1.
Dumbur hefir konungur heitið. Hann réð fyrir hafsbotnum þeim er ganga norður um Helluland og nú er kallað Dumbshaf og kennt var við Dumb konung. Hann var kominn af risakyni í föðurætt sína og er það vænna fólk og stærra en aðrir menn en móðir hans var komin af tröllaættum og brá því Dumbi í hvorutveggju ætt sína því hann var bæði sterkur og vænn og góður viðskiptis og kunni því að eiga allt sambland við mennska menn. En um það brá honum í sitt móðurkyn að hann var bæði sterkur og stórvirkur og umskiptasamur og illskiptinn ef honum eigi líkaði nokkuð. Vildi hann einn ráða við þá er norður þar voru enda gáfu þeir honum konungsnafn því að þeim þótti mikil forstoð í honum vera fyrir risum og tröllum og óvættum.
Var og hann hinn mesti bjargvættur öllum þeim er til hans kölluðu. Hann tók tólf vetra konungdóm. Hann nam í burtu af Kvenlandi Mjöll, dóttur Snæs hins gamla, og gekk að eiga hana. Hún var kvenna fríðust og nær allra kvenna stærst þeirra sem mennskar voru.

En sem þau höfðu einn vetur ásamt verið ól Mjöll sveinbarn. Sá sveinn var vatni ausinn og nafn gefið og Bárður kallaður því að svo hafði heitið faðir Dumbs, Bárður risi. Þessi sveinn var bæði mikill og vænn að sjá, að menn þóttust öngvan fegra karlmann séð hafa. Var hann furðu líkur móður sinni því að hún var svo fögur og hvít á skinnlit að sá snjór tók þar nafn af henni er hvítastur er og í logni fellur og mjöll er kallaður.

Litlu síðar gerðist ósamþykki í millum þursa og Dumbs konungs og vildi Dumbur konungur eigi hætta þar Bárði syni sínum í ófrið þeim og flutti hann suður í Noreg til fjalla þeirra er Dofrafjöll heita. Þar réð fyrir sá bergbúi er Dofri er nefndur. Hann tók vel við Dumbi. Þar var hin mesta vinátta með þeim. Leitaði Dumbur þar fósturs syni sínum en Dofri tók við honum. Var Bárður þá tíu vetra. Síðan vandi Dofri hann á alls kyns íþróttir og ættvísi og vígfimi og eigi var traust að hann næmi eigi galdra og forneskju svo að bæði var hann forspár og margvís því að Dofri var við þetta slunginn. Voru þetta allt saman kallaðar listir í þann tíma af þeim mönnum sem miklir voru og burðugir því að menn vissu þá engin dæmi að segja af sönnum guði norður hingað í hálfuna.

Dofri átti sér dóttur eina er Flaumgerður hét, allra kvenna stærst og djarfmannleg um að sjá en þó ekki dávæn. Þó var hún mennsk í móðurætt sína og var móðir hennar þá önduð. Voru þau þar þrjú saman í hellinum. Vel féll á með þeim Bárði og Flaumgerði og meinaði Dofri það eigi. En þá Bárður var þrettán vetra gifti Dofri honum dóttur sína Flaumgerði og voru þau þar með Dofra þar til Bárður var átján vetra.

Þá var það á einni nótt að Bárður lá í sæng sinni að hann dreymdi að honum þótti tré eitt mikið koma upp í eldstó fóstra síns Dofra. Það var harðla margkvíslótt upp til limanna. Það óx svo skjótt að það hrökk upp í hellisbjargið og því næst út í gegnum hellisgluggann. Þar næst var það svo mikið að brum þess þótti honum taka um allan Noreg og þó var á einum kvistinum fegursta blóm og voru þó allir blómamiklir. Á einum kvistinum var gullslitur. Þann draum réð Bárður svo að í hellinn til Dofra mundi koma nokkur konungborinn maður og fæðast þar upp og sá sami maður mundi verða einvaldskonungur yfir Noregi en kvistur sá hinn fagri mundi merkja þann konung er af þess ættmanni væri kominn er þar yxi upp og mundi sá konungur boða annan sið en þá gengi. Var honum draumur sá ekki mjög skapfelldur. Hafa menn það fyrir satt að það hið bjarta blóm merkti Ólaf konung Haraldsson.

Og eftir draum þenna fóru þau Bárður og Flaumgerður í burt frá Dofra en litlu síðar kom þar Haraldur Hálfdánarson og fæddist þar upp með Dofra jötni. Efldi Dofri hann síðan til konungs yfir Noregi eftir því sem segir í sögu Haralds konungs Dofrafóstra.


2.
Bárður fór norður á Hálogaland og hafðist þar við. Hann átti þrjár dætur við Flaumgerði konu sinni. Hin elsta hét Helga, önnur Þórdís, þriðja Guðrún. En sem Bárður hafði einn vetur verið á Hálogalandi þá andast Flaumgerður kona hans og þótti honum það hinn mesti skaði. Síðan bað Bárður Herþrúðar dóttur Hrólfs hersis hins auðga. Við henni átti hann sex dætur. Hét ein Ragnhildur, önnur Flaumgerður, Þóra, Þórhildur, Geirríður og Mjöll.

Nú er þar til að taka að vex að eins ófriður milli þursa og Dumbs konungs. Þótti þeim hann afar grimmur viðureignar. Bundust þeir þá saman og gerðu það statt með sér að ráða hann af. Hét sá Harðverkur er fyrir þeim var. Gekk þetta fram að þeir mættu honum einn dag á steinnökkva einum. Voru þeir átján saman. Sóttu þeir að honum og börðu hann með járnstöngum en hann varðist með árum og lauk með því að Dumbur konungur féll enda hafði hann þá drepið tólf af þeim en Harðverkur var eftir og þeir sex saman. Gerðist hann þá konungur yfir þeim norður þar.

Mjöll giftist aftur Rauðfeld hinum sterka syni Svaða jötuns norðan frá Dofrum. Þau áttu þann son er Þorkell hét. Hann var mikill og sterkur. Hann var svartur á hár og hörund. En þegar hann hafði aldur til varð hann hinn mesti ójafnaðarmaður.

Litlu síðar andaðist Mjöll móðir hans en Þorkell kvæntist og fékk Eygerðar Úlfsdóttur af Hálogalandi. Móðir Eygerðar var Þóra dóttir Mjallar Ánsdóttur bogsveigis. Fór Þorkell þá byggðum til Hálogalands og var í nágrenni við Bárð bróður sinn. Bjuggu þeir í firðinum Skjálfta norðarlega á Hálogalandi.

Nokkuru síðar fóru þeir bræður norður yfir Dumbshaf og brenndu inn Harðverk hinn sterka og þrjá tigu þursa með honum. Síðan treystist Bárður eigi þar að festast. Fóru þeir þá heim aftur í Skjálfta og bjuggu þar til þess er Haraldur konungur lúfa efldist til ríkis í Noregi. Og er hann var fullger í því starfi varð hann svo ríkur og ráðgjarn að sá skyldi engi maður vera í milli Raumelfar suður til Finnabús norður, sá er nokkurs var ráðandi, svo að eigi gyldi honum skatt, jafnvel þeir sem saltið brenndu svo sem hinir sem á mörkinni yrktu. En er Bárður frétti þetta þóttist hann vita að hann mundi eigi heldur undan ganga þessum hans álögum en aðrir. Vildi hann þá heldur forláta frændur og fósturjarðir en lifa undir slíku ánauðaroki sem hann frétti að allur almúginn var þá undir gefinn. Kom honum það þá helst í hug að leita annarra landa.


3.
Maður er nefndur Bárður Heyangurs-Bjarnarson, háleyskur að ætt. Þeir lögðu lag sitt nafnar og urðu á það sáttir að leita Íslands því þaðan voru sagðir landakostir góðir enda sagði Bárður Dumbsson sér hafa svo drauma gengið að hann muni á Íslandi sinn aldur ala. Stýrði sínu skipi hvor þeirra og vel þrjátíu menn með hvorum.

Á skipi með Bárði var Herþrúður kona hans og dætur hans allar. Þar var mestur virðingarmaður annar en Bárður Þorkell Rauðfeldsson, bróðir Bárðar Dumbssonar. Þar var og á skipinu mikill bóndi er Skjöldur hét, háleyskur að ætt, og kona hans er Gróa hét. Þau voru mjög ósamþykk að skapsmunum. Var og á skipi sá maður er Svalur hét og Þúfa kona hans. Þau voru trylld mjög bæði, óhæg og að öllu illa fallin. Þar voru á ambáttir tvær. Hét önnur Kneif en önnur Skinnbrók og sveinn einn ungur er Þorkell hét og var kallaður skinnvefja. Hann var manni firnari en systrungur við Bárð að frændsemi og hafðir verið fæddur upp fyrir norðan Dumbshaf. Þar var illt til vaðmála og var sveinninn vafinn í selaskinnum til skjóls og hafði það fyrir reifa og því var hann kallaður Þorkell skinnvefja. Hann var þá frumvaxta er hér var komið sögunni. Hann var hár maður og mjór og langt upp klofinn, handsíður og liðaljótur og hafði mjóva fingur og langa, Þunnleitur og langleitur, lágu hátt kinnarbeinin, tannber og tannljótur, úteygður og munnvíður, hálslangur og höfuðmikill, herðalítill og miðdigur, fæturnir langir og mjóvir. Frár var hann og fimur við hvaðvetna, örúðigur og erjusamur og hollur um hvaðvetna þeim er hann þjónaði. Þar var og skipmaður með Bárði sá er Þórir hét, mikilhæfur og rammur að afli. Hann var Knarrarson Jökulssonar Bjarnarsonar hins suðureyska. Með Bárði var og Ingjaldur Alfarinsson Valasonar, bróðir Hómkels, föður Ketilríðar er Víglundur orti flestar vísur um. Margir menn aðrir voru á skipi með Bárði þó hér séu eigi nefndir.

En þegar þeir nafnar voru burt búnir létu þeir í haf og höfður harða útivist og voru í sjó hálft hundrað dægra og komu sunnan að landinu og héldu vestarlega. Þeir sjá þá fjall eitt mikið og lukt allt ofan með jöklum. Það kölluðu þeir Snjófell en nesið kölluðu þeir Snjófellsnes. Þar fyrir nesinu skildi með þeim nöfnum. Hélt Bárður Heyangursson vestur fyrir landið og svo í norður og var hann enn úti í hálft hundrað dægur í annað sinn og kom loks í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Villikálfsborgará og Eyjardalsá og bjó á Lundarbrekku um hríð.

Þá þótti honum landviðri betri en hafviðri og meinti af því löndin betri fyrir sunnan heiðar og sendi syni sína suður um gói og fundu þeir þá góibeitla og annan gróður. Fór þá annar aftur en annar varð eftir. Þá gerði Bárður kjálka hverju kvikindi því er gengt var og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut. Hann fór Vonarskarð. Það heitir nú Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum og var kallaður þaðan af Gnúpa-Bárður.

Hann átti mörg börn. Hans son var Sigmundur, faðir Þorsteins er átti Æsu, dóttur Hrólfs rauðskeggs. Þeirra dóttir var Þórunn er átti Þorkell leifur og var þeirra son Þorgeir Ljósvetningagoði. Annar son þeirra Bárðar og Herþrúðar var Þorsteinn, faðir Þóris er var á Fitjum með Hákoni konungi og skar rauf á húð og hafði það fyrir hlíf. Því var hann leðurháls kallaður. Hann átti Fjörleifu Eyvindardóttur. Þeirra synir voru Hávarður á Fellsmúla og Hrólfur á Mývatni og Ketill í Húsavík, Vémundur kögur er átti Halldóru, dóttir Þorkels svarta, og Áskell og Háls. Hann bjó á Helgastöðum.


