og þar að sem kljúfast björgin og þar féll ofan lækur í sjó og þar leitar hann upp á björgin og við færleik hans kemst hann upp og var þá myrkt af nótt. Hvorki skorti frost né vind. Fraus að honum klæðin öll. Þar var harðla snjámikið. Kastaði hann nú húðfatinu á bak sér og gengur á land upp. Og er hann hefir gengið um hríð kennir hann eldsdaun og litlu síðar kemur hann að bæ einum. Það var mikill bær og veglegur. Hann setti niður húðfatið og gengur heim að dyrum og heyrir hann það að mart er manna inni. Þeir sitja við elda. Hann lýstur á dyrin. Maður tók til orða og bað að einnhver sveina gengi til dyra. Þeir kváðust eigi hirða þótt svo berði allar nætur. Finnbogi laust annað högg og var það sýnu meira. Þessi bað þá lúka upp dyrum. Þeir kváðust eigi það mundu gera þó að tröll berji allar nætur. Hann sló höggið þriðja og svo hart að öllum brá við.

Búandi hljóp upp við og kvað þá eigi meðalóvini vera er þeir vildu eigi til hurðar ganga þó að menn kveddu "mun sá einn úti vera er betra mun inni þykja í slíku sem nú er."

Síðan tók hann exi í hönd sér og gekk til dyra. Hann heilsar gestinum og frétti hann að nafni. Hann kvaðst Finnbogi heita og vera Ásbjarnarson og íslenskur maður.

Bóndi segir: "Hvenær komstu hér til lands?"

Finnbogi segir: "Eg kom hér í kveld."

"Þú munt haft hafa harða landtöku?" sagði bóndi.

Finnbogi kvað brotið skipið "en týndust menn allir og fé en eg kom einn á land eða hvar hefir oss að landi borið?"

Bóndi segir: "Yður hefir borið að Noregi heldur norðarla, við Hálogaland. En sá bær er þú ert að kominn heitir á Grænmó."

Þá fréttir Finnbogi: "Hvað heitir bóndi sjá?"

Hann segir: "Eg heiti Bárður."

"Ertu hér formaður á Hálogalandi?"

Hann kvað svo vera.

Þá spurði bóndi: "Hversu gamall maður ertu Finnbogi?"

"Eg er nú sextán vetra."

Bóndi mælti þá: "Engan hefi eg séð slíkan sextán vetra gamlan og vera mun þér fleira vel gefið en vöxtur og vænleikur eða er hann íslenskur faðir þinn?"

"Nei," segir Finnbogi, "hann er héðan af Hálogalandi ættaður."

Bóndi mælti: "Ertu son Ásbjarnar Gunnbjarnarsonar dettiáss?"

"Það er satt," kvað hann.

Bóndi segir: "Þaðan er mér úlfs von er eg eyrun sé. Er það þó ráð að ganga inn og vera hér í nótt."

Finnbogi gerði svo. Var tekið við vopnum hans og klæðum og voru honum fengin þurr klæði. Var allt fólk við hann vel kátt.

Um morguninn var Bárður snemma á fótum og vakti Finnboga upp "er það sýnna að fé sé upp rekið nokkuð."

Finnbogi stóð upp og gengu til sjóvar og var sem Bárður gat að mestur þorri var á land rekinn fjárins. Lét Bárður allt heim færa og svo að duga sem hann ætti sjálfur og var það stórmikið fé.

Bárður bauð Finnboga þar að vera svo lengi sem hann vill. Var hann þar um veturinn, sat í góðu haldi að eigi vantaði. Bárður veitti honum harðla vel. Þar var mannmart og hin mesta gleði. Finnbogi var góður af fénu enda skorti þá eigi til með því að hann var stýrimaður og tók fé allt eftir skipara sína sem þá voru lög til þann tíma.


11. kafli

Sú nýlunda varð þann vetur á Hálogalandi sem oft kann verða að björn einn gekk þar og drap niður fé manna og eigi gerði hann annars staðar meira að en á Grænmó. Og svo kemur að Bárður stefnir þing og gerir björninn sekjan og leggur fé til höfuðs honum. Og eftir það gera menn til hans jafnan og verður hann eigi unninn og gerist hann illur viðureignar. Drepur hann bæði menn og fé.

Það er sagt að Bárður bóndi átti sætur og var langt milli bæjar og sæturs. Lét hann þar geyma um vetrum fjár síns. Varð honum því skaðasamt að björninn lá þar jafnan og þorðu menn aldrei að ganga til fjárins utan fjöldi manns færi.

Eitthvert kveld talaði Bárður við sína menn að þeir skyldu búast mót birninum, hver eftir sínu megni, með vopnum "því að á morgum skulum vér fara að birninum."

Sumir skeftu exar en sumir spjót og búa allt það er þeim mætti að gagni verða. Um morguninn voru menn snemma á fótum og hver pilturinn með sínu vopni.

Nú er að segja frá Finnboga. Áður um kveldið þá er menn voru í svefni stendur hann upp og tekur vopn sín. Gengur hann út á spor þau er liggja til sætranna. Það var bragð hans að hann gekk öfugur og henti sporin allt þar til er hann kemur til sætranna. Hann sér hvar björninn liggur og hefir drepið sauð undir sig og sýgur úr blóðið.

Þá mælti Finnbogi: "Stattu upp bessi og ráð móti mér. Er það heldur til nokkurs en liggja á sauðarslitri þessu."

Björninn settist upp og leit til hans og kastar sér niður.

Finnbogi mælti: "Ef þér þykir eg of mjög vopnaður móti þér þá skal eg að því gera," tekur af sér hjálminn en setur niður skjöldinn og mælti: "Stattu nú upp ef þú þorir."

Björninn settist upp og skók höfuðið, lagðist niður aftur síðan.

Finnbogi mælti: "Það skil eg að þú vilt að við séum jafnbúnir," kastar sverðinu frá sér og mælti: "Svo skal vera sem þú vilt og statt nú upp ef þú hefir það hjarta sem líklegt væri heldur þess kvikindis er ragast er."

Björninn stóð upp og byrsti sig og gerðist mjög ófrýnlegur, hljóp að Finnboga og færir upp hramminn og ætlar að ljósta hann með. Og í því er hann hefir sig upp til hleypur Finnbogi undir hann framan. Þeir gangast að lengi og gengur upp fyrir þeim flest það er fyrir þeirra fótagangi varð. Traðkið varð mikið og varð sú endalykt að hann gengur björninn á bak aftur og braut í sundur hrygginn í honum og býr um hann sem áður. Síðan tók hann vopn sín og gekk heim eftir það og er mjög stirður, leggst niður í sæng sína og lætur sem hann hafi sofið.

Litlu síðar tók Bárður á fótum honum og var þá ferðarbúinn sem fyrr var frá sagt. Hann frétti ef Finnbogi vildi fara með honum. Hann kveðst það gjarna vilja. Síðan fóru þeir og komu til sætranna. Sjá þeir að björninn liggur þar og hefir sauð undir. Þá bauð Bárður förunautum sínum að vinna til fjár og ganga að birninum. Það vildi engi þeirra og eigi nær koma því að þeir hopuðu skjótt.

Bárður mælti: "Það veit eg eigi með hverjum hætti er um björninn því að eg sé hann ekki hrærast. Með því að eg gerði hann sekjan þá er það maklegt að eg gangi fyrstur að honum."

Síðan snarar hann fram djarflega. Síðan sér hann að björninn er dauður. Þá þyrpast þeir að og skorti þá eigi atgang. Bárður sá hvergi særðan björninn, leitar nú að og finnur brotinn hrygginn í honum.

Bárður mælti: "Þetta er fáheyrt bragð eða verk og hefir engi háleyskur maður þetta gert og muntu Finnbogi hafa þetta unnið."

Finnbogi segir og biður hann hafa það fyrir satt er hann vill.

"Eg þykist það víst vita," segir Bárður, "eða hversu fórstu að?"

Finnbogi segir: "Það skiptir öngu. Eigi muntu svo vinna né þinn sonur."

Bárður kvað eigi auðfengna menn til slíks verks "nú skal eg heimta þetta fé saman sem eg eigi sjálfur til handa þér."

Síðan flógu þeir björninn og fóru heim eftir það.

Líður nú veturinn og verður engi nýlunda önnur. Bárður veitti Finnboga hvern dag öðrum betur. Og þá er voraði gerðust siglingar miklar fyrir Hálogalandi, bæði norður og suður. Finnbogi tók það í vanda sinn hvern dag er hann var mettur, gekk ofan á björgin og sat þar hvern dag og horfði á sigling manna, þótti það gaman að sjá fögur skip á margan hátt.


12. kafli

Það var einn dag að Finnbogi gekk fram á björgin. Hann sá að einn maður reri sunnan með landi á skútu mikilli. Hann var mikill maður og grepplegur. Hann var í rauðum skarlatskyrtli og digurt silfurbelti hafði hann um sig með slegnu hári. Var það bæði mikið og fagurt og lá niðri á herðum honum. Svo reri hann handstinnan að honum þótti fljúga fram skútan. Og hann kallar á hann. Þá reri hann nær þegar. Finnbogi spurði hvað hann héti. Hann gaf upp róðurinn og sagði honum að hann héti Álfur og kallaður afturkemba.

"Hvaðan ertu?" segir Finnbogi.

Álfur sagði honum að hann réði fyrir þeirri ey er Sandey héti "og er eg mægður við jarlinn. Á eg Ingibjörgu systurdóttur hans. Nú skal eigi fleirum orðum á glæ kasta svo að eg hafi ekki í mót. Hver er sá maður er svo er spurull?"

Finnbogi sagði til sín og föður síns.

Álfur segir: "Hefir þú drepið skógarbjörninn þeirra Háleygjanna?"

Hann kvað það satt.

Álfur frétti: "Hversu fórstu að því?"

Finnbogi segir: "Engu skiptir þig það því að eigi muntu svo drepa."

Álfur mælti: "Hver Ásbjörn er faðir þinn?"

Finnbogi segir: "Hann er Gunnbjarnarson, norrænn maður að kyni."

Álfur spurði hvort hann væri dettiás kallaður.

Finnbogi kvað það satt vera.

"Þá er eigi kynlegt þóttú látir digurbarklega eða hversu gamall maður ertu?"

Finnbogi segir: "Eg er seytján vetra."

Álfur mælti: "Vertu eigi annarra seytján vetra jafn mikill og sterkur sem þú ert."

Finnbogi segir: "Það er sem verður til þó enda muntu dauður áður eða hvert skal fara?"

Hann sagði að hann skyldi norður á Mörk og heimta skatt.

Finnbogi frétti hví hann færi einn samt.

"Ekki þarf eg fleiri manna til þessa."

Finnbogi frétti: "Nær skaltu norðan?"

Álfur segir: "Það skal á hálfs mánaðar fresti eða því nær."

"Viltu flytja mig," segir Finnbogi, "norðan héðan þá er þú ferð aftur?"

Álfur segir: "Svo líst mér á þig sem þú megir vel róa svo undir þér sjálfur og mun eg við þér taka þá er eg fer norðan. Eða hvað viltu suður í land?"

Finnbogi segir: "Eg vil finna Hákon jarl. Fór eg því af Íslandi."

Álfur mælti: "Þú munt fara sæmdarför. Muntu vera íþróttamaður mikill sem þú átt kyn til. Munum við skilja nú að sinni."

Bað hann Finnboga vel fara og hvor annan. Fór Álfur norður með landi en Finnbogi gekk heim og sagði Bárði viðræðu þeirra, svo það er hann ætlaði suður með honum.

Bárður kvað hann því eigi mundu ráðið hafa ef hann hefði vitað "uggi eg að illa takist til því að Álfur er hinn versti maður og svikráðafullur. Dugir honum það er hann er mægður við jarlinn og er hirðmaður hans. Verða menn af því að þola honum margan ójafnað."

Finnbogi kvað vel duga mundu "skaltu Bárður annast fé mitt og sjá fyrir slíkt sem þú vilt."

Líður þar til er Álfs var norðan von.


13. kafli

Á þeim degi sem Álfur hafði sagt að hann mundi norðan koma bjó Finnbogi sig af Grænmó. Hann hafði með sér húðfat sitt og þá gripi sem honum þótti nauðsynlegast þurfa. Þeir höfðu skamma stund beðið áður Álfur reri norðan. Var skútan mjög sett. Álfur endir vel orð sín og stingur þar stafni að. Þeir kvöddust vel.

Síðan gekk Finnbogi út á skútuna og þótti Álfi niður ganga við skútan og mælti: "Það sé eg á húðfati þínu að eigi mun þér silfurfátt verða til laukunnar þá er þú kemur til Hákonar jarls."

Eftir það skilja þeir Finnbogi og Bárður með blíðu en þeir Álfur halda suður með landi svo sem gengur. Og er Álfur hafði róið um hríð bað hann Finnboga róa. Hann gerði svo. Álfur sat og stýrði. Finnbogi reri svo að Álfi þótti kyrr standa skútan þá er hann reri. Þeir töluðust mart við. Frétti Finnbogi hvort þeim mundi heim ganga í Sandey um kveldið.

Álfur segir: "Hér er ey í milli og er eg vanur að vera þar um nótt þá er eg fer norðan en þá kem eg heim annan morgun til dagverðardrykkju árla."

Finnbogi segir: "Hversu skjótt skal suður með skattinn?"

Álfur segir: "Eg mun dveljast heima um hríð."

Síðan komu þeir í eyna og var þar hellir mikill fyrir ofan malarkambinn.

Álfur mælti: "Nú skulum við gera okkur fyrir sem minnst og bera ekki af skútunni. Skaltu ganga að framstafni en eg að skut og berum svo upp í hellinn skútuna."

Svo gerðu þeir og bjuggu vel um. Eftir það skiptu þeir verkum með sér. Finnbogi sló upp eld en Álfur tók vatn. Finnboga gekk seint að gera eldinn og loga illa skíðin. Ber hann á eldinn mikið og blés að fast. Þá heyrir hann hvin upp yfir sig. Þá slöngdi hann sér af út öðrumegin hjá eldinum. Var Álfur þar kominn og ætlaði skjótt um að ráða við Finnboga. Hann hljóp upp og undir Álf. Var hann afrendur að afli. Gangast þeir að lengi. Tekur þá eldurinn að brenna og sér um allan hellinn. Finnbogi sér hvar einn steinn var í innanverðum hellinum. Hann var hvass ofan sem egg. Þar vildi Álfur færa hann að. Finnbogi forðast það ekki. Og er þeir koma að steininum hleypur Finnbogi yfir upp og kippir að sér við með afli og brýtur bringubein hans á steininum og lætur Álfur þar lífinu með ósæmd sem hann var verður.


14. kafli

Síðan bjóst Finnbogi þar um og svaf af nóttina við góðar náðir. Um morguninn gerir hann það ráð að hrinda fram skútunni, tekur vopn sín. Síðan heldur hann skútunni suður með landi, slíkt sem ganga mátti. Eigi létti hann fyrr en hann kom í Sandey snemma morguns.

Og er hann kemur til Sandeyjar ganga menn í mót honum því að þeir kenndu skipið og ætluðu að Álfur mundi á vera. Finnbogi gekk upp í móti þeim. Þeir heilsuðu honum vel og spurðu hann tíðinda. Hann kveðst engi kunna að segja. Finnbogi spyr hvar Ingibjörg væri. Þeir sögðu að hún væri í skemmu. Hann bað þá fylgja sér þangað. Og er hann kom þangað heilsaði hún honum og spurði hver hann væri. Hann nefndi sig og föður sinn. Hún spurði hvort hann hefði á Hálogalandi drepið björninn. Hann kvað svo vera.

Hún segir: "Hversu fórstu að að bana honum?"

Finnbogi segir: "Engu skiptir þig það því að eigi mun þinn son svo drepa."

Ingibjörg mælti: "Var Ásbjörn dettiás faðir þinn?"

Hann kvað svo vera.

Hún mælti svo: "Eigi er kynlegt að þú sért ágætur maður. Eða með hverjum fórstu norðan?"