4.
Bárður Dumbsson lagði sínu skipi inn í lón það sunnan gengur í nesið og þeir kölluðu Djúpalón. Þar gekk Bárður á land og hans menn og er þeir komu í gjárskúta einn stóran þá blótuðu þeir til heilla sér. Það heitir nú Tröllakirkja.

Síðan settur þeir upp skip sitt í vík einni. Þar á lóninu höfðu þeir gengið á borð að álfreka og þann sama vallgang rak upp í þessari vík og því heitir það Dritvík.

Síðan fóru þeir að kanna lönd og er Bárður kom á víkurnes eitt þá bað Kneif ambátt að Bárður skyldi gefa henni nesið og svo gerði hann og er það nú kallað Kneifarnes.

Þá fann Bárður helli stóran og þar dvöldu þeir um hríð. Þar þótti þeim svara öllu því er þeir mæltu því að dvergmála kvað fast í hellinum. Hann kölluðu þeir Sönghelli og gerðu þar öll ráð sín og hélst það alla stund síðan meðan Bárður lifði.

Síðan fór Bárður þar til hann kom að tjörn einni. Þar fór hann úr klæðum sínum öllum og þvó sér í fjörunni og hana kalla menn nú Bárðarlaug. Þaðan skammt í frá gerði hann bæ stóran og nefndi hann að Laugarbrekku og bjó þar nokkura stund.

Sá maður kom út með Bárði bónda er Sigmundur hét. Hann var sonur Ketils þistils er nam Þistilsfjörð. Hildigunnur hét kona hans. Þau voru með Bárði að Laugarbrekku.

Þorkell rauðfeldur nam sér land er á Arnarstapa heitir en Skjöldur bjó í Tröð. En Gróa kona hans undi eigi hjá honum sakir skapsmuna sinna því að hún þóttist honum of góð og fór í hellisskúta einn og ruddi með bjarghöggum, að þar varð stór hellir, og bjóst þar um með föng sín svo hún hafði engan bústað annan meðan Skjöldur lifði og var hann kallaður Gróuhellir.

En eftir Skjöld dauðan bað Þorkell skinnvefja Gróu og með atgangi Bárðar frænda hans fékk hann hennar og bjuggu þau síðan að Dögurðará.

Þórir Knarrarson varðveitti bæ Bárðar að Öxnakeldu.

Skinnbrók ambátt Bárðar bjó að bæ þeim er Skinnbrók heitir.

Ingjaldur fór fram fyrir nesið og fann sér land að ráði Bárðar þar sem heitir að Ingjaldshvoli.

Svalur og Þúfa hurfu frá skipinu þegar hina fyrstu nátt og spurðist eigi til þeirra nokkura stund en reyndar voru þau í fjallinu og trylltust þar bæði. Og er á leið gerðust margar óspektir af þeim og treystust menn ekki að að gera sakir trölldóms þeirra.

Það var einn tíma að hvalur kom á reka Bárðar og hafði Svalur þá vanda sinn og fór til um nátt að skera hvalinn. Og sem hann hafði skorið hvalinn um stund kom Bárður þar. Tókst þar glíma sterkleg með þeim. Trylltist Svalur þá svo Bárði varð aflsfátt en þó kom svo um síðir að Bárður braut hrygg í Sval og kasaði hann þar í mölinni og heitir þar Svalsmöl. Aðra nótt eftir fann hann Þúfu á hvalnum og drap hana með sama móti. Þetta þótti hin mesta landhreinsan.


5.
Þorkell Rauðfeldsson átti tvo sonu við konu sinni. Hét annar Sölvi en annar Rauðfeldur eftir föður hans. Þeir uxu upp á Arnarstapa og voru efnilegir menn. Dætur Bárðar vaxa upp að Laugarbrekku, bæði miklar og ásjálegar. Helga var þeirra elst.

Þorkelssynir og Bárðardætur höfðu saman leika sína á vetrin á svellum við ár þar er þar eru og Barnaár heita. Þau höfðu löngum leikmikið og gengu með hinu bestu kappi. Vildu Þorkelssynir meir ráða því að þeir voru sterkari en Bárðardætur vildu ekki láta sinn hlut lakari verða um það þær máttu.

Það var einn dag að þau voru að leik sínum og gekk þeim þá enn með kappi, Rauðfeld og Helgu. Hafísar lágu við. Þennan dag var þoka mikil. Þau höfðu þá leikinn allt við sjóinn niðri. Rauðfeldur hratt þá Helgu út á sjó með jakanum en vindur stóð mikill af landi. Rak þá jakann út til hafíssins. Fór Helga þá upp á hafísinn. Hina sömu nótt rak ísinn undan landi og út í haf. Hún fylgdi þá ísinum en hann rak svo ört að innan sjö daga kom hún með ísinum til Grænlands.

Þá bjó í Brattahlíð Eiríkur rauði Þorvaldsson Ásvaldssonar Öxna-Þórissonar. Eiríkur átti Þjóðhildi, dóttur Jörundar Atlasonar og Þorbjargar knarrarbringu en stjúpdóttur Þorbjarnar hin haukdælska. Þeirra son var Leifur hinn heppni. Þá hafði Eiríkur einum vetri áður byggt Grænland. Helga þá hjá Eiríki veturvist.

Þá var sá maður á vist með Eiríki er Skeggi hét Skinna- Bjarnarson Skútaðar-Skeggjasonar. Hann var íslenskur og var kallaður Miðfjarðar-Skeggi því hann bjó að Reykjum í Miðfirði en var löngum í kaupferðum.

Helga var kvenna vænst. Hún þótti og með undarlegu móti þar hafa komið og fyrir það var hún tröll kölluð af sumum mönnum. Svo var hún og karlgild að afli til hvers sem hún tók. Hún sagði allt hið sanna af ferðum sínum. Vaknaði Eiríkur við ætt hennar því hann þekkti Bárð þó Eiríkur væri þá ungur er Bárður kom til Íslands.

Það var einn dag að Helga stóð úti og litaðist um og kvað vísu:

Sæl væri eg

ef sjá mættag

Búrfell og Bala,

báða Lóndranga,

Aðalþegnshóla

og Öndvertnes,

Heiðarkollu

og Hreggnasa,

Dritvík og möl

fyrir dyrum fóstra.

Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi.

Skeggi tók Helgu að sér og hafði við hana fylgjulag. Um veturinn komu tröll og óvættir ofan í Eiríksfjörð og gerðu mönnumn hið mesta mein, lömdu skip en beinbrutu menn. Þau voru þrjú saman, karl og kerling og son þeirra. Skeggi bjóst til að ráða þau af og það fór fram með því að Helga hjálpaði honum til og gaf honum nálega líf.

Um sumarið eftir fór Skeggi til Noregs og Helga með honum og var hann þar vetur annan. Að sumri eftir fór hann til Íslands og heim til Reykja til bús síns. Helga fór og heim með honum. Ekki hafa þau barna átt svo að getið sé.

Nú er þar til að taka að þær systur, dætur Bárðar, komu heim til Laugarbrekku og segja föður sínum hversu farið hafði með þeim Rauðfeld og Helgu dóttur hans. Bárður varð við það mjög reiður og spratt þegar upp og gekk í burtu og til Arnarstapa. Hann var þá mjög dökkur yfirlits. Eigi var Þorkell heima. Hann var genginn til sjóvar.

Piltarnir, Rauðfeldur og Sölvi, voru úti. Þá var annar þeirra ellefu vetra en annar tólf. Bárður tók þá báða undir sína hönd hvorn og gekk með þá til fjalls. Ekki gerði þeim um að brjótast því að svo var Bárður sterkur að hann mátti svo halda þó að væru fullrosknir menn.

En er hann kom í fjallið upp kastaði hann Rauðfeld í gjá eina stóra og svo djúpa að Rauðfeldur var þegar dauður er hann kom niður. Þar heitir nú Rauðfeldsgjá. Hann gekk með Sölva nokkuru lengra þar til er hann kom á einn hamar hávan. Þar kastaði hann Sölva ofan fyrir. En er hann kom niður brotnaði hausinn og dó hann svo. Þar heitir síðan Sölvahamar. Eftir það gekk hann aftur til Arnarstapa og segir dauða þeirra bræðra og gekk síðan heim á leið.

Þá kom Þorkell heim og spurði hversu að hafði borist um líflát sona sinna. Hann snýr þá í veginn eftir bróður sínum og er þeir fundust varð ekki af kveðjum utan þeir ráðast þegar á og gekk flest upp fyrir þeim. Það varð um síðir að Þorkell féll því að Bárður var þeirra sterkari. Þorkell lá eftir fallið stund þá en Bárður gekk heim. Brotnað hafði lærleggur Þorkels í glímu þeirra bræðra. Þá stóð hann upp og hnekkti heim. Síðan var bundið um fót hans og greri hann mjög að heilu. Hann var síðan kallaður Þorkell bundinfóti.

Þegar er hann var gróinn fór hann burt af Snjófellsnesi með allt sitt og austur til Hængs Þorkelssonar. Hans móðir var Hrafnhildur, dóttir Ketils hængs úr Hrafnistu. Hann hafði numið alla Rangárvöllu og bjó að Neðra-Hofi.

Með ráði Hængs nam Þorkell land umhverfis Þríhyrning og bjó þar undir fjallinu sunnan. Er hann þar talinn með landnámsmönnum. Hann var hamrammur mjög. Þá átti hann þessi börn við konu sinni: Börk blátannarskegg, föður Starkaðar undir Þríhyrningi, og Þórný, er átti Ormur Stórólfsson, og Dagrún móðir Bersa.


6.
Svo brá Bárði við allt saman, viðureign þeirra bræðra og hvarf dóttur sinnar, að hann gerðist bæði þögull og illur viðskiptis svo að menn höfðu engar nytjar hans síðan.

Þess er getið að Bárður kom einn dag að máli við Sigmund félaga sinn og mælti svo: "Eg sé það," segir hann, "að sakir ættar minnar og harma stórra ber eg eigi náttúru við alþýðu manna og því mun eg leita mér nokkurra annarra ráða en fyrir langa og dyggilega þjónustu við mig vil eg gefa þér jörðina hér að Laugarbrekku með því búi er því fylgir."

Sigmundur þakkar honum gjöfina. Þóri Knarrarsyni gaf hann landið að Öxnakeldu en Þorkatli skinnvefju gaf hann Dögurðará og þar var hin mesta vinátta með þeim með frændsemi og hélst langa ævi.

Eftir þetta hvarf Bárður í burtu með allt búferli sitt og þykir mönnum sem hann muni í jöklana horfið hafa og byggt þar stóran helli því að það var meir ætt hans að vera í stórum hellum en húsum því að hann fæddist upp með Dofra í Dofrafjöllum. Var hann tröllum og líkari að afli og vexti en mennskum mönnum og var því lengt nafn hans og kallaður Bárður Snjófellsás því að þeir trúðu á hann nálega þar um nesið og höfðu hann fyrir heitguð sinn. Varð hann og mörgum hin mesta bjargvættur.