Hann segir: "Eg fór með Álfi norðan, bónda þínum."

"Hvar skildust þið?"

"Hér norður," segir hann, "í ey þeirri að hann er vanur að vera þá er hann fer hér á milli. Nennti hann eigi að róa hingað og ætlar hann þegar á fund Hákonar jarls. Hann sendi mig eftir Ragnhildi dóttur sinni og það með til jartegna að hún hafði þessa oft beðið og aldrei fyrr fengið en nú kvað hann hana fara skyldu."

Hún segir: "Veit eg að þetta er satt. En þó þykir mér það undarlegt að hann hefir sent ókunnan mann slíks erindis. Nú skaltu eta og drekka. Síðan skaltu vita þitt erindi."

Hann gerir svo. Ingibjörg fór til tals við dóttur sína og frétti ef hún vildi fara með þessum manni. Hún bað hana ráða. Síðan bjó hún hana sem hún kunni best og bar á hana gull og silfur og alla hina bestu gripi þá er hún átti til. Og er þau voru búin fylgir Ingibjörg þeim til skips. Tók Finnbogi Ragnhildi í fang sér og bar hana út á skútuna.

Þá mælti Ingibjörg: "Þóttú hafir Finnbogi farið með flærð og hégóma þá vara þig að þú ger ekki meyjunni til miska. En þóttú gerir annað illa eða hafir gert þá er þér þetta skjótast til dauða."

Hann reri á brott. Þá mælti Ragnhildur: "Með hverjum hætti er Finnbogi um sögn þína? Hversu skilduð þið faðir minn?"

Hann segir: "Svo skildum við að hann er dauður."

Hún mælti þá: "Nú þarf eigi að spyrja fleira. Flyt mig aftur til eyjar minnar og mun sá grænstur."

Finnbogi segir: "Því tók eg þig á brott að þú skalt með mér fara."

Þá tók mærin að gráta.

Finnbogi mælti: "Vertu kát því að ekki skal eg níðast á þér. Verður sem má um mína framferð aðra."

Síðan koma þau til eyjarinnar og bar hann út á skip fé það er þar var eftir orðið. Nú tekur mærin að gleðjast. Síðan hann var búinn reri hann suður með landi og þegar hann kemur til hafnar skortir hann eigi menn til þess er hann vill. Gefur hann fé til beggja handa.

Eigi léttir hann fyrr sinni ferð en hann kemur á Hlaðir þar sem jarl réð fyrir. Gekk Finnbogi þegar upp í bæinn með Ragnhildi til herbergis þeirra systurdætra jarls, Úlfhildar og Ingibjargar. Þar var tekið við henni báðum höndum. Þær spurðu hver sá var er svo mikið afbragð er annarra manna. Finnbogi sagði til sín.

"Mikinn trúnað hefir Álfur lagt undir þig er hann hefir fengið dóttur sína þér í hendur enda muntu ágætur maður vera."

Finnbogi mælti: "Gerið svo til meyjarinnar sem hann hafi mér allvel trúað."

Síðan bað hann þær vel lifa. Þær mæltu að hann skyldi svo fara. Finnbogi leigði sér skemmu og bar þar inn í það er hann átti. Hann hélt mart manna með sér.


15. kafli

Einnhvern dag gekk Finnbogi fyrir jarl og kvaddi hann vel. Hann tók kveðju hans og spurði hver sá maður væri hinn mikli og hinn vænlegi.

Hann segir: "Finnbogi heiti eg," segir hann, "og er eg son Ásbjarnar dettiáss er margir menn kannast hér við í Noregi en móðurkyn mitt er út á Íslandi en Þorgeir Ljósvetningagoði er móðurbróðir minn."

Jarl mælti: "Fullvel ertu ættaður. Eru mér kunnir frændur þínir og eru eigi hvers manns makar við að eiga. Eða varstu á Hálogalandi í vetur?"

Hann kvað svo vera.

"Deyddir þú björninn?"

Hann kvað það satt vera.

"Hversu fórstu að því vopnlaust?" segir jarl.

"Eigi varðar yður það. En eigi munuð þér bana svo öðrum birni."

Jarl frétti: "Með hverjum fórstu norðan?"

Finnbogi segir: "Eg fór norðan með Álfi afturkembu mági yðrum."

Jarl mælti: "Hvar skildust þið?"

Finnbogi segir: "Hann var eftir í eyju einni."

"Hví var hann þar eftir?" segir jarl.

"Eg vó hann," segir Finnbogi.

Jarl setti rauðan sem blóð og mælti: "Hví varstu svo ódauðahræddur eftir slík stórvirki að þú fórst á minn fund. Eða vissir þú eigi það að engi maður var mér kærri í landinu en Álfur mágur minn og hirðmaður?"

"Því drap eg hann," segir Finnbogi, "að mér þóttu nógar sakir því að hann vildi deyða mig. En eg vissi það að eigi lagði verri maður linda að sér í Noregi en Álfur var. Nú fór eg á yðvarn fund af því að eg vildi bjóða mig til fylgdar og framgöngu í stað Álfs, utan níðingsverk þau er hann sparði ekki að gera vil eg engi vinna. En framgöngu og drengilega vörn ætla eg jafnbjóða yðrum mönnum flestum."

Hákon jarl mælti: "Það munu flestir menn mæla að mér séu mislagðar hendur ef þú kemst með lífi í brott frá mér eða klakklaust en þó látum vér marga fá harðindi þó að lítið vinni til eða nær ekki. En þó að Álfur væri ójafnaðarmaður og illmenni kallaður af sumum mönnum þá skaltu það vita að engi maður í landinu var meir við mitt skap en hann og mér líkari um alla hluti en hann var."

Finnbogi mælti: "Eg skal eigi leyna yður því að eg hefi til tekið. Eg tók brott úr Sandey Ragnhildi Álfsdóttur frændkonu yðra og er hún hér komin á yðvart vald."

Jarl mælti: "Eigi hefi eg séð eða heyrt jafndjarfan mann þér. Er þar annaðhvort að þú ert fól eða þú þykist eiga meira undir þér en oss varir. Nú þykir mér það of gott að deyja svo skjótt. Skulum vér hafa gaman og skemmtan að reyna þig í smáleikum."

Síðan gekk Finnbogi út til herbergis síns, lét taka sér drykk og hélt sig glaðan vel og sína menn.


16. kafli

Það var einn tíma að jarl blés til húsþings og lét hann bera út stól sinn á miðjan völl. Síðan lét hann kalla Finnboga til sín og er hann kom þar þá mælti jarl: "Hér er, Finnbogi, piltur einn er þú skalt glíma við. Þarftu ekki að hlífast við því að ekki skal hann hlífa þér."

Finnbogi sá hjá stólinum hvar stóð einn blámaður og þóttist hann eigi hafa séð leiðilegra mann. Síðan bjuggust þeir til glímu og varð sá atgangur bæði harður og langur. Þóttist Finnbogi það sjá að þessi var magnaður ekki lítt. Steinn stóð á vellinum harðla mikill og þar vildi hann færa Finnboga að. Hann lét þá berast að steininum og er þeir komu að þá snarast Finnbogi frá og gengur hann á bak aftur blámanninn og setur hrygg hans á steininn og brýtur í sundur.

Þá mælti jarl: "Það muntu ætla Finnbogi að verða skaðasamur mínum mönnum."

Finnbogi segir: "Það ætla eg herra að fleiri kalli þetta tröll en mann."

Jarl bað hann brottu verða "og kom eigi á minn fund fyrr en eg sendi orð eftir þér."

Finnbogi fór brott og hélt sig vel og stórmannlega, hafði aldrei færri menn með sér en tólf. Var og engi sá maður í hirð jarls að eigi þægi góða gjöf af honum. Varð hann af þessu víðfrægur og vinsæll. Hafði hann af höndum greitt fé það er Álfur hafði með farið og norðan flutt. Var jarli sagt að það væri vel af höndum greitt og meira en vandi var á.

Jarl fann Ragnhildi frændkonu sína og fagnaði henni vel. Hún sagði að Finnbogi hefði það vel gert við hana sem mestu varðaði. Báðar frændkonur jarls og Ragnhildur báðu Finnboga griða og friðar. Þær sögðu það höfðinglegt bragð þótt hann hefði illa gert. Jarl var hinn reiðasti og var eigi hægt að fýsa hann vel að gera þá er hann var ráðinn í illa að gera. Líða nú nokkurar vikur þaðan frá er þau höfðu við talast.


17. kafli

Einn tíma lét jarl kalla Finnboga til sín. Og er hann kom fyrir jarl þá mælti jarl: "Eigi skaltu fleirum mönnum eyða fyrir mér. Nú skaltu reyna sund við alidýr mitt. Þarf nú eigi að leyna þig því að eg ætla að dýr þetta skyli deyða þig. En ef svo ólíklegt verður að þú vinnir yfir dýrið þá mun þér meira ætlað en flestum mönnum öðrum."

Þetta þótti mönnum hinn mesti mannskaði og hörmuðu það bæði konur og karlar. Björninn var bæði mikill og sterkur. Hann kunni manns máli. Jarl fór ofan til sjóvar með allri hirð sinni. Finnbogi býst nú til sunds og er hann leggst frá landi bað jarl að dýrið legðist eftir honum. Björninn lagðist niður fyrir fætur honum og vildi eigi fara. Jarl eggjaði dýrið og bað hann ekki hlífast við. Síðan lagðist hann eftir Finnboga. Þar mátti sjá langan leik og harðan og stór köf. Það fann Finnbogi sem líklegt var að hann þoldi ekki niðri sem björninn. Sér hann að honum mun eigi duga ef hann verður ráðlaus fyrir. Hann hafði einn tygilkníf á hálsi sér er móðir hans hafði gefið honum. Hún kvað sér það minjagrip og bað hann svo til geyma sem hamingja muni fylgja. Og einn tíma er þeir voru niðri báðir þá tekur hann annarri hendi knífinn en annarri tekur hann saman skinnið undir bæginum, stingur nú knífinum fyrir framan slíkt er hann má taka, lætur síðan hlaupa aftur skinnið yfir benina. Blæðir þá inn og mæðir dýrið skjótt. Og svo verður með öllu umfangi þeirra að Finnbogi deyðir björninn. Leikur hann þá á svo marga vega sem maður má framast og á flesta vega á sundi leika. Urðu allir menn þessu stórlega fegnir. Finnbogi fer þá til lands og gengur fyrir Hákon jarl.

Hann mælti þá: "Hefir þú deyddan björninn?"

Finnbogi kvað það satt.

Jarl mælti: "Mikill ertu fyrir þér og ólíkur öllum mönnum þeim er komið hafa á mínum dögum af Íslandi. Skal nú það kunnigt gera fyrir öllum mönnum að allar þær sakir er þú hefir gert við mig eða aðra menn í Noregi skulu þér upp gefast og það með að engi skal slíka sæmdarferð farið hafa til mín sá er jafnmikið hefir af gert. Kom nú í stað Álfs og ver mér hollur og trúr sem þú hefir áður boðið."

Finnbogi þakkar jarli vel þessi orð og allir menn urðu þessu stórlega mjög fegnir. Þeir sögðu það sem var að fám seytján vetra mundi slíkt mannkaup sem honum. Finnbogi gengur nú til hallarinnar með hirðinni. Hákoni jarli virðist hann vel og að jólum gerðist hann hirðmaður og er engi sá með jarli að meira framgang hafi en Finnbogi. Er hann þar í góðu haldi um veturinn með Hákoni jarli.


18. kafli

Um vorið eftir bar saman orðræðu þeirra jarls og Finnboga. Jarl spurði hvað hann vildi að hafast um sumarið "nú muntu vilja fara til Íslands. Fer yður svo flestum þegar þér komist í gildi við höfðingja eða í kærleika þá viljið þér þegar á brott."

Finnbogi sagði að honum væri ekki það í skapi að skilja svo skjótt við Hákon jarl.

"Með því að þú ætlar með oss að vera þá hefi eg þér sendiför ætlað. Maður hét Bersi og ættaður hér í Noregi. Hann var hirðmaður minn og kaupmaður mikill. Svo bar til að hann varð fyrir fjársköðum og týndi öllu sínu góssi. Síðan bað hann mig ljá sér fé nokkuð og eg léði honum tólf merkur brenndar. Eftir það fór Bersi hinn hvíti á brott og aldrei hefir hann aftur komið síðan á sjö vetrum. Nú er mér sagt að hann sé kominn út í Grikkland en þar ræður fyrir konungur sá er Jón heitir og ágætur höfðingi. Nú hefir Bersi gerst hirðmaður Jóns konungs og vel virður. Nú vil eg senda þig eftir fénu. Vil eg nú hafa hálfu meira eða höfuð hans ella. Nú þó að eg sé ríkur og víðfrægur þá er eg þó ekki vinsæll af höfðingjum í öðrum löndum. Þyki eg vera nokkuð harðráður og helsti svikall. Má eg eigi vita hversu hann tekur þínu máli fyrir mínar sakir. Veldu af mínum mönnum það er þér þykir líkast og bú að öllu þína ferð sem best."

Svo gerði Finnbogi. Hann bjó skip sitt vel og valdi af liði jarls það er honum þótti best til fallið. Og er hann var albúinn þá gekk hann fyrir jarl og mælti: "Einn er hlutur er eg vil biðja yður."

"Hvað er það?" segir jarl.

"Þess vildi eg biðja yður herra að þér létuð Ragnhildi frændkonu yðra hér hjá yður vera vel haldna og sendið hana eigi heim til Sandeyjar og eigi giftið þér hana meðan þér fréttið mig á lífi."

Jarl kveðst því honum heita mundu "má vera að þú hafir það hugsað þá er þú tókst hana brott úr Sandey."

Jarl gaf honum gullhring þann er stóð mörk og skikkju, hinn besta grip, og væri það tignum manni sæmileg gjöf að þiggja.


19. kafli

Síðan lét Finnbogi í haf og greiðist vel þeirra ferð og komu við Grikkland. Fer Finnbogi hljóðlega og tekur sér herbergi skammt frá konungs aðsetu. Þeir hafa kaupstefnu við landsmenn. Grikkland var þá vel kristið. Finnbogi frétti að Bersi var með konungi vel haldinn.

Og það var einn dag að Finnbogi bjóst á konungs fund, tekur vopn sín og býst vel harðla. Þeir ganga tólf saman fyrir konung. Finnbogi kvaddi konung. Hann tók vel kveðju hans og spurði hver hann væri. Finnbogi sagði til sín. Hann kveðst ættaður í Noregi og á Íslandi.

Konungur mælti: "Þú ert stórmannlegur maður og munt vera mikils háttar maður á þínu landi. Eða á hvern trúir þú?"

Finnbogi segir: "Eg trúi á sjálfan mig."

Konungur segir: "Hversu gamall maður ertu?"

Finnbogi segir: "Eg er nú átján vetra gamall."

Konungur mælti: "Svo líst mér sem margur treysti á minna, þeirra er á þann hátt trúa sem þú. Eða hvert er erindi þitt hingað?"

Finnbogi segir: "Mig sendi jarl sá er Hákon heitir og ræður fyrir Noregi. Er eg hirðmaður hans en hann á fé að þeim manni er Bersi heitir og er hirðmaður yðvar" segir hann konungi allan útveg þann sem á var.

Konungur mælti: "Heyrt hefi eg getið Hákonar jarls og jafnan að illu en aldregi að góðu. Hugði hann undarlega að hann mundi fá þess manns höfuð er eg vildi halda. Og svo sem það er Finnbogi, að þú hefir oss heim sótt um langan veg, en ert afbragð annarra manna þeirra sem hér hafa komið norðan úr löndum á mínum dögum, þá er nær að eg geri fyrir þín orð nokkurn útveg þann er þér mætti vel líka. Nú skuluð þér hér í vetur vera og eigið frjálslega kaup við vora menn."

Finnbogi þakkar konungi þessi orð og fór heim til síns herbergis og eru þar um veturinn vel haldnir.


20. kafli

Um vorið gekk Finnbogi fyrir konung, kveðst þá vildu vita sitt erindi. Jón konungur kvað svo vera skyldu. Síðan stefndi konungur þing og kom þar Bersi hinn hvíti og mart annarra manna.

Þá mælti konungur: "Áttu Bersi fé að gjalda Hákoni jarli?"

Hann kveðst eiga að gjalda honum tólf merkur brenndar "og ætla eg aldrei að gjalda honum."

Konungur segir: "Nú skal gjalda honum þegar í stað."

Hlýtur Bersi nú að greiða féið en konungur leggur til hálfu meira og fær Finnbogi það eigi síður.

Þá mælti konungur: "Það skaltu vita Finnbogi og þeir menn sem hér eru að eg geri þetta fyrir þín orð. En þess vil eg þig biðja að þú veitir oss það að vér sjáum nokkura aflraun þína með því að eg veit að þú ert umfram aðra menn að afli búinn og takir síðan við trú."

Finnbogi mælti: "Það vil eg heita þér ef þessi boðskapur kemur norður í land þá skulu fáir taka þann sið fyrr en eg og alla til eggja þá er á mín orð vilja hlýða."

Konungur sat á stóli og tólf menn hjá honum, sex til hvorrar handar. Finnbogi stóð fyrir konungi. Hann var ágætlega búinn og undruðu allir menn hans fegurð og kurteisi. Finnbogi gekk að stólinum og hefur upp á öxl sér og gengur út úr mannhringinum og setur þar niður stólinn. Allir undra þessa manns afl.

Konungur gaf Finnboga gullhring er stóð tíu aura, sverð og skjöld, hina bestu gripi. "Hér með," segir konungur, "vil eg lengja nafn þitt og kalla þig Finnboga hinn ramma. Er það mín ætlan að þitt nafn sé uppi meðan heimurinn er byggður. Skaltu vera fullkominn vor vin hvort sem vér finnumst nokkuru sinni eða aldrei héðan frá."

Eftir það bjóst Finnbogi hinn rammi á brott með sínu föruneyti. Skilja þeir konungur hinir bestu vinir. Léttir Finnbogi eigi fyrr sinni ferð en hann kemur heim í Noreg. Tók jarl við honum forkunnlega vel og þótti hans ferð orðið hafa hin besta, fengið fé mikið og sæmd af Grikklandskonungi. Býður nú jarl Finnboga með sér að vera og setur hann hið næsta sér og virti engan mann fyrir hann fram og er nú kallaður Finnbogi hinn rammi. Hann er nú með jarli um sumarið áfram í góðu yfirlæti.


21. kafli

Það er einn tíma að Finnbogi kom að máli við jarl og bað hann fara til Sandeyjar að sætta þau Ingibjörgu "og vil eg það til skilja með atgöngu yðvarri að eg fái Ragnhildar dóttur hennar en unna henni sæmdar fyrir dráp Álfs bónda hennar."

Jarl jáði þessu blíðlega og sendi menn í Sandey til Ingibjargar, bað hana gera veislu móti sér.

En hún bað að Finnbogi kæmi eigi til þeirrar samkundu "því að eg má eigi sjá þann mann er mér hefir slíka skapraun gert sem hann."

Jarl kveðst á það mundu hætta. Síðan búast þeir jarl og Finnbogi og fara til eyjarinnar með marga menn. En er þeir komu til eyjarinnar þá var þar fyrir mannfjöldi mikill og búin hin besta veisla. Þegar jarl fann Ingibjörgu frændkonu sína varð hann einn að ráða þeirra í milli hvort er henni þótti vel eða illa. Finnbogi sendi eftir Bárði bónda á Grænmó. Kemur hann þar með mikið fé er Finnbogi átti. Gerir jarl mikla fésekt eftir víg Álfs afturkembu og hér eftir festir hann Finnboga Ragnhildi frændkonu sína. Skal þetta fé heiman fylgja Ragnhildi og lætur Ingibjörg sér nú þetta vel líka með því að maður er hinn ágætasti en hún sér fullan vilja jarls um þetta, taka nú veislu öll saman og er Ragnhildur á bekk sett með fjölda kvenna og eru menn nú glaðir og kátir.

Eftir veisluna gaf Finnbogi jarli góðar gjafir og Bárði af Grænmó gaf hann hinar bestu gjafir og öllum ríkismönnum þeim sem þar voru gaf hann nokkura góða gjöf og sæmilega. Situr Finnbogi nú eftir í Sandey en jarl fór heim með liði sínu.

Þau unnast mikið, Finnbogi og Ragnhildur. Fyrir jól um veturinn fóru þau til jarls og þágu með honum veislu um jólin. En eftir jól bjóst Finnbogi til heimferðar og er þau voru búin gekk jarl til strandar með þeim.

Þá mælti Finnbogi: "Nú er svo með vexti herra að eg ætla út til Íslands í sumar og vitja frænda minna og föður míns og annarra vina minna. Hefir yður vel farið til mín herra og sæmilega. Mun eg yður kalla hinn mesta höfðingja hvar sem eg kem."

Jarl segir: "Svo skaltu fara sem þú vilt í mínu orlofi. Hefir hér eigi slíkur maður komið að afli og annarri atgervi og kurteisi sem þú."

Jarl gaf Finnboga skip með rá og reiða og harðla fagurt. Hann kvað hann eigi skyldu farþega annarra manna um Íslandshaf "slíkt erindi sem þú hefir hingað haft á minn fund."

Finnbogi þakkaði honum með fögrum orðum alla þá sæmd sem hann veitti honum. Skildu þeir með hinni mestu vináttu og þótti öllum mikils háttar hversu jarl gerði við þenna mann umfram alla aðra, þá er með honum höfðu verið eða til hans komið eða honum þjónað. Fer hann nú til Sandeyjar og situr þar um veturinn í góðu yfirlæti.


22. kafli

Um vorið fór Finnbogi út til Íslands og skorti eigi fjárhlut góðan og gripi ágæta. Skiljast þau Ingibjörg hinir bestu vinir, héldu í haf og urðu vel reiðfara og komu skipi á Arnareyri.

Það fréttist brátt að Finnbogi var út kominn með hinni mestu sæmd og fengið hina ágætustu konu af Noregi. Ríður þá Ásbjörn faðir hans til skips og Þorgeir Ljósvetningagoði. Þar verður hinn mesti fagnafundur. Veitir Finnbogi frændum sínum og vinum með kappi. Síðan reið hann heim á Eyri og þangað lætur hann flytja varning sinn. Hvert barn varð honum stórlega fegið. Síðan situr hann heima á Eyri með sæmd og virðing í góðu yfirlæti.


23. kafli

Um haustið bjóst Þorgeir við veislu virðulegri. Þangað bauð hann Ásbirni og Finnboga og fjölda manns. Þar var ágæt veisla. Og eftir veisluna gaf Þorgeir stórmannlegar gjafir. Hann gaf Finnboga frænda sínum stóðhross fimm saman, fífilbleik að lit. Það var orð á að sá væri hestur bestur í Norðlendingafjórðungi. Ragnhildi gaf hann gullhring er stóð mörk, belti og skikkju góða, hina bestu gripi. Síðan fóru menn heim frá veislunni. Finnbogi lét reka hrossin á Flateyjardalsheiði.

Maður hét Uxi. Hann bjó þar er heitir að Heiðarhúsum. Hann var hið mesta kofarn í skapi. Hann var lítill og vesallegur. Hann átti dóttur Brettings bónda. Þau áttu mart barna en lítið fé. Var hann óvinsæll af öllum mönnum.

Finnbogi situr nú heima á Eyri og svo er sagt að menn verða nakkvað svo til áleitni við hann og eru mest að því synir Brettings og frændur þeirra og vinir. Þykir þeim Finnbogi miklast mikið af utanferð sinni. Þótti þeim engis manns getið nema Finnboga síðan hann kom út.

Það er sagt að Finnbogi ætti það fátt í eign sinni að honum þætti meira um vert en stóðhrossin. Gekk hann jafnan og strauk hrossunum. Uxi kratt jafnan um og þótti hrossin ganga sér mjög að meini. Var hann jafnan óðmálugur og illmálugur en Finnbogi gaf að því engan gaum. Ásbjörn átti hey mikil á heiðina og lét aka heim á veturinn.


24. kafli

Það var einn tíma er þeir feðgar óku á heiðina og fór mart manna með þeim. Og er þeir komu á heiðina þá gerðu þeir hlössin. Skjótt kemur Uxi þar og er stórorður mjög við Finnboga, segir að hann mun að gera nokkuð ef hann geymir eigi betur stóðhrossanna. Síðan fara þeir heimleiðis og ganga fyrir eykirnir svo hver sem búinn var. Finnbogi var eftir og Hrafn hinn litli hjá honum. Gerðu þeir hlassið. Hrafn hinn litli bað Finnboga gyrða hlassið sem fastast. Finnbogi bað hann þá undir drepa. Hann kveðst eigi þá dul sér ætla. Síðan Hrafn var búinn lét hann ganga eftir förunautum sínum. Finnbogi dvelst eftir og strýkur hrossum sínum og sker mön á hestinum og eftir það gengur hann heimleiðis.

Og er hann kemur út frá Heiðarhúsum sér hann hvar Uxi hleypur með tveggja handa exi eftir honum og höggur þegar til hans er hann kemur í höggfæri. Finnbogi snýst að mót en Uxi höggur í klakann og missir hans og fellur áfram svo að hann liggur flatur. Hann sprettur upp skjótt og höggur þegar til hans í annað sinn og hið þriðja. Finnboga leiðist nú ákefð hans og tekur af sér kápuna og snarar saman og slær um fætur Uxa en hann féll snöggt og kemur höfuðið á stein og fær hann þegar bana. Finnbogi finnur konu hans og segir henni tíðindin. Þótti henni það skaði mikill. Finnbogi gaf henni gullhring þann er stóð sex aura, bað hana það hafa fyrst og verja því til bjargar sér. Síðan fór Finnbogi heim og fann föður sinn. Hann frétti hvað Finnboga hefði dvalið. Hann sagði honum sem farið hafði.

Ásbjörn kvað þá illa tekist hafa "þó að maður væri lítils verður þá eru þeir þó til eftirmáls að eg get sér þykja misboðið í drápi Uxa. Get eg að margir láti nú til sín taka um þetta mál, þeir er honum vildu áður ekki gagn gera."

Finnbogi kveðst ekki mundu það óttast við þá sem til móts eru.


25. kafli

Um morguninn þegar dagur var fór hún og sagði frændum sínum þetta víg bónda síns. Þeir Brettingssynir urðu við þetta stórlega reiðir, búa þegar mál til og fara á Eyri og lýsa vígi á hendur Finnboga og biðja hann bæta fé fyrir.

En Finnbogi kveðst þeim engu vildu til svara "því að hann hefir áður mælt sér til óhelgi."

Síðan stefndu þeir Finnboga um víg Uxa. Eftir það riðu þeir til Eyjafjarðar á fund Eyjólfs Valgerðarsonar er þá þótti mestur höfðingi í Eyjafirði. Hann var og skyldur þeim bræðrum, og báðu þeir hann liðveislu mót Finnboga og þeim frændum. Hann hét þeim sínu fulltingi. Ríða nú heim og þykjast nú hafa fullnað úr málum, gerast nú örorðir og illmálgir til Finnboga. Hann lætur sem hann viti það eigi hvað þeir mæla. Síðan fundust þeir frændur, Finnbogi og Þorgeir. Þá segir Finnbogi honum það sem í hafði gerst. Þorgeir kallaði betur vera að hann hefði bætt nokkuru, kvað eigi gott að leggja sæmd sína fyrir slík mál er þó eru engis verð, fara nú til þings og fjölmenna hvorirtveggju.


26. kafli

Síðan höfðu þeir fram málið á hendur Finnboga. En með því að menn vissu með hverjum hætti hann hafði drepið hann þá eyddi Þorgeir málið fyrir þeim og una þeir stórum illa við sinn hlut og skilja við svo búið. Ríður nú hver heim til sinna heimkynna af þinginu.

Ragnhildur hafði fætt barn um haustið. Var það sveinbarn bæði mikið og frítt. Þetta barn hét Álfur eftir föður hennar.

Svo er sagt að eftir þingið fara þau Finnbogi til Ljósavatns því að Þorgeir vildi eigi að þau væru út þar. Þóttist hann vita að þeir mundu samkrækja ef þeir sætust svo nær. Hrafn hinn litli fór með þeim Finnboga.

Og um haustið fæddi Ragnhildur annan svein og hét sá Gunnbjörn og var hinn fríðasti sýnum. Veitti Þorgeir þeim sem hann kunni best.


27. kafli

Svo er sagt að á öndverðum vetri bjóst Finnbogi heiman og Hrafn hinn litli með honum og ætluðu út á Eyri. Þorgeir kvað óvarlegt að fara þannig einslega við slíkan þykkjudrátt sem þeirra í milli var. Finnbogi kvaðst óhræddur fyrir það fara. Síðan fóru þeir tveir samt. Gekk Finnbogi með vopnum, hafði hjálm á höfði, skjöld á hlið og gyrður sverði, spjót í hendi.

Og er þeir komu á utanverða heiðina mælti Hrafn: "Sérð þú nokkuð til tíðinda Finnbogi?"

Hann kvaðst eigi það sjá að honum þætti tíðindum gegna "eða hvað sérð þú til tíðinda?"

"Eg sé," segir hann, "fram undir brekkuna að upp taka spjótsoddar fimmtán og er það ætlan mín að fyrir þér muni setið vera. Og er það mitt ráð að við snúum annan veg. Mun engi á þig leita meðan þú veist eigi hvað fyrir er."

Finnbogi segir: "Eigi munum við það af ráða. Má það vera að það sé glens þeirra sveina að vilja hræða okkur."

"Viltu þá," segir Hrafn, "að eg hlaupi á Eyri og segi eg föður þínum?"

"Það vil eg eigi", segir Finnbogi, "meðan þú veist eigi hvað þú skalt segja."

Síðan hljóp Finnbogi fram á kamb einn. Hann var stórlega hár og mátti einum megin að sækja. Finnbogi hefir nú leyst upp steina nokkura. Þá komu þeir synir Brettings og synir Inga, voru þeir allir sterkir að afli og fullhugar, og með þeim tíu menn aðrir, frændur þeirra og vinir, og allir hinir hraustustu menn. Finnbogi heilsar þeim öllum glaðlega og spyr hvert þeir ætluðu.

Þorsteinn kveðst ætla að þá skyldi verða fundur þeirra sá að hann þyrfti eigi að spyrja "skal nú vita hvort þú ert því hraustari sem þú þykist fyrir öðrum mönnum."

Finnbogi bað þá að ganga fimm bræður og reyna með sér. Þeir neituðu því. Finnbogi bað þá gera það er þeir vildu. Þorsteinn hljóp þá fram og lagði til Finnboga með spjóti. Hrafn hinn litli hljóp fram og laust í sundur spjótskaftið. Þorsteinn brá sverði og hjó til Finnboga. Hann klauf skjöldinn öðrum megin mundriða og hljóp sverðið á rist Finnboga. Hann sló Þorstein með steini og féll hann þegar í óvit. Finnbogi hjó þá á hálsinn og af höfuðið. Og í því lagði Sigurður Brettingsson til Finnboga þar sem hann var hlífarlaus fyrir og kemur það í lærið og sker út í gegnum. Það verður mikið sár. Finnbogi leggur þá í skjöldinn og í gegnum hann og nístir hann niður við klakann. Grímur hljóp þá fram með exi harðla mikla og ætlaði að færa í höfuð Finnboga. Hann brá við skjaldarbrotinu og drepur undir höggið en slær sverðinu á öxl Grími og klýfur hann í herðar niður. Síðan gengu þeir fram synir Inga, Þórir og Grímur. Þeir báðu menn að sækja drengilega.

Þá mælti Finnbogi til Hrafns: "Far þú nú á Eyri til Ásbjarnar því að nú veistu hvað þú skalt segja."

Hann brá við skjótt og fór slíkt sem fætur mega af taka.