Sigmundur og Hildigunnur bjuggu síðan að Laugarbrekku, er Bárður hvarf, allt til dauðadags og er Sigmundur þar heygður. Hann átti þrjá sonu. Einn var Einar er bjó að Laugarbrekku. Hann átti Unni, dóttur Þóris, bróður Ásláks í Langadal. Hallveig var dóttir þeirra. Hana átti Þorbjörn Vífilsson. Breiður hét annar. Hann átti Gunnhildi, dóttur Ásláks í Langadal. Þeirra son var Þormóður er átti Helgu Önundardóttur, systur Skáld-Hrafns. Þeirra dóttir var Herþrúður er Símon átti. Þeirra dóttir var Gunnhildur er Þorgils átti. Þeirra dóttir var Valgerður, móðir Finnboga hins fróða í Geirshlíð. Þorkell hét hinn þriðji. Hann átti Jóreiði, dóttur Tinds Hallkelssonar.

Eftir andlát Sigmundar bjuggu þau Hildigunnur þar og Einar son hennar. Það var talað að Hildigunnur væri fjölkunnig og fyrir það var henni stefnt af þeim manni er Einar hét og var kallaður Lón-Einar og fór til Laugarbrekku með sjöunda mann og stefndi Hildigunni um fjölkynngi en Einar son hennar var þá eigi heima. Hann kom þá heim er Lón- Einar var nýfarinn á brott. Hún segir honum þessi tíðindi og færði honum kyrtil nýgervan.

Einar tók skjöld sinn og sverð og verkhest og reið eftir þeim. Hann sprengdi hestinn á björgum þeim er Bárður Snæfellsás deyddi Þúfu konu Svals og Þúfubjörg eru kölluð. Einar gat farið þá hjá brekkum stórum og þar börðust þeir og féllu sjö menn af Lón-Einari en þrælar hans tveir runnu frá honum. Þeir nafnar sóttust lengi.

Það segja menn að Einar Sigmundarson hafi kallað á Bárð til sigurs sér. Þá gekk í sundur bróklindi Lón-Einars og er hann tók þar til hjó Einar hann banahögg.

Þræll Einars Sigmundarsonar er Hreiðar hét hljóp eftir þeim og sá af Þúfubjörgum hvar þrælar Lón-Einars hlupu. Hann rann eftir þeim og drap þá báða í vík einni. Það heitir nú í Þrælavík. Fyrir það gaf Einar honum frelsi og land svo vítt sem hann fengi unnið og gert um þrjá daga. Það heitir Hreiðarsgerði og bjó hann þar síðan.

Einar bjó að Laugarbrekku allt til elli og er heygður skammt frá Sigmundarhaugi, föður hans. Haugur Einars er ávallt vallgróinn vetur og sumar.


7.
Það er nú þessu næst sem fyrr var frá sagt að Helga Bárðardóttir var hjá Miðfjarðar-Skeggja og er Bárður spurði það sótti hann hana um haustið og hafði heim með sér því að Skeggi var þá kvæntur. Engu undi hún sér síðan er hún skildi við Skeggja. Mornaði hún og þornaði æ síðan.

Það var einn dag að hún kvað vísu þessa:

Braut vil eg bráðla leita.

Brestr eigi stríð í flestu

mér fyrir menja rýri.

Mun eg dálega kálast

því auðspenni unnag

alteitum sefa heitum.

Sorg má eg síst því byrgja.

Sit eg ein, trega greinum.

Eigi undi Helga hjá föður sínum og hvarf þaðan í burt og þýddist hvorki nálega menn né fénað eða herbergi. Var hún þá oftast í hreysum eða hólum. Við hana er kenndur Helguhellir í Drangahrauni og miklu víðara eru örnefni við hana kennd um Ísland.

Hún þá veturvist að Hjalla í Ölfusi en ekki Guðrún Gjúkadóttir þó það segi nokkrir menn, hjá þeim feðgum Þóroddi og Skafta. Var Helga þar með dul og lá í ystu sæng í skála um veturinn og hafði fortjald fyrir. Hún sló hörpu nær allar nætur því að henni var þá enn sem oftar ekki mjög svefnsamt.

Austmaður var með þeim feðgum er Hrafn hét. Oft töluðu menn um það að eigi þóttust vita hver þessi kona var. Hrafn leiddi þar einhver mestan grun á og eina nátt forvitnaðist hann undir tjaldið. Sá hann að Helga sat upp í einum serk. Honum sýndist konan fríð mjög. Vildi hann upp í sængina og undir klæðin hjá henni en hún vildi það eigi. Tókust þau þá til og skildu með því að sundur gekk í Hrafni austmanni hinn hægri handleggur og hinn vinstri fótleggur.

Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. Var hún og alls staðar með dul en oftast fjarri mönnum. Var hún og nokkurum stundum hjá föður sínum.


8.
Hetta er nefnd tröllkona. Hún átti byggð í Ennisfjalli og var hin mesta hamhleypa og ill viðskiptis bæði við menn og fénað.

Það var einn tíma að hún drap mart fé fyrir Ingjaldi að Hvoli. En er hann varð þess vís fór hann til móts við hana. Leitaði hún þá undan en hann elti hana allt í fjall upp.

Miklir voru í þann tíma fiskiróðrar á Snjófellsnesi og lét þó engi betur sækja en Ingjaldur. Var hann og hinn mesti sægarpur sjálfur.

En er Hetta dró undan mælti hún: "Nú mun eg launa þér fjártjón það er eg veld og vísa þér á mið, það er aldrei mun fiskur bresta ef til er sótt. Þarftu og ekki að bregða vanda þínum að vera einn á skipi sem þú ert vanur að vera."

Hún kvað þá vísu.

Róa skaltu fjall Firða

fram á lög stirðan,

þar mun gaur glitta,

ef þú vilt Grímsmið hitta.

Þar skaltu þá liggja.

Þór er vís til Friggjar.

Rói norpr hinn nefskammi

Nesið í Hrakhvammi.

Skildi þar með þeim. Þetta var um hausttíma.

Annan dag eftir reri Ingjaldur á sjó og var einn á skipi og rær allt þar til er frammi var fjallið og svo Nesið. Heldur þótti honum lengra en hann hugði. Veður var gott um morguninn. En er hann kom á miðið var undir fiskur nógur.

LItlu síðar dró upp flóka á Ennisfjalli og gekk skjótt yfir. Þar næst kom vindur og fjúk með frosti. Þá sá Ingjaldur mann á báti og dró fiska handstinnan. Hann var rauðskeggjaður. Ingjaldur spurði hann að nafni. Hann kveðst Grímur heita. Ingjaldur spurði hvort hann vildi ekki að landi halda.

Grímur kveðst eigi búinn "og máttu bíða þar til er eg hefi hlaðið bátinn."

Veður gekk upp að eins og gerði svo sterkt og myrkt að eigi sá stafna í milli. Tapað hafði Ingjadur önglum sínum öllum og veiðarfærum. Voru og árar mjög lúnar. Þóttist hann þá vita að hann mundi ekki að landi ná sakir fjölkynngis Hettu og þetta mundu allt hennar ráð verið hafa. Kallaði hann þá til fulltings sér á Bárð Snæfellsás. Tók Ingjald þá fast að kala því að drjúgum fyllti skipið en frýs hvern ádrykk þann er kominn var. Ingjaldur var vanur að hafa yfir sér einn skinnfeld stóran og var hann þar í skipinu hjá honum. Tók hann þá feldinn og lét yfir sig til skjóls. Þótti honum sér þá vísari dauði en líf.

Það bar til um daginn heima að Ingjaldhvoli um miðdegi að komið var upp á skjá um máltíð í stofu og kveðið þetta með dimmri raust:

Út reri einn á báti

Ingjaldr í skinnfeldi.

Týndi átján önglum

Ingjaldr í skinnfeldi

og fertugu færi

Ingjaldr í skinnfeldi.

Aftr komi aldrei síðan

Ingjaldr í skinnfeldi.

Mönnum brá mjög við þetta en það hafa menn fyrir satt að Hetta tröllkona muni þetta kveðið hafa því að hún ætlaði, sem hún vildi að væri, að Ingjaldur skyldi aldrei aftur hafa komið sem hún hafði ráð til sett.

En er Ingjaldur var nálega að bana kominn sá hann hvar maður reri einn á báti. Hann var í grám kufli og hafði svarðreip um sig. Ingjaldur þóttist þar kenna Bárð vin sinn.

Hann reri snarlega að skipi Ingjads og mælti: "Lítt ertu staddur kumpán minn og voru það mikil undur að þú, jafnvitur maður, lést slíka óvætt ginna þig sem Hetta er og far nú á skip með mér ef þú vilt og prófa að þú fáir stýrt en eg mun róa."

Ingjaldur gerði svo. Hvarf Grímur þá á bátinum er Bárður kom. Þykir mönnum sem það muni Þór verið hafa. Bárður tók þá að róa allsterklega og allt þar til er hann dró undir land. Flutti Bárður Ingjald heim og var hann mjög þjakaður og varð hann alheill en Bárður fór heim til síns heimilis.


9.
Óvættur ein er Torfár-Kolla hét en Skinnhúfa öðru nafni, hún átti heima að Hnausum. Hún gerði mart illt bæði í stuldum og manndrápum.

Þórir að Öxnakeldu fann hana á fé sínu um nátt. Þau réðust þegar á og glímdu. Fann Þórir brátt að hún var hið mesta tröll. Var þeirra atgangur bæði harður og langur en þó lauk með því að braut í henni hrygginn og gekk svo af henni dauðri. En er hann stóð upp þá kvað hann vísu:

Tröll er Torfár-Kolla,

trautt er hún laus, frá Hnausum.

Hún gekk leið sem eg ljóða

lotin um eystri Botna.

Hugði eg heimsku flagði

hryggspenning dag þenna.

Missti tröll hið trausta

tír en eg beygði svíra.

Töluðu það margir menn að Bárður mundi enn í þessu hafa hjálpað Þóri því að allir vinir hans kölluðu á hann ef í nokkurum nauðum voru staddir.

Oft sveimaði Bárður um landið og kom víða fram. Var hann svo oftast búinn að hann var í grám kufli og svarðreip um sig, klafakerlingu í hendi og í fjaðurbrodd langan og digran. Neytti hann og hans jafnan er hann gekk um jökla.

Þess er getið að þeir bræður hafi fundist og sæst heilum sáttum, Bárður og Þorkell. Áttu þeir síðan mörg skipti saman og höfðu löngum samvistir saman í Brynjudal í helli þeim er Bárðarhellir er kallaður síðan og haft hafa þeir leika hjá Eiríki í Skjaldbreið á Eiríksstöðum. Þangað sótti og norðan af Siglunesi Lágálfur Lítillardrósarson. Þeir höfðu glímur og voru þeir jafnir Lágálfur og Eiríkur en Eiríkur hafði áður borið af Þorkatli bundinfóta. En síðan glímdu þeir Bárður og Eiríkur og brotnaði hönd hans.

Lágálfur gekk heiman til leiks og heim að kveldi. Hann glímdi um leið við sauðamann Hallbjarnar af Silfrastöðum er Skeljungur hét. Hann var hamrammur. Skeljungur féll og brotnaði fótur hans. Bar Lágálfur hann til bæjar og fór síðan veg sinn og er hann gekk fram eftir Blönduhlíð kom hann á Frostustaði og sunnan undir húsin og að vindglugginum og sá inn í húsið. En bóndi talaði við húsfreyju að hún hefði tekið úr mjölbelg þeim er hékk yfir þeim og sló hana pústur en hún grét við. Lágálfur rétti inn öxina í glugginn og hjó ofan belginn. Kom hann í höfuð bónda og féll hann í óvit. Lágálfur snéri á leið og fer heim á Siglunes um kveldið og er úr þessari sögu. Bóndi raknar við og ætlar belginn sjálfan ofan hafa dottið.

Segja það og nokkurir menn að verið hafi að leikum í Skjaldbreið Ormur Stórólfsson og glímdi við Bergþór Bláfelling og hafi Ormur af borið. Þar var og Ormur skógarnefur ungur. Hann glímdi við Þóri úr Þórisdal. Sá dalur er í Geitlandsjökli. Var Þórir þeirra drjúgari. Þar var og Þórálfur Skólmsson er glímdi við Hallmund úr Balljökli. Var nær um með þeim en Bárður þótti þeim sem sterkastur mundi vera. Skildi svo þessa leika að ekki varð fleira til tíðinda.


10.
Önundur hét maður og kallaður breiðskeggur. Hann var Úlfarsson Úlfssonar af Fitjum Þórissonar hlammanda. Hann bjó í Reykjardal hinum efra á þeim bæ er á Breiðabólstað heitir. Hann átti Geirlaugu, dóttur Þormóðar af Akranesi, systur Bessa. Þórodda hét dóttir þeirra. Hennar fékk Torfi Valdbrandsson Valþjófssonar Örlygssonar frá Esjubergi. Henni fylgdi heiman hálfur Breiðabólstaður og voru gervir úr tveir bæir. Sjá Torfi drap Kroppsmenn tólf saman og hann réð mest fyrir drápi Hólmsmanna og var þar fyrirmaður Víga-Hörður systurson Torfa og Geir er hólmurinn er við kenndur, Geirshólmur. Torfi var og á Hellisfitjum og Illugi svarti, Sturla goði. Þá voru átján Hellismenn drepnir en Auðun Smiðkelsson brenndu þeir inni á Þorvarðsstöðum. Son Torfa var Þorkell á Skáney.

Oddur hét son Önundar, mikill maður og efnilegur. Eigi þótti annar maður efnilegri til höfðingja þar í sveitum en Oddur.

Þé er hann var tólf vetra gerði hann ferð sína út á Snjófellsnes til skreiðarkaupa og er hann fór heim reið hann um Drangahraun. Þá bar menn hans alla undan fram því Oddur gerði að hesti og varð honum ekki fljótt um. Þá gerði á þoku dimma.

Og er hann rak fyrir sér hestinn um göturnar sá hann hvar maður gekk úr hrauninu ofan að sér. Sá var í grám kufli og hafði klafastaf í hendi. Hann veik að Oddi og heilsaði honum með nafni. Oddur tók vel kveðju hans og spyr hann að nafni.

Hann segist Bárður heita og eiga heima þar á nesinu "á eg við þig erindi. Það fyrst að eg vil vingast við þig og bjóða þér til jólaveislu. Þykir mér og betur að þú játir ferðinni."

Oddur svarar: "Það skal þá og vera síðan þú leggur það til."

"Þá gerir þú vel," segir Bárður, "en þó vil eg þú segir öngum frá þessu."

Oddur játar því "en vita vil eg hvert eg skal þessarar veislu vitja."

"Þú skalt," segir Bárður, "fara til Dögurðarár og lát Þorkel skinnvefju vísa þér réttan veg til heimilis míns."

Síðan skildu þeir og fer Oddur heim og gat ekki um þetta.

En um veturinn sjö náttum fyrir jól reið Oddur heiman einn samt og út á Nes og létti eigi fyrr en hann kom til Dögurðarár. Það var síð um kveld. Þá voru tvær nætur til jóla. Var lúinn hestur hans mjög því hann hafði átt færðir illar og veðrátti harða.

Oddur klappar á dyrum og var langt áður til hurðar var gengið. Þó var það um síðir og hurðu upp lokið á miðjan klofa. Þar kom út höfuð heldur ámátlegt þvi að sjá gægðist út hjá gáttinni. Hann belgdi augun og vildi sjá hvað komið væri úti. Mjög var sjá þunnleitur og ljótur ásýndar. En er hann sá manninn vildi hann aftur reka hurðina en Oddur setti á milli öxarskaftið svo að eigi gekk aftur hurðin. Því næst féll Oddur á hurðina sco fast að hú brotnaði í mola.

Gekk hann þá inní bæinn og þar eftir sem undan var gengið og allt þar til er hann kom í stofu. Þar var bjart og heitt. Þorkell sat á palli. Var hann þá allkátur og bauð Oddi gisting. Var hann þar um nóttina í góðum beina.

En um morguninn var Oddur snemma á fótum og bjuggust þeir til ferðar. Var þá veður kalt og frost mikið, kollheið upp í himininn og eskingur með fjöllum. Þorkell var á göngu en Oddur reið. Stefndu þeir til fjalls og gekk Þorkell fyrir. En er þeir komu í fjallið gerði á myrkur mikið með drífu og því næst tók að fjúka og gerði á hina sterkustu hríð. Fóru þeir svo lengi þar til Oddur tók að ganga en Þorkell leiddi hestinn.

En er minnst var von hvarf Þorkell frá honum í hríðinni svo að hann vissi aldrei hvað af honum varð. Bæði var þá hvasst og kalt, bratt og hált að ganga. Hvarflaði hann þá lengi svo hann vissi aldrei hvar hann fór.

Og nokkuru síðar verður Oddur var við að maður gengur í dimmunni í grám kufli við stóran klafastaf. Lætur hann gnauða broddinn í jöklinum. En er þeir finnast kennir Oddur þar Bárð Snæfellsás. Heilsar hvor öðrum og spyrjast almæltra tíðinda. Biður Bárður hann með sér fara. Ganga þér ekki lengi áður þeir koma í helli stóran og því næst í annan helli og var þar bjart í honum. Þar sátu konur heldur stórar og þó hreinlegar. Voru þá dregin af Oddi klæðin og veittur hinn besti beini. Var hann þar um jólin að öllu vel haldinn. Ekki var þar fleira en heimamenn Bárðar. Á Þórdísi leist Oddi best af dætrum Bárðar og við hana talaði hann flest. Skjótt fann Bárður það og gaf sér ekki að því.

Bárður bauð Oddi þar að vera um veturinn og það þá hann. Síðan lagði Bárður ástfóstur við Odd og kenndi honum lögspeki um veturinn. Var hann síðan kallaður lögvitrari maður en aðrir menn.

En Bárður fann að hugir þeirra Þórdísar og Odds fóru saman. Spurði hann Odd hvort hann vildi eiga Þórdísi.

Oddur segir: "Ekki er því að leyna að eg hefi meira hug lagt á hana en á nokkura konu aðra. Er það og mála sannast ef þú vilt mér hana gifta að eg skal ekki undan ganga."

Var það og gert að Bárður gifti dóttur sína Oddi og gaf henni fáséna gripi heiman. Skyldi Bárður sækja brullaupið til Odds og færa þangað brúðina. Síðan skildu þeir með vináttu.

Fór Oddur heim og bjóst við boðinu og að nefndum tíma kom Bárður í Tungu með brúðina og þau tólf saman. Þar var Þorkell bundinfóti með bróður sínum og Ormur hinn sterki, mágur hans. Þorkell skinnvefja var og þar með Bárði og tók Oddur allvel við þeim. Þar var og Ingjaldur frá Hvoli og Þórir Knarrarson vinur Bárðar, Einar Sigmundarson frá Laugarbrekku og sjö menn aðrir og þekktu menn þá ekki. Þar voru margir boðsmenn fyrir: Torfi Valbrandsson mágur Odds, Illugi svarti og Geir hinn auðgi úr Geirshlíð, Arngrímur goði úr Norðtungu. Þar var og Galti Kjölvararson frændi Odds og mart annarra manna.

Ekki varð til tíðinda að boðinu. Síðan fór hver heim til sinna heimkynna. Góðar urðu ástir þeirra Odds og Þórdísar. Þrjá vetur voru þau ásamt. Þá andaðist Þórdís og áttu þau ekki barn. Það þótti Oddi mikill skaði.

Síðan fékk Oddur Jórunnar Helgadóttur. Þeirra son var Þorvaldur er réð fyrir brennu Blund-Ketils og Þóroddur er átti Jófríði Gunnarsdóttur. Dætur þeirra Tungu-Odds voru þær Þuríður, er Svarthöfði átti, og Húngerður, er Svertingur Hafur-Bjarnarson átti, og Hallgerður er Hallbjörn átti son Odds frá Kiðjabergi. Kjölvör var móðursystir Odds, móðir Þorleifar, móður Þuríðar, móður þeirra Gunnhildar, er Kolli átti, og Glúms, föður Þórarins, föður Glúms að Vatnsleysu.


11.
Nú er þar til að taka að Miðfjarðar-Skeggi bjó að Reykjum í Miðfirði. Hann hafði fengið þeirrar konu er Hallbera hét og var Grímsdóttir. Þeirra son var Eiður er síðan áttu Hafþóru, dóttur Þorbergs kornamúla og Ólafar elliðaskjaldar, systur Þorgeirs Gollnis. Annan son áttu þau er Kollur hét, faðir Halldórs, föður þeirra Þórdísar og Þórkötlu er Skáld-Helgi þráði.

Skeggi átti þrjár dætur. Ein hét Hróðný er átti Þórður gellir. Önnur hét Þorbjörg er átti Ásbjörn hinn auðgi Harðarson. Þeirra dóttir var Ingibjörg er átti Illugi svarti. Þeirra synir voru þeir Gunnlaugur ormstunga og Hermundur og Ketill. Hin þriðja dóttir Skeggja hét Þórdís. Hún óx upp á Reykjum. Hún var kvenna fríðust og ger að sér um flest.

Þórður gellir bjó í Hvammi í Hvammssveit, höfðingi mikill.

Þorbjörn öxnamegin bjó á Þóroddsstöðum í Hrútafirði. Hann var son Arnórs hýnefs Þóroddssonar er þar nam land. Þorbjörn var hinn mesti garpur. Hann drap Atla Ásmundarson en Grettir hefndi bróður síns og vó Þorbjörn. Bróðir Þorbjarnar var Þóroddur drápustúfur.

Grenjuður, son Hermundar hokins, bjó að Melum í Hrútafirði. Hann átti dóttur er Þorgerður hét. Þau Grenjuður og Þorbjörg áttu einn son er Þorbjörn hét, manna gervilegastur.

Það var um haustið á Reykjum í Miðfirði að barið var á dyrum síð um kveldið þá Eiður var sextán vetra. Hann gekk til dyra. Maður stóð fyrir dyrum mikill vexti og var í grám kufli og studdist fram á klafastaf er hann hafði í hendi. Sjá maður heilsar bóndasyni með nafni en Eiður spyr hver hann var. Hann kveðst Gestur heita. Hann spurði hvort Eiður væri nokkurs ráðandi. Eiður segist ráða því hann vill.

"Viltu þá," segir Gestur, "veita mér veturvist í vetur?"

"Ekki er eg ráðinn í því," segir Eiður.

"Litla gerið þér yður, uppvaxandi menn," segir Gestur, "að þér takist eigi á hendur að gefa einum manni mat nokkurar nætur enda skal eg fara í burt og bera hróður þinn hvar sem eg kem."

Eiður mælti: "Hví skaltu eigi vera hér í vetur heldur en fara í burt á náttarþeli?"

Gekk Gestur þá inn með bóndasyni. Spurði bóndi hvaðan þessi maður væri en Eiður segir allt frá viðtali þeirra Gests. Skeggja fannst lítið um en lét Eið þó ráða.

Þar var Gestur um veturinn er reyndar var Bárður Snæfellsás.

Bárður kenndi Eið lögspeki og mannfræði. Varð Eiður allra manna lögvitrastur svo að hann var af því Laga-Eiður kallaður.