Þeir sækja að Finnboga en hann verst vel og drengilega. Er það sagt að þeir falla báðir synir Inga. Þeir sækja hann nú tíu en hann verst einkar vel og drengilega.

Það er nú að segja frá Hrafni. Hann kom á Eyri og sagði Ásbirni þau tíðindi sem orðið höfðu. Hann brá við skjótt og fór með sétta mann þar til er þeir börðust. Var svo komið að Finnbogi sat á kambinum og varðist svo með sverðinu. Þeir sóttu þá að honum þrír og allir sárir mjög. Þegar þeir sáu Ásbjörn forðuðu þeir sér og leituðu undan. Finnbogi var mjög yfirkominn bæði af sárum og mæði. Hafði hann drepið þá tólf en þrír komust undan og mjög sárir. Heitir þessi kambur síðan Finnbogakambur. Eftir það færði Ásbjörn Finnboga á Eyri og græddi hann. Fréttist þessi atburður og þótti mönnum undarleg vörn sjá og lofuðu mjög hans vörn og hans fræknleik. Þessa menn kölluðu þeir fallið hafa óhelga en Finnbogi verið saklaus og varið hendur sínar. Síðan fór Finnbogi heim til Ljósavatns og sátu þar um veturinn í góðum náðum. Var nú allt kyrrt og tíðindalaust.


28. kafli

Um sumarið varð umræða mikil á þingi um þessi mál. Fylgdi Eyjólfur Möðruvellingur þessum málum þeirra Brettings og Inga og margir menn með honum en Þorgeir goði mót honum og þeir allir frændur Finnboga. Nú með því að þeir frændur höfðu styrk mikinn en menn vissu að Finnbogi hafði mikinn framgang af Hákoni jarli mági sínum þá kom Eyjólfur engu fram um þessi mál og sættust þeir eigi þá. Þótti mönnum það líklegt að eigi mundi Finnbogi spar af þeim frændum ef hann sat þeim svo nær að hann mundi drepa hvern er hann næði. Varð það að sætt um síðir að Finnbogi væri ekki í Norðlendingafjórðungi utan hann færi að heimboðum til frænda sinna. Játuðu þeir þessu heldur en þeir væru ósáttir.

Og þegar af þingi ríður hann til Víðidals og kaupir landið að Borg. Var það góður bústaður með gögnum og gæðum á jörðu og í jörðu. Þegar þeir komu heim sögðu þeir Ragnhildi tíðindin og þótti henni allillt að fara á brott. Og eftir það færðu þeir búið frændurnir og skorti ekki vætta.

Menn tóku vel við Finnboga og þótti hann vera hinn ágætasti maður og buðust honum margir til þjónustu og sitt fé honum til þarfinda og þótti honum þar harðla gott.

Ingimundur bjó að Hofi í Vatnsdal og var hinn mesti höfðingi. Var þá uppgangur sona hans sem mestur og voru þeir hávaðamenn miklir. Hét einn Þórir, annar Þorsteinn, þriðji Jökull og voru hinir mestu garpar. Þeir urðu mest til áleitni við Finnboga því að þeir þoldu það eigi að Finnbogi var framar látinn eða formenntur þeim öllum öðrum er þar voru vestur.


29. kafli

Þorvaldur hét maður. Hann var kallaður moðskegg. Hann bjó svo nær Borg að nær var ekki á milli og var það kallað í Garðshorni. Hann var gamall og óvinsæll mjög. Hann þótti vera illmenni mikið og kallaður eigi einhamur. Finnboga var lítið um hann og ætlaði þá og þá að reka hann á brott og fórst það fyrir. Var hann torsóttur við að eiga og leiðendur mjög. Öllum var lítið um byggð hans.

Líða nú stundir þar til er Finnbogi hefir búið að Borg svo lengi að son hans var annar fimm vetra en annar þrevetur. Voru þeir báðir efnilegir. Var Álfur hávaði mikill en Gunnbjörn kyrrlátur mjög. Það höfðu þeir til gamans jafnan að þeir fóru í Garðshorn og glettust við Þorvald og gerðu honum marga bellvísi. Hann var skapillur móti og kveðst skyldu berja þá. Þeim þótti því meira gaman sem hann var verri viðfangs. Ragnhildur bannaði þeim þetta oft og gerði henni það ekki.

Það var einn dag er þeir komu í Garðshorn og var hurð aftur en Þorvaldur var inni og gerði hornabrækju mikla.

Álfur kallaði hátt: "Er Moðskegg inni? Lúktu upp hurðu."

Hann segir: "Þið skuluð aldrei hér inn koma."

Álfur mælti: "Nú muntu gera nokkuð illt og ertu hinn versti maður sem sagt er og eigi einhamur og ertu tröll þó að þú sýnist maður."

Það þolir hann eigi og hljóp út og tók sinni hendi hvorn sveininn, slær niður við steininum svo að rýkur heilinn um. Þetta sér Finnbogi og hleypur að þangað. Þorvaldur ræðst í mót honum og verður þar atgangur bæði langur og harður. Þótti Finnboga hann bæði illur og harður undir höndum svo að honum þótti tvísýnt hversu fara mundi. Það varð þó um síðir að Moðskegg féll. Svo var Finnbogi þá móður orðinn að hann náði eigi sverðinu og var þó harðla skammt frá honum. Síðan varð honum það fyrir að hann lagðist niður að honum og beit í sundur barkann í honum og svo hefir hann sagt síðan að hann hafi eigi við meira fjanda átt en honum þótti Moðskegg vera. Þá er hann hefir fyrir honum séð fór hann heim og sagði Ragnhildi þessi tíðindi. Hún kvað þá farið hafa eftir hugboði sínu þá er hún fór frá Ljósavatni. Síðan tók hún sótt og lá í rekkju allan veturinn. Og þetta allt saman þröngdi hana þar til er hún deyr af. Eftir þetta unir Finnbogi lítt. Síðan fór hann norður til Ljósavatns og segir Þorgeiri frænda sínum þessi tíðindi.

Það sumar kom skip af hafi og þau tíðindi af Noregi að Ólafur konungur var kominn í land og boðaði sanna trú en Hákon af lífi tekinn. Þá er þetta spurðist fýstist Finnbogi utan og hugðist svo mundu helst af hyggja þeim harmi er hann hafði beðið. Þorgeir latti hann utanferðar, bað hann heldur kvongast og staðfesta ráð sitt "vil eg að þú biðjir dóttur Eyjólfs á Möðruvöllum er Hallfríður heitir. Mun þá yðvar í milli verða góð vinátta."

Finnbogi bað hann ráða. Síðan safnast þeir saman frændur og riðu á Möðruvöllu. Þeir biðja dóttur Eyjólfs til handa Finnboga. Hann svarar þeim málum vel því að hann vissi hvert afbragð hann var annarra manna og hverja sæmdarför hann hafði farið til Hákonar jarls og fengið hina ágætustu hans frændkonu. Tekur hann þessu glaðlega og heitir konunni. Síðan bjuggust þeir við veislu. Eru öxn felld og mungát heitt, mjöður blandinn og mönnum boðið. Fór sú veisla vel fram og stórmannlega og gáfu þeir frændum sínum og vinum góðar gjafir.

Og að liðinni veislunni ríður Finnbogi vestur til Borgar í Víðidal með konu sinni. Takast nú ástir með þeim hjónum. Var hún kvenna vænst og skörungur mikil. Þá er þau höfðu verið ásamt ein misseri áttu þau son þann er Gunnbjörn hét. Hann var harðla vænn snemmendis að áliti. Finnbogi hafði aldrei færri menn með sér en tólf þá er vel voru vígir.


30. kafli

Þorgrímur hét maður er bjó í Bólstaðarhlíð. Sigríður hét kona hans en Þóra dóttir. Hún var væn kona og vinnugóð. Var faðir hennar auðigur að fé. Það var sagt að Jökull Ingimundarson riði oft í Bólstaðarhlíð til tals við Þóru. Var það talað að hann mundi biðja hennar eða taka hana frillutaki.

Maður hét Sigurður. Hann bjó að Gnúpi í Vatnsdal. Véfríður hét kona hans. Hún var skyld mjög konu Finnboga. Þorkell hét son þeirra. Hann þótti seinlegur nokkuð. Fríður var hann sýnum og jafnan var hann að Borg og þótti hann þá brátt alþýðlegri fyrir sakir siðferðis. Þeir bræður Ingimundarsynir kölluðu hann fífl eða afglapa. Finnboga var vel til hans og hélt honum mjög á loft fyrir sakir konu sinnar.

Eitt sinn kom Þorkell að máli við Finnboga og sagði honum að faðir hans vildi að hann kvongaðist og það með að hann vildi "að þú værir í umleitan hvar til skyldi sníða."

Finnbogi sagði að svo skyldi vera. Um sumarið lét Finnbogi Þorkel ríða til þings með sér. Kom þar mannfjöldi mikill. Fundust þeir frændur þar, Finnbogi og Þorgeir, tóku tali með sér og sagði honum skil á þessum manni og svo hvað þeir ætluðu að hafast að. Þorgeir spurði hvar þeir ætluðu til að ráða. Finnbogi kveðst ætla að biðja Þóru Þorgrímsdóttur í Bólstaðarhlíð.

Þorgeir segir: "Það hygg eg að Jökull ætli sér þann kost."

Finnbogi kvað það kurr annarra en eigi sannindi.

Þorgeir mælti: "Slíkt er ekki að gera nema þú frændi sért ráðinn til að halda frændur þína og vini móti sonum Ingimundar."

Finnbogi kvað þá hafa gert áleitni við sig "og varðar eigi þó að við reynum við þá."

Eftir þingið ríða þeir norður, Finnbogi og Þorgeir, á fund Þorgríms og hafa þessi orð frammi. Þorgrímur tók þessu máli seinlega, þótti maður ekki skörulegur þó að peningar væru nógir. Nú með því að Þorkell var skyldur mjög Möðruvellingum en þótti höfuðbenda rammleg þar sem Finnbogi var og frændur hans verður þessu keypt með ráði Þorgeirs og samþykkt þeirra mæðgna. Skyldi brullaup vera að tvímánuði sumars að Borg. Eftir þetta ríða þeir norður en Finnbogi heim til Borgar og bað Þorkel þar vera þar til er það færi fram sem ætlað er um brullaupið áður og ákveðið var.

Piltar voru tveir á búi fátækir. Hét annar Þorsteinn en annar Björn. Og þegar um morguninn verða þeir á brottu og létta eigi fyrr en þeir komu til Hofs og sögðu þeim bræðrum þessi tíðindi.

Jökull mælti: "Hvað illt mun Þorgrímur þess vita að sér eða dóttur sinni að hann vill gefa hana slíku fífli og glóp sem Þorkell er?"

Spyrjast þessi tíðindi nú og undrast allir að Þorkell skal þenna kost fengið hafa.

Einn tíma reið Jökull norður í Bólstaðarhlíð að finna Þóru vinkonu sína. Er þar vel við honum tekið. Spyr Jökull eftir um gifting hennar en hún segir sem ætlað var.

Jökull mælti þá: "Viltu nú fara heim með mér til Hofs? Skal eg því heita þér þann tíma er við skiljum að þú skalt eigi hafa minna fé en nú er þér ætlað til móts við Þorkel."

Hún segir: "Þess þarf nú eigi að leita er þá var engi von er þessu var ókeypt."

Jökull segir: "Því vil eg heita þér svo gott sem þú hyggur til að eiga fíflið að þú skalt skamma hríð njóta ef eg má ráða."

Einn tíma búast þeir Finnbogi og Þorkell að ríða til Gnúps og hafa þaðan það er þeir þurfa til boðsins. Ríða þeir þrír samt en Hrafn hinn litli rann fyrir hestum þeirra, fara sem leið liggur þar til er þeir komu til Gnúps. Var þeim þar vel fagnað.

Snemma morguns fór smalamaður frá Hofi og sá ferð þeirra. Hann sagði þeim bræðrum að Finnbogi hinn rammi lét ekki óvant yfir sér er hann reið þar hjá garði og Þorkell brúðgumi, draglókurinn, með honum.

Þórir mælti: "Helst má honum það þeirra manna sem nú eru hér til."

Þenna dag hvarf Jökull á brott með annan mann.


31. kafli

Nú er þar til að taka er þeir Finnbogi búast brott um daginn. Þeir höfðu það með sér sem þeir þurftu. Rak Hrafn fyrir sér hestana, suma klyfjaða, en þeir riðu síðar. Og þá er þeir riðu ofan að Hofi stakk Hrafn við fótum. Finnbogi spurði hví hann færi eigi.

Hrafn segir: "Eg sé hér fram undir brekkuna hvar spjótsoddar koma upp eigi færri en tíu. Er það ætlan mín að menn fylgi."

Finnbogi mælti: "Það er þér mjög oft að þú undrast það þó að þú sjáir menn. Þykir oss vel hvar sem sveinar leika sér."

Og er þeir ríða fram hjá hleypur Jökull fyrir þá með tíunda mann. Finnbogi heilsaði honum vel og frétti hvað hann vildi.

Jökull segir: "Kalla má að eg eigi ekki erindi við þig sem þó má vera er fyrir það gangi. Þykir mér Þorkell ekki lítt hafa dregist til óþykkju við mig, beðið þeirrar konu er eg vildi umsjá veita. Er honum það ofdul að ganga í mót oss frændum."

Finnbogi segir: "Þó að þér þyki Þorkell mágur minn ekki skjótlegur mjög þá er hann þó ekki uppburðaminni um það er til kvennanna heyrir en þér garparnir."

Jökull leggur spjóti til Þorkels og stefnir á hann miðjan. Í því brá Finnbogi sverði og hjó í sundur spjótskaftið milli handa honum.

Finnbogi hljóp af baki og mælti: "Mér skaltu nú fyrr mæta Jökull því að yður mun forvitni á Vatnsdælum að vita hvað eg má."

Jökull þrífur eitt spjót og leggur til Finnboga í skjöld hans og gekk í sundur spjótskaftið. Í þessi svipan þá hlaupa fram tveir menn og voru þeir bræður þar komnir, Þórir og Þorsteinn, og gengu þegar í milli og skildu þá. Þóttust þeir vita þegar Jökull hvarf hvað hann mundi fyrir ætlast. Hafði hann tekið sér menn á næstu bæjum. Síðan þeir voru skildir ríður Finnbogi heim til Borgar og búast þeir við boði vel og virðulega.

Einnhvern dag reið Finnbogi til Hofs og býður þeim Þóri og Þorsteini til boðs með sér. Þeir þökkuðu honum vel og kváðust gjarna vilja eiga gott við hann en sögðu Jökul stirðan í lyndi og ómjúkan "munum við annaðhvort fara allir eða engi vor."

Ríður Finnbogi heim eftir það. Og einnhvern dag fyrir boðið ríða þeir til Borgar, Þórir og Þorsteinn, að finna Finnboga og sögðu að þeir mundu heima sitja um boðið.

Finnbogi mælti: "Vel farið þið með ykkru máli."

Hann gaf Þorsteini sverð harðla vel búið og hinn besta grip en Þóri fingurgull er vó eyri og kvað Hákon jarl hafa gefið sér, mág sinn. Þeir þakka honum harðla vel og ríða heim. Hafði Jökull allt í spotti við þá bræður sína.

Svo er sagt að þeir sitja að veislunni að Borg og verður ekki til tíðinda. Fer veislan vel fram og að lokinni segir Finnbogi að þau Þorkell skulu þar sitja um veturinn hjá honum. Þorgrímur kveðst ætla að Þóra mundi heim vilja með honum.

Þóra segir: "Þetta kýs eg að vera hér hjá Finnboga. Mun oss það best gegna að hafa hans ráð sem mest. En eg skal koma faðir minn þig að finna enn þá er stundir líða."

Eftir það ríða brott boðsmenn hvorratveggju vel sæmdir með góðum gjöfum.


32. kafli

Það er eitthvert sinn að Þorkell mælti til Þóru: "Nær ætlar þú að finna föður þinn sem þú hést honum?"

Henni kvaðst harðla gott þykja hann að finna en kvað það hugboð sitt að hún sæi eigi síður fyrir hans kosti þó að þau sætu eigi síður heima þar en rækjust annars staðar.

Þorkell segir: "Veit eg að þú mælir þetta sakir vinar þíns Jökuls en eg óttast hann alllítið og skal ekki fara að síður."

Og einn morgun snemma var Þorkell á fótum og spurði Finnbogi hvað hann skyldi. Hann kveðst skyldu ríða með Þóru norður í Bólstaðarhlíð.

Finnbogi kvað það ráð að ríða hvergi "veit eg að Þóra vinkona mín mun mig ráða láta."

Hún kvað það satt. Þorkell kvaðst ráðinn til að fara ef Finnbogi bannaði eigi.

Hann kvaðst eigi banna vilja "en spurt hefi eg að Jökull reið norður til Skagafjarðar fyrir fám nóttum. Þykir mér eigi vita mega hversu ferðir yðrar ber saman."

Eftir þetta ríða þau vestan tvö saman og einn hlaupandi sveinn með þeim, ríða þar til er þau koma í Hlíð. Var við þeim tekið harðla vel.

Maður er nefndur Þórarinn. Hann bjó á Víðimýri í Skagafirði. Hann var mikilmenni og goðorðsmaður og átti son er Vilmundur hét. Þórarinn var skyldur þeim Hofssveinum og var hin mesta vinátta með þeim Jökli en öllum öðrum þótti Þórarinn hið mesta illmenni og ofmetnaðarmaður mikill. Jökull var þá kominn á Víðimýri.

Og er hann hafði þar eigi lengi verið spyr hann af hlaupandi mönnum að Þorkell og Þóra kona hans voru komin í Bólstaðarhlíð. Og litlu síðar býst hann heim að ríða. Þórarinn undraðist er hann vildi svo skjótt ríða, kvað hann slíkt gera undarlega og ófrændsamlega við sig. Jökull kvaðst þá fara vilja. Þórarinn reið þá á leið með þeim vestur í skarðið til bæjar þess er í Vatnshlíð heitir og eftir það hverfur hann aftur en þeir ríða þrír saman þar til er þeir koma í Bólstaðarhlíð. Var þá áliðinn dagur nokkuð. Ein kona var úti og heilsaði vel Jökli því að hún hafði oft séð hann. Hann spurði hvort Þorkell væri þar. Hún kvað svo vera.

"Þá skaltu," segir Jökull, "biðja hann út ganga. Seg að eg vil finna hann."

Hún gerði svo. Sátu þeir mágar í stofu. Var fátt manna heima. Svartur hét nautamaður Þorgríms bónda, bæði mikill og sterkur. Þorgrímur bað Þorkel fara varlega. Þeir tóku vopn sín báðir og gengu út. Þorgrímur var þá gamlaður mjög. Þorkell heilsaði Jökli.

Hann segir: "Þess skaltu nú vís verða hversu heilan eg vil þig" og lagði til hans spjóti og stefndi á hann miðjan.

Og í því hljóp út Svartur nautamaður og hafði stálhúfu á höfði mikla og ákaflega forna og skjöld fyrir sér en ekki hafði hann höggvopn annað en hann reiddi mykireku sína um öxl. Og er Svartur sér athöfn Jökuls slær hann þegar til hans með rekunni og í sundur spjótskaftið milli handa Jökli. Jökull bað hann fara þræla armastan.

Svartur mælti: "Ef þú ríður eigi skjótt á brott skal eg slá annan við eyra þér."

Þorkell lagði þá spjóti til Jökuls og í skjaldarsporðinn svo að hann klofnaði og hljóp spjótið í rist Jökli og varð það allmikið sár. Fylgdarmenn Jökuls sóttu að Þorgrími. Jökull hljóp þá að baki Þorgrími og hjó með sverði í höfuð honum. Hann hafði hjálm á höfði og beit eigi sverðið heldur en með skíði væri slegið. Jökul undraði þetta mjög því að það sverð hafði hann reynt áður allvel bíta. Þorkell lagði þá til fylgdarmanns Jökuls og þegar í gegnum hann.

Þá mælti Þorgrímur: "Það er ráð Jökull að ríða heim. Mun þér þetta verða engi sæmdarför að sinni."

Jökull sá að þetta mundi svo fara með því að hann mæddi mjög blóðrás og það að Svartur stóð með reidda rekuna og var búinn að slá hann með og þótti honum það mest svívirðing. Og við þetta allt saman stígur Jökull á bak og ríður brott við annan mann og unir stórilla við sína ferð, kemur heim og er lengi áður en hann verður græddur. Spyrjast nú þessi tíðindi og þykir Jökull hafa illt af beðið.


33. kafli

Þessu næst kemur skip af hafi vestur í Hrútafjörð á Borðeyri og hét Bergur stýrimaðurinn og kallaður Bergur rakki. Hann var hinn gervilegasti maður og fríður sýnum. Hann var kvongaður og hét Dalla kona hans og var kvenna vænst og kynstór og kvenna högust á alla hluti. Þessi Bergur var systurson Finnboga hins ramma og hét Þórný móðir hans sú hin sama að Skíði flutti á brott að óvilja Ásbjarnar föður hennar. Þegar Finnbogi fréttir það ríður hann til skips og fagnar vel Bergi frænda sínum, býður þeim til sín. Og það þiggja þau og fara heim til Borgar. Hallfríði fannst heldur fátt um við þau en Finnbogi var harðla glaður og veitti þeim stórlega vel. Líður af veturinn og talast þeir við frændur og bað Finnbogi Berg þar vera lengi hjá sér en senda utan skip sitt. Og það ráða þeir af, fá mann fyrir skipið. Var það frændi Döllu, suðureyskur maður að ætt sem þau voru bæði.


34. kafli

Grímur hét maður er bjó á Torfustöðum. Hann var ungur maður og ókvongaður. Var faðir hans dauður. Hann var vel ættaður og var gervilegur maður. Þau voru skyld mjög og Véfríður kona Sigurðar að Gnúpi. Grímur bað systurdóttur þeirra bræðra að Hofi og þau ráð skyldu takast um veturinn. Er þar boðið mönnum til. Grímur var og mjög skyldur Möðruvellingum og fyrir því bauð hann þeim Finnboga og öllum þeim sem þau vildu með sér fara láta. Þeir bræður, Þórir og Þorsteinn, buðu og Finnboga. Hann kvað mága sína hafa boðið sér áður en kvaðst kunna þeim þökk fyrir.

Líða nú stundir og vetrar. Gerir veður hörð svo að rekur á hríðir. Og þann sama dag er til boðsins skyldi koma búast þeir frændur, Finnbogi og Bergur, en ekki var áreitingur að fleira mætti fara. Síðan ráðast þeir til ferðar. Gekk Finnbogi fyrir þar til er þeir koma að Vatnsdalsá. Var hún allólíkleg til yfirferðar. Var krapaför á mikil en lögð frá löndum. Þeir binda saman vopn sín og höfðu loðkápur fótsíðar. Bergur hafði engi orð um en þótti ólíklegt að þeir mundu yfir komast. Og eftir það leggjast þeir til sunds báðir. Bað Finnbogi Berg halda undir belti sér. Leggst hann svo að hrýður um krapið og með færleik hans komast þeir yfir ána og ganga þar til er þeir koma til Hofs.

Voru boðsmenn allir komnir. Ganga þeir inn. Eldar voru stórir í eldskálanum og sátu þar nokkurir menn á langhnökkum. Voru þeir þar allir bræður. Kolur hét maður. Hann var ráðamaður að Hofi, mikill maður og sterkur og hinn ódælasti. Þeir ganga nú innar hjá eldinum. Gekk Finnbogi fyrir. Og er þeir koma gegnt þar sem Jökull sat þá stingur hann höndum við Bergi og hrindir honum og stakar hann að eldinum og ber hann að honum Kol er hann annast um eldana. Hann hrindur Bergi þegar og bað hann eigi hlaupa á sig. Finnbogi sér það og þrífur annarri hendi loðkápuna milli herða Bergi og réttir hann upp annarri hendi með öllum vopnum en annarri hendi styður hann á herðar Jökli og steðjar upp yfir hann með öllum sínum búnaði og kom standandi niður og undruðust allir þenna færleik. Þeir hljópu þá upp bræður og tóku við vopnum þeirra og vosklæðum en fengu þeim þurr klæði. Og eftir það gengu þeir til bekkjar Gríms brúðguma. Sat Finnbogi á aðra hönd honum. Fór veislan fram hið besta og að lokinni voru gjafir gefnar. Þórir gaf Finnboga stóðhross þau er eigi voru í Vatnsdal önnur betri en Þorsteinn gaf honum hjálm og spjót, góða gripi. Finnbogi þakkaði þeim vel.

Og er menn voru búnir gekk Bergur hinn rakki að Kol og slær exarhamarshögg í höfuðið og féll hann þegar í óvit. Hlaupa þá hvorirtveggju til vopna. En með því að margir urðu meðalgöngumenn þá skilja þeir að sinni.

Og um sumarið eftir kemur skip af hafi það hið sama sem Bergur átti. Og þetta sama sumar skorar Jökull Finnboga á hólm en Þorsteinn Bergi hinum rakka og þessu játa þeir og ákveða dag nær þeir skulu finnast.

Og er að þeirri stundu kemur segir Dalla þeim frændum að henni gast ekki að þessi ætlan "skal eg gera það veður að hvorki yður né öðrum mönnum sé úti vært."

Finnbogi bað hana eigi það gera, kvað þá skömm mundu alla ævi uppi vera ef þeir gengju á heit sín og mundi þeim virt til hugleysis. Dalla kvaðst á það hætta mundu heldur en hún missti bónda síns. Og eigi varð að hégóma. Svo mikil hríð kom á að það var með miklum ólíkindum hver stormur var eða snjáfall. Var og svo sagt að Finnboga þótti allillt en það ætlaði hann að engi þeirra mundi koma. Þá sitja þeir heima. Veðrið hélst þrjár nætur og er upp létti þóttust menn engan stað sjá snjóvarins. Það spurðist og að þeir Hofssveinar höfðu komið á mótið og það með að Jökull hafði reist Finnboga níð allhæðilegt þar sem þeir skyldu fundist hafa.

Spyrjast nú þessi tíðindi og þykir mönnum allmjög þetta hafa á orðið fyrir Finnboga og afturdrepa mikil hans virðingar. Sjálfum honum þótti þetta svo illt að engan hlut hafði honum þann til handa borið að hann yndi verr við og lagði hina mestu fæð á Döllu.

Líður nú af veturinn. Þau Finnbogi áttu þrjá syni. Hét einn Gunnbjörn, annar Þórir, þriðji Eyjólfur og voru allir hinir vænlegustu menn.


35. kafli

Um sumarið býr Bergur skip sitt og ætluðu þau að sigla. Lætur Finnbogi flytja varnað þeirra til skips. Þorkell og Þóra voru þá með Finnboga. Og er Bergur er búinn ríða þeir Finnbogi og Þorkell með honum. Hrafn hinn litli fór og með nokkura klyfjahesta. Ríða þeir þar til er þeir koma mjög svo vestur af hálsinum Hrútafjarðarhálsi. Hrafn hafði farið fyrir. Og er þeir ríða ofan fyrir hálsinn bíður Hrafn þeirra.

Finnbogi spurði hví hann færi eigi "eða sérð þú nokkuð til tíðinda?"

Hann kvað heldur það "eg sá hér undir brekkuna ofan fyrir oss að hestar tveir komu fram með söðlum. Þá hljópu fram tveir menn með vopnum og tóku hestana og leiddu upp undir brekkuna. Er það ætlan mín að fyrir yður muni setið og mun vera fleira manna en eg hefi séð. Er það ráð mitt að snúa aðra leið og eiga ekki við þá."

Finnbogi segir: "Þeir einir munu vera að eigi munu fúsari mig að finna en eg þá. Verður fundur vor sem má. Eigi skulum vér bera níðingsorð þetta sinni svo að vér flýjum fyrr en vér þurfum eða þolum óheyrilegar skammir."

Eftir það ríða þeir á einn grjóthól. Sjá þá hvorir aðra. Var þar kominn Jökull Ingimundarson og Þórarinn frændi hans, Vilmundur son hans og Kolur ráðamaður. Voru þeir tólf saman og allir hinir víglegustu. Þeir Finnbogi leystu upp steina nokkura þar til er þeir koma að.

Jökull mælti þá: "Það er nú ráð að minnast exarhamarshöggsins Kolur."

Þá hljóp Kolur fram og lagði spjóti til Bergs og kom í skjöldinn. Bergur bar af sér skjöldinn við og í því lagði Jökull til Bergs og í hálsstefnið frammi fyrir hóstinn. Þetta sá Finnbogi og brá sverði og hjó í sundur spjótskaftið. Þórarinn sótti að Þorkatli og tveir menn með honum. Þorkell varðist vel og drengilega og féll við góðan orðstír. Bergur lagði til Kols í gegnum skjöldinn og fyrir brjóst Kol og féll hann á bak aftur og í því sló Finnbogi hann með steini í höfuðið svo að í smán mola lamdist hausinn og fékk hann bráðan bana. Finnbogi lagði þá til Jökuls í gegnum skjöldinn og svo lærið og varð það allmikið sár. Vilmundur sótti þá að Bergi ákaft mjög og tveir menn með honum. Bergur lagði til annars og í gegnum hann. Í því var annar kominn upp að baki honum. Bergur snaraðist þá við og slæmdi til hans sverðinu annarri hendi og tók sundur í miðju. Vilmundur lagði þá til Bergs og það sér Finnbogi að hann var hlífarlaus og snýr þar til og í því leggur Vilmundur í gegnum Berg og kippir að sér sverðinu.

Bergur leit til og brosti að og mælti: "Minni verður nú liðveisla mín við þig Finnbogi frændi en eg vildi og vel hefir þú alið mig í vetur."

Hann vefur að sér klæðin og sest niður. Finnbogi hleypur þá að Vilmundi og klýfur hann í herðar niður. Jökull leggur þá til Finnboga en annarri hendi slær hann með sverðinu og af Bergi höfuðið. Finnbogi hjó til Jökuls svo að í beini nam stað. Hrafn litli var sár mjög og hafði drepið einn af fylgdarmönnum Þórarins goða. Þeir sóttu þá fimm að Finnboga. Hann hjó þá til beggja handa og gekk í móti þeim hið drengilegasta. Þórarinn gekk fast að móti. Var hann fullhugi og rammur að afli. Finnbogi sló hann með steini og kom utan á vangann og steyptist hann þegar. Finnbogi hjó eftir honum og tók hann sundur í miðju. Varð hann þá mannskæður.

Og er þeir höfðu barist um hríð þá sáu þeir tíu manna reið og riðu ákaflega mikið. Voru þeir þar komnir bræður Jökuls og gengu þegar í milli þeirra. Jökull var þá óvígur og harðla mjög sár. Stóðu þeir fimm upp og allir mjög sárir. Finnbogi var móður mjög en ekki sár.

Þórir mælti: "Hér eru orðin tíðindi mikil og óþörf."

Finnbogi svaraði: "Orðin eru þau að eg mun aldrei bætur bíða og það hafði eg ætlað nú að við Jökull mundum eigi oftar finnast þurfa. En nú mun það á yðru valdi."

Þórir kvað þá hætta skyldu. Duga þeir þá að þeim mönnum er lífs var von. Finnbogi flytur heim Berg frænda sinn og heygir hann skammt frá Borg. Stendur þar enn haugur hans.

Spyrjast nú þessi tíðindi og þykir fundur hinn harðasti orðinn og Finnbogi hafa enn sýnt það að hann er afburðarmaður annarra manna í sinni framgöngu.