Þá var Þórdís dóttir Skeggja fimmtán vetra. Töluðu það sumir menn að Gestur mundi fífla hana um veturinn. Að sumri fór Gestur í brottu og þakkaði Eið vistina. En er leið sumarið digraðist Þórdís í gerðunum en um haustið varð hún léttari í seli. Það var sveinbarn frítt og mikið. Hún jós sveininn vatni og kvað hann skyldu heita í höfuð föður sínum og var hann kallaður Gestur.

Annan dag eftir kom kona í selið og bauð að taka við sveininum og fóstra. Þórdís lét það eftir henni. Litlu síðar hvarf hún brott og sveinninn. Var þetta reyndar Helga Bárðardóttir. Fæddist Gestur upp með henni nokkura stund.

Litla rækt lagði Skeggi á Þórdísi síðan þetta var.

Fám vetrum síðar bað Þorbjörn Grenjaðarson Þórdísar Skeggjadóttur og var hún honum gift. Setti Þorbjörn þá bú saman í Tungu fram frá Melum. Voru þau ekki lengi ásamt áður þau gátu tvo sonu. Hét hinn eldri Þórður en hinn yngri Þorvaldur. Þeir voru báðir efnilegir menn og bar Þórður þó langt af. Þorbjörn gerðist auðigur maður að ganganda fé svo hann hafði í geymslu fimm hundruð sauða.


12.
Sá maður bjó að Lækjamóti í Víðidal er Þorgils hét, ýmist kallaður Þorgils gjallandi eða spaki. Hans son var Þórarinn spaki, fóstri Víga-Barða.

Þá bjó Auðunn skökull á Auðunarstöðum og var þá gamall og hafði verið hinn mesti maður og mikill garpur.

Þorbjörn bóndi í Tungu hafði mörg úrræði til peninga. Hann hafði selför fram í Hrútafjarðardali og lét þar vinna öndverð sumur. Þórdís húsfreyja var jafnan í seli. Þá var Þórður sex vetra en Þorvaldur fimm.

Eitt kveld var Þórdís við læk og þvó hár sitt. Þá koma Helga Bárðadóttir þar með Gest og var hann þá tólf vetra.

Hún mælti: "Þar er sonur þinn Þórdís og væri eigi víst að hann hefði meira vaxið þó hann hefði hjá þér verið."

Þá spurði Þórdís hvað konu hún væri.

Hún segist Helga heita og vera dóttir Bárðar Snæfellsáss "en víða höfum við Gestur verðið því að heimili mitt er eigi á einum stað. Vil eg það og segja þér að við Gestur erum systkin og er Bárður faðir okkar beggja."

Þórdís segir: "Það er ólíklegt."

Ekki dvaldist hún þar og fór þegar á burt en Gestur var eftir hjá móður sinni og var hann bæði mikill of fríður því að hann var svo stór þegar sem þeir menn er á tvítugsaldri voru.

Gestur var í Tungu hinn næsta vetur og þá sótti Bárður faðir hans hann og flutti hann heim með sér í Snæfellsjökul. Fært hafði Bárður Þórdísi vænan kvenmannsbúning. Gestur óx upp með föður sínum og kenndi hann honum allar þær listir sem hann kunni. Gerðist Gestur svo sterkur að engi var líki hans þeirra er þá voru uppi.


13.
Í þann tíma var Hít tröllkona uppi og byggði Hundahelli í þeim dal er síðan var kallaður Hítardalur.

Hít setti þá jólaveislu sterka. Hún bauð þar fyrstum Bárði Snæfellsás og fór Gestur með honum son hans og Þorkell skinnvefja. Þangað var og boðið Guðrúnu knappekkju og Kálfi syni hennar. Þangað var og boðið Surt af Hellisfitjum og Jóru úr Jórukleif. Sá þurs var þangað boðinn er Kolbjörn hét. Hann byggði þann helli er stendur í Breiðdalsbotnum en það er í framanverðum Hrútafjarðardal þar sem grynnir dalinn vestur undir Sléttafelli. Kolbirni fylgdu þeir Gapi og Gljúfra-Geir, er heima áttu á Háva-Gnúpi í Gnúpsdal, Glámur og Ámur úr Miðfjarðarnesbjörgum. Þar var og Guðlaugur úr Guðlaugshöfða.

Svo var sætum skipað í Hundahelli að innar um þvert á miðjan bekk sat Guðrún knappekkja. Á aðra hönd henni sat Jóra úr Jórukleif Egilsdóttir en á aðra hönd henni sat Helga Bárðadóttir en eigi voru þá fleiri. En Hít gekk um beina. Í öndugi sat Bárður Sæfellsás en utar frá Guðlaugur úr Guðlaugshöfða en innar frá Gestur Bárðarson, þá Kálfur og Þorkell skinnvefja. Gegnt Bárði sat Surtur af Fitjum en innar frá honum sat Kolbjörn úr Breiðadal, þá Glámur og Ámur en utar í frá Geir og Gapi.

Voru þá borð upp tekin og matur á borinn heldur stórkostlegur.

Drykkja var þar mjög óstjórnleg svo allir urðu þar ginntir.

En er máltíð var úti spurðu þursar og Hít hvað Bárður vildi til gamans hafa, kváðu hann þar skyldu híbýlum ráða. Bárður bað þá fara til skinnleiks.

Stóðu þeir þá upp Bárður og Surtur, Kolbjörn, Guðlaugur og Gljúfra - Geir og höfðu hornaskinnleik. Var þá ekki svo lítið um þá. Þó var það auðséð að Bárður var sterkastur þó hann væri gamall. Bjarnfeld einn stóran höfðu þeir fyrir skinn og vöfðu hann saman og köstuðu honum á milli sín fjórir en einn var úti og skyldi sá ná. Ekki var gott að vera fyrir hrundningum þeirra. Flestir stóðu upp í bekkjum nema Gestur. Hann sat kyrr í rúmi sínu.

En þá Kolbjörn var úti ætlaði hann að ná skinni fyrir Bárði og hljóp að heldur snarlega. En er Gestur sá það skaut hann fætinum fyrir Kolbjörn svo þursinn hraut þegar út á bergið svo hart að brotnaði í honum nefið. Féll þá blóð um hann allan. Varð þá upphlaup og hruðningar heldur sterklegar. Vildi Kolbjörn hefna sín á Gesti.

Bárður segir að það skal öngum duga að gera nokkuð ómak í herbergjum Hítar vinkonu sinnar "þar sem hún hefir boðið oss með kærleikum."

Varð nú svo að vera sem Bárður vildi en þó undi Kolbjörn illa við er hann gat eigi hefnt sín. Fór nú hver til sín heimkynnis. Sýndist það enn sem oftar að allir þursar voru við Bárð hræddir. Að skilnaði er Gestur fór í burtu gaf Hít honum hund er Snati hét. Hann var grár að lit. Hin mesta fylgd var í rakkanum sakir afls og speki. Hún segir að hann væri betri til vígs en fjórir karlar. Síðan fór Bárður heim og höfðust þeir Gestur þá heima við um tíma.


14.
Gustur hét sauðamaður Þorbjarnar bónda í Tungu. Hann geymdi fjár vetur og sumar. Hann sýndi bónda hina mestu dyggð í öllum hlutum. Gustur var frækinn og fóthvatur en ekki sterkur.

Tíu vetrum síðar en Gestur fór úr Tungu bar það til tíðinda að allt sauðfé hvarf í brott það Þorbjörn bóndi átti í geymslu Gusts sauðamanns og leitaði þrjá daga í samt svo hann fann öngan sauð og kom svo heim að kveldi og sagðist mundu upp gefa leitina fjárins "því að eg hefi þessa daga leitað í allar áttir og þær leitir er mér þykir nokkur líkindi vera að fénaður megi verið hafa."

Bóndi gaf honum stór ávít og kvað féið nærri liggja mundu. Gustur kvað þó eigi lengur leita mundu.

Um morguninn reið Þorbjörn til Reykja í Miðfjörð að hitta Skeggja mág sinn. Skeggi tók allvel við honum og fréttir tíðinda.

Þorbjörn segist eigi segja tíðindi "utan horfið er mér sauðfé mitt allt í burt og hefir leitað verið þrjá daga í samt og finnst eigi. Er eg því hér kominn að eg vildi þiggja af þér heil ráð, hversu með skal fara, og að þú segir mér hvað þér þykir líklegast að af sé orðið því að engi líkindi eru á um hvarf fjár þessa."

"Sjá þykist eg," segir Skeggi, "hvað af fé þínu mun orðið. Það hafa tröll tekið einhver og hafa huldu yfir. Mun það ekki öðrum vinnast en sonum þínum að ná því aftur því að til þeirra mun leikur ger. Má vera að þeir þykist sín eiga í að hefna og hafi orðið halloka fyrir einhverjum þeirra náungi þó hann geti eigi á þeim hefnt og er það mitt ráð að þeir bræður leiti."

Reið Þorbjörn heim aftur við svo búið og talar við sonu sína að þeir leiti fjárins.

Þórður segir: "Skeggi frændi minn mun þetta til hafa lagt en þó þykir mér sem sá muni í tröllahendur sendur. En þó má vera að Skeggi frændi minn hafi nokkuð í séð að okkur aukist framkvæmd við og skulum við fara að vísu."

Og einn morgun snemma bjuggust þeir til ferðar bræður fram á heiðar og nær miðjum degi höfðu þeir ekki til fundið en voru þó komnir langt fram.

Þá mælti Þórður: "Nú skulum við skilja og skaltu ganga upp undir Snæfell og kanna allar Hvammsártungur og ganga svo hið efra aftur um fjöllin og svo til Svínaskarðs og Haukadalsskarðs og þaðan heim. En eg ætla að kanna Hrútafjarðardal allan fram í botn og ef eg kem eigi heim í kveld þá heilsa föður mínum og móður og vinum og frændum því að það er þá líkast að mér verði eigi afturkomu auðið."

Síðan skildu þeir bræður. Gekk Þorvaldur allan greindan veg og kom heim um kveldið og hafði ekki fundið af fénu.

En frá Þórði er það að segja síðan þeir bræður skildu að hann gengur fram á dalinn og ætlar hann að kanna hann á enda. Og er hann hefir gengið um hríð gerir á svarta þoku svo mikla að hann sá hvergi frá sér.

Og er minnst von er varð hann var við að maður var nær honum í þokunni. Þórður stefndi þangað og er hann nálgast sér hann að þetta var kona ein. Þórði sýndist hún fríð og vel á sig komin og ekki stærri en að meðallagi. En er hann hugðist mundu ná henni hvarf hún honum svo skjótt að hann gat eigi auga á fest hvað af henni varð í þokunni.

Eftir það reikar Þórður eftir dalnum og ekki lengi áður hann heyrir í dimmunni dyn mikinn og vonum bráðara sér hann mann ef svo skal kalla. Þessi maður var mikill vexti og mjög stórskorinn. Bjúgur var hans hryggur og boginn í knjám. Ásjónu hafði hann ljóta og leiðinlega svo hann þóttist önga slíka séð hafa, nef hans brotið í þrem stöðum og voru á því stórir hnútar. Sýndist það af því þríbogið sem horn á gömlum hrútum. Hann hafði stóra járnstöng í hendi.

Og er þeir mættust heilsaði þessi dólgur á Þórð með nafni. Þórður tók kveðju hans og spurði í mót hvert nafn hans væri. Hann kveðst Kolbjörn heita og ráða fyrir dal þessum. Þórður spyr hvort hann hefði ekki orðið var við fé föður síns.

Kolbjörn segir: "Ekki er því að leyna að eg veld fjárhvarfi föður þíns. Er nú svo til borið sem eg mundi kjósa að hann mundi að þér víkja um leitina eða hefir þú nokkuð fundið manna síðan þú fórst heiman annað en mig?"