Döllu þótti mikill skaði um bónda sinn. Hún bað Finnboga fá sér Gunnbjörn son sinn til fósturs, þótti sér það yndi að hafa með sér nokkurn Bergi skyldan. En með því að Finnbogi vissi að hún var rík mjög og stórauðig og það annað að hún hafði sárt af beðið og mikið af hlotið þeirra fundi þá lætur hann þetta eftir hennar bæn, fær henni í hendur Gunnbjörn son sinn. Var hann þá sex vetra eða sjö. Hann fékk henni og í hendur fimmtán hundruð mórend og fimmtán vararfeldi og sendi Bárði á Grænmó. Eftir það fór hún utan og átti hinn besta garð. Skar hún Gunnbirni þegar skrúðklæði og skarlat. Hún fór norður á Grænmó og færði Bárði bónda gjafirnar. Leist Bárði allvel á sveininn.

Og það var einn dag að Bárður spurði hvort Gunnbjörn vildi glíma við annan pilt. Hann bað Döllu ráða. Síðan glíma þeir þrjár lotur og þótti Bárði mjög jafni og bað þá hætta. Gunnbjörn kvaðst eigi hætta vilja og hleypur undir og rekur niður svo að þegar gengu í sundur þrjú rifin í piltinum. Hann kvaðst þá hætta vilja. Bárður kvað eigi logið til föðurins og gaf honum gullhring er stóð sex aura og kvað gott í vonum síðar að hann mundi afbragðsmaður verða, kvað þenna verið hafa fimmtán vetra og þó hinn knáasta en Gunnbjörn var þá átta vetra. Eftir það fara þau á brott með hinum bestum gjöfum.

Vex Gunnbjörn upp með Döllu þar til að hann er tólf vetra. Var hann þá svo mikill og sterkur og mikið afbragð annarra manna.

Rauður hét víkingur er beðið hafði Döllu og hafði Gunnbjörn fyrir sest skarplega og hafði Rauður brott farið í illu skapi. Nú er svo komið að Dalla fær Gunnbirni skip og leggst hann í hernað og er hverjum fræknari í framgöngu. Herjar hann á víkinga hvar sem hann kemur fram. Og að áliðnu sumri finnast þeir Rauður víkingur undir ey einni. Slær þegar í bardaga með þeim. Hafði Rauður dreka ágætan. Var hann bæði harður og illur viðureignar. Fellur lið af hvorumtveggjum.

Þá mælti Gunnbjörn: "Viltu glíma við mig Rauður?"

"Hversu gamall ertu?" segir Rauður.

"Eg er nú tólf vetra," segir hann.

"Þá þykir mér til lítils vera eða engis að glíma við þig en þó skaltu ráða."

Eftir það taka þeir að glíma lengi og er Gunnbjörn aflaminni og forðar sér meir. Rauður sækir með ákefð og þar til að hann mæðist. Gunnbjörn sækir þá eftir megni þar til er Rauður fellur. Gunnbjörn hafði einn tygilkníf á hálsi er fóstra hans hafði gefið honum og með því að hann hafði ekki vopn til þá tekur hann þenna litla kníf og sker af Rauði höfuðið með. Eftir það tekur Gunnbjörn dreka þann hinn góða og allt það góss er Rauður hafði átt en lætur fara menn í friði með sitt góss og kalla þeir hann hinn besta dreng. Fer hann um haustið til fóstru sinnar, sitja þar um veturinn glaðir. Skortir eigi fé og gott yfirlæti.


36. kafli

Svo er sagt þá er kristni var boðuð á Íslandi, sá fagnaður er öllum hefir mestur orðið, að engi varð fyrr til né skjótari en Finnbogi hinn rammi að játa því með Þorgeiri móðurbróður sínum. Var hann og jafnan síðan formælandi það að styrkja og styðja sem hinir ágætustu menn boðuðu, varð og sjálfur vel kristinn.

Það er sagt eftir fall Bergs hins rakka að Hallfríður fæddi barn. Lét Finnbogi þegar kalla eftir Bergi frænda sínum. Unni hann honum einna mest sona sinna.

Bersi hét maður. Hann bjó í Hvammi í Vatnsdal. Hann var skyldur þeim Hofsmönnum. Höfðu þeir kvæntan hann og lagið til fé með honum. Hafði hann áður verið hleypipiltur þeirra bræðra en var nú orðinn gildur maður og lagamaður mikill. Þessi maður eggjaði þá bræður jafnan til mótgangs við Finnboga. Jökull lá lengi í sárum og varð þó heill.

Þess er getið eitthvert sinn að Finnbogi hafði riðið til Gnúps að finna Sigurð. Og áður hann riði á brott kemur hann í Hvamm að finna Bersa og mælti: "Svo er mér sagt Bersi að þú sért mjög spillandi um lyndi frænda þinna og mjög æsandi þá á hendur mér. En þar sem þú ert lítils verður hjá þeim þá skal eg svo finna þig eitthvert sinn að þú skalt aldrei þrífast."

Bersi segir: "Eg hefi lítið að gert hér til en það skaltu vita og til eiga að segja að engi skal þér grimmari en eg."

Finnbogi sat á baki og reið að honum og sló hann kinnhest svo að þegar féll hann í óvit og kvað Finnbogi ekki vopn á hann berandi, bað hann svo annars verra bíða. Ríður hann heim og lætur kyrrt um.

Það var einn tíma að þau Finnbogi og Hallfríður ríða norður til Ljósavatns. Tók Þorgeir við þeim báðum höndum og varð þeirra komu stórlega feginn. Litlu síðar kom þar sendimaður utan úr Vík og sagði Ásbjörn krankan mjög og bað Þorgeir koma út þangað. En þau vissu eigi að Finnbogi væri þar kominn. Eftir þetta ríða þau út öll saman. Verður allt fólk þeim stórlega fegið og var Ásbjörn mjög sjúkur. Skipar hann til um þá hluti sem hann vildi sín umráð standa láta, sagði að Finnbogi átti fé að taka allt eftir hans dag og kvaðst honum unna stórvel að njóta, bað þau hjón gera það tillæti við sig að láta heita eftir honum, kvaðst þess vænta að nokkur hamingja mundi fylgja. Eftir það fá þeir honum prest að veita honum þá hluti er hann þurfti nauðsynlega og síðan þröngir hann sóttin svo að þar af deyr hann, bjuggust síðan brott með lík hans og fór fjöldi með utan þaðan.

Og er þeir ríða utan um Flateyjardalsheiði og um kambinn Almannakamb, en annar heitir Finnbogakambur, þá bað Þorgeir þá stíga af hestum sínum. Var veðrið gott og heitt og mæddust hestarnir undir börunum. Þeir gerðu svo.

Þá mælti Þorgeir til Finnboga: "Með því frændi að það er líkara að frestist komur þínar norður hingað þá viljum vér biðja þig að þú sýnir hér nokkura aflraun er bæði eru hjá frændur þínir og vinir."

Finnbogi spurði hvað hann vildi helst að hann gerði "eða viljið þér að vér glímum?"

Þorgeir kvað það ekki gaman mundu vera. Finnbogi leggur þá af sér kápuna. Var maðurinn bæði mikill og veglegur, miðmjór og herðibreiður, limaður manna best og hærður vel, hverjum manni fríðari og hinn kurteisasti og allra manna hermannlegastur undir vopnum. Og það viljum vér segja að fáir eða öngvir muni sterkari verið hafa á Íslandi þeirra er einhamir hafa verið.

Finnbogi gengur þar að sem einn steinn mikill stóð jarðfastur. Hann hnykkir upp steininum og sýndist flestum mönnum ólíklegur til hafs fyrir vaxtar sakir. Hann tekur tvo steina og leggur á hinn mikla steininn, tekur upp alla saman á bringu sér og gengur með eigi allskammt og skýtur niður síðan svo að steinninn gekk eigi skemmra niður en tveggja álna niður í jörðina. Og heyrum vér það sagt að lítil merki sjái nú þess hins mikla steinsins en hina sjái tvo er hann lagði á ofan.

Þorgeir bað hann hafa þökk fyrir "er það líkast að þessi aflraun, þó að þú kallir eigi mikla, sé uppi meðan Ísland er byggt og þitt nafn kunnigt hverjum manni."

Eftir það búa þeir ferð sína og létta eigi fyrr en þeir koma til Ljósavatns. Var Ásbjörn jarðaður og þótti verið hafa hið mesta mikilmenni. En það varð ráð þeirra að vilja Þorgerðar að hún skyldi búa á Eyri með umsjá Þorgeirs bróður síns.

Og eftir það býst Finnbogi heim með sitt föruneyti. Þiggja þau þar ágætar gjafir og skilja með mikilli vináttu og riðu þá til Eyjafjarðar. Fann Hallfríður þar frændur sína og vini og þágu góðar gjafir. Síðan ríða þau vestur til Víðidals og koma heim til Borgar. Varð allt fólk þeim stórlega fegið.

Þann sama vetur fæddi Hallfríður sveinbarn og skyldi heita Ásbjörn og var hinn vænlegasti og þegar hann var nokkurra vetra sendir Finnbogi hann norður á Eyri til Flateyjardals Þorgerði móður sinni. Fæddist hann þar upp og kvongaðist og var hið mesta hraustmenni. Er þar komin mikil ætt frá honum og stórmenni. Þau Finnbogi áttu og son er Þorgeir hét og kallaður eftir Þorgeiri goða. Og það vilja menn segja að þau ættu sjö syni og alla hina efnilegustu menn og hina hraustustu.


37. kafli

Á einu sumri kom skip í Hrútafjörð og átti sá maður hálft er Loðinn hét en hálft átti Gunnbjörn Finnbogason. Fer hann þegar heim til Borgar og verða þau hjón honum stórlega fegin. Loðinn fer til Hofs með annan mann og þá vist með Jökli. Gunnbjörn var hverjum manni meiri og vænlegri og líkur mjög föður sínum. Var hann þá fimmtán vetra gamall.

Svo er sagt að leikar voru í Hvammi að Bersa er fyrr var getið. Svo var og jafnan leikið að Hofi. Gunnbjörn reið jafnan til leika í Hvamm og þótti Finnboga það hvergi betur er hann fór jafnan einslega, bað hann gera annaðhvort að fara eigi eða margmennari ella. Bersi var jafnan í illu skapi er hann kom og lét sem dólglegast.

Það var einn dag er Gunnbjörn reið vestan til Hvamms til leiks og fjórir húskarlar með honum. Komu þeir í Hvamm og var kominn fjöldi leikmanna. Þar var kominn Jökull frá Hofi og hans menn og var talað mart um glímur.

Spurði Jökull ef Gunnbjörn vildi glíma "muntu vera sterkur maður sem faðir þinn."

Hann kvað lítinn knáleik sinn, kvaðst og eigi vera gamall mjög.

Þá mælti Bersi: "Það þykir oss ráð að þeir Gunnbjörn glími og Jökull. Mun hann vera vel knár þar sem hann er son hans Víðdælagoða að engir skulu nú þora til jafns að leika við. Finnum vér það Vatnsdælar að Ingimundur er allur en synir hans þola bæði sínar skemmdir og annarra frænda sinna."

Eftir þetta taka menn til leiks. Var Gunnbirni skipað í mót Jökli. Gengust þeir að fast og gerðu langa lotu og féll Jökull á kné. Þá var um rætt að þeir mundu hætta og kalla jafni. Jökull vill það eigi og gerðu þeir lotu aðra og féll þá Gunnbjörn á kné. Þá gengu menn að og báðu þá hætta. Jökull kvað ekki reynt vera. Eftir það taka þeir til hið þriðja sinn. Gunnbjörn leysir þá til og hleypur undir Jökul og þrífur hann upp á bringu sér og setur niður innar við pallinn mikið fall. Þeir Jökull og Bersi hljópu til vopna og voru haldnir. Eftir það skilja þeir leikinn. Ríða þeir Hofsmenn þegar í brott og svo Bersi. Gunnbjörn býst og heim.

Ingibjörg hét heimakona þar í Hvammi, væn og vinnugóð og af góðum ættum. Hún hafði jafnan vel tekið við Gunnbirni og þjónað honum jafnan er hann kom. Gerði hann og jafnan margtalað við hana.

Hún gekk að Gunnbirni og bað hann eigi ríða hina sömu leið aftur sem hann hafði þangað riðið "er það ætlan mín að þeir sitji fyrir þér."

Hann kveðst það eigi hirða "mun eg ríða sem leið liggur bæði um Vatnsdal og Víðidal hvort sem eg er lengur eða skemur á Íslandi."

Ríða þeir brott og þar til er gatnamót er og liggur þá önnur vestur til Víðidals. Þar hlaupa menn upp fyrir þeim. Var þar Jökull með hinn níunda mann.

Hann bað Gunnbjörn af baki stíga "skal nú vita hvort þú ert betur vopnfimur eða glímufær."

Gunnbjörn kvað hvorttveggja með litlu móti. Hleypur hann af baki og hans menn. Jökull lagði þegar til hans í skjöldinn en skjöldur hans var öruggur svo að ekki gekk á. Gunnbjörn brá sverði og hjó til Jökuls og klauf allan skjöldinn öðrum megin mundriða. Jökull varð ekki sár.

Þar er til að taka sem Finnbogi er heima að Borg. Hallfríður spurði um daginn hvar Gunnbjörn væri. Finnbogi kvað hann farið hafa til leiks. Hún kvað slíkt undarlegt að láta son sinn fara svo einslega í hendur óvinum sínum "við slíka ójafnaðarmenn sem að eiga er."

Finnbogi kvað þetta satt vera, bað Hrafn litla taka hest sinn. Það gerði hann. Ríður Finnbogi en Hrafn hljóp fyrir. Ríður hann vestan sem leið liggur þar til er hann sér bardagann og í því er hann kom að leggur Gunnbjörn til Bersa í gegnum skjöldinn og svo í lærið og varð það mikið sár. Þá lagði Jökull til Gunnbjarnar í skjöldinn en hann var svo harður að ekki bítur á og stökk af upp spjótið og í viðbeinað. Og í því kom Finnbogi að og leggur til Jökuls svo að þegar stóð í beini.

Þá mælti Finnbogi: "Það er nú ráð Bersi að ganga vel fram og gjalda kinnhestinn."

Hann hjó þá til Bersa og af höfuðið svo snöggt að það kom milli herða húskarli hans svo að hann féll þegar í óvit. Eftir það er Finnbogi svo ákafur að hann höggur á tvær hendur og eigi létta þeir fyrr en fallnir eru fimm fylgdarmenn Jökuls en hann með öllu óvígur.

Þá mælti Gunnbjörn til Finnboga: "Látum nú vera fyrir því að þeir eru nú yfirkomnir og með öllu sigraðir. Er þér gott við það að una að Jökull hefir jafnan með fjölmenni að þér farið og látið menn sína en borið sig aldrei heilan af ykkrum fundi. Mundi það og mál manna í Noregi eða annars staðar þar sem þú ert mest ágættur af hreystiverkum að þér væri lítilræði í að skipta höggum við Vatnsdæla þó að þú dræpir hvern að öðrum."

Finnbogi gerir þetta eftir bæn Gunnbjarnar að þeir skilja. Eru þeir Jökull eftir fjórir lífs og allir mjög sárir. En þeir feðgar ríða heim með sína menn. Spyrjast nú þessi tíðindi og er Jökull heim fluttur sár mjög með sína menn.


38. kafli

Svo er sagt að Austmenn verða þessu stórlega reiðir er Jökull hafði setið fyrir Gunnbirni og fóru þegar brott frá Hofi og voru að Gnúpi það sem eftir var vetrarins.

Og um sumarið eftir á alþingi er talað um mál þeirra og þótti mönnum ekki þann veg mega fram fara að þeir dræpust einart niður, ætluðu að Finnbogi mundi eigi fyrr létta en hann eyddi öllum, þeim að nokkur þroski væri yfir, en ætluðu og við ofkapp Jökuls að hann mundi aldrei af létta hvern mannskaða sem hann fengi þar til er umskipti yrði með þeim. Var þá leitað um sættir með þeim en Jökull vill engri sætt játa. Finnbogi vill og enga bjóða. Var þá óhægt með þeim saman að koma. En með því að þeir Hofsmenn voru frændmargir en Þorgeir dauður, móðurbróðir Finnboga, þá var það ráð höfðingja að Finnbogi var ger í brott úr Víðidal af því að menn ætluðu að þeirra vandræði mundu aldrei fyrr losast en aðrir hvorir leituðu undan. Fýsti Gunnbjörn föður sinn að fara utan, kvað hann þar mundu vel virðan hvar sem hann kæmi.