Þórður kallaðist víst séð hafa eina konu en talað ekki við hana "því að hún hvarf mér svo skjótt."

"Það mun verið hafa," segir Kolbjörn, "Solrún dóttir mín. Er það nú boð mitt við þig að þú kjós hvort vilt heldur missa fjár föður þíns og fá aftur öngan sauð, því að mér líkar ekki allvel við frændur þína suma, eða hitt ellegar að við semjum til og gifti eg þér Solrúnu dóttur mína. Mun þá og laust féið fyrir þér."

Þórður segir: "Það mun frændum mínum þykja skjótkeypt minna vegna en svo að einu leist mér á konu þessa að því mundi ekki mjög misráðið þó hennar fengi röskur maður."

"Þessa ráðahags skyldi ekki öllum kostur," segir Kolbjörn, "en ekki vildi eg fyrirmuna dóttur minni góðs gjaforðs."

Fer það fram að Kolbjörn fastnar Þórði dóttur sína Solrúnu með þeim skilmála að á hálfsmánaðar fresti skal hann sækja brullaupið heim til Kolbjarnar. Sagði hann heimili sitt vera í helli þeim er í Brattagili er, bað hann hafa með sér svo marga menn sem hann vildi, fráteknum Miðfjarðar- Skeggja og Eið syni hans, Þórði gelli og Þorgilsi spaka og Þorbirni öxnamegin og síst Auðuni skökli úr Víðidal "ekki vil eg að þú bjóðir þursum né bergbúum og einna síst Bárði Snæfellsás og hans fylgjurum."

Þessu játar Þórður og skildu við svo búið. Víkur Kolbjörn þá í veg með Þórði. Sjá þeir þá hvar féið liggur í einum dyn allt í dalverpi einu. Rekur Þórður það þá heim með sér í Tungu. Allir menn fagna honum vel og frétta hann tíðinda en hann segir slík sem voru og orðið höfðu í hans ferð. Þorbirni bónda fannst mikið um þetta og sagði líklegt að hann mundi heillaður af tröllum.

Þórður kvað mega takast betur "og segir mér ekki illa hugur um þessa ráðabreytni."

"Hitt þykir mér ráð frændi," segir Þorbjörn, "að þú sækir ekki þetta brullaup og segir öngum manni frá og látir sem ekki hafi í orðið."

Þórður gaf sér þá fátt um. Leið nú fram til ánefndrar stefnu.


15.
Þórður talar við Þorvald bróður sinn: "Viltu frændi fara með mér að sækja brullaup mitt?"

"Feigð ætla eg að þér sækja er þú vilt fara í flagða hendur. En þó að eg vissi það fyrir að eg kæmi eigi aftur þá vildi eg það þó heldur að fylgja þér en að vera heima ef þú skyldir þar deyja. Skal eg að vísu fara ef þú ert ráðinn í að hitta Kolbjörn."

Bjuggust þeir til ferðar og gengu fram í Hrútafjarðardal þar til þeir fundu helli stóran. Gengu þeir inn og var þar bæði fúlt og kalt. En er þeir höfðu setið um stund kom maður stór inn í hellinn og rann með rakki furðulega mikill. Þeir spurðu hann að nafni. Hann kveðst gestur þar vera. Þeir sögðu það satt vera.

"Ertu Þórður,"segir hann, "kominn til að sækja brullaup þitt?" Hann kvað það satt vera.

"Viltu það," segir Gestur, "að eg sé boðsmaður þinn og sé ég í boði þínu og rakki minn?"

"Svo líst mér á þig," segir þórður, "að mér megi að þér fullting verða hvers sem við þarf og vil eg því játa."

"Standið upp þá," segir Gestur, "Þú munt vilja sjá brúðarefni þitt eða hversu sæmilega það er sett."

Gengu þeir innar eftir hellinum þar til er þeir komu í afhelli. Þar sá Þórður Solrúnu sitja á stóli og var hár hennar bundið við stólbrúðirnar. Hendur hennar voru bundnar en matur svo nærri að hún þefaði af en hafði ekki af meira an hún mátti sem minnst lifa við. Var hún svo mögur og máttdregin sem henni væri kastað skinni á bein. Þó sá Þórður að konan var fögur. Þórður leysti hana. Fullan ástarþokka lagði Þórður til hennar og kyssti hana kærlega.

Hún mælti: "Kostið þér og farið í brottu áður en Kolbjörn kemur heim."

Þeir spurðu hvar hann var en hún segir hann farinn að bjóða flögðum til brullaupsins "ætlar hann ekki annað en drepa ykkkur bræður báða en halda mér hér í slíkum kvölum sem eg hefi áður haft."

Þórður spurði hvort hún væri dóttir Kolbjarnar. Hún sagðist eigi hans dóttir vera, segir hann hafa numið sig í burt af Grænlandi undan Sólarfjöllum "frá Bárði föður mínum með fjölkynngi og ætlar mig sér til handa og frillu. En nú hefi eg ekki viljað samþykkjast honum og því hefir hann jafnan illa haldið mig en þó verst síðan hann játaði mig þér. Fyrirman hann hverjum manni að eiga mig hverjar glósur sem hann gerir þar á."

Þórður kveðst lífið skyldi á leggja að ná henni í burt. Síðan gengu þeir í burt frá henni en hún var eftir. Og er þeir höfðu verið í hellinum um stund heyrðu þeir dynki mikla og skvaldur mikið. Kom þá Kolbjörn og þrír tigir þursa með honum og mörg flögð önnur. Þórður og hans félagar gengu í mót Kolbirni og hans félögum og heilsuðu þeim. Kolbjörn var heldur ófrýnilegur og í illu skapi og leit ekki vinaraugum til Gests.

Síðan voru borð sett og sæti skipuð. Sátu þeir á annan bekk Gestur, Þórður og Þorvaldur. Hundurinn Snati lá fyrir fótum þeirra. Annars vegar á miðjan bekk sat Gljúfra-Geir. Hann var mestur vin Kolbjarnar og honum líkastur um það illt var. Þar innar frá sat Amur og Gapi, þá Glámur og síðan hver að öðrum svo að skipaður var hellirinn þeim megin sem þeir voru. Ekki kom brúðurin í sæti.

Kolbjörn gekk um beina. Var nú matur borinn fyrir þá Gljúfra-Geir og hans bekkjunauta. Var það bæði hrossakjöt og manna. Tóku þá til matar og rifu sem ernir og etjutíkur hold af beinum. Matur var borinn fyrir þá Þórð og hans félaga, sá hverjum manni var vel ætur. Drykkur var þar áfengur og lítt sparður.

Kolbjörn átti móður er Skrukka hét. Hún var hið mesta tröll og þá þó afgömul. Vildi Kolbjörn ekki að hún væri í þys þeirra og ónáðum. Var hún í afhelli einum. Var það þó fátt að henni kæmi á óvart sakir fjókynngi sinnar.

Nú tóku menn Kolbjarnar að drekka með lítilli stillingu og urðu þeir skjótt allir svíngalnir og voru ekki lágtalaðir en hellirinn hljóðaði mjög undir.

Kolbjörn gekk að Þórði og mælti: "Hvað viltu til gamans eða skemmtanar láta hafa mágsefni því að þú skalt hér mestu ráða um híbýlaháttu?"

Gestur segir því hann varð skjótari til andsvara: "Hafi það þínir menn helst til gamans sem þeim er skapfelldast. Hafið þá hvort þér viljið hnútukast eða glímur."

Síðan tók Glámur eina stóra hnútu og sendir af hendi heldur sterklega og stefdi á Þórð miðjan.

Þetta sér Gestur og mælti: "Láttu mig sjá við þessum leik því að eg mun honum vanari en þið."

Og svo gerði hann og tók á lofti hnútana og sendi síðan aftur. Leitaði hún sér staðar svo hún kom í augað Glámi svo snart að það gekk út á kinnarbeinið. Varð Glámur illa við þetta og grenjaði upp sem varghundur.

Þenna áverka sér Ámur fóstbróðir hans og tekur þegar hnútuna og lætur fjúka að Þorvaldi. Þetta sér Þórður og tekur í móti og sendir aftur. Hnútan kemur á kinnbein Áms svo kjálkinn brotnaði í stykki. Varð nú óhljóð mikið í hellinum.

Skrámur úr Þambardal greip þá upp furðulega stóran langlegg og snaraði af hendi heldur sterklega og stefndi á Gest því að hann sat honum jafngegnt. Gestur tók í mót og lét eigi langt að bíða áður hann sendir aftur með öngri vægð. Kemur leggurinn á lærið og höndina á Skrám með svo miklu afli að hvorttveggja brotnaði. Þursarnir gera nú miklu meira óhljóð en frá megi segja því svo má að kveða að þeirra hljóð væru líkari nágöll en nokkurs kykvendis látum.

Kolbjörn mælti þá: "Gefið upp þennan leik því af Gesti munum vér allir illt hljóta. Varð það og þvert í móti mínum vilja að hann var hingað boðinn."

"Svo búið muntu það hafa," segir Gestur.

Síðan tóku þeir að drekka í annan tíma allt þar til er allir duttu niður með svefni hver í sínu rúmi nema Gljúfra-Geir og Gapi.

Kolbjörn segir að þar skal hver liggja sem kominn er "utan þið Geir skuluð fara í svefnhelli minn," og svo gerðu þeir.

Gestur segir að þeir félagar skulu fá sér sæng í öðrum stað. Lögðust þeir niður.

Og er þeir voru sofnaðir stendur Gestur upp og tekur sverð sitt og gengur aftur í hellinn og höggur höfuð af hverjum sem einum bergbúa þeim sem inni var. Og er hann hafði lokið þessu starfi gengur hann fram og leitar ef hann yrði var við hvar þeir Kolbjörn lægju. Finnur hann þá hurð eina í hellisberginu. Hún var svo sterklega læst að Gestur þóttist vita að þeir mundu vakna við ef hann ætti þar nokkuð við.

Síðan gengur hann í hellinn til Solrúnar. Hann biður hana upp standa og fara með sér. Hún gerir svo og kveðst þó hyggja að það mundi bæði hennar bani og allra þeirra. Þau koma þar sem þeir bræður voru. Gestur biður þá upp standa sem hvatlegast og verða í burtu úr helli þessum áður en Kolbjörn vaknar "ef svo má verða. Er Solrún hér komin."

Síðan standa þeir bræður upp og fara ofan eftir dalnum veg sinn.


16.
Nú er þar til að taka að Skrukka móðir Kolbjarnar vaknar nokkuru síðar en þau eru í burtu, verður nú þegar vís af sínum trölldómi hvað þeir félagar höfðu til ráðs tekið, sprettur þá upp sem ísheil væri. Hún hleypur þegar á hurðina þar sem Kolbjörn svaf inni svo hart að þegar stökk hurðin í marga hluti. Kolbjörn vaknar og spyr hver þar fer með svo miklum hávaða.

Skrukka segir til sín og mælti: "Hitt er ráð Kolbjörn frændi að liggja eigi lengur því að burt er Þórður farinn með Solrúnu og hans félagar. Hefir Gestur þessu öllu ráðið. Hefir hann drepið alla þína boðsmenn nema þá er hér eru. Er nú ekki annað til en fara eftir þeim og drepa þau öll."

Kolbjörn segir: "Oft sýnist það að þú ert ekki mörgum lík sakir þinnar visku. Mundi eg oft flatt af fara ef eg eigi þín við. Skaltu nú, móðir, fara fyrst sakir þess að þú ert albúin og vit að þú komist fyrir þau. Far þú hið efra um hálsa og kom þeim á óvart en vér skulum fara hið neðra um dalinn og munum við þá geta fundið þau."

Síðan fór Skrukka en Kolbjörn og þeir félagar bjuggust sem hvatlegast. Fara þau síðan þar til þau sjá að þeim er eftirför veitt. Kolbjörn kallar þegar hann sér þau, bað eigi lengra renna.

Solrúnu varð illt við þetta og mælti: "Þóttist eg vita að þetta mundi eftir koma því að það er nú ráðið að þér eruð drepnir allir. Er Kolbjörn svo mikið tröll að ekki stendur við honum."

Gestur mælti: "Því mun nú hamingjan ráða. Munum vér nú skipta liði. Þórður skal í móti Kolbirni mági sínum. Er það maklegt að hann hafi mesta raun því að hann hefir oss öllum í þessa þraut komið. Þorvaldur skal í mót Gapa en eg mun þreyta við Gljúfra-Geir. Flestra mun nú neita verða. Snati, þú skalt móti kerlingu en Solrún skal sjá á leik vorn."

Og þegar Kolbjörn kom þá ráðast þeir allir á og glíma allsterklega. Snati fór upp á hamarinn þar sem Skrukka var undir niðri og velti ofan stóru grjóti að henni. Hún grettist ekki vel við þetta og færði upp á móti steinana. Svo lauk með þeim að Snati velti einu stóru bjargi og kom það á hrygg kerlingar, þá er hún ætlaði að taka upp einn stein, svo hann gekk í sundur og dó af því.

Gestur og Gljúfra-Geir gengust fast að og lauk svo að Gestur leiddi hann á mjöðm og brá honum á loft með svo miklu afli að höfuðið kom fyrst niður á honum svo hart að hausinn brotnaði í smán mola og var dauður innan lítils tíma.

Þá kemur Gestur þar að sem Þorvaldur var búinn til falls og hjó Gestur undan Gapa báða fæturna fyrir ofan hné. Féll Gapi þá á bak aftur.

Þeir Þórður og Kolbjörn áttu mikinn atgang og harðan og lauk með því að Þórður féll. Í því kom Gestur að og þreif í hjassann á Kolbirni en setti hnéin í bakið svo hart að þegar gekk úr hálsliðinum. Hratt Gestur honum þá ofan af Þórði. Stóð Þórður þá upp og var mjög stirður af handagangi Kolbjarnar. Deytt hafði Þorvaldur þá Gapa.

Gestur mælti: "Nú er svo komið Solrún að vér höfum sigur fengið en þú ert frelst úr tröllahöndum."

"Þér eigum það að kenna," segir Þórður, "og vil eg að þú kjósir þér laun fyrir sjálfur."

"Eigi vil eg fé ykkar bræðra hafa en ef ykkur þykir nokkurra launa vert vera þá takið þið mér far til Noregs því að mér er forvitni á að sjá þann konung er þar ræður fyrir er svo mikið er af sagt."

Þeir sögðust það skyldu gera.

"En nú vil eg ekki dyljast fyrir ykkur," segir Gestur, "að eg bróðir ykkar sammæddur. Mundum vér hér nú skilja fyrst að sinni. Skal eg koma að vori til skips."

Fór Gestur þá sinn veg en þeir bræður sinn veg með Solrúni heim í Tungu og sögðu allt frá sínum ferðum sem farið hafði og þótti flestum sem heyrðu Þórður mikla lukku á hafa haft.


17.
K olbeinn hét stýrimaður er skip átti uppi á Borðeyri í Hrútafirði. Þar réðu þeir bræður til og tóku þar Gesti far að sumri. Létu þeir í haf þegar byr gaf. Þar fór utan Gestur og hundur hans Snati, Þórður og Solrún og Þorvaldur. Þeim gaf vel byri og komu við Þrándheim.

Þá réð Ólafur konungur fyrir Noregi Tryggvason. Þeir bræður komu á hans fund og Solrún með þeim. Þeir kvöddu konung og báðu hann veturvistar en konungur spurði hvort þeir vildu skírast láta. Þeir létu seint við því. Það fór þó fram að þeir voru skírðir og svo Solrún. Voru þau með konungi um veturinn í góðu yfirlæti. Gestur sat eftir við skip og hafði hrauktjald. Hundur hans var hjá honum en ekki manna.

Það var einn dag að konungur var kátur og mælti til Þórðar: "Hvar fékkst þú konu þessa hina vænu?"

"Út á Íslandi," segir Þórður.

"Hversu gamall maður ertu?"

Þórður segir: "Nítján vetra er eg."

Konungur segir: "Þú ert rösklegur maður eða hvar þykist þú í mestri mannraun verið hafa?"

"Út á Íslandi," segir Þórður, "þá er eg fékk konu þessar."

"Hver barg þér?"

"Sá heitir Gestur," segir Þórður.

"Fór hann hingað?" sagði konungur.

Þórður sagði það satt vera "en vil eg segja yður hvað eg vil af yður þiggja. Eg vil gerast hirðmaður yðvar."

"Kom þú þá Gesti á minn fund ef þú vilt gerast minn maður."

Síðan fór Þórður á fund Gests. Var hann tregur til þess og mælti: "Ekki er eg fús til að finna konung því að mér er sagt að hann sé svo ráðgjarn að hann vill öllu ráða, jafnvel því á hvern menn trúa."

Verður svo um síðir að Gestur fer með Þórði og kemur á konungs fund. Gestur heilsar á konung en konungur tekur honum vel.

Gestur spurði: "hvað erindum herra hafið þér við mig?"

Konungur mælti: "Slík sem við aðra menn að þú trúir á sannan guð."

Gestur segir: "Alls ekki er mér um að láta þá trú sem hinir fyrri frændur mínir hafa haft. Er það hugboð mitt ef eg læt þann sið að eg muni ekki lengi lifa."

Konungur mælti: "Líf manna er í guðs valdi en það skal öngum manni hlýða í mínu ríki álengdar að fága heiðinn sið."

Gestur segir: "Líklegt þykir mér herra að yðar siður muni betri vera en fyrir heit eða kúgan læt eg ekki mína trú."

"Svo skal vera," segir konungur, "því að þann veg líst mér á þig að þú munir af sjálfs þíns hendi vilja heldur þann átrúnað niður leggja en nokkurs manns harðindum og muntu ekki öldungis giftulaus vera og vertu með oss í vetur velkominn."

Gestur þakkaði konungi sín ummæli og segist það munu þiggja. Var Gestur með konungi um hríð og ekki lengi áður hann var prímsigndur.

Líður nú svo fram til jóla.


18.
Og aðfangakveld fyrir jól sat konungur í hásæti sínu og öll hirðin, hver í sínu rúmi. Voru menn glaðir og kátir því að konungur var hinn glaðasti.

Og er menn höfðu drukkið um stund gekk maður inn í höllina. Hann var mikill og illilegur, skrámleitur og skoteygur, svartskeggjaður og síðnefjaður. Þessi maður hafði hjálm á höfði og var í hringabrynju og gyrður sverði. Gullegt men hafði hann á hálsi og digran gullhring á hendi. Hann gengur innar eftir höllinni og að hásæti konungs. Öngvan mann kveður hann. Mönnum fannst mikið um sýn þessa. Engi maður beiddi hann orða.

Og er hann hafði staðið um stund fyrir konungi mælti hann: "Hér hefi eg svo komið að eð mér hefir síst nokkur greiði boðinn verið af jafnmiklu stórmenni. Skal eg vera því örvari að eg skal bjóða til eignar gripi þessa sem eg hefi hér nú þeim manni sem þá þorir að sækja til mín en sá mun engi hér inni vera."

Síðan gekk hann í burt og varð illur þefur í höllinni. Varð öllum að þessu mikill ótti. Konungur bað menn sitja kyrra þar til sem þefur sjá þyrri og gerðu menn svo sem konungur bauð. En er skoðað var lágu margir menn sem hálfdauðir og í óviti þar til er konungur kom sjálfur til og les yfir þeim. Dauðir voru allir varðhundar nema Vígi einn og Snati hundur Gests.

Konungur mælti: "Hvað ætlar þú Gestur hver maður sjá mun vera er hér kom inn?"

Gestur segir: "Ekki hefi eg séð hann fyrr en sagt hefir mér verið af frændum mínum að konungur hefir heitið Raknar og af þeirri sögn þykist eg kenna hann. Hefir hann ráðið fyrir Hellulandi og mörgum öðrum löndum. Og er hann hafði lengi löndum ráðið lét hann kviksetja sig með fimm hundruð manna á Raknarsslóða. Hann myrti föður sinn og móður og mart annað fólk. Þykir mér von að haugur hans muni vera norðanlega í Hellulandsóbyggðum að annara manna frásögn."

Konungur mælti: "Líklegt þykir mér að þú munir satt segja. Er það nú bæn mín Gestur," segir konungur, "að þú sækir gripi þessa."

"Forsending má það heita herra," segir Gestur, "en eigi mun eg undan skorast ef þér búið ferð mína eftir því sem þér vitið mér á liggja."

Konungur segir: "Eg skal þar allan hug á leggja að þín ferð takist vel."

Síðan bjóst Gestur. Konungur fékk honum fjörutíu járnskó og voru dyndir innan. Hann fékk honum seiðmenn tvo eftir bæn Gests. Hét hann Krókur en hún Krekja. Síðan fékk hann honum til fylgdar prest þann er Jósteinn hét. Hann var ágætur maður og mikils virður af konungi. Ekki kvaðst Gesti um hann vera.

Konungur mælti: "Þá mun hann þér besta raun gefa er þér liggur mest á."

"Því skal hann eigi fara þá?" segir Gestur. "Mörgu getið þér nærri en eigi þykir mér á manni mega sjá ef hann dugir vel í mikilli raun."

Sax gaf konungur Gesti og sagði það bíta mundu ef til þyrfti að taka. Dúk gaf hann honum og bað hann vefja honum um sig áður en hann gengi í hauginn.

Konungur gaf Gesti kerti og sagði sjálft kveikjast mundu ef því væri á loft haldið "því að svart mun í haugi Raknars. En vertu eigi lengur en lokið er kertinu og mun þá hlýða."

Þriggja missera björg fékk konungur Gesti. Síðan sigldi hann norður með landi og allt fyrir Hálogaland og Finnmörk til Hafsbotna.

Og er þeir komu norður fyrir Dumbshaf kom maður af landi ofan og réðst í ferð með þeim. Hann nefndist Rauðgrani. Hann var eineygur. Hann hafði bláflekkótta skautheklu og hneppta niður í milli fóta sér. Ekki var Jósteini presti mikið um hann. Rauðgrani taldi heiðni og forneskju fyrir mönnum Gests og taldi það best að blóta til heilla sér. Og einn dag er Rauðgrani taldi fyrir þeim slíka vantrú reiddist prestur og þreif róðukross og setti í höfuð Rauðgrana. Hann steyptist fyrir borð og kom aldrei upp síðan. Þóttust þeir þá vita að það hafið Óðinn verið. Fátt gaf Gestur sér að presti.

Litlu síðar komu þeir við Grænlands óbyggðir. Var þá komið að vetri. Þeir voru þar um veturinn.

Hjá björgum nokkurum sjá þeir stengur tvær af gulli og fastan við ketil fullan með gull. Gestur sendi Krók og Krekju að sækja stengurnar og ketilinn. En er þau komu að fram og ætluðu að taka þá rifnaði jörðin undir fótum þeim og svalg hún þau svo að jörðin luktist fyrir ofan höfuð þeim en horfið allt saman, ketillinn og stengurnar, er til var litið.