Finnbogi kvaðst ekki utan vilja "mun eg fylgja sonum mínum, menna þá og hreysta eftir megni."

Svo er sagt eftir þetta að Finnbogi selur Borgarland og fer vestur í Trékyllisvík og býst þar um og reisir þar bæ fríðan. En það sama sumar fer Gunnbjörn utan með mikið fé er faðir hans gaf honum. Var þá Dalla önduð og tók hann þar við fé öllu eftir hana. Hann kvongaðist og átti þá konu er Ása hét af hinum bestum ættum. Varð hann ágætur maður og umfram flesta menn um alla atgervi og er mikil saga frá honum.

Þau Finnbogi og Hallfríður áttu sjö syni. Var Gunnbjörn elstur, annar Eyjólfur, þriðji Þórir, fjórði Ásbjörn, fimmti Bergur, sétti Þorgeir, sjöundi Þorgrímur og voru allir hinir vænlegustu menn. Finnbogi gerðist formaður vestur þar og vildu svo allir sitja og standa sem hann vildi og þótti þeim þar harðla gott. Þórir son Finnboga var jafnan með Möðruvellingum frændum sínum og það höfum vér heyrt að hann væri með Eyjólfi halta í Melrakkahólsbardaga og var mikill maður og sterkur. Öllum sonum sínum fékk Finnbogi hina bestu kosti því að hann var hverjum manni auðgari og átti betri gripi en aðrir menn. Var hann og hinn mesti skartsmaður í búningi. Hrafn hinn litli var með Finnboga meðan hann lifði og var bæði frár og skyggn og glöggþekkinn.

Finnbogi var búmaður mikill og lét mjög sækja útróðra, var og skammt að sækja því að mjög svo mátti kasta á land. Finnbogi gerðist þá hniginn nokkuð og var þó hinn gildasti. Gerðist þá mjög fjölbyggt í víkinni, var þá hálfur fjórði tugur bæja bæði miklir og góðir. Var þar stórlega fjölmennt. Gerðist Finnbogi þar höfðingi og stjórnarmaður yfir því fólki og voru honum þar allir velviljaðir. Hann kallaði þann bæ á Finnbogastöðum er hann bjó á og var bæði mikill og skörulegur. Finnbogi lét gera kirkju mikla á bæ sínum og fékk prest til og hélt hann vel og sæmilega að öllu því er honum til heyrði.


39. kafli

Frá því er sagt eitthvert vor að maður kemur á Finnbogastaði til gistingar. Var hann mikill maður og knálegur. Hann gekk fyrir Finnboga og kvaddi hann vel. Finnbogi tók kveðju hans og spurði hver hann væri. Hann kvaðst Þorgrímur heita og vera vatnsdælskur maður og orðinn sekur á þingi. Finnbogi spurði hver hann hefði sektan. Þorgrímur kvað þá Hofssveina það gert hafa. Finnbogi spurði hvað hann ætlaðist þá fyrir.

Hann kveðst eigi vita svo gjörla, kvaðst hafa leitað til margra höfðingja og vildu honum engir ásjá veita "nú spurði eg að þú værir ágætari en flestir menn aðrir og sýndist mér ráð að koma á yðvarn fund. Nú vil eg biðja yður viðtöku og nokkurrar ásjá."

Finnbogi segir: "Ekki mun það ráðlegt að taka við sekjum manni. Hefi eg og jafnan haft mikinn mótgang af Vatnsdælum þó að eg hafi minna til gert en haldið skógarmanni fyrir þeim. Er það nú best að skilji með oss þó að hvorirtveggju hafi mikið látið fyrir öðrum eða ertu að nokkuru íþróttamaður?"

Hann kvaðst engi íþróttamaður vera "en ef skal alllítið til finna þá þykist eg garð leggja eigi verr en annar maður. Hefi eg og það mjög gert og hefir enn engi fallið heldur setna þeir í jörð niður."

Finnbogi segir: "Það þyrfti hér mjög að gera því að um túnið er engi garður en mjög ágengt."

Þorgrímur bað hann til hætta hve honum gætist að. Og svo varð að hann dvaldist þar og tók til garðlags og gekk það bæði skjótt og vel. Og sá Finnbogi það er að þessu var hann vel hagur. Líður á sumarið þar til er hann hefir gert um túnið. Var það tveggja mánaða verk og þótti öllum þeim sem sáu hið mesta mannvirki í þessum garði.

Þorgrímur var góður viðureignar og fáskiptinn. Hann spurði þá Finnboga hvað hann skyldi þá að hafast og kvaðst gjarna þar dveljast vilja. Finnbogi kvaðst eiga gerði eitt, bað hann þangað fara og leggja þar garð um. Þorgrímur gerði svo. Líður nú áfram og einn dag gengur Finnbogi á gerðið. Þorgrímur fagnar honum vel. Var þá og mjög svo gert um gerðið. Hann undraði mjög skjótleik þessa manns og hagleik.

Hiti var mikill um daginn og mælti Finnbogi: "Svo gerir mér þungt og höfugt að eg má víst eigi annað en sofa."

Þorgrímur bað hann þá heim fara og sofa heima. Finnbogi kvaðst eigi mega við bindast og kastar sér niður og vefur feldi um höfuð sér. Sofnar hann þegar fast og hraut mikinn. Þorgrímur gerði þá hark nokkuð og vaknaði Finnbogi ekki við. Þorgrímur hleypur þá að horninu í einum stað og kippir úr torfu og þrífur upp sverð og hleypur að Finnboga þar sem hann lá og höggur til hans sem hæglegast. Finnbogi svaf eigi jafn fast sem hann lét eða Þorgrímur hugði og spratt upp í móti og brá feldinum að sverðinu og snaraði að honum þegar. Þorgrímur hljóp þá undir Finnboga og þó að hann væri sterkur vel þá átti hann þó eigi við sinn maka hér um og hafði Finnbogi hann skjótt undir og spurði þá hvort eigi væri allt hið trúasta og spurði hvers ráð þetta væri.

Þorgrímur kvað nú eigi leyna mega "og var þetta ráð Jökuls. Þykist hann þungt hafa af beðið yðrum skiptum. Nú vil eg biðja þig griða og miskunnar um mitt mál."

Finnbogi segir: "Ekki óttast eg að mér verði skaða auðið af þér en þar sem þú ert sendimaður Jökuls slíks erindis þá nenni eg eigi öðru en umskipti verði með okkur," tekur síðan sverðið og höggur af honum höfuð.

Hafði Þorgrímur unnið mikið og þarft fyrir Finnboga enda var honum miklu launað. Líða nú stundir og spyr Jökull þetta og unir nú verr við en áður. En Finnbogi situr í búi sínu og skortir eigi auð fjár og góða virðing.


40. kafli

Á næsta ári eftir dráp Þorgríms kom maður til gistingar á Finnbogastaði. Hann var bæði mikill og sterklegur, svartur og heldur illmannlegur. Hann gekk fyrir Finnboga og kvaddi hann. Finnbogi tók kveðju hans og spurði hver hann væri.

Hann kvaðst heita Þorbjörn og vera allra sveita maður "kannast þá margir við ef heyra viðurnefni mitt. Er eg kallaður sleggja."

Finnbogi spurði hvert hann skyldi fara.

Hann kvaðst eigi vita gerla, kvað heldur harka fyrir sér "er eg sekur orðinn og fer eg nú svo sem leitandi þess höfðingja er mig vildi halda."

Finnbogi spurði hver hann hafði sektan.

Hann kvað þá hafa það gert Vatnsdæla, syni Ingimundar, kvaðst hafa barnað frændkonu þeirra "er eg því hér kominn að mér er mikið sagt af stórmennsku þinni. Vil eg biðja þig viðtöku og ásjá."

Finnbogi segir: "Þú ert grunbrúslegur maður og veit eg eigi hvort þú lýgur eða segir satt. Verða oss vandsén ráð þeirra Vatnsdæla og er mér ekki um að taka við þér."

Þorbjörn segir: "Það er svo sem þér segið. Er eg og ekki dællegur maður kallaður og heldur gildur í flestum hlutum og óvæginn. Hafa og margir það fundið að mig hefir eigi áræði bilað en gjörla veit eg hver maður þú ert Finnbogi. Er það ekki mitt færi að stríða við þig. Er og ekki það í ætlan heldur hitt að þiggja að yður nokkuð heilræði og ásjá um mitt mál."

Finnbogi mælti: "Hvað er þér helst lagið til íþrótta?"

Þorbjörn segir: "Íþróttalaus er eg utan það er eg þykist miklu gildari í verki en aðrir menn."

Finnbogi mælti: "Hvað er þér best hent að vinna?"

Þorbjörn segir: "Slá þykist eg eigi minna en þrír aðrir þeir er þó eru gildir í verki. Þykir mér og það best að vinna."

Finnbogi segir: "Hvað mun varða þó að þú dveljist hér um hríð og takir til sláttar? Er hér töðuverk mikið og gengur húskörlum stórlega lítt."

Þorbjörn kvaðst það gjarna vilja, bað hann búa sér ljá og orf sterklegra en öðrum húskörlum. Finnbogi gerði svo og tók Þorbjörn til sláttar og þótti mönnum það með miklum ólíkindum hvað hann gat slegið. Sá Finnbogi það að hann hafði ekki í hóli gilt í frásögn um sláttinn. Sló hann bæði mikið og vel. Var taðan svo loðin að eigi varð minna af að bera. Sló Þorbjörn jafnan að tveim megin og þótti líkari atgangur hans tröllum en mönnum.

Og er hann hafði lokið heimatöðunni spurði hann hvað hann skyldi þá að hafast. Finnbogi bað hann fara þá á gerðið. Kvað hann það flestum mest við taka. Fór hann á gerðið og lét þar ganga sem heima. Öllum þótti heldur ódælt við hann en við Finnboga var hann hinn mjúkasti og aldrei fann hann það að Þorbjörn mundi um svikræði sitja.

Og þess er getið einnhvern dag að Finnbogi gekk á gerðið og fagnaði Þorbjörn honum vel. Var þá slegin mjög taðan og töluðust þeir við um stund.

Þá mælti Finnbogi: "Nú er enn sem fyrr. Svo syfjar mig hér að eg má víst eigi upp standa. Og víst sækir að nokkuð og skal sofa."

Þorbjörn mælti: "Gangið heim bóndi og sofið þar."

Finnbogi kastar sér niður á légarðinn og kastar á sig feldinum og sofnar þegar og hrýtur fast. Þorbjörn sleggja berst um fast á gerðinu. Hann gengur að brýna ljá sinn og er hann hefir slegið um stund rennir hann til augum þar sem Finnbogi lá og þykist vita að hann mun fast sofnaður vera, gerir hark nokkuð og vaknar hann eigi. Eftir það tekur hann að slá með ákefð. í annað sinn hvetur hann ljá sinn og gerir enn hark nokkuð og sefur Finnbogi. Hann fer síðan og slær. Hið þriðja sinn hvetur Sleggja ljá sinn og miklu mest. Var léinn bæði mikill og sterkur sem hinir bestu knífar.

Þorbjörn þykist nú eigi þurfa betra færi, hefir ekki annað vopn en ljáinn, sprettur nú upp og að Finnboga þar sem hann lá og ætlaði skjótt um að ráða. Og í því hefur hann upp sitt verkfæri og ætlaði að reka á honum miðjum. Þá hleypur Finnbogi upp og þrífur um orfið og ætlaði að snara af honum en það gekk eigi fyrr en þeir skipta því með sér, kasta þá brotunum og rennast á. Verða þar harðar sviptingar. Skilur Finnbogi það að hann mun hljóta að kosta afls í móti þessum. Er þeirra atgangur bæði langur og harður en svo lyktast að Þorbjörn fellur. Finnbogi spurði þá hvort eigi væri allt hið trúasta um hans þarkomu. Þorbjörn kvaðst ætlað hafa að eigi skyldi svo hafa um skipt með þeim.

Finnbogi mælti: "Skil eg að þetta munu annarra ráð fyrir öndverðu."

Þorbjörn kvað svo vera og kvað Jökul hafa sendan sig og heitið sér frændkonu sinni með miklu fé "ef eg kæmi fram ferðinni. Nú vil eg og biðja lífsgriða fyrir það sem eg hefi illa gert. Mun eg og eigi leita oftar yður að svíkja."

Finnbogi segir: "Þó að þú sért mikill og sterkur þá óttast eg þó ekki að þú verðir mér að skaðamanni og mun annað fyrir liggja. En þar sem þeir vilja enn eigi af láta svikræðum við mig þá er það líkast að umskipti verði með okkur eftir tilgerðum yðrum allra saman."

Þorbjörn segir: "Ekki skal og biðja lengur. Má enn aldrei vita hverjir fyrir griðum eiga að ráða."

Hann tekur þá og veitir umbrot svo mikil að Finnbogi hugði það að hann mundi upp komast undir honum en ekki var vopn til reiðu. Finnboga var ekki um að láta hann upp, bregður feldarblaði sínu að barka honum og bítur í sundur, snarar síðan höfuð hans og brýtur á bak aftur og linast hann heldur við slíkar byxingar. Síðan leitar Finnbogi að tygilknífi er hann hafði á hálsi sér og getur veitt honum þar með bana. Og var bæði að hann hafði unnið mikið enda hafði hann sláttukaup mikið. Vottaði Finnbogi það síðan að honum þótti tvísýnt verið hafa hversu fara mundi með þeim og þótti hann verið hafa hið mesta tröllmenni við að eiga. Er það gerði síðan kallað Sleggjufall.

Fréttist þetta skjótt víða þar sem Þorbjörn var kunnigur. Þótti mönnum Finnboga þetta hafa auðnusamlega tekist við slíkan heljarmann sem að eiga var. Unir Jökull illa við og þykir mönnum hann því verra af fá sem þeir Finnbogi eigast fleira við. Líða nú stundir og er allt kyrrt og tíðindalaust. Situr Finnbogi nú í búi sínu með góðri virðingu. Gerðust nú synir hans ágætir. Var Þórir jafnan með Möðruvellingum, frændum sínum.


41. kafli

Nú skal þar til taka að maður kom á Finnbogastaði til gistingar sem oft kunni til að bera. Finnbogi spurði þenna mann að nafni en hann kvaðst Vermundur heita, austfirskur maður að ætt, kvað föður sinn þar búa. Þessi maður var ekki mikill vexti, kviklegur og skjótlegur.

Hann bað Finnboga viðtöku, kvaðst vera sekur maður og kvað Brand hinn örva Vermundarson hafa sektan sig fyrir það er hann veitti manni áverka honum skyldum "en eg á nú hvergi traust eða halds von."

En Finnbogi kvaðst lítið gerast um hlaupandi menn og þóttist illa á brenndur lygðum þeirra "en þó heyrði eg getið þessa á sumri að maðurinn hafði sekur orðið. Er Brandur ágætur maður og vinsæll og mun þykja sér misboðið í ef þú ert haldinn."

Þessi maður sótti mjög eftir og bað sér líknar og ásjá og kvað marga sér þangað hafa vísað en kvaðst lítt að tekinn ef engi hjálpaði honum. Finnboga þótti lítilmannlegt að synja honum en leist maður ekki geigvænlegur þó að hann lygi og bað hann dveljast þar nokkura stund ef hann vildi, kvaðst ætla að Brandur mundi taka fé fyrir manninn og mundi eigi með kappi sækja er maður var ekki mikils háttar. Varð hann þessu feginn og var hægur og fylgjusamur Finnboga.

Líður sumarið og mjög á veturinn og gerði færðir góðar. Fréttir Brandur þetta að Finnbogi hefir tekið við manninum og sendir þegar menn á fund hans og bað hann lausan láta manninn og halda eigi með kappi fyrir sér, kvaðst vilja góðu við hann skipta og upp gefa sakarstaðinn þann sem til heyrir ef Finnbogi gerði þetta eftir hans bæn. Finnbogi kvaðst eigi nenna að láta hann lausan á vetrardegi, kvaðst vilja bjóða fé fyrir manninn svo að Brandur þættist vel sæmdur af og kvað þá vel semja mundu þá er þeir fyndust. Fara nú sendimenn aftur með þessum erindum og verður Brandur stórlega reiður og lét þau orð um fara að Finnboga skyldi eigi duga að halda þann mann er hann vildi sækja. Var hann hinn bráðasti og kappsmaður mikill þegar honum þótti móti sér gert, kvað þá svo finnast skyldu að Finnboga þætti þessu verr ráðið. Finnbogi lét sem hann vissi eigi þó að hann heyrði slíkt talað og gerði enga breytni á háttum sínum.

Líður af veturinn og mjög svo sumarið og situr Finnbogi um kyrrt. Hann hafði jafnan mannmart með sér og lét flesta nokkuð stunda, lét mjög sækja sjóinn. Var það auðvelt því að skammt þurfti undan að róa.

Það var einn dag um haustið að menn voru allir í brottu af bænum, sumir á sjó en sumir til annarra nauðsynja. Finnbogi var heima og Vermundur hjá honum og ekki fleira karla.

Þá mælti Finnbogi: "Svo er mér þungt í dag sem þá jafnan er að sækir nokkuð og skal nú sofa í dag."

Vermundur mælti: "Svo segir mér hugur um sem Brandur muni eigi ljúga stefnuna og mun honum eigi úr minni munað hvar eg er niður kominn. Og er það illt bóndi ef þér komið í nokkura hættu fyrir mínar sakir."

Finnbogi kvað ekki það vera mundu. Kastar hann sér niður og sefur þegar. Þar var ekki langt mjög meðal fjalls og fjöru. Voru þar hjallar þrír upp gegnt bænum og mátti þar einum megin að ríða. Vermundur gekk út og sjást um. Hann sá upp á hinn efsta hjallann að annaðhvort var hvirfilvindur ella riðu menn mjög margir saman. Hann gekk þá inn og gerði nokkuð glamm og vaknaði Finnbogi og spurði hvað hann vildi. Hann sagði hvað hann hafði séð. Finnbogi bað hann að hyggja og kvaðst sofa verða enn. Vermundur gekk út og inn og sá þá mannareiðina. Voru þeir þá komnir á miðhjallann. Hann gekk þá inn og sagði Finnboga mannareiðina.

Hann kvað það vel vera mega "er hingað jafnan mikil ferð á haustum að skreiðarkaupum og er nú von þeirra sem mest enda má eg ekki annað en sofa sem mig lystir."

Vermundur gekk brott og var úti um stund, kom inn og sagði Finnboga að þeir voru þá komnir á hinn neðsta hjallann "og eg kenndi Brand hinn örva Vermundarson með hálfan þriðja tug manna, vel búna að vopnum. Hefir þú vel og stórmannlega mér veitt sem guð þakki þér. Nú er eg lítils verður hjá yðru sundurþykki. Vil eg miklu heldur ganga á vald Brands. Er hann drengur góður og mun honum nokkurn veg vel fara. En hann er hinn mesti kappsmaður þegar er þrályndir menn eru í móti."

Finnbogi segir: "Ekki munum við hvata að því að gefast upp fyrir Brandi. Munum vér áður hafast orð við og mun Brandur þiggja sæmileg boð. En ef hann vill eigi það þá er slíkt sjáanda. En eg er nú fullsvefta og skal eigi liggja lengur," sprettur upp og tekur vopn sín og þeir báðir og ganga út og upp að brekkunum.

Var þar gil mikið og kambur að ofanverðu og mátti einum megin að sækja. Gengu þeir Finnbogi þar á upp. Þeir Brandur sáu mennina er heiman gengu og þóttust þegar vita að Finnbogi mundi vera er bæði var mikill og sterklegur og víkja þegar eftir þessum mönnum. Kvaðst Brandur ætla að auðveldleg mundi verða þeirra ferð.

Hallfríður hafði heyrt viðtal þeirra Finnboga áður þeir gengu heiman og sendi hún pilt á næstu bæi að biðja menn þangað koma svo og mátti heyra kall á skipin. Bað hún segja að Finnbogi mundi manna við þurfa.

Svo er sagt áður þeir koma að Finnbogi hafði leyst upp steina nokkura. Og er Brandur kom að fagnaði Finnbogi honum harðla vel. Brandur tók kveðju hans. Finnbogi spurði að erindum.

Brandur kvað honum þau áður kunnig vera, kvaðst sækja mann þann er hann hafði sektan en kvað Finnboga hafa haldið með kappi móti sér, kvaðst nú ætla eftir að leita þó að hann vildi halda "en með því Finnbogi að þú ert ágætur maður fyrir margra hluta sakir þá vil eg bjóða þér nú sem í fyrstu að þú látir manninn lausan og nú í mitt vald. Mun eg þá ekki kæra við þig um bjargir við hann heldur heita þér minni vináttu og liði ef þú kannt þurfa."

Finnbogi segir: "Þetta er boðið vel og drengilega sem von er að þér. En þar sem eg lét hann eigi lausan í fyrstu er yður orð komu til þá vil eg þessu skjótt neita. Vil eg bjóða nú sem þá, gjalda fé fyrir mann þenna og það umfram að þú ráð sjálfur féskuldinni. Nenni eg eigi fyrir metnaði, með því er hann hefir áður verið með mér, að skilja nú ódrengilega við hann. Mun yður ekki svo mikil slægja að drepa mann þenna þó að þér fýsist þess."

Brandur segir, kvað mann ekki mikils háttar "en með því að vér höfum riðið heiman allt hingað til þín þessa erindis en maður mjög kominn á vort vald er það vænst Finnbogi er þú leggur mikið kapp á við þenna mann er þér dragi þetta til dauða. Mun þá eigi þykja ekki vort erindi er vér leggjum þig við velli."

Finnbogi kvaðst ekki það óttast "er það ráð mitt Brandur að þú gangir eigi fyrstur til atsóknar í móti mér. Lát heldur menn þína í frammi meðan húskarlar mínir vinnast til."

"Hvað húskörlum er það?" segir Brandur. "Sé eg ekki menn fleiri en ykkur tvo þar upp standa."

Finnbogi segir: "Eru hér þó húskarlar mínir aðrir sex, ekki óknálegir, og eru samnafnar miklir því að steinar heita allir. Nú láttu í móti þeim jafnmarga þína húskarla og vitum hvorir þar láti undan öðrum."

Brandur segir, kvaðst ekki mundu bleyðast fyrir því þó að hann hótaði þeim grjóti.

Er svo sagt að til varð einn af fylgdarmönnum Brands og rann upp að þeim nöfnum eða ei síður að Finnboga með fagran skjöld og spjót og ætlaði að leggja til Finnboga. Hann tekur við einum steini. Þessi maður var sterkur og ætlaði að bera frá sér skjöldinn. En húskarl Finnboga var skjótleikinn og fór að snarpt. Getur hann eigi staðist atfarar hans og fellur á bak aftur og tumbar ofan í gilið og fékk sá þegar bana. Finnbogi spurði Brand hversu farið hefði með þessum. Brandur kvað sinn mann hafa ekki gott af fengið.


42. kafli

Svo er sagt að Finnbogi lét þá fara húskarla sína sex og hafði hver mann fyrir sig. Finnbogi spurði þá Brand hversu honum þætti að fara. Brandur kvað eigi mjög lasta þurfa. Finnbogi kvaðst vilja bjóða honum hin sömu boð sem fyrr og skildu þeir. Brandur kvað hann enn ekki óttast þurfa og kvað hann koma í meiri raun mundu um það er þeir skildu. Finnbogi kvað eigi það til bera að hann óttaðist. Brandur bað menn sína fara kænlega og ganga upp fleiri jafnfram og sækja að skarplegar og kvað það skömm að jafnmargir menn skyldu lengi þurfa að sækja tvo eina menn.

Finnbogi brá þá sverði og varðist vel og drengilega. Varð hann nokkuð skeinusamari en þeir hugðu til.

Og er þeir höfðu barist um hríð þá mælti Finnbogi: "Menn fara þar neðan frá sjánum eigi allfáir, vopnaðir og ganga snúðigt. Er það ætlan mín að þessir menn muni ætla til liðveislu við mig en í móti yður Brandur og er þá sem ber að hvorir drjúgari verða."

Brandur kvaðst aldrei hirða um fiskifýlur hans, hvort væru fleiri eða færri.

Þá mælti Finnbogi: "Menn ríða þar enn og ei allfáir saman innan með sjánum og heldur geyst. Mun það enn vera af vorum mönnum. Nú er það bæn mín og boð við þig Brandur að þú þiggir þann kost sem eg hefi boðið. Vil eg selja þér sjálfdæmi og ráð einn sætt þann veg sem þér best þykir. Er það ætlan mín um þá suma er þar eru í ferð að ærið fari geystir ef vér erum eigi áður sáttir."

Brandur leit til og sá að öllum megin dreif lið að með geysingi. Sumir hleyptu en sumir runnu, slíkt hver sem mátti.

Þá mælti Brandur: "Aldrei hirði eg um fjörudýr yður hvar þau fara. En eigi ætla eg þetta spara þurfa að vér ráðum einir. Mun það mælt að vort erindi verði þó gott ef vér tökum sjálfdæmi af þvílíkum manni sem þú ert Finnbogi."

Hann kvaðst það gjarna vilja og bað hann þó hafa þökk fyrir, gekk þegar í mót honum og tókust í hendur og sættust að þeirra manna vitni er hjá voru.

Var það mjög jafnskjótt að þeir höfðu fyrir skilið og liðið dreif að. Voru þar synir Finnboga og margir aðrir vinir og frændur. Voru þeir þegar svo ákafir að þeir vildu veita Brandi atgöngu og drepa alla. Finnbogi gekk þá í milli og sagði að þeir voru sáttir, bað þá eigi veita sér ólið í sinni tilkomu. Varð svo með umtali Finnboga að þeir sefuðust.

Finnbogi bauð Brandi þá til sín og það þá hann. Sátu þeir þar nær viku glaðir og kátir. Veitti Finnbogi þeim stórmannlega. Og eftir það bjóst Brandur í brott. Finnbogi spurði þá Vermund hvort hann vildi heldur vera eftir eða fara með Brandi.

Vermundur kvaðst heim fýsast "er Brandur svo góður drengur að eg mun vel kominn í hans föruneyti héðan af. Hefir yður stórlega vel til mín farið og höfðinglega sem guð þakki yður."

Býst hann þá til ferðar með Brandi.

Finnbogi mælti þá til Brands: "Nær viljið þér lúka upp gerð með oss?"

Hann segir: "Það vil eg gera á þingi í sumar. Þykir mér það metnaðarsamlegast að segja þar upp sætt okkra."

Finnbogi bað hann fyrir ráða. Skilja þeir með blíðu. Ríður Brandur heim í Austfjörðu og fór Vermundur með honum.

Líður af veturinn og um sumarið ríða menn til þings fjölmennt. Komu þar Vatnsdælar, Þorsteinn og Jökull og þeir allir bræður Ingimundarsynir. Þar kom Brandur hinn örvi og Finnbogi hinn rammi og Eyjólfur halti mágur hans og mart annað stórmenni.

Það var einn dag að þeir Brandur og Finnbogi fundust og kvöddust blíðlega. Spurði Brandur um málaferli þeirra Vatnsdæla. Finnbogi kvað kyrrt allt og ákærulaust. Sagði Finnbogi honum allt svo sem farið hafði þeirra í millum. Brandur bauð Finnboga að leita um sættir með þeim og kvað þá alla fullkomna sína vini. Finnbogi kvaðst það þiggja vilja. Og einn dag ganga þeir Brandur og Finnbogi og Eyjólfur með mikla sveit manna til búðar þeirra Vatnsdæla. Fagnaði Þorsteinn þeim harðla vel og tóku tal sín á milli. Hóf Brandur þegar þetta mál við Þorstein og bað þá sættast við Finnboga og kvað Jökul ekki hóf að kunna um áleitni við slíka menn. Brandur flutti bæði vel og skörulega, kveðst þeim fylgja vilja er sættast vildi en þeim mótsnúinn er í mót mælti og bauð sig til umdæmis með þeim.

Jökull var tregur til. En þó við umtal Brands og þá mikla vináttu er með þeim var og áeggjan bræðra sinna, en þó þóttist hann illt hafa af beðið í þeirra skiptum en var ofbeldismaður mikill og fullhugi, þá lyktast þó með því að þeir sættast heilum sáttum. Skyldi Brandur þar einn skera og skapa þeirra í millum. Gerði Brandur féskuld nokkura á hendur þeim bræðrum og guldu skjótt og rösklega. Er svo sagt að síðan hafi þeir haldið vináttu sinni og skiptust þeir Jökull og Finnbogi gjöfum við.

Finnbogi mælti þá til Brands, kvað hann þá eigi fresta þurfa lengur að lúka um gerð þeirra í millum, kvaðst það eigi vilja undan draga eða seinka lengur.

Brandur segir þá: "Þó að þú sért vitur maður Finnbogi þá þykist eg þar sjá sumt er þú sérð allt. Eigi var eg svo heimskur að eg sæi eigi að eg var fanginn og allir mínir menn þá er lið sótti að oss öllum megin með ákefð þar sem oss gekk áður illa við þig einn og líkara að vér hefðum eigi sigrast. Var það meir af ákefð minni og ofbeldi heldur en eg sæi eigi hvar komið var eða hversu fara mundi. Nú ætla eg að eigi skal svo mikill munur með okkur að eg geri fé af þér fyrir það er þú gafst mér líf og mínum mönnum. Þóttist eg meira verður og þeir allir en einn lítilsháttar maður þó að eg vildi fyrir metnaðar sakir hafa sæmd af málum við yður. Nú mun eg eigi minna launa lífgjöfina en heita þér fullkominni minni vináttu og málafylgd við hvern sem þú átt eða þínir synir og skal okkra vináttu aldrei skilja meðan við erum báðir uppi."

Finnbogi þakkaði honum sína fylgd og öll sín ummæli með fögrum orðum. Hann gaf Brandi gripi þá sem honum hafði gefið Jón Grikklandskonungur. Var það hringur, skjöldur og sverð. Þakkaði Brandur honum stórlega vel og skiljast þeir þá allir með hinum mesta kærleik og blíðu.


43. kafli

Þeir Ingimundarsynir buðu Finnboga að fara vestan úr Víkinni og kaupa aftur landið að Borg í Víðidal. En hann vildi það eigi. Kvaðst honum þar þykja harðla gott. Reið hann heim með flokk sinn á Finnbogastaði og sat um kyrrt og þótti enn hafa vaxið mjög af þessum málum öllum saman.

Finnbogi varð gamall maður og þykir verið hafa hinn mesti ágætismaður bæði á afl og vöxt og alla kurteisi. Kemur hann og við margar sögur og þykir verið hafa hinn frægasti og hinn ágætasti, hefir og mörg stórvirki og þrekverki unnið þó að hér sé fátt frá sagt. Er svo sagt að hann bjó þar til elli og varð sóttdauður og liggur að þeirri sömu kirkju er hann lét gera og svo Hallfríður kona hans. En synir þeirra urðu allir ágætir menn og sigldu milli landa og eru margar sögur frá hverjum þeirra. Voru þeir vel teknir með ríkum mönnum hvar sem þeir komu og þóttu vera af gildum ættum. Gunnbjörn Finnbogason kom aldrei síðan til Íslands. Gerðist hann ríkur maður í Noregi og er þar mikil ætt frá honum komin.

Finnbogi unni Bergi mest sona sinna. Var það af ást þeirri er hann hafði við Berg hinn rakka frænda sinn. Bjó hann eftir föður sinn á Finnbogastöðum og þótti hann þaðra í sveitum gildastur bóndi og formaður annarra manna. En bræður hans aðrir voru mjög í förum þar til er þeir staðfestu ráð sitt og þóttu allir mikilhæfir menn.

Og lýk eg þar Finnboga sögu.