Gestur vakti hverja nótt í skáladyrum um veturinn. Það var eina nótt að griðungur ógurlegur kom að skálanum og öskraði mjög og lét illilega. Gestur réðst í móti bola og hjó til hans með öxi. Boli hristi sig við en ekki beit á en öxin brotnaði. Þá tók Gestur báðum höndum í hornin á bola og glímdu þeir heldur sterklega. Fann Gestur að honum varð aflafátt við þenna ófagnað. Ætlaði hann að færa hann þá að skálaveggnum og stanga hann þar upp við. Í því kom Jósteinn prestur að og slær með róðukrossi á hrygg bola. Við það högg steyptist boli í jörð niður svo aldrei varð síðan mein að honum. Ekki bar þar fleira til tíðinda.


19.
Að vori fóru þeir þaðan og bar hver sínar vistir. Þeir gengu fyrst eftir landinu milli vesturs og útsuðurs. Síðan snéru þeir um þvert landið. Voru fyrst jöklar og þá tóku til brunahraun stór. Tóku þeir þá járnskó þá er konungur hafði fengið þeim. Þeir voru fjórir tigir en menn voru tveir tigir og Gestur umfram. En er allir höfðu tekið skóna nema Jósteinn prestur gengu þeir á hraunið. Og er þeir höfðu gengið um stund varð prestur ófær. Gekk hann þá blóðgum fótum hraunið.

Gestur mælti þá: "Hver yðar sveina vill hjálpa skráfinni þessum svo hann komist af fjallinu?"

Engi tók undir það því að allir þóttust nóg bera.

"Það mun ráð að hjálpa honum," segir Gestur, "því að konungur mælti þar mikið um en oss mun það best gegna að bregða ekki af hans ráðum. Og far nú hingað prestur og sest upp á bagga minn og haf með þér föng þín."

Svo gerir prestur. Gestur gekk þá fyrir og gekk þá harðast. Svo gengu þeir upp þrjá daga. En er hraunið þraut komu þeir að sjó fram. Þar var hólmur stór fyrir landi. Út til hólmsins lá eitt rif, mjótt og langt. Þar var þurrt um fjöru og svo var þá þeir komu að. Gengu þeir þá út í hólminn og þar sáu þeir standa haug einn stóran.

Segja sumir menn að sjá haugur hafi staðið norðarlega fyrir Hellulandi en hvar sem það hefir verið þá hafa þar engar byggðir í nánd verið.


20.
Gestur lét fara til að brjóta hauginn um daginn. Að kveldi höfðu þeir brotið glugg á hauginn með atgangi prests en um morguninn var hann gróinn sem áður. Brutu þeir dag annan en að morgni var sem fyrr.

Þá vildi prestur vaka í haugbrotinu. Sat hann þar alla nóttina og hafði hjá sér vígt vatn og róðukross.

Og er á leið að miðri nótt sá hann Raknar og var hann fagurbúinn. Hann bað prest fara með sér og kveðst góða skyldu hans ferð gera "og er hér hringur er eg vil gefa þér og men."

Öngu svarar prestur og sat kyrr sem áður. Mörg fádæmi sýndust honum bæði tröll og óvættir, fjándur og fjölkunnigar þjóðir. Sumir blíðkuðu hann en sumir ógnuðu honum að hann skyldi þá heldur burtu ganga en áður. Þar þóttist hann sjá frændur sína og vini, jafnvel Ólaf konung með hirð sinni og bað hann með sér fara. Sá hann og að Gestur og hans félagar bjuggust og ætluðu í burt og kölluðu að Jósteinn prestur skyldi fylgja þeim og flýta sér í burt. Ekki gaf prestur um þetta og hvað undrum sem hann sá eða hversu ólmlega þessir fjándur létu þá komu þeir þó aldrei nær presti sakir vatns þess er hann stökkti.

Í móti degi hurfu þessi undur öll af. Kom Gestur þá og hans menn til haugsins. Ekki sáu þeir presti brugðið um nokkuð.

Þá létu þeir Gest síga í hauginn en prestur og aðrir menn héldu festi. Fimmtigi faðma var niður á haugsgólfið. Vafið hafði Gestur sig með dúkinum konungsnaut en gyrt sig með saxinu. Kertið hafði hann í hendi og kveiktist það þegar hann kom niður. Gestur sá nú víða um hauginn. Hann sér skipið Slóðann og í fimm hundruð manna. Það skip hafði svo stórt verið að það var eigi fært við færri menn. Þau voru kölluð jafnstór og Gnoðinn er Ásmundur stýrði. Gestur gekk þá upp í skipið. Sá hann að þeir voru allir búnir til uppstöðu áður en kertisljósið kom yfir þá og þá gátu þeir hvergi hrært sig og blöskruðu augunum og blésu nösunum. Gestur hjó af þeim öllum höfuð með saxinu og beit það sem í vatn brygði. Rændi hann drekann öllu skrúði og lét upp draga.

Síðan leitaði hann Raknars. Fann hann þá niðurgang í jörð. Þar sá hann Raknar sitja á stóli. Furðu var hann illilegur að sjá. Bæði var þar fúlt og kalt. Kistill stóð undir fótum hans fullur af fé. Men hafði hann á hálsi sér harðla glæsilegt og digran gullhring á hendi. Í brynju var hann og hafði hjálm á höfði og sverð í hendi. Gestur gekk að Raknari en kvaddi hann virðulegri konungskveðju en Raknar hneigði honum á móti.

Gestur mælti: "Bæði er að þú ert frægur enda þykir mér þú alltíturlegur vera að sjá. Hefi eg langan veg sótt þig heim. Muntu mig og góð erindislaun láta hafa og gef mér gripuna þá hina góðu er þú átt. Skal eg þá víða þína risnu bera."

Raknar veik þá að honum höfðinu með hjálminum. Tók Gestur hann og því næst færði Gestur hann úr brynjunni og var Raknar hinn auðveldasti. Alla gripuna hafði hann af Raknari nema sverðið því að þá er Gestur tók til þess spratt Raknar upp og rann á Gest. Hvortgi fann þá á honum að hann væri gamall né stirður. Þá var og albrunnið kertið konungsnautur. Trylltist Raknar svo að Gestur varð allur forviða fyrir. Þóttist Gestur þá sjá vísan dauða sinn. Upp stóðu og allir þeir sem í skipinu voru. Nógt þótti Gesti þá um vera. Kallaði hann þá á Bárð föður sinn og litlu síðar kom hann og orkaði Bárður öngu. Færðu þeir hinir dauðu hann í reikuð svo hann náði hvergi í nánd að koma. Þá hét Gestur á þann er skapað hafði himinn og jörð að taka við trú þeirri er Ólafur konungur boðaði ef hann kæmist í burtu lífs úr hauginum. Fast herti Gestur þá á Ólaf konung ef hann mætti meira en sjálfum sér þá skyldi hann duga honum. Eftir það sá Gestur Ólaf konung koma í hauginn með ljósi miklu. Við þá sýn brá Raknari svo að úr honum dró afl allt. Þá gekk Gestur svo fast að að Raknar féll á bak aftur með tilstilli Ólafs konungs. Þá hjó Gestur höfuð af Raknari og lagði það við þjó honum. Allir hinir dauðu settust niður við komu Ólafs konungs hver í sitt rúm. Að þessu starfi enduðu hvarf Ólafur konungur að sýn frá Gesti.


21.
Það er nú að segja frá þeim er á hauginum voru að þann tíma sem þessi undur voru sem nú var frá sagt brá þeim svo við að þeir ærðust allir nema prestur og hundur Gests. Hann fór aldrei frá festinni. En er Gestur knýtti sig í festina þá dró prestur hann upp með styrk hundsins með allan fjárhlut og fagnaði Gesti og þóttist hann úr helju heimt hafa, fara til þar er menn þeirra voru og héldust á og stökkti prestur á þá vatni. Tóku þeir þegar vit sitt.

Bjuggust þeir í burt. Nálega þótti þeim jörðin skjálfa undir fótum þeim. Gekk og sjórinn yfir allt rifið með svo stóru boðafalli að mjög svo gekk sjór yfir allan hólminn.

Aldrei hafði Snati gengið frá hauginum meðan Gestur var inni. Nú þóttust þeir eigi vita hvar þeir skyldu rifsins leita. Vísaði hann Snata út á boðana en rakkinn hljóp þegar út á boðana á kaf þar sem rifsins var von og stóðst eigi kynngi Raknars og drukknaði hundurinn þar í bárunni. Það þótti gesti hinn mesti skaði.

Jósteinn prestur gekk þá fram fyrir þá og hafði róðukross í hendi en vatn í annarri og stökkti því. Þá klufðist sjórinn svo að þeir gengu þurrum fótum á landi.

Fóru þeir allan hinn sama veg. Gestur færði konungi alla gripuna og sagði allt sem farið hafði. Konungur bað hann þá skírast láta. Gestur sagðist því heitið hafa í Raknarshaugi. Var þá og svo gert.

Hina næstu nótt eftir er Gestur var skírður dreymdi hann að Bárður faðir sinn kæmi til hans og mælti: "Illa hefir þú gert er þú hefir látið trú þína, þá er langfeðgar þínir hafa haft, og látið kúga þig til siðaskiptis sakir lítilmennsku og fyrir það skaltu missa bæði augu þín."

Tók Bárður þá að augum hans heldur óþyrmilega og hvarf síðan. Eftir þetta er Gestur vaknaði hefir hann tekið augnaverk svo strangan að hinn sama dag sprungu þau út bæði. Síðan andaðist Gestur í hvítavoðum. Þótti konungi það hinn mesti skaði.


22.
Um sumarið eftir bjuggust þeir bræður, Þórður og Þorvaldur, til Íslands og komu skipi sínu á Borðeyri í Hrútafirði, fóru síðan heim til föður síns og þóttu hinir mestu menn.

Þórður bjó í Tungu eftir föður sinn en Þorvaldur fékk Herdísar, dóttur Óspaks af Óspaksstöðum, og bjó að Hellu í Helludal.

Þeir voru systkinasynir, Þorbjörn faðir þeirra og Hjalti Þórðarson er nam Hjaltadal. Synir Hjalta voru þeir Þórður og Þorvaldur sem fjölmennast erfi hafa haldið á Íslandi eftir föður sinn. Þar voru tólf hundruð boðsmanna. Þar færði Oddur Breiðfirðingur drápu sem hann hafði ort um Hjalta. Áður hafði Glúmur Geirason stefnt Oddi um ányt til Þorskafjarðarþings. Þá fóru þeir bræður norðan á skipi til Steingrímsfjarðar. Þar komu þeir bræður Þorbjarnarsynir úr Hrútafirði til móts við þá og gengu allir samt norðan yfir heiðina þar sem heitir Hjaltdælalaut.

En er þeir komu á þingið voru þeir svo vel búnir að menn hugðu þar væru komnir æsir. Þá var þetta kveðið:

Manngi hugðu manna

morðkannaðra annað,

ísarns meiðr, en æsir

almærir þar færu

þá er á Þorskafjarðar

þing með ennitinglum

holtvartaris Hjalta

harðfengs synir gengu.

Vörðu þeir mál fyrir Odd með styrk þeira bræðra úr Hrútafirði. Síðan fóru hvorirtveggju með hinum mestu kærleikum heim aftur til heimkynnis síns og skildu þeir frændur með mestu kærleikum. Er mikil ætt komin af þeim Þorbjarnarsonum og svo Hjaltasonum.

Ekki er getið að Gestur Bárðarson hafi nokkur börn átt. Og lýkur hér sögu Bárðar Snæfellsáss og Gests sonar hans.